Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1963, Side 90
94
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ingi Garðskirkju 1894 er svofelld færsla meðal útgjalda: „Keypt
altaristafla eftir íslenzkan mann, Sveinunga Sveinungason, kr. 40.00“.
Taflan á Þóroddsstað er gerð eftir sömu fyrirmynd, og eftir henni
málaði Arngrímur Gíslason töflu þá, sem er í Einarsstaðakirkju
í Reykjadal. Matthías segir, að sams konar tafla og Garðstaflan sé
í kirkjunni í Saurbæ á Kjalarnesi og muni þær vera eftirmyndir,
málaðar erlendis. Um Þóroddsstaðartöfluna segir Matthías, að hún
sé „ekki illa máluð“.
Taflan á Snartarstöðum (áður í Presthólum) er allstór mynd, segir
Matthías, og sýnir upprisuna, mjög svipuð að öllu leyti töflunum í
Stærri-Árskógi og á Þverá í Laxárdal. En þær töflur báðar málaði
Arngrímur Gíslason eftir altaristöflu þeirri, er hann bjargaði úr
kirkjubrunanum á Möðruvöllum í Hörgárdal 5. marz 1864. Sú tafla
mun hafa verið eftirmynd málverks eftir Charles Christian Vanloo.
Sveinungi hefur sennilega fengið töfluna hjá Arngrími til þess að
mála Presthólatöfluna eftir.
Taflan á Raufarhöfn (áður á Ásmundarstöðum) er allstór og
sýnir þetta efni: KomiS til mín, allir þér, o. s. frv. „Sumt má heita
allgott í töflu þessari, þótt hún vegna stórgalla ýmsra eigi geti kall-
azt listaverk", segir Matthías Þórðarson í Kirknabók.
f Listasafni íslands eru eftirtaldar myndir:
Nr. 451. Olíumálverk, 41x38,5 sm, mynd af Kristi með kaleik hins
nýja sáttmála, eftir altaristöflunni í Garði, sbr. hér að
framan.
Nr. 452. Blýantsteikning, 42x33,5 sm, andlitsmynd og af skeggjuð-
um manni, sýnilega Kristsmynd, líklega frumdrög að alt-
aristöflu.
Nr. 453. Teikning, 41,5x33,5 sm, María með barnið.
Nr. 454. Teikning, 41,5x33,5 sm, mynd af svartskeggjuðum manni
með skál í hendi, en undir er skrifað: Balthasar Konungur
í Babylon, er hann sá letrið á veggnum.
Nr. 455. Teikning, 30x22,5 sm, mynd af Lewis Wallace.
Nr. 456. Teilcning, 36,5x23 sm, mynd af Holger Drachmann.
Nr. 457. Teikning, 24x17,5 sm, arabiskur hestur.
Nr. 458. Teikning, 21,5x194 sm, útskurður á gömlum dyrastaf á
bænahúsi í Ási í Kelduhverfi. Á útskurðinum er m. a.
THORARIN EINARSSON.