Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1959, Page 152
152
HALLDÓR HERMANNSSON
ekkert úr því að hann gæti skrifað íslandssöguna fyrir American Scandinavian Founda-
tion.
Um þetta leyti var Finnur Sigmundsson að reyna að fá Halldór heim til að vinna að
Bibliographia Islandica, en Finnbogi Guðmundsson beitti sér fyrir því að reyna að út-
vega honum íbúð í Reykjavík og Ingibjörg frændkona hans átti að fara með honum
heim, ef úr þessu yrði. Langaði Halldór mjög, en svo fór, að hann treysti sér ekki.
Eftir þetta stóð heilsa Halldórs nokkurn veginn í stað, og líðan hans var upp og ofan.
Hann gat enn hjálpað til við útgáfu Hóla-Catós síns, sem Jóhann bjó til prentunar fyrir
áttræðisafmæli hans, en fimmtíu ára afmæli lslandica. Þótti honum sérstaklega vænt um
þetta, sem von var, og því vænna um Jóhann eftirmann sinn sem hann kynntist honum
lengur, svo að hann gaf honum bókasafn sitt eftir sinn dag.
Sunnudaginn 10. ágúst í sumar varð Halldór snögglega veikur, og var farið með hann
á sjúkrahús í íþöku (Tomkins County Memorial Hospital). Jóhann hringdi í mig, og eg
brá við og ók til Iþöku á mánudag. Þá hafði Halldór verið skorinn upp við einhverju
ólagi á gallblöðrunni, og lifði hann eftir það tæpar þrjár vikur á spítalanum. Hann dó
fimmtudaginn 28. ágúst á sjúkrahúsinu. Var líðan hans upp og ofan, stundum var hann
svo hress, að hann gat spjallað við okkur, sem komum í heimsókn: Jóhann, Harald
Bessason prófessor frá Winnipeg og Philip M. Mitchell frá háskólanum í Illinois, auk
mín og gamalla vina af bókasafninu. En stundum var hann með óráði og þekkti okkur
þá ekki; stundum sá hann bókartitla í óráðinu, og er vonandi, að bækui hafi beðið hans
hinumegin, ef nokkuð er hinumegin, en tæplega hefur Halldór búizt við því. Hann lagði
svo fyrir, að líkaminn væri brenndur, en öskunni dreift í vind utan alla prestþjónustu
og formálalaust. Hins vegar gaf hann fé til að ljósprenta bókaskrár sínar allar þrjár og
mun hafa ætlað sér að lifa í þeim.