Morgunblaðið - 22.06.2002, Side 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. JÚNÍ 2002 45
✝ Gunnhildur AnnaValdimarsdóttir
fæddist á Ísafirði, 27.
september 1907. Hún
lést 25. maí síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Valdimar
Haraldsson skipa-
smiður og Ingibjörg
Árnadóttir, systir
Árna Árnasonar fisk-
matsmanns á Ísafirði.
Gunnhildur Anna
giftist aldrei og var
ekki í sambúð, en
eignaðist eina dóttur,
Valdísi Jónsdóttur, f.
16.9. 1943. Hún giftist Óla Jakobs-
syni veðurfræðingi, f. 20.7. 1935.
Þau skildu, en börn þeirra eru: a)
Jón Gísli, í sambúð
með Guðrúnu
Hauksdóttur, þeirra
börn: Hildur Dögg, f.
1986, og Haukur, f.
1992. b) Gunnar
Bragi, f. 24.4. 1965, í
sambúð með Krist-
jönu Sigurðardóttur,
þeirra barn: Gunn-
hildur Diljá, f. 2000,
og c) Anna Kristín, í
sambúð með Einari
Magnússyni, þeirra
börn: Hjördís Birna,
f. 1992, og Aðal-
steinn Valur, f. 2000.
Gunnhildur Anna var jarðsett í
kyrrþey á Mosfelli 3. júní síðastlið-
inn.
Þótt nokkuð sé um liðið síðan
elskuleg frænka mín, Gunnhildur
Anna Valdimarsdóttir, lést eftir
skamma en kvalafulla banalegu lang-
ar mig til að minnast hennar í nokkr-
um orðum því að mér var hún annað
og meira en náskyld frænka, en við
vorum þremenningar, hún var mér
sannur vinur allar götur frá því að ég
var unglingur.
Ég man reyndar takmarkað eftir
henni þegar ég var krakki, öllu
fremur eftir móður hennar, Ingi-
björgu Árnadóttur, afasystur minni,
sem oft kom í heimsókn og færði
okkur systkinunum fimm sinn
brjóstsykurspokann hverju að gjöf.
Ég var alltaf sendur í sveit á sumrin
og var alfarið í þrjú ár austur í
Skaftafellssýslu eftir ferminguna.
Síðan fór ég í Búnaðar-skólann á
Hvanneyri eftir eitt sumar á síldveið-
um, svo ég var kominn fram yfir tví-
tugt er ég kynntist henni almennilega
og varð fljótlega heillaður af fegurð
hennar, glaðværð og háttvísi. Mig
minnir að ég hafi verið 17 eða 18 ára,
þegar ég tjáði henni ást mína og
spurði hvort hún vildi giftast mér.
Hún tók því ekki illa, en hélt að ég
væri að spauga og kom mér í skilning
um, að slíkt væri glapræði vegna ald-
ursmunarins, hún rúmum 15 árum
eldri en ég, að þetta mundi aldrei
blessast, er fram liðu stundir, og ég
lét sannfærast, eftir að hún útskýrði
sína hlið málsins. Hún var ákaflega
sjálfstæð kona, með rauðgullið,
hrokkið hár og vildi ekki bindast
neinum föstum böndum. En eftir
þetta urðum við alla tíð góðir vinir og
eftir að hún varð verslunarstjóri í
Soffíubúð í Austurstræti og síðar í
verslun Ingibjargar Johnson í Lækj-
argötunni lagði ég oft leið mína þang-
að, eftir að ég var byrj-aður að stunda
sjómennsku á togurum og átti frí-
stund, á meðan togarinn sigldi með
aflann. Það var svo gaman að koma í
búðina til Önnu, því í þjónustu sinni
hafði hún gullfallegar stúlkur, sem í
mínum augum voru sannkölluð
augnayndi, þótt engin þeirra stæðist,
í mínum huga, samjöfnuð við Önnu
frænku, hvað fegurð snerti. Ég man
vel eftir fyrstu heimsókninni í
Soffíubúðina, en er við Anna höfðum
heilsast innilega leit hún framan í mig
og sagði, með gáska í rómnum: „Hvað
er að sjá þig í framan, Geiri minn? Þú
ert allur útsteyptur í fílapenslum í
andlitinu! Þessu verðum við að kippa
í lag.“ Síðan byrjaði hún að kreista
þessa óværu úr andlitinu á mér, lét
stúlkurnar sjá um afgreiðsluna á
meðan, en þær vildu líka fá að taka
