Morgunblaðið - 07.04.2001, Blaðsíða 49
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. APRÍL 2001 49
Sérfræðingar
í blómaskreytingum
við öll tækifæri
Skólavörðustíg 12,
á horni Bergstaðastrætis,
sími 551 9090.
✝ Þorlákur Hún-fjörð Guðlaugs-
son fæddist 26.8.
1912 á Ytri-Ey,
Austur-Húnavatns-
sýslu. Hann lést 1.
apríl síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Rakel Þorleif Bessa-
dóttir, f. 18.9. 1880,
d. 30.10. 1967, og
Guðlaugur Sveins-
son, f. 27.2. 1891, d.
13.10.1977. Systkini
Þorláks eru: Emelía
Margrét, f. 11.9.
1911, d. 29.7. 1999,
Jóhanna Guðrún, f. 30.12. 1913,
d. 13.2. 1998, Vésteinn Bessi
Húnfjörð, f. 21.4. 1915, Kári
Húnfjörð, f. 3.7. 1918, d. 29.10.
1952, Einar Þorgeir Húnfjörð, f.
30.2.1920, og Bergþóra Heiðrún,
f. 5.11.1922.
Þorlákur bjó á Ytri-Ey fyrstu
mánuði ævi sinnar og fluttist síð-
an með foreldrum sínum að
framtíðarheimili
sínu, Þverá í Norð-
urárdal, Austur-
Húnavatnssýslu.
Þorlákur tók við búi
foreldra sinna er
þau fóru að eldast
og síðustu árin var
hann í félagsbúskap
við bróðurson sinn
Braga Húnfjörð
Kárason. Í mörg ár
starfaði Þorlákur
sem landpóstur og
fór með póst um ná-
lægar sveitir, einnig
gekk hann línur fyr-
ir Landssímann í bilanaleit þegar
þannig stóð á. Yndi Þorláks og
lífshamingja var fólgin í hesta-
mennsku.
Þorlákur kvæntist ekki og átti
engin börn. Síðustu árin bjó hann
á Heilbrigðisstofnun Blönduóss.
Útför Þorláks fer fram frá
Höskuldsstaðakirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 14.
Frændi okkar og vinur, Lalli á
Þverá, er látinn. Eftir langt ævi-
kvöld á Héraðshælinu í umsjá um-
hyggjusams starfsfólks er hann
loksins lagður af stað upp í silf-
urskýið yfir Dýnufjallinu. Við mun-
um hann þar sem hann sat við
gluggann í eldhúsinu á Þverá, tott-
aði pípuna og horfði athugulum
augum inn dalinn, yfir gamla
Fergusoninn, inn að Hvammshlíð-
arfjalli. Votar, ljósgrænar mýrarn-
ar inn með ánni og mosinn í hlíð-
inni. Heimalningur er fyrir utan
húsið. Uppi í hestagirðingunni eru
hestarnir hans Lalla, ljúfir og jarp-
ir eins og hann. Dýrin hændust að
honum. Hundarnir hans Lalla
höfðu svo góða reynslu af mann-
fólkinu að þeir urðu stilltir og ljúfir
og mannelskir. Börnin okkar litu
upp til frænda sem sannaði fyrir
þeim að verðmæti er hægt að meta
á marga vegu.
Lalli sagði ekki margt, en það
sem hann mælti fram var alltaf
þaulhugsað og oftar en ekki blandið
skondheitum og húmor. Þá átti
hann til að hlæja þannig að dillaði.
Á hverju sumri komum við upp í
dalinn, þar sem sumrin eru mánuði
styttri en niðurfrá við flóann. Þá
fékk frændi myndarlega klippingu
og með allskyns útlenskum ilmi.
Minntist hann þá oft á eina af fáum
ferðum sem hann fór út fyrir sýslu-
mörkin, en þá brá hann sér í utan-
landsferð sína með íslensku far-
skipi inn á Eystrasalt.
Lalli vissi alltaf hvernig myndi
viðra á morgun. Hann þekkti
veðramerki í dalnum sínum og not-
aði alls kyns tákn náttúrunnar til
þess að spá í framtíðina. Þeir
frændur Bragi og Lalli hafa ætíð
ræktað heilbrigt og fallegt fé í
harðbýlu landi. Þegar hann var
yngri hafði hann skarpa sjón. Oftar
en einu sinni benti hann okkur á
lágfótu í brekkunni handan dalsins.
