Morgunblaðið - 09.02.2002, Side 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 9. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
SAMKOMULAG hefur tekist um að Þengill
Oddsson, trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar,
komi aftur til starfa. Í yfirlýsingu frá Flug-
málastjórn kemur fram að Þengill beri fullt
traust yfirstjórnar hennar.
Við endurkomuna hafi flugmálastjóri áminnt
hann og lögmann stofnunarinnar. Sömuleiðis
gerði flugmálastjóri athugasemdir við aðra þá
starfsmenn stofnunarinnar, sem komu að hin-
um umdeildu ákvörðunum sem urðu til þess að
Þengill vék tímabundið frá störfum. Brýndi
hann fyrir þeim að gæta sérstaklega að réttri
stjórnsýsluframkvæmd í störfum sínum. Var í
því sambandi vísað til skýrslu úttektarnefndar
þeirrar sem samgönguráðherra skipaði til að
fjalla um málið. Flugmálastjóri lagði fyrir hlut-
aðeigandi að fylgja niðurstöðum nefndarinnar í
hvívetna. Þá hefur flugmálastjóri skipað vinnu-
hóp, sem á að fara yfir verkferli og verklags-
reglur í skírteinadeild stofnunarinnar, þ.m.t.
heilbrigðisskor, til að tryggja framgang fyrr-
greindra fyrirmæla og vandaða stjórnsýslu-
hætti.
Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi
Flugmálastjórnar, sagði aðspurður að um væri
að ræða bréflega áminningu til Þengils og lög-
manns Flugmálastjórnar.
Heimir sagði að Flugmálastjórn áformaði að
ráða annan fluglækni við hlið Þengils. Hann
sagði að það ástand sem skapast hefði á síðustu
vikum sýndi að Flugmálastjórn gæti ekki verið
læknislaus ef læknir forfallaðist af einhverjum
orsökum. Eins hefði flugmönnum fjölgað og
þjónusta við þá hefði verið að aukast. Það væri
því þörf á að ráða annan trúnaðarlækni við hlið
Þengils.
Sjö vikur eru síðan Þengli var vikið tíma-
bundið frá störfum. Heimir sagði að nokkur
mál biðu afgreiðslu hjá Flugmálastjórn af þess-
um sökum. Aðallega væri um að ræða flugmenn
sem væru að fá skírteini í fyrsta skipti, en ein-
ungis trúnaðarlæknir má afgreiða mál þeirra.
A.m.k. einu máli sem ekki þoldi bið var vísað til
Flugmálastjórnar Danmerkur til afgreiðslu.
Kaus að líta á nefndarálitið
sem leiðbeiningar
Helgi Jóhannesson, lögmaður Þengils Odds-
sonar, sagði að Þengill væri búinn að vera að
byggja upp þetta JAA-kerfi á Íslandi sl. fimm
ár og honum væri umhugað að halda þessari
uppbyggingu áfram. Hann hefði unnið eftir
þessu kerfi og myndi gera það áfram. Þengill
hefði tekið þá afstöðu að líta á nefndarálit út-
tektarnefndarinnar sem leiðbeiningar um það
sem betur mætti fara. Það væri kominn tími til
að binda enda á deilur sem staðið hefðu um
þetta mál. Hann vildi nota tækifærið, sem
nefndarálitið gæfi, til að sníða af þá agnúa sem
kynnu að vera á verklagi sem viðhaft hefði ver-
ið.
Helgi sagði að Þengill hefði að sjálfsögðu átt
þann kost að fara í hart vegna þessa máls. Það
hefðu mörg stór orð fallið í málinu sem sum
hver hefðu gefið tilefni til viðbragða af hans
hálfu.
„Þengill hefur ávallt í sínum störfum unnið af
heiðarleika og ábyrgðartilfinningu gagnvart
sínu starfi og þessi niðurstaða núna er unnin á
þeim forsendum,“ sagði Helgi.
Kemur á óvart segir
formaður FÍA
Franz Ploder, formaður Félags íslenskra at-
vinnuflugmanna, sagði að þessi niðurstaða, að
Þengill kæmi aftur til starfa, kæmi sér veru-
lega á óvart. Hann sagðist hins vegar ekki vilja
tjá sig frekar um málið á þessu stigi. Þetta mál
yrði rætt í stjórn FÍA í næstu viku og eins ætti
hann eftir að eiga fund með lögmanni FÍA og
Árna G. Sigurðssyni flugmanni um málið.
Stjórn FÍA krafðist þess bréflega í desember
sl. að Þengli Oddssyni yrði vikið úr starfi.
Atli Gíslason, lögmaður Árna G. Sigurðs-
sonar flugmanns, sagðist harma það að flug-
málastjóri hefði ekki samhliða leyst mál Árna.
Hann sagðist vera búinn að koma með tillögu
um lausn á því máli en flugmálastjóri hefði ekki
sýnt neinn samstarfsvilja. „Miðað við þessa
lausn í dag er enn ríkjandi fullur trúnaðar-
brestur milli flugmanna og Flugmálastjórnar.
