Morgunblaðið - 08.02.2002, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 08.02.2002, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 FÖSTUDAGUR 8. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Anna BergþóraMagnúsdóttir fæddist á Sæbóli í Aðalvík 7. júní 1914. Hún lést á Heilbrigð- isstofnun Suðurnesja 31. janúar síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar voru Guðný Sveinsdóttir, f. á Gili í Svartárdal 14. júlí 1882, d. 25. janúar 1981, og Magnús Dósóþeusson, f. í Görðum í Aðalvík 20. ágúst 1879, d. 15. desember 1924. Hún var fjórða elsta í sjö systra hópi. Þær voru í réttri röð: Þórunn, Margrét, Sigríður, Bergþóra, Hrefna, Svava og Þorbjörg. Lifði Bergþóra allar systur sínar. Berg- þóra fór alfarin frá Aðalvík til Ísa- fjarðar 19 ára gömul og vann á Sjúkrahúsi Ísafjarðar næstu fjög- ur árin. Hún flutti til Reykjavíkur 1937 og vann á Elliheimilinu Grund í sex ár. Um áramót 1943– 1944 réðst hún sem ráðskona hjá sjómönnum í Keflavík þar sem hún kynntist mannsefninu sínu, Torfa Helga Gíslasyni, f. 22. mars 1920, d. 15. mars 1992. Þau hófu búskap og fluttu til Eyrarbakka og bjuggu þar næstu tvö árin. Ár- ið 1947 fluttu þau svo til Keflavík- ur og bjuggu þar þar til Torfi lést 1992. Þeim varð tveggja sona auðið. 1) Magnús Trausti, f. 25. feb. 1945. Kona hans er Kristín Helgadóttir, f. 2. maí 1962. Þau eiga dæt- urnar Áslaugu, f. 27. maí 1988, og Mar- gréti, f. 22. mars 1990. Með fyrri konu sinni Sigrúnu Axels- dóttur, f. 14. apríl 1947, á Magnús Önnu Láru, f. 10. apríl 1972. Maður Önnu Láru er Hall- dór Friðrik Þorsteinsson. Þau eiga soninn Magnús Friðrik. Fyrir átti Halldór soninn Þorstein. 2) Gísli, f. 10. júlí 1954. Kona hans er Sumarrós Sigurðardóttir, f. 22. febrúar 1953. Þau eiga soninn Torfa Sigurbjörn, f. 16. maí 1985. Bergþóra vann stóran hluta æv- innar utan heimilis auk þess að sinna húsmóðurstörfum. Eftir að Torfi maður hennar lést bjó hún um stund í húsinu, sem þau hjónin höfðu reist sér á yngri árum. Fyr- ir fjórum árum flutti hún að Hlév- angi, heimili fyrir aldraða, en þá var heilsu hennar tekið að hraka mjög. Útför hennar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Það er með miklum söknuði sem ég kveð ástkæra tengdamóður mína, Önnu Bergþóru Magnúsdóttur. Margar minningar koma upp í hug- ann við fráfall hennar og verða orð lítils virði miðað við alla hennar kosti. Það er samt huggun harmi gegn að Begga, eins og hún var alltaf kölluð, átti að baki langt og gott líf. Hún hefði orðið 88 ára 7. júní nk. Þrátt fyrir háan aldur var Begga samt mjög vel með á nótunum, sannkölluð nútímakona á margan hátt. Hún fylgdist vel með öllum fréttum, vissi nákvæmlega allt sem var að gerast og las allar þær bækur sem hún komst yfir. Ég get aldrei fullþakkað henni hvað hún tók mér strax vel þegar Magnús, sonur hennar, kynnti mig fyrir henni. Ég var mjög kvíðin að hitta hana í fyrsta sinn, eins og gefur að skilja, en hún lét mér strax líða vel í návist sinni. Alltaf var jafngaman að koma á Hafnargötuna og gestrisni hennar var einstök. Hún stjanaði við okkur eins og hún gat og það dugði lítið að segja henni að setjast og slaka á. Alltaf hugsaði hún fyrst um aðra áður en hún hugsaði um sjálfa sig. Af því að hún og Torfi bjuggu í Keflavík, komu þau oft og gistu hjá okkur Magnúsi inni í Reykjavík. Þeg- ar eldri dóttir okkar fæddist komu þau alltaf reglulega og gistu í nokkra daga. Ekki var hægt að hugsa sér betri næturgesti. Þau voru svo þakk- lát fyrir allt og hrósaði hún mér alltaf fyrir matargerðina, sem mér þótti af- ar vænt um. Einnig stóð hún yfirleitt með mér ef