Morgunblaðið - 12.04.2002, Side 44
MINNINGAR
44 FÖSTUDAGUR 12. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
spretta margra þjóðsagna. Sonja tók
þessu tali létt og ekki hvarflaði að
henni að leiðrétta slíkar sögusagnir.
Hún var yfir það hafin á sama hátt og
það var neðan við virðingu hennar að
tala illa um fólk. Aldrei lagði hún illt
til nokkurs manns og það versta sem
ég heyrði hana segja um nokkrar
mannverur var að nasistarnir hefðu
verið bjánar. Nánir vinir hennar eru á
sama máli hvað þetta varðar og ekki
er óalgeng einkunn að lýsa henni sem
einstaklega hjartahlýrri og vamm-
lausri konu sem aðeins sá það góða í
fólki. Mörgum kom hún til hjálpar á
New York-árum sínum þegar hún sat
í stjórn Thors Thors-sjóðsins. Sá
sjóður styrkti gjarnan efnalitla náms-
menn frá Íslandi og oftar en ekki kom
Sonja þar að málum. Þá styrkti hún
annan sjóð, Skandinavíska sjóðinn,
árlega með veglegum hætti. Síðast en
ekki síst hjálpaði hún vinum sínum og
ættingjum í Wiesbaden í Þýskalandi
á árunum eftir stríð. Með reglulegum
hætti sendi Sonja bláfátæku fólki mat
og peninga og víst er talið að manns-
lífum hafi verið bjargað þar.
Ævi Sonju er einstök. Hún var
gjarnan á þeim slóðum sem heims-
sagan gerðist. Vettvangur lífs hennar
var miðja heimsins. Með bros á vör og
geislandi persónutöfra bræddi hún
hjörtu og sópaði að sér vinum sem
margir hverjir bundu við hana tryggð
ævilangt. Hjá mörgum er höggvið
stórt skarð í vinahópinn en minningin
um stórkostlega konu lifir. Mörgum
verður eflaust hugsað til lagsins sem
Sonja spilaði gjarnan í veislum sínum:
„We’ll meet again, don’t know where,
don’t know when…“
Og margir vilja trúa því að aðeins
sé tímaspursmál hvenær Sonja veiti
þeim aftur ráðgjöf í amstri lífsins og
lyfti tilverunni á æðra plan með
hnyttnum athugasemdum um allt
milli himins og jarðar. Síðustu mán-
uði velti hún gjarnan fyrir sér dauð-
anum og hvað tæki við. Aðdáunarvert
var að hlusta á hana tala um vænt-
anlegt andlát sem sjálfsagðan hlut.
Ótti var ekki til í hennar huga en ein-
göngu forvitni um hið ókomna. Sonja
hafði af því stærstar áhyggjur að hug-
ur hennar myndi bila. Henni varð tíð-
rætt um örlög Ástu systur sinnar sem
í áratug var á hjúkrunarheimili án
þess að þekkja sína nánustu. „Held-
urðu að það sé að fara eins fyrir mér?“
spurði hún oft. Þegar hún var full-
vissuð um að minni hennar, sérstak-
lega frá fyrrihluta síðustu aldar, væri
kristaltært og engar vísbendingar
væri að merkja um heilabilun létti
henni.
Það mátti heyra á henni síðustu
mánuðina að henni fannst vera tíma-
bært að kveðja. Hún hafði allt frá
unglingsaldri staðið á eigin fótum og
verið sjálfri sér næg. Nú virtist komið
að þeim tímapunkti að hún þyrfti dag-
lega umönnun á hjúkrunarheimili og
því fór fjarri að henni hugnaðist að
hafa fólk stöðugt inni á gafli hjá sér.
Eftir að hún dó læddist að sá grunur
að hún hefði verið búin að ákveða
innra með sér að veislunni væri lokið.
Flestir gömlu vinanna voru horfnir og
sjálf var hún orðin of veikburða til að
lifa sjálfstæðu lífi. Óvænt slokknaði
lífsljós Sonju og með sama glæsibrag
og einkenndi líf hennar kvaddi hún
þessa jarðvist. Hún slökkti ljósið og
leið út úr þessu tilverustigi.
Átakalaust sofnaði hún og tryggði
það sem henni var alla tíð mikilvæg-
ast. Hún var ekki upp á aðra komin.