Nokkrar hafði hann fellt þegar
hann verndaði stofninn sinn. Hann
var hinn dæmigerði, rammíslenski
bóndi, sem af dugnaði og þraut-
seigju orti jörðina, braut hana til
hlýðni og beitti hana búfénaði.
Hann mátti ekki vamm sitt vita.
Vildi ekki skulda neinum neitt.
Í herberginu hans uppi á lofti
voru myndir af Jóni forseta, Krist-
jáni konungi IX og önnur af fossi í
túninu heima. Þannig var heimur-
inn hans Lalla í senn fábrotinn og
einfaldur. Ekki voru gerðar kröfur
um vellystingar. Og oft var aðeins
kaffið eftir í eldhúsinu þegar leið
fram á vorið. Þá var aðeins kaffi,
tóbak og lýsi að hafa og svo Útvarp
Reykjavík meðan langbylgjan
tórði!
Seinna byggði Bragi frændi hans
af miklum dugnaði rafstöð, fjárhús
og myndarlegt íbúðarhús. Þegar
þar var komið sögu hafði Lalli
kvatt dalinn sinn og flutzt aldur-
hniginn niður á Blönduós. Þegar
við heimsóttum hann þar hvarflaði
hugurinn upp í dal; hann fylgdist
með öllum viðburðum þar og vissi
hvaða hluti túnanna hafði verið
sleginn á hverjum tíma.
Við erum sannfærð um að Lalli
er farinn á hin eilífu veiðilönd, þar
sem hríðin í Dynfjallinu er ekki
eins hörð og þar sem þoka byrgir
ekki sýn út á Sauðahnúk. Í minn-
ingu okkar lifir hið djúpa og hlýja
augnaráð góðmennisins. Bóndans
sem í sér hafði fólgið það besta í
fólkinu á Íslandi.
Guð blessi minningu Lalla á
Þverá.
Bergþóra, Þorsteinn Ingi
og fjölskylda.
Nú er komið að leiðarlokum,
Lalli minn. Þessu nafni varstu kall-
aður af þínum nánustu.
Margs er að minnast frá því er
ég sem barn og fram á unglingsárin
eyddi öllum mínum sumrum hjá
þér, afa og ömmu, þetta voru for-
réttindi að fá að vera í sveitinni á
hjá ykkur á sumrin. Við áttum oft
góðar samverustundir, oft var tekið
lagið þegar setið var aftan á trak-
tornum hjá þér, þú áttir þér nokkur
uppáhaldslög sem voru sungin aft-
ur og aftur, oftast án texta.
Þú varst alveg einstakur dýra-
vinur, allar skepnur löðuðust að
þér. Þú lagðir alltaf mikla áherslu á
að eiga góða reiðhesta, enda starf-
aðir þú líka með búskapnum við að
fara með póst, en það var ekki farið
með póstinn í bílum á milli bæja í
þá daga, heldur fórst þú á hestum
milli bæja. Nú er búið að leggja
niður alla landpósta og þeim fer óð-
um fækkandi er báru þessa nafn-
bót.
Eins var með smáfólkið og ung-
lingana, þau löðuðust að þér líka
enda fundum við hjá þér hlýju og
væntumþykju.
En það var nú aldrei langt í
stríðnina hjá þér og ef þú sást
vandræðaganginn hjá manni þá
hlóst þú mikið og hentir gaman að.
Mér er minnisstætt síðasta sum-
arið mitt hjá ykkur, er ég var að
fara heim að haustinu þá komst þú
til mín með töluverðan pening og
afhentir mér með þeim orðum að
þetta væri sumar kaupið mitt þar
sem ég hefði verið kaupakona hjá
þér þetta sumar. Það var stoltur
unglingur sem fór heim með sum-
arhýru sína það haustið. Ég veit að
þú þráðir oft seinni árin að komast
upp í dal, en vegna veikinda þinna
varð því ekki við komið, en núna,
Lalli minn, kíkir þú niður og horfir
yfir dalinn þinn. Guð blessi minn-
ingu þína.
