Morgunblaðið - 10.03.2002, Side 42

Morgunblaðið - 10.03.2002, Side 42
MINNINGAR 42 SUNNUDAGUR 10. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ Bóndi er bústólpi bú er landstólpi Því skal hann virður vel. (Jónas Hallgrímsson.) Árni Pétur Lund er látinn. Þegar ég, með þakklæti og trega, minnist þessa ágæta mágs míns finnst mér að líf hans hafi lengst af verið sem langur og bjartur sólskinsdagur. Hann þurfti vissulega að þola erfið veikindi síðasta áratuginn og dvelja mikið á sjúkra- stofnunum, en stórfjölskylda hans, með einstaklega umhyggjusama eig- inkonu hans í farabroddi, lét hann sí- fellt finna hversu mikils virði hann var fjölskyldunni. Það létti honum vita- skuld mikið ævilokin. Já, Árni Pétur var elskaður og það var vakað yfir velferð hans. Það hlýt- ur að vera hverjum manni lífsfylling og hamingja að eiga því láni að fagna að starfa heilshugar alla ævina að brennandi áhugamáli sínu. Árni Pét- ur var ræktunarmaður af lífi og sál – sannur bóndi. Hann fór ungur til náms á bændaskólann á Hólum. Eftir fráfall föður síns, Maríusar Lund (d. ’36), gerðist Árni hægri hönd móður sinnar, Rannveigar Lund, við bú- reksturinn ásamt föðurbróður sínum, Níelsi Lund, á Raufarhafnarbúinu. Auðvitað hefur Árni Pétur mótast mikið af uppeldinu í Lundshúsinu, þar sem móðir hans stýrði búi af ann- áluðum myndarskap og reisn. Árni Pétur var stoltur af því að bera ætt- arnafnið Lund. Um vorið 1945 kvænt- ist hann mannkostamanneskjunni Helgu S. Kristinsdóttur frá Nýhöfn á Sléttu. Þar var brúðkaupið haldið með pomp og prakt. Kristinn bóndi var maður stórhuga og margir muna enn þann dag í dag hve allt fór þar fram af höfðingsskap, með brúðhjón- in ungu og glæsilegu sem miðpunkt veislunnar. Elsti sonurinn (Maríus) er fæddur ári síðar á Raufarhöfn. Næstu árin bjuggu ungu hjónin hjá Kristni bónda og fjölskyldu í Nýhöfn. Þar eignuðust þau tvo stráka, Kristin og Níels. Á þessum árum hafði Kristinn bóndi úthlutað sonum sínum og dótt- ur (Helgu) hluta af Nýhafnarjörðinni. Nú tók við tími jarðræktunar og hús- bygginga. Árið 1950 fluttu ungu hjón- in í nýbýlið Miðtún með þrjá unga stráka og á þeim bæ eignuðust þau þrjá í viðbót – Benedikt, Sveinbjörn og Grím. Þessir myndarlegu, táp- miklu strákar þóttu strax efnilegir. Þeir eru hver öðrum betri og hafa fengið það besta frá foreldrum sínum í vöggugjöf; eðlisgreind, myndugleika og atorkusemi. Já, eplin falla sjaldan langt frá eikinni. Búskapurinn gekk vel hjá Árna Pétri og Helgu og smám saman urðu Miðtúnsstrákarnir dug- legir vinnumenn. Miðtúnshjónin voru ÁRNI PÉTUR LUND ✝ Kristján ÁrniPétur Lund fæddist á Raufar- höfn 9. september 1919. Hann lést á öldrunardeild Sjúkrahúss Húsavík- ur 1. mars síðastlið- inn og fór útför hans fram frá Snartar- staðakirkju 9. mars. drjúg við að leyfa börn- um og unglingum ætt- ingja og vina að dvelja hjá sér um skemmri eða lengri tíma yfir sumar- ið. Þetta sumaruppeldi varð þessu unga fólki eftirminnilegt og hollt. Árið 1960 tengdist ég svo Lundsættinni þegar ég kvæntist Maríu Önnu Lund, yngstu systur Árna Péturs. Hún ljómaði ávallt þeg- ar á hann var minnst og notaði ætíð orðið Stóri- bróðir um hann. Ég kynntist í kjölfarið Miðtúnsfjölskyld- unni upp úr 1961 og orðið stór átti vissulega við um það fólk. Minningarnar frá árunum 1961 hrannast upp og vandi er að velja úr þeim öllum í stuttu þakkarávarpi. Hér á undan hefur verið stiklað á stóru úr ævidegi Árna Péturs. Nú skal reynt að lýsa líkamlegu og and- legu atgervi