Morgunblaðið - 21.03.2001, Síða 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. MARS 2001 23
- trygging fyrir l
águ ver›i!
CARL Bildt, sérlegur útsendari Sam-
einuðu þjóðanna á Balkanskaga, lýsti
því yfir í gær að hann væri reiðubúinn
að láta af því starfi í kjölfar harðrar
gagnrýni sem tengist stjórnarsetu
hans í sænska olíufyrirtækinu Lundin
Oil. Í Svíþjóð hefur þess verið krafist
að hann velji á milli SÞ og olíufyr-
irtækisins. Bildt reyndi í fyrstu að
vísa gagnrýninni á bug en í fyrra-
kvöld sendi hann Svenska Dagbladet
tölvupóst þar sem hann segist hafa í
hyggju að láta af störfum fyrir SÞ til
að geta einbeitt sér frekar að öðrum
störfum, m.a. fyrir olíufélagið í Súdan,
en það er starfsemi þess þar sem þyk-
ir afar gagnrýniverð.
Olíufélögin í Súdan, þeirra á meðal
Lundin Oil, sæta harðri gagnrýni í
nýrri mannréttindaskýrslu Samein-
uðu þjóðanna. Í skýrslunni segir að
starfsemi olíufélaganna í landinu hafi
„ýtt undir átökin í landinu, orðið til
þess að draga úr mannréttindum og
virðingu fyrir þeim og hafa nú þegar
dregið úr þeim litlu möguleikum sem
eru á að friður komist á“, segir í
skýrslunni.
Íbúarnir reknir burt
Fjöldi erlendra olíufyrirtækja leit-
ar nú olíu í Súdan þar sem geisar
borgarastyrjöld á milli múslimskra
stjórnvalda og kristinna skæruliða-
hópa. Auk Lundin Oil má nefna
bandarísk og kanadísk olíufyrirtæki.
Ásakanirnar snúast m.a. um að
stjórnvöld í Súdan hafi rekið fólk á
brott frá stórum landsvæðum í ná-
grenni olíulindanna og þar sem olíu er
leitað. Í samtali við Aftonbladet um
helgina lýsti Bildt því hins vegar yfir
að hann hefði aldrei séð nein merki
þess að fólk hefði verið neytt á brott
eða á það ráðist. Þvert á móti hefði
fólk flutt til svæða þar sem leitin færi
fram.
Í skýrslu SÞ er dregin upp önnur
mynd af ástandinu. Þar segir að
stjórnvöld hreki ættflokka svæðisins
suður á bóginn og hvetji ættflokka
norðan að til að setjast þar að. Stað-
arnöfnum sé breytt yfir á arabísku og
stjórnvöld reyni með þessu að ná full-
um yfirráðum á svæðinu. Olíufélögin
eigi samvinnu við stjórnvöld sem veiti
þeim hervernd og rými til fyrir starf-
semi þeirra.
Carl Bildt er einn tíu stjórnar-
manna í Lundin Oil, og þiggur fyrir
það um 2 milljónir ísl. í árslaun. Hann
segir í áðurnefndum tölvupósti til
Svenska Dagbladet að hann sé sann-
færður um að vera erlendra fyrir-
tækja og olíulindir á svæðinu auki
möguleika Súdans á því að koma á
friði og að vinna að framþróun. Hann
segir að dragi Lundin Oil sig út úr
Súdan muni annað fyrirtæki einfald-
lega taka við og það muni því engu
breyta.
Segir mannréttindi virt
Bildt segir fyrirtækið hafa fylgt
ráðleggingum mannréttindasamtak-
anna Amnesty International og Sam-
einuðu þjóðanna um hvernig bera eigi
sig að á svæðinu. Lýsir hann efa-
semdum um að til dæmis kínversk ol-
íufyrirtæki, sem bíði þess að geta haf-
ið starfsemi, muni virða mannréttindi
að sama marki og sænska fyrirtækið.
Ekki eru þó öll hjálparsamtök sam-
mála Bildt. Christian Aid hefur kraf-
ist þess að fyrirtækið hætti starfsemi
í Súdan. Í fréttatilkynningu samtak-
anna segir að þau voni að Bildt sitji
áfram í stjórn fyrirtækisins og beiti
áhrifum sínum til að tryggja að fyr-
irtækið láti af störfum. Geri hann það
ekki, eða segi sig úr stjórninni, sé
hann að víkja sér undan þeirri sið-
ferðislegu skyldu sinni að tjá sig um
mannréttindi, hvar sem er í heimin-
um.
