Morgunblaðið - 03.03.2002, Side 33

Morgunblaðið - 03.03.2002, Side 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 3. MARS 2002 33 inn um Ellsberg. „Komið bara öllu á framfæri. Við skulum rétta yfir honum í pressunni. Rétta yfir honum í pressunni ... látum það leka. Við vilj- um eyðileggja hann í pressunni. Pressan. Er það ljóst? Ég vil að einhver ráðist í þetta mál eins og ég gerði í Hiss-málinu... [...] Við unnum Hiss- málið í blöðunum.““ Einskis var látið ófreistað til að ófrægja Ells- berg. Var meðal annars brotist inn hjá sálfræð- ingi Ellsbergs til að ná í upplýsingar um hann. Innbrotið komst hins vegar upp og var rakið til stjórnar Nixons. Á endanum voru kærurnar á hendur Ellsberg látnar niður falla. Lögfræðingar og ritstjórar deildu hart um birtingu Hér hefur viðbrögð- um stjórnvalda við birtingunni verið lýst. Hinni hlið málsins, ákvörðun The New York Times um að birta skjölin, er lýst í bókinni „The Trust“ eftir Susan E. Tifft og Alex S. Jones. Þar er því lýst hvernig Ellsberg hafði samband við Sheehan, sem taldi hann eftir mörg samtöl á að leyfa sér að sjá skjölin. Þá voru tvö ár frá því að Ellsberg hafði ljósritað þau. Þegar þeir loks hittust fór Ellsberg með hann í íbúð þar sem skjölin voru geymd og sagði Sheehan að hann mætti lesa skjölin og taka niður minnispunkta, en nefndi ekki sérstaklega að hann mætti afrita skjölin, sennilega til að firra sig ábyrgð. Sheehan tók þessu hins vegar svo að Ellsberg vildi að hann tæki afrit af skjölunum og gerði það. Það tók blaðið tólf vikur að taka af skarið um að birta skjölin. Arthur Ochs Sulzberger, sem þá var útgefandi The New York Times, en í Banda- ríkjunum hefur útgefandi bæði ritstjórnarlegt vald og framkvæmdavald, gaf þá grænt ljós þrátt fyrir að lögmenn blaðsins hefðu lagst gegn því og sagt að blaðið ætti á hættu að fá yfir sig málsókn, sem leitt gæti til þess að það yrði gjaldþrota og Sulzberger yrði stungið í fangelsi. Sulzberger hafði sjálfur meiri áhyggjur af því að lesendur blaðsins myndu telja birtingu skjalanna landráð. Deilan við lögfræðingana var svo heiftarleg að Louis Loeb, sem hafði verið lögmaður blaðsins og Sulzberger-fjölskyldunnar frá 1948, neitaði að verja birtingu skjalanna í blaðinu fyrir rétti. Lykilatriði í ákvörðuninni um að birta skjölin var að þau sýndu, eins og Sheehan rakti fyrir starfsbræðrum sínum á fundum, að hver stjórnin á fætur annarri hefði kerfisbundið blekkt banda- rísku þjóðina varðandi Víetnam. Þegar Sulzberg- er var sagt frá skjölunum hugsaði hann með sér, að því er hann sagði tveimur áratugum síðan, að birting myndi þýða 20 ára til lífstíðar fangelsi. Á fundinum kvaðst hann hins vegar aðeins vera óviss um hvort það ætti að birta efnið. Ritstjórnin taldi að spurningin væri ekki hvort heldur hvern- ig. Lögfræðingarnir sögðu hins vegar að með því að birta leyndarskjöl væri ekki aðeins verið að brjóta lögin um njósnir heldur ganga þvert á hefðir blaðsins sjálfs um ábyrga blaðamennsku. Þegar þeir voru beðnir að lesa gögnin áður en þeir tækju afstöðu neituðu þeir þar sem það eitt að lesa þau væri lögbrot. Ritstjórar blaðsins sögðu að leyndarskjöl hefðu margoft verið birt í blaðinu áður og það jafnvel fengið Pulitzer-verð- laun fyrir fréttir byggðar á slíkum gögnum. Sterkustu rök lögfræðinganna voru að blaðið myndi missa trúverðugleika gagnvart lesendum. Sulzberger hafði hins vegar ekkert síður áhyggj- ur af trúverðugleika sínum gagnvart ritstjórum blaðsins, sem sögðu að það myndi verða blaðinu til ævarandi hneisu ef skjölin yrðu ekki birt. Sjálfur sagði Sulzberger: „Þegar allt kom til alls áttu [skjölin] að vera opinber því að þetta var sagnfræði en ekki leyndarmál, það var ólöglegt að stimpla skjölin leyndarmál.