Dagblaðið - 30.11.1979, Qupperneq 22
30
DAGBLAÐIÐ. FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 1979.
[ REYKJAVfK
Engin siðskipti í kosningunum
—aftur kosið fyrr en menn ætla
í Reykjavik gæti Alþýðuflokkurinn
tapað einu þingsæti til Sjálfstæöis-
flokks og Alþýðubandalagið einu til
Framsóknarflokks. Svona einfaldar
eru þó línurnar ekki þótt þær sýni aðal-
áttir í kosningablænum. Fylgishrun
verður varla hjá A-flokkunum. Barizt
verður um hvert atkvæði. Þó verður
ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd
að í siðustu alþingiskosningum meira
en tvöfaldaði Alþýðuflokkurinn at-
kvæðatölu sína. Það fylgi festist ekki í
flokknum frekar en aukningin sem
Alþýðubandalagið fékk í þeim kosn-
ingum.
Ástæðurnar fyrir hinum miklu til-
færslum síðustu kosninga hafa samt
alls ekki horfið á hinu skamma kjör-
tímabili. Önnur úrræði en þau sem
stjórnir tímabilsins höfðu og beittu
hafa ekki legið á lausu. Loforð flokk-
anna boða ekki siðskipti. Þrátt fyrir
mistök stjórnarflokkánna í því að
halda samkomulagi liggur ekki fyrir að
annars konar samsteypa væri um allt
verulega betri, hvað þá einhlít. Við
skulum lita á möguleikana um leið og
einstaka flokka og frambjóðendur
þeirra.
Alþýðuflokkur
Benedikt Gröndal hefur ekki gefið
flokknum þá forystu sem þurfti.
Honum er nokkur vorkunn. Liðið er
óstýrilátt. Enda þótt Benedikt hafi
verið nærri þegar foringjar hafa fallið
hefur ekki reynt eins mikið á hann fyrr.
Benedikt hefur líklega staðið of lengi í
skugga sterkari manna. Hann sótti fast
í forystuna. Hann hefur aldrei fyrr
fengið að reyna sætleika valdsins í
sama mæli og nú. Það reyndist beisk-
ara en hann hugði.
Hræðsla Alþýðuflokksins við kyn-
slóðaskipti í formannaefni var eðlileg.
Hún kann að reynast flokknum dýr. Á
móti vegur það talsvert að Sjálfstæðis-
flokkurinn hefur átt við að glíma alvar-
leg innanflokksvandamál í forystunni.
Á milli þessara tveggja flokka er nokk-
urt streymi atkvæða.
Um Vilmund Gylfason stendur styr-
inn. Hann hefur brotizt svo um að hon-
um hefur tekizt að hrista upp i kerfinu.
Menn deila um það hvort hann sé
trúður eða Messías. Það líkar honum
vel. Enda þótt honum hafi tekizt ótrú-
lega vel að láta hiutina snúast um sig er
daufara yftr honum nú en fyrir síðustu
kosningar. Ráðherrastóllinn heldur
aftur af honum. Það haft hjálpar
Ólafur Jóhannesson honum að leysa
þótt það sé sízt ætlun hans. Vilmundur
er ekki pólitískt sumarblóm, sem fellur
i fyrstu frostum.
Jóhanna Sigurðardóttir, i 3. sæti A-
listans, er af sterkum flokksættum í AI-
þýðuflokknum, sonardóttir Jóhönnu
Egilsdóttur. Hún sómir sér vel sem
konan á listanum, flytur mál sitt vel og
skörulega i kappræðum og stundum af
meiri hörku en maður á von á hjá svo
ungri konu á vegi landsmálanna.
Jón Baldvin Hannibalsson í fjórða
sætinu er vígfær vel og orðfimur. Það
er í raun vandséð hvernig Alþýðuflokk-
urinn hefði komizt frá kappræðufund-
um í tengslum við kosningarnar án
hans. í því sambandi er rétt að geta
þess að þingmenn Alþýðuflokksins
hafa eins og aðrir starfað í kjördæmum
sínum nokkrar vikur fyrir kosningarn-
ar.
Jón Baldvin er talinn hafa verið þess
fýsandi að rjúfa vinstri stjórnina. Hann
er orðinn einn af helztu hugmynda-
smiðum flokksins. Hann hefði farið í
3. sæti listans í Reykjavík ef það sæti
hefði ekki skipað kona. Jón Baldvin er
talinn vilja ríkisstjórn Alþýðuflokks og
Sjálfstæðisflokks eftir kosningar ef
svigrúm leyfir.
Það blasir við að í þrem af fjórum
efstu sætum listans i Reykjavík sitja
pólitískir erfingjar flokksins. Það er
svo efunarmál hvort i því er að rætast
einhver draumur foreldranna.
