Morgunblaðið - 07.04.2001, Side 41
VIKULOK
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. APRÍL 2001 41
vinsælt framtak að hafa kjöt og
súpu á boðstólum fyrir fátæka“.
Við höfum að því er virðist sam-
þykkt þetta og borguðum, mér
fannst þetta stórgóð hugmynd.
Næst vöknum við í rúmi foreldra
minna við það að inn kemur kona,
lagleg, dökkhærð, frekar þéttvaxin
og segist vera komin með kjötið
sem við hefðum keypt og við þurf-
um að koma með það upp í hús
næsta dag, laugardag. Við horfðum
skelkuð hvort á annað og ég stundi
upp að það gætum við bara alls
ekki því við værum upptekin. Hún
varð mjög svipþung og sagði að við
þyrftum að standa við það sem við
hefðum lofað. Ég sagði henni að við
hefðum ekki gert okkur grein fyrir
að þetta væri á morgun, þá hefðum
við tekið kjötið með okkur og við
hefðum haldið að við yrðum látin
vita með einhverjum fyrirvara og á
laugardeginum yrði dótturdóttir
okkar stúdent og við yrðum að vera
viðstödd.
Konan blíðkaðist ekkert svo ég
spurði hvort það væri ekki einhver
sem gæti bjargað þessu í þetta sinn
og við værum þá til í að vera með
þetta tvisvar í röð og þá keyptum
við meira kjöt. Hún fór með þeim
ummælum að hún léti okkur vita ef
þetta tækist ekki. Þá kallaði faðir
minn í manninn minn og sagði að
það væri kominn maður að finna
hann. Hann fór fram og ég heyrði
þá tala saman um bókhaldið sem
maðurinn minn var að vinna fyrir
gestinn. Ég fór fram úr og leit út
um gluggann en fór svo aftur upp í,
maðurinn minn kom og fór einnig
aftur upp í rúm og við töluðum um
að við hlytum að vera rugluð að
hafa ekki skilið þetta með kjötið. Í
því komu tveir menn inn í her-
bergið og spurðu hvort við værum
tilbúin í langstökkið og nefndu töl-
una 7 í því sambandi.
Ráðning
Þegar inn koma draumar frá ólíku
fólki á ólíkum stöðum á landinu um
sama efni (fyrri pistill), spyr maður
sig um merkinguna að baki og
hvort fleiri drauma sama efnis sé
að finna í fórum fólks? Öll tákn
draumsins hafa trúarlega skír-
skotun sem getur þýtt; óskir, von
og vilja um stórkostlega breytingu,
stökk til betra siðgæðis, nýjan flöt
á andlegum málum eða nýja nálgun
manns við sjálfan sig. Á vissan hátt
er draumurinn ákall um breytingu
á þeim föstu skorðum sem mað-
urinn hefur búið sér og sér ekki út
úr en finnur sig lúinn á. Kjöt má
skoða frá mörgum sjónarhornum
og fá út jarðtengingu, frumstæðar
hvatir eða kraft, sköpun, orku þess
huglæga. Konurnar sem hvetja til
kaupanna eru frumkraftarnir
(Urður, Verðandi, Skuld) en fram-
vinda draumsins hefur trúarleg
einkenni; gefa fátækum, foreldr-
arnir tákna Krist og Maríu, konan
svipþunga, mennirnir tveir, talan 7.
Draumurinn boðar miklar breyt-
ingar á högum þínum og annarra
en áður en þær ganga í garð þarf
ýmsa erfiðleika að yfirstíga (mað-
urinn og bókhaldið – reikningsskil
gerða sinna) þar sem margt fer for-
görðum og mest af öllu lygin.
Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta
og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðing-
ardegi og ári ásamt heimilisfangi og dul-
nefni til birtingar til:
Draumstafir
Kringlunni 1
103 Reykjavík
eða á heimasíðu Draumalandsins
http://www.dreamland.is.
SVAR: Ættarnöfn komu mjög seint
til sögunnar hér á landi og má
heita að Íslendingar einir nor-
rænna þjóða haldi hinum forna sið
að kenna sig til föður eða móður.
Er talið að fyrstu ættarnöfnin hér
á landi séu frá 17. öld en þeim
fjölgaði mjög á 19. öld vegna
danskra áhrifa. Árið 1881 fluttu
tveir alþingismenn frumvarp til
laga um mannanöfn, sem meðal
annars var ætlað að stemma stigu
við notkun ættarnafna. Frumvarpið
hlaut ekki afgreiðslu. Hinn 1. janú-
ar árið 1915 tóku hins vegar gildi
lög nr. 41/1913 um nýnefni. Var
mönnum með þeim lögum heimilað
að taka upp ný ættarnöfn.