þátt í athöfninni og pöntuðu hver af
annarri að gera þetta, næst þegar ég
kæmi í heimsókn. Þegar Anna þóttist
vera búin að kreista alla „ormana“ úr
andliti mínu – þá stærstu úr nefinu,
leit ég í spegil og brá í brún, því and-
litið á mér var engu líkara en gata-
sigti. Ég hefi aldrei fríður verið, en
eftir þessa ógleymanlegu meðferð
fríkkaði ég til muna, þótt allt væri
komið í sama horf, er ég kom í næstu
heimsókn. Þá fékk ein af búðarstúlk-
unum að spreyta sig á mér og virtist
hún hafa mikla ánægju af þessu og
því meiri, sem „maðkarnir“ voru
stærri. Svona gekk þetta koll af kolli,
þar til einn góðan veðurdag, að ekk-
ert var meira til að kreista.
Ég heimsótti Önnu oft, sjaldnar þó
en ég vildi, á meðan hún bjó á
Skeggjagötunni. Eftir að hún eignað-
ist einkadóttur sína, Valdísi Jónsdótt-
ur, sem alla tíð var henni kærari en
allt annað í lífinu, fékk ég, eftir að hún
komst lítið eitt á legg, tveggja til fjög-
urra ára, að fara með hana út að
ganga að sumarlagi. Aðeins í eitt sinn
varð hún verulega hrædd um, að eitt-
hvað hefði komið fyrir okkur og var
komin á fremsta hlunn með að
hringja í lögregluna og láta hefja leit
að okkur, því klukkan var orðin 10 um
kvöldið, þegar ég kom loks heim til
hennar með barnið. Við Valdís höfð-
um farið vítt og breitt um borgina í
góða veðrinu; í bíó, út á flugvöll, upp í
Öskjuhlíð og víðar. Valdís var ein-
staklega skemmtilegt, fjörugt barn
og við fylgdumst ekkert með hvað
tímanum leið þennan dag. En allt fór
þetta vel og Önnu létti augsýnilega
mikið er við birtumst heil á húfi. Eftir
þetta var ég í miklu uppáhaldi hjá
Valdísi og í leikskólanum Tjarnar-
borg sagði hún hinum krökkunum oft
frá stóra frænda sínum og ævin-
týrunum, sem við vorum aðalpersón-
urnar í, ekki síst eftir að ég hóf störf í
lögreglunni (á Keflavíkurflugvelli).
Tíminn leið hratt þá eins og enn í
dag og fyrr en varði var litla stúlkan,
sem mér þótti svo vænt um, orðin
gjafvaxta kona, sem giftist norður í
Eyjafjörð og hóf búskap í Hrauk-
bæjarkoti ásamt manni sínum. En
þar sem Anna frænka vildi vera í sem
mestri nálægð og tengslum við dóttur
sína og sem allra lengst af ævinni
hætti hún að vinna í Reykjavík, seldi
húsið á Skeggjagötunni, flutti til Ak-
ureyrar og bjó þar til dauðadags í
smekklegri íbúð í Munkaþverár-
stræti 33. Þaðan var stuttur spölur á
milli þeirra mæðgna, sem var góður
styrkur fyrir Önnu í ellinni – í ellinni
segi ég? Anna varð aldrei gömul, þótt
aldurinn færðist yfir hana eins og
aðra! Hún var alltaf síung í anda, lífs-
glöð, spaugsöm og spurul alveg til
hins síðasta og kvartaði aldrei, þótt
fæturnir væru alveg að drepa hana,
eins og hún sjálf komst að orði, þegar
rætt var um heilsufarið við hana. Þótt
heimsóknunum fækkaði eftir að hún
flutti norður hafði ég oft símasam-
band við hana og í hvert sinn sagði
hún með sinni hljómþýðu rödd, sem
aldrei brast: „Og hvernig hefur hann
Mái það, ég hef ekki heyrt frá honum
svo lengi, ó, hann var svo sætur
krakki, hann Mái!“ Jón Már, yngsti
bróðir minn, var alltaf í miklum met-
um hjá henni, hann var líka lengst
heima í Hafnarfirðinum, löngu eftir
að við hin systkinin vorum „flogin úr
hreiðrinu“. Ég skrifaði henni líka oft
bréf og sendi henni oftast nýjustu
ljóðin mín, jafnóðum og þau urðu til,
og var ekki annað að heyra, en hún
hefði gaman af því.