einhver ágreiningur kom upp á milli mín og Magnúsar. Hún var einstök tengdamóðir, skipti sér aldrei af nema hún væri spurð ráða og einstök amma sem naut þess virkilega að vera með barnabörnun- um. Hún var mjög skemmtileg kona sem naut þess að lifa lífinu eins og hún gat. Hún var mikið fyrir það að spila og spjalla yfir kaffibolla, ófáar stundirnar sátum við tvær hérna niðri í eldhúsi og spjölluðum saman um heima og geima, langt fram eftir kvöldi. Með okkur tókst góð vinátta sem aldrei bar skugga á. Mjög gott var að leita ráða hjá Beggu. Kom maður aldrei að tómum kofunum þar. Hún var einstaklega góð við dætur mínar, og þakka ég henni fyrir það. Hún hafði góða kímnigáfu og gat allt- af séð björtu hliðarnar á öllu. Aldrei talaði hún illa um nokkurn mann og tók alltaf upp hanskann fyrir þann sem minna mátti sín. Glaðvær var hún, lítillát og hlédræg, en samt vissi maður af henni. Mikla virðingu ber ég fyrir henni, mikil reisn var yfir henni allt fram í dauðann. Hún var vitur kona sem vissi að hverju dró, en tók því með æðruleysi eins og öðru í lífinu. Vildi ég óska þess að fá að eld- ast eins og hún, virðuleg, góð, og teinrétt í baki. Takk fyrir allt, elsku Begga mín. Þín Kristín. Ég sá hana fyrst á áttunda ára- tugnum. Hún var dökk á brún og brá og mér fannst augnaráðið athugult. Úr því mátti lesa ,, Jahérna! Ekki bjóst ég við þessu!“ Þetta var daginn sem Gísli minn kynnti mig fyrir foreldrum sínum. Þau tóku mér vel Torfi og Berg- þóra. Hann með innilegu brosi frá fyrstu stundu, hún aðeins varkárari til að byrja með. Það er án efa alltaf svona með mæður, það tekur þær alltaf lengri tíma en feðurna að sam- þykkja kærusturnar og kærastana. Langur tími er liðinn síðan þá og samskipti okkar hafa ávallt verið með besta móti. Hún var frá Aðalvík á Hornströnd- um og trú sínum rótum. Hún var fjórða í röð sjö systra, dætra hjónanna Guðnýjar Sveinsdóttur og Magnúsar Dósóþeussonar. Hún missti föður sinn í sjóslysi 10 ára gömul og eftir stóð móðirin ein með dæturnar sjö, á aldrinum 2ja til 18 ára. Erfiður tími í lífi fjölskyldunnar í litla húsinu á Sæbóli gekk í hönd. Stolt gekk Guðný á vit framtíðarinn- ar ákveðin í að koma öllum dætrum sínum til manns. Þær elstu studdu móður sína eftir bestu getu, oft með vinnuskiptum og allt hafðist þetta með samvinnu mæðgnanna og ekki síst með einurð húsfreyju. Föðurmissirinn var Bergþóru þungbær og talaði hún alltaf um þessa atburði með miklum tilfinn- ingaþunga. Jólin 1924 voru dapurleg á Sæbóli og það var eins og skuggi þeirra jóla læddist alltaf að henni á aðventu ár hvert mitt í allri eftir- væntingunni eftir jólunum. Sem unga stúlku langaði hana til að mennta sig en efni og aðstæður gáfu ekki færi á slíku. Hún hefði ef- laust valið hjúkrunarnám eða eitt- hvert annað umönnunarnám því henni var einkar lagið að hjúkra sjúkum. Ég sé hana einnig fyrir mér í einhverju félagsmálavafstri því hún verkaði eins og segull á þá sem minna máttu sín. Þeir áttu kaffisop- ann vísann í eldhúskróknum hjá henni. Manninum sínum Torfa Helga Gíslasyni kynntist Bergþóra 1943 og hófu þau búskap árið eftir. Þarna hófst nýtt skeið í lífi Bergþóru, ham- ingjutími sem gat af sér tvo syni, mikla augasteina foreldra sinna. Torfi og Bergþóra voru um margt ólík en velferð sonanna og þeirra fjöl- skyldna var það sem skipti þau mestu máli og sameinaði þau. Þau voru hamingjusamlega gift í tæp 50 ár, þótt auðvitað skiptust á skin og skúrir í lífinu eins og gengur. Mikið heilsuleysi hrjáði þau bæði, þá sér- staklega eftir miðjan aldur og var það oft að annað þeirra flutti hitt fár- veikt á sjúkrahús. Bergþóra