þessa mæta manns. Árni Pétur var dökkur á brún og brá, vel meðalmaður á hæð, sviphreinn og andlitið karlmannlegt. Hann var sterkbyggður og prýðilega á sig kom- inn. Karl með krafta í kögglum. Hann var greindur vel, gæddur sköpunar- gáfu náttúrubarnsins og útsjónar- samur. Hann var hamhleypa til vinnu og allir ágættu verk hans. Hann hafði þann dug og áræði sem þarf til þess að hlutirnir nái fram að ganga. Hon- um var í blóð borin hjálpsemi, án hugsunar um að fá goldið í sömu mynt. Þau Árni Pétur og Helga stunduðu búskap í Miðtúni allt fram undir 1990 eða í fjörutíu ár. Af skýrslum að dæma dró síst úr fram- leiðni búsins síðasta áratuginn. Vissu- lega má ekki gleyma framlagi son- anna sex og annarra góðra manna, né heldur að tíunda hversu dugmikill sauðfjárræktarmaður Árni Pétur var. Hann fékkst allan sinn búskap við kynbætur á sauðfé og var annálaður fyrir störf þar að lútandi. Loks skal hér getið hve húsfreyjan í Miðtúni stjórnaði af röggsemi innanhúss. Hún þurfti oft að hækka röddina heldur betur til þess að fá hljóð fyrir sex há- værum Miðtúnsstrákum. Mig langar að lokum að segja frá tveimur minningabrotum úr safni mínu um Árna Pétur Lund. Fyrra: Á Raufinni (’62–’63). Á Óðinsplaninu var allt að kaffærast í síld og aftur síld. Kallaður var til margþjálfaður beykir innan af Sléttu til þess að koma skikk á hlutina. Skip- stjóri einn, aflamaður og kjaftaskur mikill, spyr: „Hvaða ábúðarmikli maður slær svo ótt og títt að engu er líkara en að fjórar séu hendur á lofti?“ Óli verkstjóri svarar spotzkur: „Hvað er þetta maður! Þekkirðu ekki hann Árna Pétur?“ – „Jú auðvitað. Fáir eru hans jafningjar í hamhleypuskapn- um,“ sagði skipperinn afsakandi. Síðara: Man ég eitt lygnt júlíkvöld eftir skínandi heiðríkju og sunnan- golu. Þetta var einn af þessum dögum sem gerast bestir og heitastir á Sléttu. Ég kom gangandi til hans og ætlaði að tala við hann um eitthvert lítilræði. Hann stóð þarna í slægjunni, grafkyrr og hafði tekið ofan alpahúf- una sígóðu. Um sólbrennt andlitið lék gljáandi sólsetursroðinn. Hann svar- aði ekki heldur leit til hnígandi sólar í vestri. Ég skildi strax að Miðtúns- bóndinn væri að þakka skapara sín- um fyrir afbragðsgóðan heyþurrkun- ardag. Við undirrituð þessara minningar- orða um Árna Pétur Lund þökkum fyrir líf hans, tryggðina og vináttuna. Það er ótalmargt sem við eigum honum að þakka. Helgu okkar og ætt- ingjum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Árna Péturs Lunds, bónda frá Mið- túni á Sléttu. María Anna, Hákon og börn, Halldóra, Gunnar og dætur. Árni Pétur Lund, bóndi í Miðtúni á Sléttu, er látinn á 83. aldursári, eftir langa og atorkusama starfsævi. Hann valdi sér bóndastöðu að lífsstarfi og vildi vera hlutverki sínu trúr í hví- vetna, að sjá vel fyrir sér og sínum og standa í búskap til jafns við þá bestu í sinni stétt, hvort sem var í heimahér- aði eða landinu öllu. Hvorttveggja tókst honum. Þannig fullnægði hann starfsmetnaði sínum og hélt uppi sæmd sinni. Ég man þegar ég sá Árna Pétur Lund fyrst og sé hann enn fyrir mér eins og hann bar fyrir augu mér þá. Þetta var á Raufarhöfn sumarið 1946. Ég var þar í síldarvinnu eins og þá var títt um menntaskólanema, en fjöldi aðkominna manna var þarna í vinnu ásamt flestum verkfærum heima- mönnum. Hvað það snertir skar sig einn maður úr: Árni Pétur í Lunds- húsi. Hann hafði öðru að sinna. Ég hafði heyrt þessa unga manns getið, en ekki séð honum bregða fyrir fyrr en einn daginn að ég lít vasklegan