Anna frænka lét sér aldrei leiðast
og hafði nóg fyrir stafni á efri árum,
dundaði sér oft við að búa til silkiblóm
og fiðrildi, sem hún skreytti húsið
með, og í eitt sinn, er við hjónin áttum
leið norður, knúðum við dyra hjá
henni, eins og alltaf. Þá heillaðist ég
af þessari haganlegu handavinnu
hennar og hún sýndi okkur hvernig
þetta væri gert. Þetta sýndist ekki
vera mikill vandi, en varð aldrei eins
fallegt og hjá henni.
Ég gæti teygt lopann um Önnu
frænku endalaust, en þetta verður að
duga og minningin um hana verður
mér ætíð sem ljós í myrkrinu og eins
og skáldið sagði:
Haustlaufið fellur
hljóðlaust til jarðar,
vindurinn feykir því
burt.
þannig er lífið,
kemur og fer,
tíminn hylur þess
spor.
Með þessum orðum kveð ég elsku-
lega frænku mína og sendi Valdísi og
afkomendum hennar mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Sigurgeir Þorvaldsson.
GUNNHILDUR ANNA
VALDIMARSDÓTTIR
✝ Ómar Gísli Más-son var fæddur í
Núpshlíð í Vestur-
hópi 2. nóvember
1956. Hann andaðist
á líknardeild Land-
spítalans 16. júní síð-
astliðinn. Foreldrar
hans eru Elísabet Á.
Árnadóttir og Már
Hall Sveinsson. Óm-
ar var fjórða af
börnum foreldra
sinna, en þau eru
Árni Ásgrímur, f.
1952, Sveinn, f.
1953, Aðalheiður, f.
1955, Ómar Gísli, f. 1956, d. 2002.
Guðmundur, f. 1960, d. 1960,
Erla Björg, f. 1962,
og Vilborg, f. 1964.
Eftirlifandi eigin-
kona Ómars Gísla er
Birna G. Sverris-
dóttir, f. 1957. For-
eldrar hennar eru
Kristín Hjaltadóttir
og Sverrir Júl-
íusson. Birna og
Ómar Gísli eiga
tvær dætur, Krist-
ínu Björk, f. 1975,
og Berglindi, f.
1979.
Útför Ómars
Gísla fer fram frá
Grindavíkurkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.30.
Í dag kveðjum við góðan dreng,
vin, félaga og samstarfsmann til
margra ára.
Kynni okkar af Ómari og fjöl-
skyldu hans hófust þegar hann sem
ungur maður kom til starfa við sjó-
mennsku á bátum frá Grindavík.
Aldrei bar skugga á samskipti, sam-
starf, skemmtan eða umgengni við
hann og hans fjölskyldu.
Ómar hafði einstaklega góðan
húmor og var ávallt glettinn og létt-
ur í lund. Hann aflaði sér mennt-
unar á sviði vélstjórnar og skip-
stjórnar þegar fram liðu stundir og
nutum við þess að vera með honum
við þessi störf.