lifði mann sinn í tæp 10 ár. Margs er að minnast og margt er að þakka. Upp úr standa góðar minn- ingar. Minningin um það þegar við bökuðum til jólanna Svava, Begga og ég. Begga útskrifaði mig seint og síð- ar meir í ,, Ömmu Beggu brúntertu“ eftir margra aðventna tilþrif. Minningin um öll góðu samtölin þar sem skiptst var á skoðunum og stundum deilt, en þó aldrei alvarlega. Minningin um alla væntumþykj- una, pössunina og umhyggjuna fyrir ömmu- og afastráknum. Minningin um ferðalögin sem voru farin saman. Minningin um öll aðfangadags- kvöldin á Mávabrautinni og í Lágmó- anum þegar helgi jólanna varð engu lík og kærleikurinn tók sér rúm í allra hjörtum. Minningin um stuðninginn við ótalmargt og virðinguna fyrir mann- gildinu. Síðasta aðfangadagskvöld verður einkar mikilvægt í sjóði minning- anna. Hún Begga hafði safnað allri þeirri orku sem hún átti til að geta verið með okkur það kvöld. Við Gísli horfðumst í augu og hugsuðum það sama. Við vildum njóta augnabliksins og leyfðum okkur að vona að tíminn stæði í stað, lengi, lengi. Það vantaði bara afa Torfa. Hjá okkur sátu sonur okkar, mæður okkar og kær frænka. Augnablikið var engu líkt og töfrum slegið. Það var ekki hægt að fara fram á meira og fyrir það ber að þakka. Sætið hans afa Torfa hefur verið autt við jólaborðið í 10 ár og víst er að ömmu Beggu verður sárt sakn- að um næstu jól. Hún fór sátt. Þegar hún leit um öxl sá hún að hún átti að baki gott líf. Hún skildi eftir sig góða afkomendur sem allir eru gott fólk. Fyrir henni átti að liggja að horfa á eftir mörgum kærum vinum úr þessu lífi. Hún lifði allar systur sínar og það var eins og lífsneistinn slokknaði þegar hún fylgdi yngstu systur sinni og bestu vinkonu til grafar fyrir tæpum tveim- ur árum. Skömmu fyrir andlátið ræddum við lífið eftir dauðann. Við veltum fyrir okkur hvernig þetta væri nú hinum megin. Ég trúi því að hún sé nú komin til lands eilífðarinn- ar þar sem ljósið umlykur hana. Góð- ur maður lét þau orð falla er hann frétti af andláti hennar: ,,Nú eru systurnar á kaffihúsakvöldi.“ Ég tek undir orð hans og veit að afi Torfi er ekki langt undan heldur. Ég kveð tengdamóður mína með söknuði og kæru þakklæti fyrir allt. Veri hún Guði falin. Rósa. Nú er elsku amma Begga mín dá- in. Mér brá verulega þegar mér var tilkynnt hvað hún væri orðin mikið veik og ætti ekki langt eftir. Ég varð mjög áhyggjufull yfir því að eiga kannski ekki eftir að sjá hana aftur á lífi, þar sem ég er búsett erlendis. Ég gat ekki hugsað mér það og dreif mig og 2 ára gamlan son minn í flug sama dag og komst til ömmu í tæka tíð. Hún lést svo þremur sólarhringum síðar. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa komist til hennar, hitt hana með góðri meðvitund og getað sagt henni hvað mér þætti vænt um hana. Einn- ig fyrir þessar dýrmætu síðustu klukkustundir sem ég átti með henni á sjúkrahúsinu ásamt pabba og Gísla frænda hennar síðustu nótt og allt þangað til hún kvaddi okkur. Því gleymi ég aldrei. Magnús litli sonur minn skildi auð- vitað ekki mikið hvað var að gerast, en margoft leit hann á mig þar sem við sátum í flugvélinni á leiðinni til Ís- lands og sagði: „Amma Begga er með hita, amma Begga er veik.“ Ég er svo ánægð hvað hann var góður við lang- ömmu sína þegar hann sá hana í síð- asta sinn. Hann hélt í höndina á henni, kyssti hana á ennið og sagði: „Bless amma mín.