Heimskona er horfin og hún hefur
væntanlega fengið þau svör sem leit-
uðu á hana síðustu mánuðina.
Ég votta eftirlifandi ættingjum
hennar mína dýpstu samúð og efst í
huga er þakklæti til Sonju fyrir þau
forréttindi að hafa fengið að njóta
visku hennar, trausts og vináttu.
Reynir Traustason.
Kær vinkona, Sonja W. Benjamíns-
son de Zorilla, er fallin frá. Segja má
að með Sonju ljúki ákveðnu tímabili –
tímabili hefðarkvenna, eða svo-
nefndra „Grand Ladies“. Sonja var
sannkölluð heimskona, Grand Lady,
örsmá og fíngerð, en ofurstór í huga
og hjarta, með óborganlega kímni-
gáfu og leiftrandi gáfur.
Hún gat komið mér til þess að
hlæja að nóttu sem degi – oftast var
það þó að nóttu, því tímaskyn Sonju
var aldrei upp á marga fiska þegar
hún var að hafa símasamband við vini
sína hér heima úr íbúð sinni við Park
Avenue í New York. Það gerði hún
einatt síðla kvölds í New York, sem
þýddi auðvitað hánótt á Fróni. En
aldrei komu slíkir smámunir að sök
þegar símtal frá Sonju var annars
vegar. Oftast hófst símtalið eitthvað á
þessa leið, þegar Snja spurði með
sinni flauelismjúku, djúpu röddu, þar
sem dillandi hláturinn var alltaf
skammt undan: My little one. Did I
wake you up? Og þegar hún heyrði
svefndrukkð svarið sagði hún bara:
Hvað er klukkan eiginlega heima?
Þessi inngangur nægði til þess að ég
var glaðvöknuð og klár í að minnsta
kosti hálftíma Sonjuspjall – það var
algjört lágmark. Eftir gott samtal,
sem einatt leiftraði af hinum sérstaka
Sonju-húmor, fór ég einfaldlega aftur
að sofa, léttari í lund.
Það voru sameiginlegir vinir okkar
Sonju, þau Marshall og Pamela
Brement, sem kynntu okkur þegar ég
var við framhaldsnám í Bandaríkjun-
um upp úr miðjum níunda áratugn-
um. Þrátt fyrir þrjátíu og sex ára ald-
ursmun (Sonja var jafnaldra móður
minnar) urðum við ótrúlega góðar
vinkonur strax á okkar fyrsta fundi, í
Newport á Rhode Island í Bandaríkj-
unum, og náðum saman á einhvern
þann hátt sem mér er erfitt að lýsa.
Það var eiginlega eins og við hefðum
alltaf þekkst og aldursmunur skipti
engu máli. Allar götur síðan, í rúm-
lega einn og hálfan áratug, höfum við
haft skemmtilegt og afar sérstakt
samband okkar á milli. Hún bauð mér
gjarnan að gista hjá sér í New York ef
ég átti leið um heimsborgina og þær
heimsóknir verða mér ætíð hjart-
fólgnar í minningunni.
Þeir sem þekktu Sonju vita að hún
fór ávallt sínar eigin leiðir og þær
voru ekki troðnar slóðirnar sem hún
fetaði. Þegar ég kom til hennar í
fyrsta sinn á Park Avenue hafði hún
sent limósínu eftir mér út á flugvöll.
Mér varð eiginlega um og ó þegar ein-
kennisklæddur dyravörðurinn í hús-
inu hennar tók á móti mér, leiddi mig
að lyftunni, hringdi upp til Madame
Sonju de Zorilla og sagði henni að
gestur hennar væri á leiðinni upp. En
um-ið mitt og ó-ið var fljótt að hverfa
þegar við vorum sestar í eldhúsið,
búnar að fá okkur te og Sonja hóf inn-
leiðingu lífsreglnanna fyrir gest sinn.
Hún sagði einfaldlega eitthvað á
þessa leið: Litla mín. Þú ert nú svo
kjút og bóhem eins og ég. Því treysti
ég mér til þess að hafa þig hjá mér
þegar þú kemur hingað. Það eru fáar
húsreglur, en þú verður að virða þær.
Þú mátt ekki kveikja ljósið í íbúðinni á
morgnana fyrr en ég er sjálf búin að
kveikja. Þú mátt ekki vera með há-
vaða eftir að ég er farin að sofa og þú
mátt ekki koma með neina gesti hing-
að.