Alþýðubandalag
Það er mesta furða hvað tekizt hefur
að gefa forystu Alþýðubandalagsins
heilsteypt yfirbragð eftir að Magnús
Kjartansson, síðan Eðvarð Sigurðsson
og loks Svava Jakobsdóttir létu af
framboðum og þingmennsku. Magnús
var svo sérstæður foringi að pólitiska
breidd hans spannar liklega enginn
maður í flokknum.
Svavar Gestsson fór án teljandi
átaka í efsta sæti listans. Hann er korn-
ungur maður, prýðilega máli farinn og
lipur penni. Hann hefur lengi verið
drjúgur starfsmaður flokksins, blaða-
maður og ritstjóri Þjóðviljans. Hann
nýtur trausts flokksmanna og hefur
hylli. Hann velti ekki björgum í ráð-
herrastóli en hann gerði heldur ekki
afglöp. Hann er ekki orðaður við
óheiðarleika eða spillingu.
Þess hefur stundum verið spurt hvers
vegna Guðmundur J. Guðmundsson er
ekki fyrir löngu kominn á þing fyrir Al-
þýðubandalagið. Hann var og er náinn
vinur og samstarfsmaður Eðvarðs Sig-
urðssonar og hefur staðið í skugga hans
í pólitíkinni. í 20 ár hefur hann verið
einn allra drýgsti maður flokksins út á
við en harðneitað að etja kappi við Eð-
varð.
Hann á hins vegar svo ramma and-
stæðinga að það gegnir furðu að hann
skuli vera í 2. sæti listans i Reykjavík.
Ákveðinn hluti menntamannadeildar
flokksins ætlaði að hlaupa yfir Jakann.
Hefði hann ekki verið jafndrjúgur i
kosningum vegna þekkingar á launa-
mönnum og högum þeirra og raun er á
væri hann ekki í framboði. ítarleg leit
var gerð að öðrum manni í flokknum.
Ásmundur Stefánsson kom vitanlega
vel til greina, en hann studdi Guð-
mund. Þeir Guðmundur eru langsterk-
ustu alþýðubandalagsmennirnir í laun-
þegahreyfingunni. Enda þótt gamli
ljóminn um Jakann hafi nokkuð látið á
sjá er hann ekki farinn að bráðna neitt
sem nemur.
Hefði Ólafur Jóhannesson haft um-
burðarlyndi Eysteins Jónssonar, væri
Ólafur Ragnar Grímsson að líkindum
einhvers staðar í öruggu sæti fyrir
Framsóknarflokkinn. Það var örlaga-
ákvörðun að hafna Möðruvellingunum
i Framsókn.
Ólafur Ragnar er einhver harðvítug-
asti sjónvarps- og kappræðumaður á
sviðinu í kosningunum. Hann er árás-
argjarn og sakaður um metnað. Hann
nýtur fjölmiðlaþekkingar sinnar og
harðfylgi. Hann fer ekki með friði þar
sem ófriður er í boði.
Guðrún Helgadóttir brilleraði í sein-
ustu borgarstjórnarkosningum og var
heppin. Hún hefur orð sem dugandi
starfsmaður í Tryggingunum, þrátt
fyrir menntamannadekur. Hún er sjálf
listunnandi og barnabókahöfundur.
Hún hefur talsverð itök og er í 4. sæt-
inu fyrir eigið ágæti. Hún er ekki stöðl-
uð flokksbrúða og hefur ekki verið lyft
af hreyfingu flokkssystra.
Framsóknarflokkur
Ólafur Jóhannesson er magnaðri
persónuleiki en Benedikt Gröndal og
Geir Hallgrimsson. Fyrir utan framboð
Sólness og Haukdals er framboð Ólafs
í Reykjavik hin stóra bomba kosning-
anna. Með því leggur Framsóknar-
flokkurinn meira undir í spilinu en
menn gera sér almennt grein fyrir.
Kunnátta Ólafs í stjórnlagafræðum
er mikil. Hann ratar því flestum betur í
íslenzkri stjórnskipun. Mestu aðdáend-
ur Ólafs tala um hann sem konung og
keisara. Honum þykir lofið gott eins og
fleirum. Það iskyggilega er að hann er
farinn að trúa því sjálfur. Ólafur er lík-
legur til að draga talsvert af atkvæðum
til Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Guðmundur G. Þórarinsson var
mikil stjarna og nýtur þess enn.
Honum var teflt fram í borgarstjórnar-
kosningum 1970. Hann vann afrek
þegar hann var framkvæmdastjóri
skákeinvígisins milli Fischer og Spassky
1972. Aftur á móti féll hann sem 3.
maður á lista Framsóknar 1974 í borg-
arstjórn.