“ Ég veit að þetta var mjög dýrmætt fyrir ömmu og ekki síður fyrir mig að langömmu- barnið hennar, svona lítill snáði, tæki henni svona vel. Ég er svo lánsöm að hafa átt þessa yndislegu konu fyrir ömmu og hvað hún átti stóran þátt í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er. Allt frá því að kenna mér nytsamleg verk eins og að strauja, vaska upp og síðan biðja bænir og til þess að vera mér trúnaðarvinkona og gefa mér góð ráð sem unglingur og fullorðin kona. Það var alltaf svo gott að tala við ömmu, hún var svo fróð, skynsöm og hlý. Mér fannst alltaf best þegar við vor- um bara tvær saman því þá spjöll- uðum við alltaf dýpra en um hvers- dagslega hluti. Sérstaklega var það gott þegar við sátum saman hlið við hlið og hún tók höndina á mér í lófa sinn og lagði svo hinn lófann sinn yfir og klappaði mér á handarbakið. Þá fannst mér ég vera svo örugg og ég hugsaði oft að amma hlyti að vera með bestu hendur í heimi. Ég á ótal margar minningar um góða tíma með ömmu. Sem barn og unglingur var ég alltaf með annan fótinn í Keflavík hjá þeim ömmu og afa. Þar leið aldrei sú heimsókn að ekki væru bakaðar pönnukökur, spil- aður manni og spjallað fram á rauða nótt. Hún þreyttist aldrei á að segja mér sögur og sérstaklega höfðum við báðar gaman af því þegar hún sagði sögur af þeim systrunum frá upp- vaxtarárum þeirra í Aðalvík. Við ferðuðumst þó nokkuð saman, fórum meðal annars til útlanda tvisvar sinn- um þegar ég var barn, ásamt pabba og afa. Ein ferð situr þó ofarlega í huga mér og það var tveggja nátta dvölin okkar á Edduhótelinu á Laug- arvatni fyrir nokkrum árum. Við vor- um bara tvær og skemmtum okkur konunglega. Afi Torfi hafði þá dáið ekki löngu áður og mig langaði að gera eitthvað skemmtilegt fyrir ömmu. Annar minnisstæður tími fyr- ir mér er þegar hún kom ein í flugi til okkar til Lúxemborgar þegar við fjölskyldan bjuggum þar. Það eru ekki nema rúm þrjú ár síðan. Hún var svo dugleg og jákvæð og veigraði ekki fyrir sér að koma til okkar alla þessa leið, orðin gömul kona. Hún var glæsileg kona sem bar sig vel og talaði fallegt mál. Hún var mjög fjölfróð, ráðagóð og einstaklega jákvæð og skynsöm. Hún var alltaf lítillát hvað varðaði hana sjálfa, en það er einmitt eitt af því sem gerði hana svo stóra. Ég kveð elsku ömmu mína og vin- konu með þakklæti fyrir vinskapinn og allt sem hún hefur gert fyrir mig sem er meira en ég held að hana hafi nokkurn tímann grunað. Ég er stolt yfir að hafa átt hana sem ömmu og mun sakna hennar innilega. Guð varðveiti elsku ömmu mína. Anna Lára. Amma Begga er dáin. Það er svo skrýtið að hugsa að ég eigi aldrei eft- ir að sjá hana eða tala við hana aftur. Hún var alltaf svo góð við mig, Önnu Láru, Torfa og Margréti. Hún var alltaf til í að spila við okkur eða stúss- ast eitthvað með okkur. Ég og amma vorum alltaf að spila Marías. Það var það skemmtilegasta sem ég gerði. Einu sinni á ári var alltaf ömmu- helgi. Þá fórum við frændsystkinin til Keflavíkur og gistum hjá ömmu eina helgi. Þá héldum ég, Torfi og Magga oft tískusýningu í fötunum hennar ömmu fyrir hana og Önnu Láru. Hún leyfði okkur oft að hjálpa sér að búa til pönnukökur. Alltaf þegar við kom- um til hennar á Hafnargötuna gaf hún okkur eitthvað gott. Elsku amma, ég sakna þín svo mikið, en núna ertu komin til afa Torfa, Góu og foreldra þinna, og þér líður vel núna. Mér þykir svo vænt um þig. Þín Ása. Elsku amma mín. Nú ert þú farin til afa og Láru, Kristbjargar og Hrefnu. Ég sakna þín mjög sárt. Þú varst alltaf svo góð og skemmtileg við mig og Ásu og þú varst alltaf að leika við mig og Ásu. Þú nenntir allt- af að spila, og einu sinni man ég eftir því þegar við sátum inni í eldhúsi og þú gerðir allt hárið á mér að slöngu- lokkum bara með höndunum. Þú varst líka svo dugleg að prjóna og varst alltaf að prjóna vettlinga eða eitthvað