Það var lítið mál að fara að hús-
reglum Sonju, því ég hafði frammi
mitt eigið herbergi með baðherbergi
og þurfti ekki að ónáða hana, auk þess
varð égþess aldrei vör að hún færi að
sofa, því ég var alltaf komin í háttinn
löngu á undan fjármálaspekúlantin-
um Sonju, en þegar hún hafði tíma og
nennu var auðvitað langskemmtileg-
ast að fá að vera í hennar félagsskap,
sitja og spjalla við hana, hlusta á hana
rifja upp hreint ótrúlega viðburða-
ríkt, litríkt og ævintýralegt lífshlaup;
fræðast um það hversu stórkostlegur
tangódansari Alberto hafði verið; fá
sögu ýmissa listaverka í íbúðinni, sem
voru óheyrilega mörg, uppi um alla
veggi og jafnvel í stöflum meðfram
ákveðnum veggjum; heyra sögur af
ferðalögum Sonju um allan heim;
fræðast um vináttu hennar við Onass-
is og fleiri stórbokka; skoða gamlar
myndir af glæsidísinni Sonju með
fræga fólkinu; heyra hana hallmæla
Norðmönnum, sem henni þótti fyrir
einhverjar sakir óheyrilega „púkó“;
hlusta á hana bregða fyrir sig frönsk-
unni og dönskunni í bland við ís-ensk-
una, sem var einstök hjá henni.
Dæmi: My, little one, how is your love
life these days?! Eru engir kjút karlar
eftir heima á Íslandi? Æ, þeir voru nú
kannski aldrei neitt svo kjút.
Þeir eru annars voða kjút – voða
sætir, er það ekki, ritstjórarnir þínir?
(Hér átti Sonja að sjálfsögðu við þá
Matthías Johannessen og Styrmi
Gunnarsson. Það gerist ekki á hverj-
um degi að blaðamaður á Morgun-
blaðinu heyri talað um virðulega rit-
stjóra blaðsins með þessum hætti, svo
mikið er víst!) Þegar þessi gállinn var
á Sonju hafði ég hægt um mig og
hafði alls engar meiningar um fegurð
og kynþokka þeirra karla sem hún
vildi fá álit mitt á.
En Sonja var ekki alltaf eins og
gáskafullur stelpugopi. Hún var einn-
ig þjóðfélagsrýnir og fróðleiksfús
með afbrigðum. Þótt hún hefði alla
þessa áratugi búið fjarri Íslandi
fylgdist hún ótrúlega vel með gangi
mála hér heima. Hún spurði mig oft
grannt út í pólitíkina á Íslandi og ekki
síður út í þróun efnahags- og atvinnu-
mála.
Það var kapítuli út af fyrir sig að
fara út að borða með Sonju, hvort sem
var hér heima eða í New York. The
Grand Lady naut þess að vera gest-
gjafi og var hún sannarlega stórbrot-
in og rausnarleg í því hlutverki. Hótel
Holt var hennar veitingastaður hér
heima. Hún var alltaf ánægð þar,
enda fékk hún ávallt það sem ég kall-
aði konunglega þjónustu. Hún sagði
bara: Litla mín. Þeir eru svona við
alla hérna á Holtinu. Þetta var hóg-
værðin hennar Sonju, því auðvitað
voru þeir ekki svona við alla. Sonja
var líka eins og heima hjá sér á Holt-
inu. Keypti þar reyktan lax og grafinn
til þess að taka með sér aftur til New
York – sérvalda bita, sem hún og
þjónarnir meðhöndluðu og grand-
skoðuðu eins og um gersemar væri að
ræða. Ég man ekki til þess að hafa
nokkurn tíma borðað með henni ann-
ars staðar en þar, hér heima, utan
einu sinni þegar við snæddum í Skíða-
skálanum í Hveradölum eftir að hafa
skroppið í bíltúr austur í Ölfus, þar
sem verið var að reisa húsið hennar á
Núpum. Jú, svo var það einu sinni fyr-
ir margt löngu þegar Pamela vinkona
okkar kom í heimsókn til Íslands og
við Pamela fórum í tíu daga hestaferð
yfir hálendið, sem Sonja ákvað að
halda okkur Pamelu kvöldverðarhóf á
Hótel Valhöll á Þingvöllum þegar við
komum aftur heim úr hestaferðinni.