Aldrei þurfti að hafa áhyggjur af
þeim störfum sem honum voru falin
hvort sem var í vél eða brú á þeim
skipum sem hann starfaði á og nutu
margir handleiðslu hans sem ungir
byrjuðu til starfa við sjómennsku
með honum.
Á mannfögnuðum sem við vorum
saman á komu glettnin og húmorinn
best í ljós og var þá mikið hlegið og
fuku ýmsir brandarar og við þá frá-
sögn og framsögu komu ýmsir kar-
akterar fram á sjónarsviðið hjá Óm-
ari þegar hann sagði frá.
Fáir á okkar lífsleið hafa sýnt hag
og handleikni þá sem Ómar hafði og
bera ýmsir munir og myndverk eftir
hann þess glöggt merki.
Í veikindum sínum tók hann það
sér fyrir hendur að hlaða grjótgarð
við hús sitt hér í bæ og má fullyrða
að verk það sem hann framkvæmdi
þar ásamt konu sinni sé mikið þrek-
virki hjá þeim, jafn veikur og hann
var orðinn og er hleðsla þessi glöggt
merki um þann hagleik sem í honum
bjó.
Glettni og húmor fylgdu honum til
hinstu stundar og á stundum sem
þessum er við kveðjum góðan dreng
yljar það í minningunni.
Elsku Birna, Kristín, Berglind og
fjölskyldur ykkar allra, megi algóð-
ur Guð styrkja ykkur og styðja um
ókomin ár.
Kveðjur.
Halla, Böðvar, Guðmundur,
Guðmunda og fjölskyldur.
Á sólríkum vordegi tókstu síðasta
andvarpið, elsku drengurinn minn.
Þegar veröldin skartaði sínum vax-
andi sumarskrúði og menn og dýr
tóku fagnandi móti sumri og sól.
Það er þyngra en tárum taki að
horfa upp á ungt fólk, sem á að öllu
eðlilegu langan feril fram undan,
takast á við svo grimmilegan sjúk-
dóm sem enginn mannlegur máttur
getur læknað. Það tók hann langan
tíma að koma þér á kné, því lífs-
löngun þín var sterk og þú barðist
hart og lengi, enda margt til að lifa
fyrir. Þú áttir von á þínu fyrsta afa-
barni sem þú hlakkaðir mikið til að
fá.
Ómar Gísli stundaði sjómennsku
mestan hlutan ævi sinnar. Hann út-
skrifaðist úr Stýrimanna- og vél-
skóla Íslands og hafði öll tilskilin
réttindi á venjuleg fiskiskip. Hann
vann hjá Þorbirni h.f. lengst af sinni
sjómannsævi, var vélstjóri eða stýri-
maður á bátum frá Grindavík og
ávann sér þar traust og vinsældir
hjá öllum sem með honum unnu, og
sýnir það best tryggð og vináttu
skipsfélaga hans og útgerðarfélags
þar til yfir lauk. Og skipstjóri sagð-
ist ekki fastráða annan vélstjóra á
meðan Ómar væri ofan moldar.
Það er margs að minnast og
margt að þakka fyrir að hafa átt jafn
elskulegan son og þú varst. Ungur
að árum og stuttur í annan endann
lékstu þér í Höfðanum á Skaga-
strönd með systkinum þínum og
sást þá ekki alltaf fyrir og hlaust
smábyltur og skrámur sem mamma
eða pabbi þurftu að kyssa á eða
plástra. Ómar og Birna kynntust
ung að árum og hafa síðan deilt
saman súru og sætu og voru nýbúin
að eiga silfurbrúðkaup. Þó slitu þau
samvistum í nokkur ár, en náðu
saman aftur og máttu síðan hvorugt
af öðru sjá. Þau voru búin að byggja
upp yndislegt heimili í Grindavík og
bar það glögglega vott um lista-
mannshendur Ómars og samvinnu
þeirra hjóna. Síðastliðið sumar, en
þá var hann orðinn sjúkur, byggðu
þau sólpall við húsið sitt og gengu
frá lóðinni sem er hreinasta lista-
verk. Það lék flest í höndum þínum,
það sýna öll listaverkin þín, máluð,
saumuð og útskorin. Ég vil meina að
guð hafi vantað svona sjálfmennt-
aðan listamann til að smíða sín him-
infley og gefa fallega liti í sólarlagið.