Rakel Bessadóttir.
Aðfaranótt 1. apríl kvaddi þenn-
an heim elskulegur föðurbróðir
minn, Þorlákur Húnfjörð Guð-
laugsson. Lalli frændi, eins og hann
var kallaður af flestum í ættinni,
fæddist á Ytri-Ey í A-Húnavatns-
sýslu en fluttist síðar að Þverá í
Norðurárdal með foreldrum sínum,
Rakel Þorleif Bessadóttur og Guð-
laugi Sveinssyni.
Lalli var næstelstur sinna systk-
ina. Elst var Margrét, þá Þorlákur,
Guðrún, Bessi, Kári, Einar og
yngst er Heiðrún. Í dag eru látin:
Margrét, Þorlákur, Guðrún og
Kári.
Lífið var strangt á uppvaxtarár-
um Lalla. Ung hjón með börnin sín
7, í innsta bænum í afviknum dal.
En útsjónar- og vinnusemi ungu
hjónanna, Rakelar og Guðlaugs, yf-
irvann þá erfiðleika sem mörgum
dalabændum voru erfiðastir, það
var að hafa í sig og á. Öll urðu börn
þeirra Þverárhjóna lánsamir ein-
staklingar enda var heiðarleikinn
og virðing fyrir öllu lífi í öndvegi í
uppvexti barnanna.
Ég kynntist Lalla frænda mínum
á mínum unglingsárum. Ég var þá í
sveit hjá sæmdarhjónunum, Elsu
Geirlaugsdóttur og Friðgeiri Kemp
í Efri-Lækjardal. Þar sem sá bær
var aðeins um 12 km fjarlægð frá
afa og ömmu á Þverá voru hæg
heimatökin að koma sér á milli
staða, þau sumur sem ég dvaldi í
Lækjardal.
Frá þessum tíma hefur Lalli
frændi alltaf skipað stóran sess hjá
mér. Hann var einstaklega góður
og nærgætinn maður, lumaði að
vísu á góðlátlegri stríðni, en hann
meiddi engan, því gat maður
treyst.
Hann fór aldrei mörgum orðum
um hlutina. Fyrir kom að maður
hafði þörf fyrir að ræða eitthvað,
menn eða málefni, á þessum ung-
lingsárum og ef maður ræddi við
Lalla frænda gat maður alveg búist
við að bíða eftir svari. Svarið kom
alltaf en stundum tók tíma að vinna
úr því. Hann hvorki lagði neinum
orð í munn eða var með afdrátt-
arlausar meiningar.
Hann hafði einstaklega gaman af
því að syngja, hann kunni að vísu
enga texta, það gerði ekkert til,
hann var lagviss og ég fékk eins og
allir hinir krakkarnir, sem komu í
heimsókn í dalinn, að sitja aftan á
dráttarvélinni og síðan voru lögin
hans Lalla trölluð með mikilli inn-
lifun.
Lalli var mikill dýravinur enda
löðuðust öll dýr að honum. Þau
fundu í honum þessa miklu hlýju og
manngæsku sem prýddi þennan
elskulega mann.
Ég er þakklát fyrir að hafa feng-
ið að vera í svolitlu návígi við
frænda minn á mínum uppvaxtar-
árum. Eftir sitja verðmætar minn-
ingar um góðan dreng sem lifa
munu með okkur sem bárum þá
gæfu til að eiga með honum sam-
fylgd.
Blessuð sé minning hans.
Auður Bessadóttir.
ÞORLÁKUR
HÚNFJÖRÐ
GUÐLAUGSSON ✝ Ketill Jóhannes-son fæddist í
Borgarnesi 28. mars
1923. Hann lést á Víf-
ilsstaðaspítala 30.
mars síðastliðinn.
Foreldrar Ketils
voru Jóhannes Jóns-
son, bóndi á Lokin-
hömrum í Arnarfirði
og Magnfríður Magn-
úsdóttir Waage frá
Horni í Auðkúlu-
hreppi.
Systkini Ketils eru:
1) Guðrún Jónsdóttir.
