Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1963, Qupperneq 55
MATTHÍAS ÞÓRÐARSON
EIRÍKSSTAÐIR I HAUKADAL
RANNSÓKNARSKÝRSLA 13,—15. IX. 1938.
[Rannsóknarskýrsla þessi er úr dagbók í eftirlátnum plöggum Matthíasar sál.
Þórðarsonar þjóðminjavarðar. Aðdragandi rannsóknarinnar mun hafa verið sá, er
nú skal greina:
Á aðalfundi Hins íslenzka fornleifafélags fyrir árið 1937 lagði formaður fram
bréf frá American Historical Association í Fíladelfíu til Finns kaupmanns Ólafs-
sonar, en Finnur hafði snúið sér til félagsins og spurzt fyrir um það, hvort eigi
mundi vera áhugi fyrir því í Bandarikjunum, að fæðingarstað Leifs Eiríkssonar,
Eiríksstöðum í Haukadal, yrði sýndur einhver sómi. Félagið hafði í bréfi sínu til
Finns tekið þessari málaleitun vel, en bent á það, að æskilegt væri, að Forn-
leifafélagið eða Háskólinn ætti forgöngu i málinu. Matthías Þórðarson, sem þá
var formaður Fornleifafélagsins, setti sig siðan í samband við hið ameríska sögu-
félag, en í svarbréfi til hans skýrir félagið svo frá, að það hafi því miður ekki
fé til að styrkja þetta mál. Er þætti þess þar með lokið, en þó sýnir þetta, að á
þessum árum hefur verið umtal um að gera þyrfti rannsókn á Eiríksstöðum.
Á sama aðalfundi 1937 skýrði Matthías Þórðarson einnig frá því, að nefnd sú,
er hefði með höndum undirbúning undir þátttöku Islendinga í sýningunni í New
York 1939, hefði farið þess á leit við sig, að hann útvegaði myndir af staðnum
til að sýna á sýningu þessari, og ef til vill græfi upp rústir Eiriksstaða. Var þessu
máli vísað til stjórnar félagsins til frekari framkvæmda.
Hinn 5. febr. 1938 var Matthías Þórðarson skipaður í sýningarnefnd íslenzku
deildarinnar á heimssýningunni í New York, og hefur nefndin eflaust hlutazt
til um, að hann gerði rannsókn þá á Eiríksstöðum, sem hér um ræðir og fram-
kvæmd vars síðla sumars þetta sama ár. Lét Matthías síðan gera líkan af bæjar-
tóftinni handa sýningunni.
Rétt þykir að birta þessa rannsóknarskýrslu í Árbók. Með rannsókninni tókst
Matthíasi Þórðarsyni að sýna, svo að ekki verður vefengt, að á aftari tóftinni,
sem menn höfðu talið að væri á Eiríksstöðum, er ekkert mark takandi, enda hafði
hún reyndar ætíð tortryggileg verið, sbr. t. d. ummæli Roussells í Forntida gárdar
i Island, bls. 203. Er gott, að leiðrétting þessi komi fram, ef menn vilja telja hús
þetta skála Eiríks rauða, en slíkt verður vitanlega hvorki sannað né afsannað.
Ritstj.]
í Árbók Fornleifafélagsins 1895, bls. 20, skýrði Brynjúlfur Jónsson
frá rúst hér; sagði vera hér 2 tóftir jafnlangar, 8 faðma, samliggj-
andi á langveginn og vegg í milli, breidd beggja saman 7 faðma,