Þegar þetta var, haustið 1988, átti
Sonja ennþá sumarbústaðinn sinn
niðri við Þingvallavatn, en þangað
fórum við að loknum kvöldverðinum.
Þetta kvöld varð eitt af þessum
ógleymanlegu kvöldum, þar sem
hlátrasköllin ómuðu út í haustfeg-
urðina á Þingvöllum og þess á milli
skiptust þær Sonja og Pamela á um
að heilla gesti með hnyttnum
skemmtisögum og skondnum tilsvör-
um.
Í New York höfðum við annan hátt
á þegar Sonja bauð mér út að borða.
Þá var alltaf farið í dinner, en hér
heima var það frekar lunch, eins og
Sonja orðaði það alltaf. Í New York
fannst Sonju það vera „púkalegt" að
tvær konur (two ladies) færu saman í
kvöldverð, sem hjá Sonju hét alltaf
„dinner“, og því bauð hún gjarnan
vinum sínum til að fylgja okkur og
vera borðherrar. Þvílík heimskona!
Allar götur frá því ég kynntist Sonju
reyndi ég að fá hana til þess að kynn-
ast börnunum mínum, Sunnu og
Sindra. Þau langaði alltaf til þess að
fá að hitta þessa konu sem mömmu
þeirra fannst svo skemmtileg og sagði
þeim svo margar sögur af. Ósk um
fund okkar fjögurra setti ég fram,
bæði okkar vegna og hennar. Hún
sagði alltaf eitthvað í þessa veru: Litla
mín. Ég er svo lítið fyrir börn, eins og
þú veist. Ég er viss um að börnin þín
eru ágæt – þú hlýtur að eiga fín börn.
En ég vil að þau nái fullorðinsaldri áð-
ur en ég nenni að hitta þau. Ég sagði
henni alltaf að hún færi mikils á mis
og þau líka. Þau kynntust henni að
vísu allnokkuð í gegnum frásagnir
mínar og af símasamtölum við hana
þegar ég var ekki heima og langaði
alltaf mikið til þess að hitta hana, þótt
þau hafi bæði verið sár, þegar þau
voru yngri, yfir því að mamma þeirra
ætti vinkonu sem vildi ekki hitta þau.
Nú í janúarbyrjun var það komið á
dagskrá hjá okkur að hittast. Sonja
var búin að samþykkja að hitta okkur
öll og þóttist raunar talsvert spennt
fyrir því, laust eftir áramót, þótt ég
vissi auðvitað innst inni að þetta voru
dæmigerð ólíkindalæti í Sonju, því
hún var hætt að fara út og hitta fólk
þegar þetta var. Sennilega hefur það
bara kveikt í hinni síungu Sonju þeg-
ar ég gaf henni skýrslu um skíðaferð
okkar þremenninganna til Ítalíu um
jól og áramót. Nokkrum dögum áður
hafði Sonja hitt á Sindra þegar hún
hringdi og ég var að vinna. Næst þeg-
ar hún talaði við mig sagði hún: En
hvað hann sonur þinn er með elsku-
lega framkomu og svo hljómaði hann
bara eins og fullorðinn karlmaður
þegar ég talaði við hann í síma. Þá
settum við Sonja það á dagskrá að
hittast brátt öll í hádegisverði.
Það verður ekki í þessu lífi. En
minningin um stórbrotna konu, kæra
vinkonu, heimskonu, mun ylja okkur
um ókomna tíð.
Agnes Bragadóttir.
Það var gaman að þekkja Sonju de
Zorilla. Hún varð ógleymanleg öllum
sem kynntust henni, gullfalleg kona,
með þykkt slegið hár niður á herðar,
ætíð búin glæsilegum tískufatnaði
meðan hún ræktaði samkvæmislífið,
röddin djúp og seiðandi og hljómaði
eins og örlaði á niðurbældum hlátri.
Hún var heimskona í orðsins fyllstu
merkingu, hafði ferðast um í glæsisöl-
um og umgengist efnaðasta fólk ver-
aldar þar sem hún bjó í New York.
Hún var skarpgreind og athugul,
gerði skondnar athugasemdir við
ólíklegustu tækifæri en var jafnframt
umtalsfróm svo af bar. Félli henni
ekki við einhvern var bara ekkert á
þann minnst. Hún vissi allt um Dow
Jones og Nasdaq á verðbréfamark-
aðinum í New York og skemmti sér
við að leika á þann markað eins og
hvert annað hljóðfæri. Henni var ekki
gefið um kennitölukerfið á Íslandi.