2) Elísabet Jónsdótt-
ir. 3) Guðríður Jónsdóttir. 4) Jó-
hanna Guðnadóttir og 5) Jón
Guðnason.
Ketill ólst upp hjá móður sinni á
Þingnesi og síðar á Árbakka í
Bæjarsveit. Hann lauk prófi frá
Héraðsskólanum í
Reykholti í Borgar-
firði árið 1943. Árið
1946 veiktist Ketill
af berklum og dvaldi
af þeim sökum um
fjögurra ára skeið á
Vífilsstaðaspítala.
Ketill hóf búskap á
Árbakka ásamt móð-
ur sinni árið 1950 og
bjó þar allt til dán-
ardægurs. Ketill var
mikill áhugamaður
um brids og var einn
af stofnendum
Bridsfélags Borgar-
fjarðar. Einnig var hann í stjórn
Veiðifélags Grímsár. Ketill var
ókvæntur og barnlaus.
Útför Ketils fer fram frá Bæj-
arkirkju, Bæjarsveit, í dag klukk-
an 14.
Hluti af velferð hvers manns er
það umhverfi sem hann kynnist. Ég
hef alltaf talið mér til tekna mikla ná-
lægð við sveitina mína, þá hugsun
sem þar ríkir og þá fjölbreyttu
mannlífsflóru sem þar býr. Það
kennir manni að meta og þekkja lífið,
þar eru gleði og sorg daglegt brauð.
Það er ekki alltaf auðvelt, sérstak-
lega fyrir börnin og þá sem minna
mega sín, að skilja samspil lífs og
dauða, sáningar og uppskeru. En
fyrir þá sem vilja skilja er gott að
hafa góðan læriföður. Einhvern sem
tekur sér tíma og útskýrir á einfald-
an en um leið lifandi hátt hvernig
þetta samspil gleði og sorgar er und-
irstaða alls annars. Þannig man ég
Ketil Jóhannesson á Árbakka fyrst.
Í amstri dagsins var oft stund til að
ganga upp á bæjarhólinn á Árbakka
eða fá sér eina pípu enn í eldhúsinu í
Þingnesi, til að ræða við litla mann-
inn, fræða hann og upplýsa. Oft var
maður skilinn eftir með fleiri spurn-
ingar en svör en er það ekki einmitt
leiðin til að vekja forvitni um sjálfa
lífsgátuna? Og sú leit er endalaus.
Þegar ég nú lít til baka eftir rúm-
lega þrjátíu ára kynni af Katli á Ár-
bakka koma fram svipmyndir af
ýmsum atvikum sem ávallt hlýja í
minningunni. Ég man glögga fjár-
ræktarmanninn sem þekkti hverja
sína kind og allar hennar ættir. Ég
man aðdáun mína á manninum þegar
ég fékk að aðstoða við smala-
mennsku í Ásunum. Ég man tóninn í
röddinni þegar hann gladdist yfir
fallega framgengnu fé að hausti, en
ég man líka áhyggjurnar sem fram
komu þegar vantaði lamb. Ketill
naut virðingar sauðfjárræktar-
manna, hann var dómari á hrútasýn-
ingum, marklýsingamaður og fór
mörg haust fyrir sína sveit í Rauðs-
gilsrétt.
Ketill var bóndi sem bjó vel að
sínu, var hygginn búmaður og nýt-
inn. Hann átti aldrei drauma um
stórbúskap en hafði ágætar afurðir
af sínum skepnum. Þá nýtti hann vel
hlunnindi jarðarinnar, skaut gæs og
sinnti um silungsveiðar í Grímsá og
Hvítá. Ég á margar minningar um
veiðimanninn Ketil. Ég man vel
barnslegu kætina í andlitinu þegar
vel veiddist. Þá fékk náttúrubarnið
nauðsynlega útrás og veiðigyðjan
átti hug hans allan. Ófáar sögur
sagði Ketill mér af veiði og þróun
veiðiskapar, sérstaklega í Grímsá.