“ Þegar Sulzberg- er loks ákvað að láta kylfu ráða kasti og birta skjölin fékk ekkert snúið honum. Þegar fyrsta fréttin birtist loks voru viðbrögðin engin og segja má að Nixon hafi átt frumkvæðið að því að draga athyglina að umfjöllun The New York Times eft- ir að Kissinger sagði honum að uppljóstrunin sýndi að hann væri veikur forseti. Sulzberger kom fram á blaðamannafundi með- an á írafárinu út af birtingunni stóð og var meðal annars spurður um birtingu leyndarskjalanna: „Ég held að þetta sé dásamleg aðferð þegar þú ert með allt niðrum þig að koma í veg fyrir að nokkur komist að því með því að stimpla það leyndarmál og ýta því til hliðar.“ Á sama fundi sagði hann að þjóðaröryggi hefði ekki verið stefnt í hættu vegna þess að engin leyndarmál hefðu verið opinberuð, lífi bandaríska hermanna hefði ekki verið stefnt í hættu: „Þessi skjöl eru hluti sögunnar.“ Það var ekki fyrr en dómur hæstaréttar féll blaðinu í vil að Sulzberger og aðrir ráðamenn á blaðinu gátu andað léttar og þá var kampavínið dregið fram. Mál Ellsbergs og Pentagon-skjalanna sýnir í raun flestar hliðar á því hvað það þýðir að gerast uppljóstrari, hvort sem þar er litið til þeirrar um- ræðu, sem fram fer innan fjölmiðilsins þegar meta þarf meiri hagsmuni og minni eða horft er á hvernig Nixon brást við og hugðist láta dómstól götunnar gera út um mál Ellsbergs. Uppljóstrarar sjaldnast hafnir á stall Þegar umfjöllun um uppljóstrara er skoð- uð er sérstaklega áberandi hvað þeir fara oft illa út úr því að ganga fram fyrir skjöldu. Í nýlegri umfjöllun um slík mál í vikurit- inu The Economist segir að uppljóstranir séu góðar fyrir samfélagið, en slæmar fyrir starfs- framann. Þær ættu hins vegar að vera góðar fyr- ir hvort tveggja. Ekki allir uppljóstrarar verða að tákngervingi heilinda á vinnustað fyrir að hafa hugrekki til að tala við yfirmann sinn og greina frá misgjörðum æðstu yfirmanna eins og Sherr- on Watkins gerði hjá Enron. Hún gekk einfald- lega á fund yfirmanns síns og sagði að slík hneyksli leyndust í bókhaldinu að fyrirtækið gæti hrunið. The New York Times fjallaði um mál uppljóstrara fyrir nokkru og sagði að það væri ekki fyrir hina geðlausu að taka þetta hlut- verk að sér. Ekki væru allir uppljóstrarar jafn heppnir og Watkins. Uppljóstrarar væru yfirleitt einir á báti andspænis stóru fyrirtæki eða stofn- un sem hefur mun meiri völd og úr meiru að spila. Frá upphafi megi gera ráð fyrir hefndar- aðgerðum og gildi þar einu hvort uppljóstrarinn geri viðvart innan síns vinnustaðar eða utan hans. Terry Morehead Dworkin og Melissa S. Bauc- us birtu fyrir fjórum árum úttekt í tímaritinu Journal of Business Ethics um uppljóstrun innan vinnustaðar og utan. Þau könnuðu 33 tilfelli og komust að þeirri niðurstöðu að verr færi fyrir þeim, sem færu út fyrir vinnustaðinn með upp- lýsingar, en þeim, sem legðu spilin á borðið innan hans, en aftur á móti væri líklegra að uppljóstr- unin hefði áhrif á starfshætti ef farið væri með málið til utanaðkomandi aðila. Tímaritið The Internal Auditor gerði fyrir tveimur árum úttekt á áreiðanleika uppljóstrana starfsmanna og var niðurstaðan sú að þær væru á rökum reistar í 76% tilfella. Í Bandaríkjunum er að finna löggjöf um upp- ljóstrara og er hún sterkust þegar í hlut á opin- ber starfsmaður. Það getur hins vegar verið mjög misjafnt eftir ríkjum hversu öflug löggjöfin er og einnig geta lögin mælt fyrir um mismun- andi leiðir. Í sumum ríkjum er til dæmis kveðið á um að uppljóstrarinn verði að leita til utanað- komandi aðila. Í öðrum er skylt að reyna að leysa málið fyrst innan frá. Sterkustu löggjöfina í Bandaríkjunum má sennilega rekja til þræla- stríðsins, en þá voru sett lög um rangar staðhæf- ingar. Ekki er langt síðan menn áttuðu sig á því að nota mætti þessi lög sem verkfæri til að af- hjúpa undirferli varðandi verktöku fyrir ríkið. Að auki veita þessi lög uppljóstraranum peninga- lega ástæðu til að láta í sér heyra af því að hann á rétt á hlut í því fé, sem endurheimtist. Eftir að þessi lög voru endurbætt árið 1986 til ársins 2000 hefur, að því er kom fram í tímaritinu Healthcare Financial Management fyrir tveimur árum og byggt