mann koma stikandi með nokku fasi eftir götunni frá Lundshúsinu. Hann var klæddur bláum samfestingi með belti um sig miðjan, skóaður fremur lágum gúmmístígvélum með enska húfu (sixpensara) á höfði. Hafi hann ekki verið með svipu í hendi hafði hann a.m.k. eitthvert prik meðferðis. Mikla athygli mína vakti, hve vinnu- fötin fóru honum vel, hrein og strokin, og hversu markvisst hann stefndi fram á við án þess að líta til hægri eða vinstri. Ég vissi það ekki þá, en veit það núna að þessi maður horfði til heiða og var á þeirri leið. Árna Pétur sá ég ekki aftur um sumarið, og þrett- án ár liðu án þess að leiðir okkar lægju saman. Þá tókust með okkur góð kynni sem héldust síðan. Ekki er að efa að Árni Pétur Lund hafði snemma tekið þá ákvörðun að verða bóndi. Á sextánda ári missti hann föður sinn, Maríus Lund, bónda á Raufarhöfn, sem hafði þar búið um árabil góðu búi með konu sinni Rann- veigu Laxdal. Árni Pétur gerðist þá stoð og stytta móður sinnar og mun áður en langt um leið hafa orðið að- aldrifkraftur við búskap fjölskyldunn- ar. Hann stundaði búnaðarnám á Hól- um. Það færði hann sér vel í nyt í bóndastarfi sínu ásamt þeirri prakt- ísku búskaparreynslu sem hann hafði aflað sér frá ungum aldri. Um miðja öldina, upp úr heims- styrjöldinni, vaknaði endurnýjaður sóknarhugur um framfarir í landbún- aði sem öðrum atvinnugreinum Ís- lendinga. Sú skoðun var almennt ríkjandi í landinu og setti mark sitt á stjórnmál og framfarahugmyndir að treysta ætti landbúnað sem mikil- væga stoð atvinnulífs og eðlilegrar nýtingar landgæða. Árni Pétur Lund var í hópi þeirra sem sáu fyrir sér bjarta framtíð sveitanna með jarð- rækt og markvissri búfjárrækt, auk bætts véla- og tækjakosts, sem uppi- stöðu þróunar byggðanna, en þjón- ustuiðnað, samgöngur og viðskipta- starfsemi sem ívafið. Þannig settu menn sér fyrir sjónir fjölþætt mannlíf og viðgang í dreifðum sveitabyggðum með góðum samskiptum við eflda byggð við sjávarsíðuna. Árni Pétur kvæntist ungur Helgu Kristinsdóttur frá Nýhöfn sem er lög- býli á Leirhafnartorfunni, skipt út úr höfuðbólinu. Kristinn Kristjánsson, faðir hennar, einn margra Leirhafn- arbræðra, lét þeim í té land úr Ný- höfn undir nýbýli sem þau kölluðu Miðtún og varð í höndum þeirra álit- leg bújörð, þótt ekki væri landsstærð- inni fyrir að fara. Árni Pétur var vak- inn og sofinn um jarðrækt og þá ekki síður ræktun sauðfjár, sem hann náði framúrskarandi góðum tökum á. Var hann í fremstu röð íslenskra sauðfjár- bænda og stundaði sauðfjárhaldið með faglegum vinnubrögðum og snyrtimennsku. Honum hlaut því að búnast vel. Tíðarfar setti vissulega oft strik í reikning bænda í nyrstu byggðum á löngum búskaparferli Miðtúnshjónanna. Kalárin milli 1960 og 1970 voru erfið og komu mjög við bændur í Norður-Þingeyjarsýslu. Þá taldi Árni Pétur það ekki eftir sér að leita uppi slægjur, sem hann hafði að- gang að og kunni að nýta. Þá kom í ljós að hann var gæddur ótrúlegri seiglu og útsjónarsemi að ráða fram úr erfiðleikum við heyöflun, sem ís- lenskir bændur hafa um aldir mátt stríða við á hafísa- og kalárum, ekki síst á norðanverðu landinu. Árni Pétur Lund sigraðist á þess- um erfiðleikum tíðarfarsins með að- stoð sinnar góðu konu og traustu lið- sinni sona sinna meðan þess varð notið, því samheldni Miðtúnsfólks er viðbrugðið og sambúð fjölskyldunnar eins og best verður á kosið. Á heim- ilinu ríkti glaðværð og gestrisni, sem margir fengu að njóta. Með sanni var gott að eiga Miðtúnshjón að