handa okkur. Svo var nú líka gaman að fíflast með þér eins og þeg- ar við bjuggum okkur til gervitennur úr appelsínuberki. Það var líka gam- an um ömmuhelgar þegar við barna- börnin hittumst öll, ég, Ása, Anna Lára og Torfi, og ég man þegar við Ása, Torfi og ég fengum að halda tískusýningu fyrir þig og Önnu Láru úr öllum fötunum þínum. Og einu skiptin sem ég bjó til pönnukökur var með þér og einu sinni bjóst þú til handa okkur barbí-pönnukökur með glösum. Það var líka alltaf svo gaman að koma í Hafnargötu 74, þú varst alltaf tilbúin með kökur og eitthvað gott handa okkur og svo þegar þú fórst á elliheimilið kallaði ég samt Hafnargötu 74 ömmuhús og Keflavík mun alltaf líka vera Ömmuvík. Svo varst þú svo gáfuð og þú mundir alltaf allt og kunnir allt. Ég man líka eftir því að þegar við kom- um upp á elliheimili sagðir þú stund- um við mig: „Hvað segirðu nú gott manga langa með svartan vanga.“ Ég hef alltaf bara átt þig sem ömmu því að amma Áslaug dó áður en ég fæddist en það var alveg nóg, þú varst svo góð að það var meira en nóg. Þó að einhver hefði átt kannski 50 ömmur þá hefði verið alveg nóg að hafa þig, þú varst og ert og verður alltaf besta amma í heimi. Þegar þú varst inni á spítala vildi ég óska þess að þú hefðir bara opnað augun og sagt „allt í plati“ og svo hefðum við öll hlegið, en lífið heldur áfram. Í næst- síðasta skipti sem ég sá þig opnaðir þú augun og brostir til mín. Elsku amma, þegar ég verð stór vil ég vera eins og þú. Ég elska þig. Þín Margrét. Þótt kynni mín af Önnu Bergþóru Magnúsdóttur hafi ekki verið löng í árum talið voru þau að sama skapi af- ar hugstæð. Að frátöldu því að til- heyra kynslóð sem undirritaður legg- ur jafnan hlustirnar við af meiri alúð en vanalega bar Begga með sér frá fyrsta handtaki þennan ólýsanlega andblæ sem stafar frá góðu og gegnu fólki. Og þegar hún sagði skoðanir sínar duldist manni ekki, að ekki að- eins var hjartaþelið hlýtt heldur var hugurinn beittur. Fáa hef ég heyrt mæla betur og þarfar en Beggu. Auð- vitað var það mál öldungis látlaust eins og hún var sjálf. En hvert orð var meitlað, líkt og klappað í vest- firskt berg, svo unun var á að hlusta. Svo hafði hún þetta skemmtilega skopskyn sem fjörgar allar frásagnir til muna. Gaman var að þýfga hana um uppvaxtarárin á Sæbóli í Aðalvík og hvernig lífið æxlaðist á þeim fal- lega útkjálkastað þar sem gjöful náttúran en óblíð öfl hennar skiptu skini og skuggum. Þá var áhrifaríkt að hlusta á frásögnina af því þegar fiskibátur föður hennar skilaði sér ekki úr róðri um jólaleytið 1924 og systraskarinn fríði og móðirin, Guðný Sveinsdóttir, biðu fregna milli vonar og ótta. Þau voru eflaust þung sporin prestsins sem flutti hin válegu tíðindi. Það grillti síðan í pólitíkina hjá Beggu þegar maður færði talið inn á Ísafjörð enda var plássið á þeim tíma eitt af höfuðvígjum þjóðmála- baráttunnar á Íslandi. Og svo talaði hún ætíð af stolti um fjölskyldu sína og syni í Keflavík sem hún hafði sam- glaðst svo oft í sigrum þeirra á íþróttavellinum. Með Önnu Bergþóru fækkar enn í þeirri kynslóð sem gefið hefur okkur afkomendum drjúgt veganesti. Hennar kynslóð lagði grunninn að því velsældarþjóðfélagi sem við nú njótum og hún gaf okkur líka sitt far- sæla gildismat sem sumir segja að leysi flest mannleg vandamál, jafnvel sjálfa lífsgátuna ef út í það er farið. Hún Begga mín á mikla þökk skilið fyrir sinn skerf. Og hann var stærri en hún vissi. Halldór Friðrik Þorsteinsson. ANNA BERGÞÓRA MAGNÚSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Önnu Bergþóru Magnúsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.