var á tölum frá bandaríska dómsmálaráðu- neytinu, ríkið fengið til baka 3,5 milljarða dollara, sem átti að hafa af því með svikum. Uppljóstr- ararnir í þessum málum höfðu fengið 550 millj- ónir dollara í sinn hlut. Í þeim tilfellum, sem dómsmálaráðuneytið hafði ákveðið að höfða ekki mál, en uppljóstrararnir gert það sjálfir höfðu 211 milljónir dollara verið endurheimtar. Í Bandaríkjunum liggur hins vegar frumvarp fyrir þinginu um að auðvelda uppljóstrurum að stefna vinnuveitendum sínum og auka vernd þeirra. Einnig fengi embætti sérskipaðs sak- sóknara, sem er óháð stofnun, sem rannsakar mál uppljóstrara í stjórnkerfinu aukin völd til að reka mál fyrir dómstólum. Sagt hefur verið að löggjöf Breta nái einna lengst í að vernda uppljóstrara. Þar tóku endan- legt gildi í fyrra sérstök lög um uppljóstranir í al- mannaþágu. Þar er tekið á uppljóstrurum eins og þeir séu vitni í þágu almennra hagsmuna, en ekki eigin hagsmuna. Þessi lög hefðu kannski bjargað Söruh Tisdall, sem árið 1983 lak minnisblaði frá Michael Hesseltine, þáverandi varnarmálaráð- herra, um að senda ætti stýriflaugar til Green- ham Common, til dagblaðsins Guardian og var dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir. Hún lak skjal- inu nafnlaust, en dómstólar í Bretlandi fyrirskip- uðu blaðinu að afhenda það og þannig var hægt að rekja það til Tisdall, sem var starfsmaður varnarmálaráðuneytisins. C. Fred Alford hefur skrifað bók um uppljóstr- ara og fjallar um þá í dálki, sem birtist fyrir skömmu í dagblaðinu USAToday. Hann segir að næstum helmingur allra uppljóstrara sé rekinn úr starfi og yfirleitt komi eitthvert smáatriði upp um þá, sem hyggist njóta nafnleyndar. Nóg er að um sé að ræða upplýsingar, sem eru á fárra vit- orði. Fyrirtæki fara einnig létt með að sniðganga lög um að ekki megi reka uppljóstrara. Einfalt er að bíða í eitt eða tvö ár, segir Alford, þannig að ekki sé hægt að sýna fram á bein tengsl. Einnig er hægt að ganga þannig frá hnútunum að upp- ljóstrarinn komi illa út úr starfsmati eða flytja hann í starf, sem hann er ekki búinn undir að sinna þannig að öruggt sé að honum farnist illa. Hann skrifar að ótrúlega oft sé uppljóstrurum fenginn skápur í stað skrifstofu og sagt að koma ekki út á skrifstofutíma. Hann segir einnig að rúmlega helmingur uppljóstrara missi heimili sín og flestir þeirra missi einnig fjölskylduna, sem kann ekki að meta þær fjárhagslegu fórnir, sem fylgi hinum göfuga verknaði. Alford bætir við að flestir uppljóstrarar geri sér grein fyrir því að andað geti köldu frá yfirmönnunum, en færri eigi von á því að starfsfélagar og vinir snúi við þeim baki, enda valdi það oft mestum sársauka. Svisslendingur fær pólitískt hæli í Banda- ríkjunum Fáir uppljóstrarar á okkar tímum hafa þó orðið fyrir jafn gagn- gerum breytingum á sínum högum og Christoph Meili, sem fyrir fimm árum er hann var næturvörður hjá svissneskum banka í Zürich rakst á skjöl, sem biðu eyðileggingar í tætaraherberginu. Í skjölunum voru skráðar peningafærslur frá Þýskalandi til Sviss á valda- tíma nasista í Þýskalandi. Meili hafði lesið ásak- anir um að fjármunir gyðinga – svokallað nas- istagull – lægju enn á svissneskum banka- reikningum og kom skjölunum til fjölmiðla. Meili var rekinn samstundis og útskúfað frá Sviss. Svo fór að honum varð ekki lengur vært í heimalandi sínu þar sem hann var stimplaður svikari og landráðamaður. Meili býr nú í Kaliforníu. Hann er eini Svisslendingurinn, sem veitt hefur verið pólitískt hæli í Bandaríkjunum. Morgunblaðið/Golli „Öryggi þjóðar- innar er ekki aðeins við virkisvegginn. Öryggið liggur líka í gildi hinna frjálsu stofnana okkar. Þeir, sem eru við völd, verða að þola erfiða fjölmiðla, þrjóska fjölmiðla, fjölmiðla, sem eru alls staðar, til þess að vernda hin jafn- vel mikilvægari gildi tjáningarfrelsis og réttar almenn- ings til að vita …“ Laugardagur 2. mars

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.