Ég hefði kosið að flugmálastjóri hefði leyst
málið í heild sinni. Þengill er búinn að senda af-
sökunarbeiðni til ráðherra og ég hefði kosið að
flugmálastjóri hefði um leið sæst við umbjóð-
anda minn og Félag íslenskra atvinnuflug-
manna. Hann beitir hann enn sérmeðferð án
tilefnis,“ sagði Atli.
Flugmálastjóri fól Jóni Þór Sverrissyni flug-
lækni að meta heilbrigði Árna G. Sigurðssonar.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er
talið líklegt að skoðun hans á málinu ljúki í
næstu viku.
Samgönguráðherra vildi ekkert tjá sig um þá
niðurstöðu sem fengin er þegar Morgunblaðið
leitaði eftir áliti hans í gær.
Þengill Odds-
son tekur aftur
við starfi trún-
aðarlæknis
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þengill Oddsson, trúnaðarlæknir
Flugmálastjórnar Íslands.
ÞENGILL Oddsson átti fund með Sturla
Böðvarssyni samgönguráðherra í gær þar
sem Þengill afhenti honum bréf, en þar
segir:
„Háttvirti samgönguráðherra.
Í niðurstöðu úttektarnefndar, sem þér
skipuðuð vegna útgáfu flugskírteina og
heilbrigðisvottorða Flugmálastjórnar Ís-
lands, kemur m.a. fram „að aðkoma sam-
gönguráðuneytisins að málinu hafi ein-
göngu falið í sér fyrirmæli um
stjórnsýslulega meðferð á beiðni flug-
mannsins um útgáfu heilbrigðisvottorðs“.
Af þessum sökum dreg ég til baka yf-
irlýsingar sem vitnað hefur verið til í
fjölmiðlum í þá veru að þér sem sam-
gönguráðherra hafið beitt pólitísku valdi
yðar við útgáfu heilbrigðisvottorðs í mál-
inu og með því hafi flugöryggi skerst.
Vænti ég þess að þau ummæli verði ekki
erfð við mig af yðar hálfu.
Ég sem áhugamaður um flugöryggi hér
á landi harma þá miklu og óvægnu um-
fjöllun sem orðið hefur um mál þetta í
fjölmiðlum. Ég lýsi því yfir að ég hverf
aftur til starfa sem trúnaðarlæknir Flug-
málastjórnar sáttur og reiðubúinn að tak-
ast á hendur þau störf sem þar bíða úr-
lausnar. Ég vænti þess að við getum átt
gott samstarf á sviði flugmála í framtíð-
inni og að atburðir síðustu vikna varpi
ekki skugga þar á.“
Bréf Þengils
til ráðherra
INFLÚENSAN sem nú hefur
skotið rótum hér á landi er af hefð-
bundnum A-stofni og hefur borist
frá suðurhveli jarðar á norðlægar
slóðir, að sögn Haraldar Briem,
sóttvarnarlæknis hjá Landlæknis-
embættinu. Nægt bóluefni er til
staðar sem virkar á þennan stofn
en sami faraldur herjar nú á marga
Evrópubúa, einkum í Frakklandi.
Haraldur sagði í samtali við
Morgunblaðið að starfsbræður
hans víða um heim óttuðust vax-
andi líkur á að nýr stofn inflúensu
skyti upp kollinum og þá án þess
að nægt bóluefni væri til við hon-
um.
„Við köllum það mótefnarek þeg-
ar faraldur kemur upp sem gengur
árum og áratugum saman. Síðan á
sér stað uppstokkun á þessum mót-
efnum og ný tegund kemur fram
sem enginn hefur mótefni gegn. Þá
verður faraldurinn yfirleitt skæð-
ari. Menn hafa alltaf verið að búast
við nýrri uppstokkun og hún gæti
komið hvenær sem er, þess vegna á
morgun eða eftir tíu ár, og ekkert
endilega að vetri til hér á landi. Við
erum í svipaðri stöðu og jarðvís-
indamenn sem eru alltaf að bíða
eftir stóra jarðskjálftanum,“ sagði
Haraldur og minnti á skelfilegar
afleiðingar spænsku veikinnar sem
gekk yfir hér á landi árið 1918. Síð-
an þá hefðu komið upp svipaðir far-
aldrar en ekki eins skeinuhættir,
s.s. inflúensur sem kenndar hafa
verið við Asíu og Hong Kong.
Aðspurður hvort læknavísindin
væru ekki betur í stakk búin nú en
árið 1918 til að berjast við nýjan
stofn sagði Haraldur það vera bæði
og.
„Að því leyti erum við betur sett
nú að lyf eru til gegn þessu og
bóluefni. Vandamálið núna er að
marga mánuði, jafnvel hálft ár,
getur tekið að búa til nýtt bóluefni.
Einnig eru ferðalög fólks svo mikil
að veirur berast hratt á milli landa.