Með þeirri kynslóð sem nú er óðar að
kveðja hið jarðneska líf hverfur mikil
vitneskja og þekking um lífið og
náttúruna. Þekking sem vísinda-
mönnum framtíðarinnar gæti þótt
fengur í, því skilningur þeirra sem
lifa með og af náttúrunni er ótrúleg-
ur þó engin séu prófin. Ketill barst
ekki mikið á í félagsmálum en hann
var áhugasamur um Veiðifélag
Grímsár og Tunguár. Þar var hann
lengi í stjórn og var enn þegar hann
lést. Ketill var ágætur hestamaður
og átti alltaf góð hross. Hann fór fyr-
ir öðrum í leitum og taldi ekki eftir
sér að ganga lengstu leitina. Þá kom
sér vel að eiga Þyt og Sörla, ann-
álaða gæðinga og dugnaðarforka.
Ketill lét ekki mikið af þeim en hafði
lúmskt gaman af ef aðrir töluðu fal-
lega um þá. Ketill var einn af frum-
herjum bridge-íþróttarinnar í Borg-
arfirði. Þeirri list kynntist hann
ungur maður á Vífilsstöðum og tók
seinna að sér að miðla Borgfirðing-
um af reynslu sinni. Þá sögu segir
mér eldra fólkið í bridgefélaginu að
Ketill hafi verið naskur kennari og
gefandi enda skildi hann flestum
betur leyndardóma íþróttarinnar.
Hann hampaði mörgum titlum og
hlaut margan sigur en vænst þótti
honum um er hann og Sigurður
Magnússon urðu Vesturlandsmeist-
arar í tvímenningi. Við Ketill urðum
gjarnan samferða á spilakvöldin. Oft
máttum við berjast í ófærð og óveðr-
um, en sjaldan fann ég fyrir kvíða
eða undanslætti. Við urðum auðvitað
að spila, jafnvel þótt það tæki alla
nóttina að komast heim. Nú kveðja
bridgespilarar í Borgarfirði góðan
félaga en andi hans lifir meðal
þeirra.
En ég man Ketil ekki síst fyrir þá
sök að hann var bæði skáld og gleði-
maður. Fáa þekkti ég sem gátu
glaðst jafn innilega og þá var hann
hrókur alls fagnaðar. Minningar frá
góðum stundum í Þingnesi, á hest-
baki, við veiðar og spil geymast en
aðrar verða gleymsku að bráð. Þar
kom auðvitað í okkar samskiptum að
ég misbauð hans viðkvæmu sál en
við vorum alltaf menn til að leiða
okkar mál til farsælla lykta. Við
ræddum oft skáldskap og hér áður
var móðir mín gjarnan sú er stjórn-
aði umræðum. Þá hraut margt gull-
kornið af vörum Ketils. Vandinn var
sá að honum var heldur verr við ef
maður reyndi að læra þau. Ég hygg
að mestur hluti ljóða hans hafi geng-
ið með skapara sínum. Það er skaði,
ekki bara vegna þess að ljóðin væru
góð heldur ekki síður fyrir boðskap-
inn og hugsunarháttinn. Hann væri
mörgum framandi í dag. Ein vísa
Ketils er mér minnisstæð nú er ég
kveð hann eftir erfið veikindi:
Veturinn og veldi hans
varpa svörtum skugga.
En vorið býr í brjósti manns
þó berji hríð á glugga.
Nú hefur vorið í brjósti Ketils
fengið þá útrás sem hann þráði. Nú
er lokið barningi hinna jarðnesku
hríða og veturinn og veldi hans hafa
látið undan. Nú trúi ég að Ketill hafi
tekið gleði sína á ný í því rúmi sem
okkur jarðneskum mönnum er
ókunnugt. Um leið og ég votta að-
standendum samúð mína bið ég Guð
að blessa minningu Ketils Jóhann-
essonar á Árbakka.
Sveinbjörn Eyjólfsson.
Af eilífðar ljósi bjarma ber,
sem brautina þungu greiðir.
Vort líf, sem svo stutt og stopult er,
það stefnir á æðri leiðir.
Og upphiminn fegri’en auga sér
mót öllum oss faðminn breiðir.
(Einar Ben.)
Nú þegar leiðir skilur viljum við
þakka Katli frænda okkar samfylgd-
ina í gegnum árin. Blessuð sé minn-
ing hans.
Jón Atli, Rósa og börn.
KETILL
JÓHANNESSON