Fannst það hnýsið og ekki beinlínis til
framdráttar unglegum eldri dömum.
Við Sonja eignuðumst einlæga
gagnkvæma vináttu fyrir dálæti okk-
ar beggja á íslenskri náttúru og ís-
lenskri tungu. Fyrir aldarfjórðungi
fór hugur hennar að leita meir og
meir til Íslands, hún festi sér eignir
hér, íbúð og sumarhús, og kom eins
oft og kostur var. Eftir að maður
hennar féll frá á 9. áratugnum, en
hann var Alfredo de Zorilla, glæsileg-
ur ólympíumethafi og óviðjafnanleg-
ur tangódansari frá Argentínu,
urðu komur hennar enn tíðari heim
til ættjarðarinnar og að lokum flutti
hún alkomin heim fyrir nokkrum ár-
um. Þá ákvörðun hefði hún sennilega
aldrei tekið hefði hún ekki fundið
„týnda soninn“ og komist í síðbúin
kynni við ungan frænda sinn, Guð-
mund Birgisson, „Gumma frænda“,
sem eftir að þau kynntust reyndist
henni sem besti sonur og veitti henni
það öryggi og umhyggju sem öllum er
kærkomið á öllum aldri.
Við deildum saman stað í fallegri
vík á Þingvöllum, Sonja de Zorilla og
ég. Þar sat hún við gluggann löngum
stundum og horfði út á vatnið, á blæ-
brigðin í dansandi litadýrðinni eða á
úfna skugga þegar vatnið tók að
bylgjast í eftirmiðdagsgjólunni. Ég
hafði það oft á tilfinningunni að hún
væri í huganum að mála vatnið og
umhverfi þess, en hún var í listmál-
aranámi í París fyrir margt löngu og
var einatt að hugsa um myndlist. Við
ókum oft saman austur og þá var það í
löngu spjalli svo iðulega ljóst hvernig
hún fléttaði saman hughrifin af land-
inu og íslenzka tungu. En það bar líka
margt annað á góma sem flotið hafði á
fjörur okkar í lífinu. Þess vegna kann
ég margar skemmtilegar sögur af
Sonju Benjamínsson de Zorilla.
Mér finnst lífið litlausara að henni
genginni. Hún var afar litríkur og
skemmtilegur persónuleiki sem ég
minnist með mikilli hlýju.
Vigdís Finnbogadóttir.
Sonja Wendel var alveg sérstakur
persónuleiki, engin hversdagsmann-
eskja.
Hún var það sem kallað er heims-
kona í orðsins bestu merkingu. Hún
var glæsileg í útliti, andlitsfríð með
fallegt hár og hafði aðlaðandi og
frjálslega framkomu, með fallega og
hljómþýða rödd, t.d. hljómuðu öll er-
lend mál sem hún talaði einstaklega
vel í hennar munni og framburður fal-
legur á þeim mörgu málum sem hún
talaði. Sonja hafði farið víða og
menntast í mörgum löndum og var
skemmtilegum gáfum gædd, ritfær
mjög og hafði skemmtilegan stíl.
Listasmekkur Sonju var ótrúlega
öruggur, hún lagði fyrir sig nám í
málaralist um tíma og hafði á því sviði
mikla hæfileika, sem hún því miður
notaði aldrei sem skyldi. Hún átti í
fórum sínum töluvert safn mynda og
málverka sem hún hafði málað á ár-
um áður, sérstaklega báru andlits-
myndir (portrett) hennar vott um
hæfileika hennar. Sonja og maður
hennar, Alberto, höfðu bæði næmt og
listrænt auga fyrir alls konar list og
bar fallegt heimili þeirra á 580 Park
Avenue í New York þess glöggt
merki.
Söfnuðu þau smám saman fjölda
listaverka, aðallega málverkum en
líka skúlptúrum, og áttu þau orðið
merkilegt safn, m.a. Picasso, Roy
Lichtenstein o.fl. Á seinni árum eign-
aðist Sonja líka verk íslenskra lista-
manna og voru þau hjón mjög sam-
hent í söfnun listaverka. Alberto
Zorilla, maður Sonju, var frá Argent-
ínu og hafði unnið til gullverðlauna
fyrir sund á ólympíuleikum fyrir all-
löngu. Alberto var einstaklega ljúfur
maður með mikið og gott skopskyn.