Ég á ekki orð til að lýsa aðdáun
minni og þakklæti til Birnu tengda-
dóttur minnar, sem er búin að fylgja
þér í gegnum allar þínar þrengingar
óbugandi og umvefjandi í kærleika
bæði á nótt og degi. Ég veit að þið
áttuð saman yndislegar stundir
þrátt fyrir veikindin, gefandi hvort
öðru allt það besta sem þið bjugguð
yfir. Alltaf var hlýi glaði húmorinn
þinn til staðar hversu þjáður sem þú
varst, gefandi okkur styrk og gleði.
Alltaf þegar ég hringdi svaraðir þú:
„Æ, mamma mín, mér líður alltaf
vel, bara dálítið misvel.“
Það er svo margt sem ég vildi
minnast og þakka, sem ég varðveiti í
hjarta mínu og ég veit að þú fylgist
með okkur sem sitjum eftir með
sorg í hjarta, og ekki síst veit ég að
þú verður verndari litla ófædda afa-
stráksins þíns sem þú fékkst ekki að
sjá hérna megin. Ég bið algóðan guð
að styrkja alla þína ástvini, þína
góðu konu og dætur sem nú gráta
góðan eiginmann og föður.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikindaviðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Þín
mamma.
Elsku pabbi minn, nú ertu farinn
frá okkur og söknuðurinn er mikill.
Þetta er erfiður tími fyrir okkur
sem þekktum þig. Við eigum marg-
ar góðar minningar saman og mér
finnst þær það dýrmætasta sem ég
á, ef við hefðum ekki minningar þá
fyndist mér lífið tilgangslaust. Þú
varst sá maður sem ég gat alltaf leit-
að til og þú varst alltaf tilbúinn að
hjálpa mér með eitt og allt. Á þess-
um erfiðu tímum var alltaf stutt í
brosið hjá þér, þú varst alltaf léttur,
glaður og góður, þannig er ein stutt
lýsing á þér. Ég vil þakka fyrir að
hafa átt þig að þótt tíminn sem við
áttum hafi ekki orðið lengri. Það
vakna margar spurningar sem verð-
ur aldrei svarað.
Mér finnst ég varla heill né hálfur maður,
og heldur ósjálfbjarga, því er ver.
Ef værir þú hjá mér, vildi ég glaður,
verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja,
að sumarið það líður allt of fljótt.
Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur með blómunum.
Er rökkvar ráðið stjörnumál.
Gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja sál.
Horfið er nú sumarið og sólin.
Í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin;
nú einmana ég sit um vetrakvöld.
Ég gái út um gluggann minn,
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifuna
ég reyndar sé þig allsstaðar
þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhj. Vilhj.)
Hvíldu í friði, elsku pabbi minn.
Þín dóttir,
Berglind.
ÓMAR GÍSLI
MÁSSON
MIKIL áhersla er lögð á, að handrit séu vel frá gengin, vélrituð eða
tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprent-
uninni. Það eykur öryggi í textameðferð og kemur í veg fyrir tvíverknað.
Þá er enn fremur unnt að senda greinarnar í símbréfi (569 1115) og í
tölvupósti (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höfundar/
sendanda fylgi.
Um hvern látinn einstakling birtist formáli, ein uppistöðugrein af
hæfilegri lengd, en aðrar greinar um sama einstakling takmarkast við
eina örk, A-4, miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd, – eða 2.200
slög (um 25 dálksentimetra í blaðinu). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak-
markast við eitt til þrjú erindi. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa
skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.
Frágangur afmælis-
og minningargreina