Ef til dæmis meira en helmingur
Reykvíkinga myndi sýkjast af nýj-
um stofni inflúensu þá ættum við
aldrei til lyf eða bóluefni fyrir
alla,“ sagði Haraldur.
Veirunni haldið við
í fuglaríkinu
Inflúensa er þeirrar gerðar, að
sögn Haraldar, að hún gengur í
hringrás um heiminn. Þegar sumar
er hér á landi gengur hún á suð-
urhveli jarðar og þegar vetur
gengur í garð á norðurhvelinu hef-
ur þessi veirusjúkdómur gjarnan
komið upp á þeim slóðum. Veirunni
er jafnan haldið við í fuglaríkinu og
þá hjá vaðfuglum sem bera hana
frá norður- og suðurslóðum í átt að
miðbaug. Haraldur sagði að þetta
árið væri inflúensan óvenju seint á
ferðinni.
„Inflúensuveiran lifir í vötnum í
kaldara loftslagi og fuglarnir flytja
hana í þörmunum. Svo geta svín
sýkst af veirunni og önnur spendýr
og upp frá þessu eiga uppstokkanir
sér stað. Yfirleitt hafa upptökin
verið í Asíu en það er fyrst og
fremst vegna tölfræðinnar sem
segir okkur að þar sé mestur fólks-
fjöldi auk mikillar nálægðar við
fugla og önnur dýr.“
Sóttvarnarlæknir segist bíða líkt og jarðvísindamenn eftir stórum jarðskjálfta
Nýr inflúensustofn gæti
komið upp fyrirvaralaust
BISKUP Íslands, Karl Sigur-
björnsson, fór til Bandaríkjanna í
byrjun vikunnar í þriggja vikna
námsleyfi, að því er fram kemur á
vef Þjóðkirkj-
unnar. Dvelst
hann á Luther
Seminary sem
er prestaskóli í
St. Paul í
Minnesota.
Þangað hafa
margir íslenskir
prestar farið til
náms.
Daniel Si-
mundsson, pró-
fessor við skól-
ann, hefur verið
biskupi innan handar um skipu-
lag dvalarinnar. Daniel, sem er af
íslensku bergi brotinn, hefur að
sögn Þorvaldar Karls Helgason-
ar biskupsritara greitt götu
margra guðfræðinga sem til skól-
ans hafa leitað og var hann
sæmdur heiðursdoktorsnafnbót
við guðfræðideild Háskóla Ís-
lands fyrir tveimur árum.
Ásamt námsdvalar mun biskup
flytja fyrirlestur við skólann, sitja
fyrir svörum um íslensku kirkj-
una og predika í guðsþjónustu.
Hann mun einnig fara til Chicago
að heimsækja höfuðstöðvar hinn-
ar Evangelísku lúthersku kirkju í
Bandaríkjunum.
Ef með þarf mun Sigurður Sig-
urðarson, vígslubiskup í Skál-
holti, gegna biskupsstörfum í
fjarveru Karls Sigurbjörnssonar.
Biskup
nemur í
bandarísk-
um presta-
skóla
Hr. Karl Sig-
urbjörnsson
biskup.
♦ ♦ ♦
TVEIR voru fluttir með sjúkrabif-
reið á sjúkrahúsið á Sauðárkróki eft-
ir þriggja bíla árekstur við Hofs-
árbrú á Siglufjarðarvegi síðdegis í
gær. Meiðsli þeirra voru þó ekki tal-
in alvarleg.
Bifreiðirnar rákust á við annan
brúarendann, með því að tvær þeirra
rákust á þá þriðju sem kom úr gagn-
stæðri átt. Tvær bifreiðanna voru
fólksbifreiðir, sem skemmdust mik-
ið, en þriðja bifreiðin var jeppi sem
skemmdist minna.
Þriggja bíla
árekstur við brú
NÆR ALLAR heilbrigðisnefndir
sveitarfélaga hækkuðu gjaldskrár
sínar í fyrra. Mest var hækkunin á
Kjósarsvæði, 33,3%, 20% á Norður-
landi vestra og 10% í Reykjavík.
Þetta kemur fram í nýjasta frétta-
bréfi Samtaka atvinnulífsins.
Þar segir að tíu svæðisbundnar
heilbrigðisnefndir hafi með höndum
lögbundið heilbrigðis- og mengun-
arvarnaeftirlit og nær allar hafi
þær hækkað gjaldskrár sínar í
fyrra, þar af fjórar í desember og
eina í nóvember. Í Kópavogi og
Hafnarfirði var gjaldskráin hækkuð
um 5,7% en á Suðurlandi var gjald-
skrá ekki hækkuð en þar mun
hækkun nú vera í burðarliðnum. Þá
var gjaldskráin lækkuð um 0,5% á
Suðurnesjum en þar er tímagjaldið
þó hæst.
Allt að
þriðjungs-
hækkun á
gjaldskrám
Heilbrigðisnefndir
sveitarfélaga