Bildt segist ekki vera þeirrar skoð-
unar að staðan batni við það að ol-
íufélögin haldi á brott, þvert á móti
bæti vera þeirra á svæðinu stöðuna.
„Að halda á brott, einangra og leyfa
þeim að berjast í friði er siðferðilega
óverjandi að mínu mati,“ segir Bildt.
Hótaði afsögn
Pólitískir andstæðingar Bildts í
Svíþjóð hafa gagnrýnt hann mjög síð-
ustu daga, t.d. lýsti ritari Jafnaðar-
mannaflokksins, Lars Stjernkvist, því
yfir að stjórnarsetan og starfið fyrir
SÞ færu illa saman. Hótaði Bildt þá
að segja af sér hjá SÞ nyti hann ekki
stuðnings til starfans og virðist nú
ætla að gera alvöru úr.
Hann segir í tölvupóstinum að í
raun sé löngu kominn tími til að hætta
störfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar.
Það hafi nú þegar varað lengur en
ætlunin hafi verið og hann vilji fá
meiri tíma til að einbeita sér að störf-
unum í Súdan. „Ég er einn þeirra sem
hafa allt of mikil afskipti af allt of
mörgum málum,“ skrifar hann.
Sænskt olíufélag í Súdan harðlega gagnrýnt í mannréttindaskýrslu SÞ
Bildt hyggst láta af störfum
fyrir SÞ í kjölfar gagnrýni
AP
Carl Bildt í Skopje, höfuðborg Makedóníu, á föstudag í síðustu viku. Hér er hann að svara spurningum frétta-
manna um átökin og ástandið í landinu sem sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna.
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.
STUÐNINGSMENN Domingos
Cavallos hafa kallað hann „ofurráð-
herrann“ eða „kraftaverkamanninn“
en andstæðingar hans hafa uppnefnt
hann „feita skallann“. Nafn Cavallos
er þó alltaf tengt hvikulum efnahag
Argentínu og hann fær nú annað
tækifæri til að rétta fjárhaginn við
eftir að tilkynnt var óvænt í gær-
morgun að hann ætti að fara með
efnahagsmálin í stjórn Argentínu.
Cavallo var efnahagsmálaráðherra
í byrjun síðasta áratugar þegar hann
réð niðurlögum óðaverðbólgu sem
mældist allt að 5.000% á ári. Hann
tengdi þá gjaldmiðil landsins, pes-
óann, við dollarann á genginu einn á
móti einum og sú ráðstöfun leiddi til
efnahagslegs stöðugleika og hag-
vaxtar í Argentínu, þriðja stærsta
hagkerfi Rómönsku-Ameríku.
Cavallo stjórnaði einnig mikilli
einkavæðingu ríkisfyrirtækja, sem
voru rekin með tapi, í forsetatíð Carl-
os Menems. Argentína varð þá að eft-
irlæti fjárfesta á Wall Street.
Nú, tíu árum síðar, er Cavallo og
tengingu pesóans við dollarann kennt
um mikið atvinnuleysi eftir tveggja
og hálfs árs efnahagsstöðnun. Eng-
inn hagvöxtur hefur verið í landinu
frá júlí 1998.
Cavallo er leiðtogi lítils íhalds-
flokks, Aðgerða í þágu lýðveldisins,
og Fernando de la
Rua forseti vonast til
að styrkja stöðu sína
með því að skipa hann
í ráðherraembættið.
Þrír ráðherrar úr
vinstriflokknum
Frepaso, sem myndar
stjórn með miðflokkn-
um Róttæka borgara-
bandalaginu, sögðu
sig úr stjórninni á
föstudag til að mót-
mæla áformum henn-
ar um að lækka rík-
isútgjöldin til að
koma í veg fyrir að
fresta þyrfti greiðsl-
um á erlendum lán-
um.
