Morgunblaðið - 15.07.2001, Side 26
26 SUNNUDAGUR 15. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN á Íslandi umaukna hófsemi í veiði-skap er ekki margra áragömul, en með minnk-andi laxveiði í íslenskum
ám síðustu sumur hefur nýtt viðhorf
verið að sækja í sig veðrið. Meiri hóf-
semd í veiðiskap og þeir sem lengst
vilja ganga vilja alfarið sleppa öllum
veiddum fiski, segja Íslendinga ekki
lengur þurfa að veiða sér í matinn.
Miklu betra hráefni fáist úti í búð. En
Pálmi, sem veitt hefur frá blautu
barnsbeini, hefur farið í gegn um allt
litrófið sem stangaveiðimaður. Hann
segir:
„Ég hef farið í gegn um þetta allt
saman, staðið uppi örmagna að kvöldi
dags eftir mokveiði þar sem ekki
mátti slaka á klónni. Verið upp fyrir
haus í aðgerð við heimkomuna. Þetta
var allt óskaplega gaman þangað til
að maður fór að átta sig á hlutunum
og þroskast. Í rauninni átti ég auðvelt
með að draga saman seglin, því ég var
pínulítill þegar ég fékk þetta hóf-
semdarviðhorf að gjöf frá móður
minni sem polli austur á Vopnafirði.
Þá fór ég á kreik og kom heim með
stórar kippur af silungi. Móðir mín
tók stráknum auðvitað vel og hældi
mér fyrir afrekin. Maður var jú að
draga björg í bú. En svo læddi hún
því afar varlega og kurteislega að
mér hvort ég vildi ekki koma með
færri fiska næst. Þetta var fyrir tíma
frystikista og skilaboðin voru, það er
alltaf hægt að fara aftur og sækja
meira. Í dag veiði ég eins og ég get og
ég tek mér fisk í soðið, en hirði ekkert
umfram það,“ segir Pálmi.
Niðurlæging stofnanna
Lax er veiddur og honum sleppt í
Vatnsdalsá og erlendir veiðimenn
gera slíkt mun víðar í ám landsins.
Hópur íslenskra veiðimanna hefur og
tileinkað sér þessa nýlundu og annar
hópur lætur sig einnig málið varða og
hirðir lax í hófi og sleppir afgangin-
um. Það er hins vegar alger nýlunda
sem Pálmi stendur nú fyrir, að bjóða
veiðimönnum í silungsveiði þar sem
veitt er og sleppt. Í Litluá í Keldu-
hverfi er öllum fiski sleppt en í
Brunná í Öxarfirði er sjóbirtingi
sleppt, en þar mega menn þó hirða
eitthvað af bleikju.
„Ég vil að það komi fram að þetta
er ekki fanatíkin einsömul, menn
mega taka sér fisk í soðið í þeim ám
þar sem ég hef leiguréttindi. Ég geri
það sjálfur og finnst fátt betra en að
koma heim með afla og njóta hans,“
skýtur Pálmi inn í. Hann er spurður
hvort íslenskir veiðimenn muni
kyngja því að veiða-sleppa í silungs-
veiðiám. Hann svarar:
„Ég býst við því að einhverjir séu
ekki sáttir við þetta, en þeir fara þá
bara eitthvert annað. Aðrir taka
þessu vel og þau holl sem hafa t.d.
verið hjá mér í vorveiðinni í Litluá
munu flest eða öll ætla að koma aftur.
Það veiddust einhverjir þúsund sjó-
birtingar og það er mikilvægt fyrir þá
sem seinna koma, að ekki sé búið að
drepa allt saman. Sjóbirtingur tekur
oft vel á vorin og það er auðvelt að
veiða beinlínis upp það sem er af fiski.
Það er ekki gott fyrir stofninn og ekki
gott fyrir veiðimenn.