Árið 1925 voru sett lög nr. 54/
1925, einkum fyrir tilstuðlan
Bjarna Jónssonar frá Vogi. Var
hann mjög andsnúinn ættarnöfn-
unum sem voru mjög í tísku þegar
þarna var komið sögu. Þó var þeim
íslenskum þegnum og niðjum
þeirra sem báru ættarnöfn, sem
eldri voru en frá þeim tíma er lög
nr. 41/1913 gengu í gildi, leyft að
halda þeim enda hefðu þau ætt-
arnöfn sem yngri voru en frá síð-
astliðnum aldamótum verið tekin
upp með löglegri heimild.
Heita má að lög nr. 54/1925 hafi
verið dauður bókstafur því að lítið
sem ekkert var farið eftir þeim.
Það var síðan með lögum nr. 37/
1991 sem festu var komið á nafn-
giftir. Gömul ættarnöfn, lögleg sem
ólögleg, voru leyfð en bann lagt við
upptöku nýrra ættarnafna. Nú
gilda lög nr. 45/1996 um manna-
nöfn og segir í 7. mgr. 8. gr. þeirra
að óheimilt sé að taka upp nýtt
ættarnafn hér á landi.
Spurt er hvað yrði gert ef ein-
hver byggi til sitt eigið ættarnafn í
dag. Slíkt nafn hlyti ekki samþykki
mannanafnanefndar, enda ólöglegt.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr.
45/1996 er skylt að gefa barni nafn
innan sex mánaða frá fæðingu
þess. Í 1. mgr. 25. gr. laganna er
Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, heim-
ilað að leggja dagsektir á for-
sjármenn barns sinni þeir ekki
áskorun um að gefa barninu lög-
legt nafn. Má gera aðför til fulln-
ustu dagsektanna. Ef einhver
byggi til ættarnafn handa sér eða
barni sínu yrði það því ekki skráð
hjá Hagstofunni en vissulega yrði
lítið hægt að gera við því þótt
menn kölluðu sig slíku nafni. Al-
kunna er að fólk beri ólögleg ætt-
arnöfn, en þau eru þá ekki skráð
hjá Hagstofunni og hafa í sjálfu sér
ekkert lagalegt gildi.
Halldór Gunnar Haraldsson,
lögfræðinemi við HÍ.
Hvaða bergtegundir fyrirfinn-
ast nær eingöngu á Íslandi
eða hafa séríslensk ein-
kenni?
SVAR: Tvennt er það sem ræður
tilurð hinna ýmsu tegunda storku-
bergs: efnasamsetning kvikunnar
sem bergið storknar úr og að-
stæður við storknunina — hröð
storknun eða hæg, við yfirborð, í
vatni eða djúpt í iðrum jarðar.
Efnafræðilega einkennast íslenskar
bergtegundir af því að landið er
„heitur reitur“ í miðju úthafi. Ann-
ar slíkur heitur reitur — en þeir
eru alls 25–30 — er Hawaii í
Kyrrahafi og þar eru einkenn-
isbergtegundirnar að mörgu leyti
hinar sömu og hér. Þó er einn
áhugaverður munur: að súrt berg
(dasít og rhýólít eða líparít) er
miklu algengara á Íslandi en á
Hawaii, þar sem slíkt berg er nán-
ast óþekkt, og raunar er Ísland
sennilega einsdæmi að þessu leyti
meðal úthafseyja. Efnafræðilega
eru íslenskar bergtegundir þannig
hinar sömu og á öðrum úthafs-
eyjum — og reyndar blágrýt-
issvæðum meginlandanna líka —
en hins vegar eru hlutföll þeirra að
sumu leyti óvenjuleg hér: langmest
er af basalti (90%), næstmest af
súru bergi (tæp 10%) en lang-
minnst af ísúru bergi, sem þó nefn-
ist „íslandít“.
Á síðustu árum hafa sjónir
manna beinst í vaxandi mæli að
móbergsmynduninni hér vegna
þess að sitthvað þykir benda til
þess að slíkar myndanir sé að finna
á reikistjörnunni Mars. Móbergið
hefur aðallega myndast í eldgosum
undir jökli og slík gos hafa menn
getað rannsakað hér á landi í
Grímsvötnum, Kötlu og Surtsey
(þar sem sjórinn kom í stað
bræðsluvatns). Móberg myndast
þannig, að 1200°C heit bráð snögg-
kælist í vatni. Þá hafa kristallar
„ekki tíma til“ að vaxa og því
myndast glersalli sem hleðst upp
kringum gosopið. Þannig myndast
hrúga af vatnsósa, lausri gosösku
sem nefnist túff og ummyndast
fljótlega í móberg (palagonít), sem
er fast berg. Við 80–150°C hita
hvarfast glerið við vatn, það „af-
glerjast“ og ýmsir kristallar mynd-
ast sem líma kornin saman og
breyta túffinu í móberg. Kannski
sú bergtegund sem næst kemst því
að vera séríslensk sé móbergið. Al-
kunn móbergsfjöll í nágrenni
Reykjavíkur eru Helgafell sunnan
við Hafnarfjörð, Hengill, Bláfjöll
og hryggirnir á Reykjanesskaga.
Sigurður Steinþórsson,
prófessor í jarðfræði við HÍ.