vinum, gestgjöfum og viðræðumönnum. Árni í Miðtúni var jafnan heilsu- hraustur um ævina og gæddur lík- amsþreki. En upp úr sjötugu bilaði heilsa hans, svo að hann varð að draga saman seglin. Tók hann þá að búa sig undir starfslok og það gerði hann af fyrirhyggju og raunsæi. Sýnt var að ekki yrði búið sjálfstætt í Miðtúni að svo komnu, en í næsta nágrenni í Leirhafnarhverfinu býr frændi Helgu, Kristinn Steinarsson í Reist- arnesi. Hann keypti sauðfjárbúið í Miðtúni, og nýtur þannig hins farsæla ræktunar- og kynbótastarfs Árna bónda um áratugi. Þannig lauk Árni Pétur Lund bú- skap sínum með fullum skilum til framtíðarinnar. Hann hafði ekki unn- ið til ónýtis um dagana, þótt vænt- ingar hans og annarra bjartsýnna manna fyrir hálfri öld um almenna þróun landbúnaðar og byggðastefnu hafi ekki ræst. En hann fékk notið starfsgleði hins vinnufúsa manns og farsældar í einkalífi og varð vitni að góðu gengi sona sinna og fjölskyldna þeirra. Hvað sem líður misgengi tím- anna, skeikulum framtíðarspám og framreikningum bjartsýnismanna var Árni bóndi í Miðtúni lánsmaður og skilur eftir sig góða minningu sem sannur íslenskur bóndi, sómi sinnar stéttar. Ekkju hans, frú Helgu Kristins- dóttur, sonum þeirra og öðru vensla- fólki sendi ég hugheila samúðar- kveðju. Ingvar Gíslason. Í dag er borinn til grafar Árni Pét- ur Lund bóndi í Miðtúni. Mín kynni af Árna Pétri hófust fyr- ir um 30 árum. Árið 1971 átti ég því láni að fagna að vera sendur í sveit norður í Miðtún, þá 9 ára gamall. Ekki hvarflaði að mér þá að ég ætti eftir að vera þar 7 sumur. Allar götur hefur mér verið tekið sem einum í fjölskyldunni og ég mætti strax mik- illi hlýju og skilningi frá þeim í Mið- túni, Árna Pétri, eftirlifandi konu hans, Helgu Kristinsdóttur, og sonum þeirra. Gömul bréf sem ég skrifaði til foreldra minna um þetta leyti eru líka til vitnis um það að mér leið vel en þar stendur: „Héðan er allt gott að frétta og mér leiðist ekki neitt.“ Á þessum árum var búið á öllum bæjum á Leirhafnartorfunni. Árni Pétur og Helga reistu árið 1950 bæ- inn Miðtún á holtinu eins og Helga nefndi það. Bærinn stendur að vestan verðu við Leirhafnarvatn. Fyrir ung- an dreng, fæddan og uppalinn í Reykjavík var staðurinn sem paradís á jörð enda umgjörðin engu lík. Leir- hafnarfjöllin liggja að austanverðu við vatnið þar sem Gefla stendur í miðju og blasir víða við. Í norðri er Rauði- núpur og í suðri Snartarstaðarnúpur. Fjaran og hafið í kring meitla um- gjörð staðarins í þeirri dýrð og ánægju sem ábúendur nutu góðs af. Hlý orð Árna Péturs í minn garð strax við fyrstu komu mína norður treystu órjúfanlega vináttu okkar síð- an er hann sagði: „Þennan dreng verður gott að hafa.“ Síðan liðu sumr- in hvert af öðru. Fyrsta ferðin var far- in með Ninna sem þá hafði verið í námi í Reykjavík og leigði herbergi hjá langömmu minni og afa í Safa- mýrinni. Ferðin tók um 15 tíma. Síðan flaug ég norður og tók ýmist póstflug á Kópasker eða flug til Raufarhafnar. Ég var alltaf mættur snemma á vorin norður. Árni Pétur og Grímur, yngsti sonurinn, komu að sækja mig. Þá var mikið skrafað á leiðinni til baka heim í Miðtún þar sem Helga tók á móti okk- ur með útbreiddan faðminn. Uppvaxtarár mín sem þarna fóru í hönd hafa haft mikil áhrif á mig æ síð- an. Árni Pétur var snillingur í að finna alltaf eitthvað fyrir okkur Grím að gera. Ég held ég geti líka sagt að hon- um hafi aldrei leiðst að hafa okkur hjá sér. Við fylgdum honum hvert fótmál og vorum farnir að þekkja vel