Annars er þetta ekki komið til af
engu. Á seinni árum höfum við öll orð-
ið vitni af þeirri niðurlægingu stofn-
anna sem orðið hefur um allan heim.
Allra síðustu árin höfum við fengið
þetta hingað til okkar, við erum að
missa niður veiðitölur, missa niður
meðalþyngd og allan tímann er verið
að auka álagið á árnar. Það þarf að
andæfa og það ætla ég að gera á
þennan eðlilega hátt.“
Margir halda því fram að það skaði
lax og sjóbirting að handfjatla hann
við sleppingu og hann verði ekki sam-
ur eftir, drepist jafnvel...
„Það er fullkomið rugl og sprottið
frá mönnum sem hafa ekki sett sig al-
mennilega inn í málið og eru með for-
dóma. Þú ruddar fiski ekki upp í sand
og grjót og hreinsar af honum
hreistrið. Nýgenginn fiskur er vissu-
lega viðkvæmur hvað þetta varðar, en
maður leiðir fiskinn að sér í vatninu
og losar úr honum í vatni. Leyfir hon-
um síðan að ná áttum og svo er hann
farinn. Þetta sem þú nefndir eru bara
hártoganir með hluti. Menn hafa ver-
ið að deila á mig og sagt mig vera að
predika, en ég lít ekki þannig á málið.
Þetta er fyrir mér rétta leiðin til að
snúa þróuninni við. Sum svæði eru í
þannig ástandi að það verður að taka
þau föstum tökum.“
Tilraun í Litluá
Eins og t.d. Litlaá?
„Já, til dæmis Litlaá. Hún hefur
verið í niðursveiflu í þó nokkur ár, en
alltaf verið veiddir og drepnir einhver
hundruð sjóbirtinga í byrjun júní. Við
opnuðum hana í maí og stunduðum
hana mátulega. Það komu um þúsund
fiskar á land og nær öllum var sleppt.
Þessi fiskur fær því að ganga til sjáv-
ar og fita sig og stækka.
Litlaá er í mínum huga skemmtileg
tilraun. Mig langar einhvern tíma til
að takast á við 25 punda sjóbirting.
Urriði verður mjög gamall og 25
punda birtingar finnast þar sem þeir
fá næði til að vaxa. Það eru fyrir-
myndir þar sem eru þekktar sjóbirt-
ingsár í Argentínu. Í þeim var veiði
orðin lítil, eða þar til að menn breyttu
um og fóru að sleppa sjóbirtingi.
Smátt og smátt kom hann upp aftur
og nú veiðist fjöldi 10 til 20 punda
birtinga á hverri vertíð þar niður frá.
Litlaá hefur alla burði til að viðhalda
svona stofni og hún er fræg fyrir sína
stóru birtinga. Hér á árum áður
veiddust í henni 15 til 20 punda fiskar
á hverju ári. Slíkt er orðið sjaldgæft
núna.
Jóhannes Sturlaugsson fiskifræð-
ingur hjá Veiðimálastofnun hefur
verið með mér við Litluá og hann hef-
ur sagt mér að urriðinn í henni sé
nánast Íslandsmeistari í háum holda-
stuðli. Áin er svo rík frá náttúrunnar
hendi að silungurinn er í allsnægtum,
mikið af hornsíli og grasserandi líf-
ríki. Fiskurinn í ánni endurspeglar
þetta þannig að hér eru kjörskilyrði
til að reyna það sem menn hafa reynt
og gert í Argentínu. Ef það er hægt
þar, þá er það hægt hér.“
Menn eru ekki þó að veiða og
sleppa í öllum þínum ám?
