Dagblaðið Vísir - DV - 27.01.1990, Blaðsíða 15

Dagblaðið Vísir - DV - 27.01.1990, Blaðsíða 15
LAUGARDAGUR 27. JANÚAR 1990. 15 Davíð gegn Golíat Daglega berast fréttir af gjaldþrot- um. Gjaldþrotum í útgerð, gjald- þrotum í verslun, gjaldþrotum í fiskeldi, iðnaði og loðdýrabúskap. Gott ef ríkissjóður sjálfur er ekki gjaldþrota. Maður fær það á tilfinn- inguna að annar hver maður sé á hausnum og hinir verði fyrir barð- inu á því. Fólk flýr land og fólk flýr landsbyggðina og átthagafélögin fyllast af brottfluttum ættarstólp- um og ætthðum sem hafa hrakist frá heimaslóðum vegna uppdráttar og atvinnuleysis. Ég sá í einu blað- anna um daginn að átthagafélögin væru meira að segja orðin athvarf frá firringunni og samastaður þeirra sem leita sér kærleika og samhjálpar. Það er fokið í önnur skjól. Maður spyr sjálfan sig hvort þjóðin eigi sér framtíð annars stað- ar en í átthagafélagi einhvers stað- ar í útlöndum. Er nokkur lifandi maður eftir sem getur rekið arð- bæra starfsemi? Atvinnurekstur virðist vonlaus (nema þá hjá þeim sem eiga peninga afgangs til að leggja í Stöð tvö) og launþegar mega þakka fyrir ef þeir halda vinnunni og laununum, enda geng- ur kjarabaráttan út á það að hækka launin um tvisvar sinnum eitt pró- sent á árinu. Hvenær kemur vor í dal? En lífsbaráttan heldur áfram og alltaf eru einhverjir nógu vitlausir til að leggja á brattann. Sjálfsbjarg- arviðleitnin er ekki dauð úr öllum æðum og kannske er það einmitt á tímum sem þessum sem reynir á þolrifin, reynir á dug þjóðarinnar. Sumir hafa að minnsta kosti níu líf og rísa jafnan upp aftur þegar gjaldþrotin hafa dunið yfir, Það er seigla í íslandsmanninum og kom ekki loðnan aftur eftir að fiskifræð- ingar voru búnir að lýsa hana týnda og tröllum gefna? Forsætis- ráðherra segir að forspár maður hafi sagt sér að bjart sé yfir árinu og meðan við höfum efni á að end- urbyggja Þjóðleikhúsið fyrir einn og hálfan milljarð þá er einhvers staðar fé að hafá. Það dugar ekki að gráta Björn bónda. Sjálfsbjörgin Ég þekki mann. Þetta er ósköp venjulegur maður sem hefur hvorki unnið sér frægð né frama í þjóðfélaginu og á sína fiölskyldu og átti sinn bát norður í landi sem hann stýrði sjálfur í sveita síns andlitis. En þar kom að veikindi settu strik í reikninginn og hann varð eins og margur annar lands- byggðarmaðurinn að söðla sinn hest og halda suður. Ólærður í há- skólafræðum, ómenntaður í fjár- málum og óskólagenginn í þeim lífsmáta að hafa gott af öðrum. Hans eini lærdómur er í rauninni sá að hver þurfi að bjarga sjálfum sér og sínum. Þetta er kannske gömul speki og úrelt en til eru menn sem þekkja ekki annað vega- nesti og þessi maður er einn af þeim. Hann fann það út að hér mætti rækta sveppi. Spyrjið mig ekki um það hvers vegna manninum datt í hug að rækta sveppi. Hvað þá held- ur manni sem aldrei hafði nálægt sveppum komið og hafði sennilega aldrei lagt þá sér til munns nema í sveppasósunni með nautasteik- inni sem hann fékk í Kaupmanna- höfn hér um árið þegar hann sigldi. Með bjartsýni og áræði hófst hann handa. Með harðfylgi og þrautseigju vann hann bug á áföll- um. Fyrirtækið var ekki stórt í sniðum í upphafi, hann og krakk- arnir og tvær hendur tómar. Rotm- assinn var keyptur suður á landi en rotmassi er sá sveppabeður þar sem sveppirnir vaxa. Framleiðslan var seld