Þessi áform mættu svo mikilli and-
stöðu á þinginu og meðal almennings
að Ricardo Lopez Murphy, höfundur
sparnaðartillagnanna, sagði af sér
embætti efnahagsmálaráðherra í
fyrrakvöld eftir að hafa gegnt því í
aðeins hálfan mánuð. Afsögn hans
varð til þess að Cavallo var skipaður í
stjórnina.
Cavallo sagði sig úr stjórn Men-
ems í júlí 1996 eftir að hafa valdið
titringi með því að saka nokkra ráð-
herra hennar um að tengjast glæpa-
starfsemi. Síðan hefur hann reynt að
halda sér í sviðsljósinu í Argentínu og
erlendis.
Cavallo er 54 ára og sonur fyrrver-
andi sópaframleiðanda. Hann stund-
aði nám við Harvard-háskóla og gaf
kost á sér í forsetakosningunum í
Argentínu árið 1999 en fékk aðeins
10% atkvæðanna. Hann bauð sig
einnig fram í borgarstjórakosningum
í Buenos Aires og tapaði.
Cavallo hefur lagt til að pesóinn
verði tengdur við fleiri gjaldmiðla en
dollarann en hann sagði í gær að nú-
verandi stefnu í gengismálum yrði
haldið í nokkur ár.
Buenos Aires. Reuters, AFP.
„Kraftaverkamaðurinn“
aftur við stjórnvölinn
Reuters
Fernando de la Rua, forseti Argentínu (t.v.), og
Domingo Cavallo á blaðamannafundi í gær.
RAFMAGN var skammtað í Kali-
forníuríki í Bandaríkjunum á mánu-
daginn, rétt eina ferðina. Segja yf-
irvöld raforkumála í ríkinu að bilanir
og vandræði með aðra orkugjafa hafi
borið raforkukerfi ríkisins ofurliði.
Taka hefði þurft af rafmagn hjá yfir
hálfri milljón viðskiptavina til að
koma raforkubirgðum í rétt horf en
tvísýnt hafi verið með þær á mánu-
daginn.
Rafmagnsleysið bitnaði á yfir
einni milljón manns um allt ríkið og
er „það lengsta sem við höfum hing-
að til orðið að þola,“ sagði James
Detmers, aðstoðarframkvæmda-
stjóri ISO, stofnunarinnar sem sér
um raforkulínur í ríkinu.
Patrick Dornison, talsmaður ISO,
sagði að kreppan gæti haft áhrif á
önnur ríki í vesturhluta Bandaríkj-
anna „og gæti jafnvel breiðst út til
annarra landshluta.“
Óvenjuhlýtt í veðri
Raforkumálafulltrúar sögðu að
eldur í raforkustöð í Suður-Kaliforn-
íu hefði leitt til rafmagnsleysisins á
mánudaginn en orkukerfi ríkisins
hefði þá þegar verið undir miklu
álagi vegna þess að óvenjuhlýtt hafi
verið í veðri. Vatnsyfirborð í miðl-
unarlónum hafi verið lágt og því hafi
túrbínur, sem framleiða rafmagn,
gengið hægar en venjulega.
Detmers sagði að gripið hefði ver-
ið til rafmagnsskömmtunar á mánu-
daginn til að koma í veg fyrir
„stjórnlaust“ rafmagnsleysi í ríkinu.
Hann varaði enn fremur við því, að
rafmagnsleysi myndi halda áfram að
hrjá Kaliforníu fram eftir sumri.
Þetta var í fyrsta sinn sem raf-
magn fer af síðan í febrúar er rík-
isstjórinn, Gray Davis, gerði samn-
ing við ríkisþingið og raforkuveitur
um að hið opinbera myndi kaupa raf-
magn fyrir orkuver ríkisins.
Óvenjuheitt er víða í Kaliforníu.
Hitinn í miðborg Los Angeles fór í 31
gráðu á mánudag sem leiddi til auk-
innar notkunar á loftkælingu sem
aftur jók raforkunotkun. Rafmagn
var skammtað frá hádegi til klukkan
fjögur síðdegis og varði í klukku-
stund í senn á hverju svæði. Síðan
var einnig skammtað frá klukkan
sex síðdegis í rúma klukkustund.
Rafmagns-
skömmtun í
Kaliforníu
San Francisco, Los Angeles. AFP, AP.