„Nei, þetta er þannig að þessa
reglu hef ég í mínum ám þar sem það
á við. Það á við í Litluá og það á líka
við í Reykjadalsá í Reykjadal sem ég
hef nýlega tekið á leigu. Veiðin í þess-
ari fallegu viðkvæmu laxveiðiá hefur
farið niður á við síðustu árin og eitt-
hvað þarf að gera til að sporna við
þeirri þróun. Hins vegar má benda á
að meðalveiði í ánni eru um 250 fiskar
frá því menn fóru að færa skrár yfir
veiði og þegar best lét þá fór áin í
tæplega 700 laxa. Í Brunná í Öxarfirði
er sjóbirtingur og sjóbleikja. Lítið er
vitað um birtinginn enn sem komið er
og mun honum verða sleppt meðan
ekki liggur fyrir í hvernig ástandi
stofninn er. Góð bleikjuveiði er í
Brunná og fiskurinn vænn. Þar verð-
ur veiðimönnum leyft að taka sér
nokkra fiska í soðið. Síðan er ég með
Lónsá í Þistilfirði í slagtogi með vopn-
firskum vinum mínum. Það er falleg
lítil sjóbleikjuá rétt fyrir norðan
Þórshöfn á Langanesi. Sjóbleikjan
virðist vera sú tegund sem sterkast
stendur af íslensku ferskvatns-
tegundunum og ekki ástæða til að
setja hömlur á afla manna þegar hún
er annars vegar. Stofninn virðist þola
töluverða veiði og það er mikið af sjó-
bleikju þar sem hún ræður ríkjum á
annað borð.“
Íslenska fluguveiðiþjónustan
Pálmi og fjölskylda hans hafa
stofnað Íslensku fluguveiðiþjón-
ustuna sem senn opnar heimasíðu
með slóðina www.tiffs.is. Skammstöf-
unin er úr enska heiti fyrirtækisins,
The Icelandic Fly Fishing Service,
sem bendir til að hann ætli að róa á
mið erlendra veiðimanna.
„Já, það er rétt, alveg eins og ekki
síður, í bland við innlenda veiðimenn.
Það er fullt af fluguveiðisnillingum úti
í heimi sem hafa áhuga á fínni silungs-
veiði. Ég hef komið mér upp mörgum
góðum samböndum í gegn um tíðina.“
Þykir íslenskum veiðimönnum ekki
langt að sækja Kelduhverfi og Þist-
ilfjörð af höfuðborgarsvæðinu?
„Þeir sem sitja fastir í þeirri hugs-
un eiga bara að halda sig við Elliða-
vatnið og allt í lagi með það. En þegar
þetta kemur upp bendi ég mönnum á
að það eru ekki nema fjórir tímar í bíl
til Akureyrar og ef menn teygja úr
skönkunum þar er ekki nema ein og
hálf klukkustund í Kelduhverfið og
við það geturðu bætt kannski rúmum
klukkutíma yfir í Þistilfjörð. Til dæm-
is bý ég fyrir norðan og læt mig ekki
muna um að skreppa nokkrar ferðir á
ári á Kirkjubæjarklaustur og verð
aldrei var við vegalengdina. Persónu-
lega eykur það á ævintýrið hjá mér ef
ég þarf að fara í framandi landshluta
til að komast í spennandi ár.“
Það er fallegt við Brunná í Öxarfirði.
Morgunblaðið/Friðþjófur HelgasonStemmningsmynd frá Litluá.
Jóhannes Sturlaugsson merkir spikfeitan Litluárbirting.
Pálmi Gunnarsson mundar flugustöngina.
Tveir flottir úr Litluá í Kelduhverfi.
Pálmi tekur
skrefið áfram
Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður hefur haslað sér
völl sem dagskrárgerðarmaður fyrir sjónvarp hin
seinni ár og einbeitt sér að megináhugamáli sínu,
fluguveiði. Nú tekur hann skrefið áfram, tekur
hverja ána af annarri á leigu og innleiðir hið
umdeilda fyrirbæri veiða-sleppa. Guðmundur
Guðjónsson hitti Pálma á dögunum og ræddi við
hann um þennan hluta tilverunnar.
gudm@mbl.is