í veitingahús og verslanir. Veltan jókst og að nokkrum árum liðnum var þessi maður orðinn stærsti sveppaframleiðandinn í landinu. Ekki þar fyrir að þeir væru margir fyrir. Einstaka bóndi stundaði svepparækt í hjáverkum, sér til gamans og nágrönnunum til bragðbætis. Það fór hins vegar eins og títt er hér á landi að þegar einn hefur rutt brautina vilja aðrir koma á eftir og nýir framleiðendur fóru að láta að sér kveða og allt var gott um þá samkeppni. Samkeppnin kallaði á aukna hagræðingu í rekstri og þegar íslenski rotmass- inn, sem framleiddur er úr hálmi, var orðinn jafndýr töðunni og auk þess oftast blautur og myglaður leitaöi sveppaframleiðandinn okk- ar út fyrir landsteinana eftir sveppabeði. Samningar voru gerðir við breska framleiðendur fyrir margfalt minna verð. Ráðuneytið samþykkti innflutninginn og allt í einu var unnt að lækka heildsölu- verðið um tæp fjörutíu prósent. Það var eins og við manninn mælt. Salan tvöfaldaðist og fyrirtækið fór aftur að skila arði. Kristján tíundi En nú var það sem atburðarásin tók á sig annarlega mynd. Einhver öfundarmaður eða samkeppnisað- ili kærði innflutninginn á rotmass- anum í desember síðastliðnum og daginn eftir tekur bændablaðið Tíminn sig til og slær því upp á forsíðu að sveppir mannsins séu ræktaðir í breskum hrossaskít! Og ekki stóð á viðbrögðunum. Ráðu- neytið stöðvaði innflutninginn þeg- ar í stað og bar fyrir sig lög um vamir gegn gin- og klaufaveiki sem Christian tíundi af guðs náð, kon- ungur íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þétt- merki, Láenborg og Aldinborg setti fyrir sextíu árum. Kristján tíundi er löngu dauður og allt hans veldi fyrir bí en eftir standa hins vegar ennþá þessi praktísku lög um gin- og klaufa- veiki sem hafa reynst íslenskri landbúnaðarframleiðslu sverð og skjöldur þegar að henni hefur verið sótt úr öllum áttum. Óttinn við gin- og klaufaveiki hefur verið langlífur hér á landi og enda þótt höfð séu endaskipti á Evrópu í framleiðslu og neyslu alls kyns matvæla án þess að nokkur maður minnist á gin- og klaufaveikí hefur íslenski varnarmúrinn haldiö velli. Flesk og skinka, kjúkhngar og spendýr, ósoðin mjólk og jafnvel fatnaður úr dún og fiðri hefur aldrei komist inn fyrir landsteinana í þessu sótt- hreinsaða landi. Og þarna fundu hinir háu herrar í sextíu ára lagaklausum Kristjáns tíunda að hálmur væri hættulegur heilsu manna hér á landi, svo ekki sé nú talaö um hrossaskít sem full- yrt var að fyndist í rotmassanum frá Bretlandi. Gamanið kárnar Þeir stöðvuðu innflutninginn og stöðva hann enn. Kerfið lætur ekki að sér hæða né heldur hinn hefð- bundni landbúnaður sem þolir það ekki til lengdar að venjulegur mað- ur geti tekið það upp hjá sjálfum sér að rækta sveppi í samkeppni við hina sótthreinsuðu atvinnu- grein hans hátignar, Kristjáns tí- unda. Þó var sveppaframleiðand- inn okkar nógu góður til að borga sjóðagjöld til landbúnaðarins, alls 4,24% af brúttóveltu og þó var sveppaframleiðandinn okkar bú- inn að fá uppáskrifað leyfi til inn- flutningsins frá ráðuneytinu. Hann var sem sagt þóknanlegur kerfinu meðan hann borgaði til kerfisins og hann var nógu góður til að fram- leiða sveppi meðan enginn annar taldi sig tapa. En gamanið fór að kárna þegar verðið fór að lækka og samkeppnin við skjólstæðinga kerfisins reynd- ist þeim um