Sonja sagði einu sinni um Alberto að
hann væri einn allra besti tangódans-
ari og unun var að sjá hann dansa
enda argentínskur, frá landi tangó-
sins. Í síðasta skipti sem ég hitti Al-
berto steig hann fyrir okkur tangó-
spor og ég reyndi að fylgja honum
eftir án árangurs. Þetta var á Flórída
á Key Largo. Ég minnist þess um leið
að eitt sinn fórum við Sonja á tangó-
tónleika Sinfóníuhljómsveitar Ís-
lands. Var þar kominn argentínskur
hljómsveitarstjóri og var efnisskráin
byggð á tangó.
Alberto lést árið 1986 og voru síð-
ustu árin hans honum erfið því miður
þar sem hann þjáðist af sjóndepru.
Það er af mörgu að taka ef lýsa ætti
ævi Sonju að einhverju gagni en hér
er aðeins stiklað á stóru. Mikið vatn
hefur runnið til sjávar frá því við hitt-
umst fyrst í New York í lok síðustu
heimsstyrjaldar þar sem ég vann á
skrifstofu aðalræðismanns Íslands,
sem þá var dr. Helgi P. Briem. Sonja
hafði þá komið fyrir nokkru frá Evr-
ópu til New York þar sem hún síðan
bjó mestalla sína ævi. Seinna meir
þegar ég fór að koma oft til New York
með manni mínum, Hans G. Ander-
sen, þá oftast á þing Sameinuðu þjóð-
anna, en þangað átti hann oft erindi
vegna baráttunnar í landhelgismálum
Íslendinga, fórum við Sonja að hittast
oftar og kynnast betur. Það var svo
1986 að við hjónin fluttumst til Wash-
ington DC þar sem Hans tók við
sendiherraembætti. Varð sú dvöl löng
og oft lá leiðin til New York og nutum
við þá gestrisni Sonju. Hún hafði
mikla ánægju af að bjóða fólki út á
góða veitingastaði og áttum við þar
margar ánægjustundir, þá oft í há-
degismat á einhverjum af uppáhalds-
stöðum Sonju eins og t.d. Côte Basq-
ue eða Le Cirque, svo eitthvað sé
nefnt.
Sonja átti skemmtilega íbúð í
Quoque nálægt East Hampton. Þá
íbúð seldi hún er hún ákvað að kaupa
sér vetrardvalarstað í Flórída, þ.e.
„Key Largo Ocean Reef Club“. Þar
dvaldi svo Sonja um sex mánuði á ári
hverju. Þetta var dásamlegur staður
og dvöldum við hjónin þar oftar en
einu sinni. Þetta voru tvær notalegar
íbúðir og bauð hún mörgum vina
sinna að dveljast þar hjá sér. Seinna
eignaðist Sonja yndislegan sumarbú-
stað við Þingvallavatn sem hún átti í
mörg ár eða þangað til hún hóf bygg-
ingu á miklu og fallegu húsi á Núpum
í Ölfusi. Um tíma stundaði Sonja lax-
veiðar, þá oftast í Laxá í Kjós en einn-
ig í Hoffjarðará og fór ég með henni
tvær slíkar veiði- og skemmtiferðir og
fékk mína fyrstu laxa þá þótt ekki
væri ég mikill veiðimaður.
Sonja var tryggur vinur, gleymdi
aldrei vinum sínum og hafði gott sam-
band, sérstaklega í síma, við fjölda
fólks. Það verða margir sem minnast
Sonju í dag, þessarar einstöku og eft-
irminnilegu konu sem engum var lík.
Sjálf á ég ótæmandi minningar um
vináttu okkar og samfundi á liðinni
tíð.
Ég vil svo að lokum votta mági
Sonju, Grosvinar Murrey, manni
Ástu systur hennar, sem lést sl. vetur,
og börnum þeirra, Ólafi og Margréti,
mína dýpstu samúð. Einnig Einari,
frænda Sonju, og Guðmundi Birgis-
syni á Núpum sem var henni stoð og
stytta síðustu árin eftir að hún fluttist
alkomin til Íslands.
Guð blessi minningu Sonju og Al-
berto Zorilla.
Ástríður H. Andersen.