inná hver annan. Það var orðið nóg fyrir Árna Pétur að tjá sig með líkams- hreyfingum úr órafjarlægð og vissum við strax að þá vantaði tóbak í pípuna og við hlupum til. Sumrin voru fljót að líða og hvert verkefnið á fætur öðru var leist af hendi skilmerkilega. Auk hefðbundinna starfa í sveitinni sem allir tóku þátt í komst ég í tæri við ýmis verkefni. Í fjörunni var töluverð- ur reki og þegar tími gafst til var hann rifinn niður í girðingarstaura. Trilluútgerð var einnig stunduð frá Nýhöfn, hver bær hafði sinn bát og var siglt út á miðin við Rauðanúp og veiddur þorskur á handfæri. Ef vel veiddist var aflinn seldur í frysthúsið á Kópaskeri annars var hann til heimabrúks og þorskurinn oftast verkaður siginn. Þarna hófust ég einnig mín fyrstu spor í hesta- mennsku því Árni Pétur átti góðan hest sem hét Skuggi. Vorum við Grímur óspart notaðir í að þjálfa hann fyrir göngurnar. Verkstjórn Árna Péturs kom sér vel í þessu sem og öðrum verkum enda var hann úr- ræðagóður og gekk í það að leysa hlutina. Fjárhúsin voru hins vegar sá stað- ur sem Árni Pétur dvaldi lengstum. Á veturna þurfti að gefa ánum og allar ær báru inni yfir sauðburðinn. Árni Pétur var annálaður fyrir að eiga góð- an fjárstofn sem var ræktaður af heil- indum. Ég var því glaður eitt haustið þegar mér var gefin kind að skilnaði áður en ég hélt til Reykjavíkur. Að sjálfsögðu varð kindin síðan tvílembd vorið á eftir. Á sumrin var oft gestkvæmt í Mið- túni. Því var oft glatt á hjalla enda þau hjón annáluð fyrir mikla gestrisni. Þó var reynt hvert sumar að fara í ferða- lag. Land-Roverinn var þá gerður klár í ferðalagið og þeyst var af stað með heimasmurt nesti. Á þessum ferðalögum kynntist ég landinu enn betur og hlustaði hugfanginn á þau hjón segja frá ýmsum staðháttum. Í heyskapartíð eitt sinn fórum við Grímur til Raufarhafnar í bíó. Seint var komið heim um kvöldið og morg- uninn eftir vaknaði ég við það að Helga og Árni Pétur voru að ræða hvort ekki ætti að vekja drengina. Ég man að Árna Pétri fannst undarleg tímasetning á þessari bíóferð í miðri heyskapartíð. „Leyfðu drengjunum að sofa, Baddi minn,“ sagði Helga. Árni Pétur gaf sig með það enda vissi hann að það var lítið gagn í þreyttum og svöngum drengjum til vinnu. Eftir að ég hætti að dvelja sum- arlangt í Miðtúni hafa heimsóknir þangað tekið við og verið tíðar. Ég og Þura höfum notið þess að fara með okkar börn í heimsókn í Miðtún. Þangað erum við velkomin og alltaf er tekið vel á móti okkur. Fyrir nokkr- um árum brugðu Helga og Árni Pétur búi og nú allra síðustu ár hefur Árni Pétur dvalið á Sjúkrahúsinu á Húsa- vík og notið þar góðrar aðhlynningar. Elsku Árni Pétur. Ég kveð þig að endingu með ljóði eftir Valdimar Hólm Hallstað: Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur og fagrar vonir tengdir líf mitt við, minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar, er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá. Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á, heyrirðu storminn kveðju mína ber? Þú fagra minning eftir skildir eina, sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er. Öllum ættingjum votta ég mína dýpstu samúð. Hvíl í friði. Valdimar K. Guðlaugsson.                ! "                           !   !!" #        $     #$ " %  & '$  ( )* (* ! +'$  , ' - )) .) % "))!  * +.) % '&- /)+'$  ,  0 )'.) % ) !  * +.) , " )) $1 ))'$ . 2 )) - )) )  ) .)'  3 ! )0'&3 .%  &  )

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.