megn. Þá var klagað og kvartað og þá var kært. Okkar maður hefur lagt fram gögn sem sýna fram á að rotmassinn frá Bretlandi inniheldur hvorki hrossaskít né sóttkveikjur. Ef um hálm er að ræða þá er hann ekki hættulegri en sá hálmur sem not- aður er til einangrunar í land- búnaðarráðuneytinu og öðru hverju húsi og allur er þessi hálm- ur gerilsneyddur og hættulaus eins og vottorð bera með sér. En hálmur skal það heita og hálmur skal það vera og ekki orð um það meir. Kerf- ið kann að segja sitt síðasta orð. Gæludýr kerfisins Þegar þetta er skrifað stendur enn allt fast í kerfinu. Ráðuneytið vísar á Rannsóknastofnum land- búnaðarins og Rannsóknastofnun- in vísar á landbúnaðarráðuneytið. Og fulltrúar sótthreinsúnardeild- arinnar halda áfram að tala um hálm og hrossaskít í fjölmiðlum og vara við þeim framleiðsluaðferðum sem leiða til þess að sveppir seljist á viðráðanlegu verði. Á hafnar- bakkanum standa gámar af sveppabeði sem ekki fást leystir út og gera má ráð fyrir að rekstur sveppaframleiðslunnar leggist nið- ur eftir örfáa daga. Þá mun ástand- ið komast aftur í eðlilegt horf, sveppir verða fáir og dýrir og al- menningur getur aftur snúið sér að innkaupum á kínverskum dósa- sveppum. Þessi saga kemur kannske eng- um við nema þeim sem fer á haus- inn í þetta skiptið. Almenningur er orðinn því vanur að fá fréttir af atvinnurekstri sem ekki gengur og hann er líka vanur því að heyra fréttir af atvinnurekstri sem ekki gengur en gengur samt. í síðar- nefnda flokknum eru gæludýr kerfisins, skjólstæðingar gin- og klaufaveikinnar, hollir þegnar Kristjáns tíunda. En sveppaframleiðandinn okkar er ekki í þeim hópi. Hann býr ekki á lögbýli og er ekki lögverndaður bóndi. Hann hefur leyft sér að gera ódýr innkaup og lækka vöruverðið fyrir neytendur. Hann er að fikta við framleiðslu sem honum kemur ekki við. Hann er svo vitlaus að halda að hann geti staðið á eigin fótum. Kerfið sér um að koma svo- leiðis mönnum fyrir kattarnef. Þúsund svona sögur Einhverjum kann að þykja þetta ómerkileg saga af heldur ómerki- legu máli. En á bak við allar frétt- irnar um gjaldþrotin og erfiðleik- ana i atvinnurekstrinum, á bak við atvinnuleysið óg kjararýrnunina leynast þúsund svona sögur af mönnum sem vilja vel og geta spjarað sig en mega það ekki. Mönnum sem eru blessunarlega lausir við þann lærdóm sem kennir þeim að taka ekki áhættu. Mónnum sem vilja bjarga sér sjálfir og skapa arðbæra atvinnu. Mönnum sem stuðla að lægra vöruverði og skyn- samlegri framleiðslu. Þetta eru mennirnir sem ólærðir, ómenntaðir og óskólagengnir ráð- ast til atlögu við fífldirfskuna. Lær- dómur þeirra og lífsreynsla felst í sjálfsbjargarviðleitninni. En svona menn vill ekki kerfið og ekki lögin og ekki Kristján tíundi sem enn er viö völd á íslandi í gegnum skriff- innsku, tregðu og hagsmunagæslu. Er nema von að fólk flýi land og geri átthagafélögin að athvarfi sínu? Er nema von þótt seint komi vor í dal? Ég ætla að gera mér það til dund- urs að fylgjast með þessu máli til enda. Fylgjast með þvi hvort kerf- inu tekst að drepa enn einn dugn- aðarmanninn af sér. Eða hvort honum tekst að hafa sitt fram. Það er slagur Davíðs gegn Golíat. Stundum hefur Davíð sigrað! En það hefur aldrei verið Golíat að þakka. Ellert B. Schram

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.