Talið er að hann hafi komizt undir
væng Ólafs þegar hann fór í framboð í
Suðurlandskjördæmi það ár. Guð-
mundur er vel verki farinn og duglegur.
Á móti honum er það stundum haft að
hann þótti fá feit verkefni fyrir verk-
fræðistofu sina í gegnum pólitík. Og þó
frekar hitt að hann skákaði Þórarni
Þórarinssyni í prófkjörinu 1978.
Haldið er að Þórarinn haft ekki varazt
leikinn og enga gagnleiki teflt.
„Guði sé lof,” sagði Vilmundur
Gylfason, þegar hann heyrði að Guð-
mundur hafði betur en Haraldur Olafs-
son í skoðanakönnun framsóknar-
manna í Reykjavik um það hver skyldi
skipa 2. sæti listans. Hann taldi Harald
hættulegra framboð en Guðmund í 2.
sætinu. Haraldur er frjálslyndur
menntamaður. Fyrrum alþýðuflokks-
maður og síðan nefndur við Samtökin.
Haraldur er vel þokkaður, góður
kennari og vammlaus maður. Hann á
ekki óvildarmenn. Hann er þó alls ekki
litlaus. Hann er í raun talsvert hættuleg
eldflaug — en líklega á vitlausum skot-
palli. Bæði Alþýðuflokkur og Alþýðu-
bandalag eru þakklát forsjóninni og
SÍS-valdinu fyrir að hafa Harald í 3.
sæti listans.
Sjálfstæðisflokkur
Þangað til þeir Ellert B. Schram og
Pétur Sigurðsson skiptust á sætum var
með réttu hægt að tala um lögfræð-
ingalistann.
Það er hins vegar alls ekki rétt að af-
greiða Albert Guðmundsson sem heild-
salann á lögfræðingalistanum. Hann
leysir í aukavinnu á sinni skrifstofu eins
mörg vandamál borgarbúa sem til
hans leita og margir starfsmenn borgar-
innar á miklu lengri tíma. Hann er ná-
kunnugur ótrúlegum fjölda múga-
manna í Reykjavík, svipað og Guð-
mundur J. í Alþýðubandalaginu.
Vitanlega eru þrír fyrrverandi borg-
arstjórar á listanum, Gunnar Thorodd-
sen, Geir Hallgrimsson og Birgir
ísleifur Gunnarsson, þaulkunnugir
málefnum borgarinnar og miklum
fjölda manna, hver á sinn hátt. Hið
sama má segja um Friðrik Sophusson,
Ragnhildi Helgadóttur, Guðm. H.
Garðarsson og Elínu Pálma. Þegar
litið er á mjög frambærilega menn
niður listann er ekki hægt að leiða hjá
sér spurninguna um það hvað valdi þvi
að flokkurinn skuli hafa stórtapað
fylgi í síðustu alþingiskosningum. Að
vísu var Birgir ísleifur þá ekki á listan-
um. Að öðru leyti var hann að mestu
leyti skipaður sama fólki og nú. Hver
og einn þessara manna er sterkur en
samstillingin er erFtð.
Geir Hallgrímssyni hefur ekki tekizt
að búa flokknum samhenta forystu.
Honum er þetta auðvitað ljóst og þeim
sem honum standa næstir. Ágreining-
urinn er svo djúpstæður og botnfastur
að engar sættir eru á næsta leiti. Flokk-
urinn geldur þess eflaust nú eins og
undanfarið. Hann flýtur hins vegar á
þvi, að ástandið er ekki miklu betra á
öllum hinum bæjunum.
Kosningarnar
Eins og löngum fyrr verður fremur
kosið um menn en málefni. Stefnu-
bæklingar hannaðir af auglýsingastof-
um ráða ekki úrslitum. Flokkarnir gera
sér almennt grein fyrir þessu. Það
virðist reyndar sem þeir leggi ekki i
mikinn kostnað á því sviði.
Skipulegt starf sjálfboðaliða er hins
vegar mikið. Það starf hefur áhrif á
kosningarnar. Þegar vel er að gáð er
eins og enginn taki á öllu sem hann á
til. Það lítur helzt út fyrir að menn
búist við alþingiskosningum innan
tíðar aftur. Úrslitin nú eru ekki líkleg
til að breyta pólitískum valdahlutföll-
um nægilega til þess að varanlegur
friður fáist í þjóðfélaginu.
Tveir listar eru í framboði auk þeirra
sem nú hafa verið nefndir. Þeir skipta
nær engu máii og eru ekki nálægt þvi
að fámann kjörinn.
- BS
Efstu menn B listans: Ólafur, Guðmundur G., Haraldur og Sigrún.