Morgunblaðið - 30.06.2002, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 30.06.2002, Blaðsíða 18
18 SUNNUDAGUR 30. JÚNÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ FRANK A. Chervenak, yf-irlæknir Cornell MedicalCenter í Bandaríkjunum,kom hingað til lands fyrirskömmu og hélt erindi fyr- ir íslenska fæðingar- og kvensjúk- dómalækna og annað heilbrigðis- starfsfólk um ýmis siðferðileg álitaefni í tengslum við ómskoðanir á meðgöngu, auk þess að ræða sér- staklega um greiningu og mælingu á hnakkaþykkt fósturs, sem gefur vísbendingu um Downs-heilkenni. Koma Franks Chervenaks þykir mikill fengur fyrir íslenska fræði- menn, þar sem hann stendur mjög framarlega á sínu sviði. Hann starf- ar náið með heimspekingnum dr. Laurence B. McCullough og saman hafa þeir birt fjölda greina í tímarit- um um læknavísindi, þar sem þeir flétta saman læknisfræði og sið- fræði. „Siðfræði er ekki eitthvað sem á að dusta rykið af fyrir sam- kvæmi eða kennslustund. Hún er órjúfanlegur hluti af daglegu lífi,“ segir hann. „Í fyrirlestrum mínum legg ég höfuðáherslu á að læknar veiti þunguðum konum eins nákvæmar upplýsingar og unnt er,“ segir Chervenak, sem hefur haldið fyr- irlestra víða um heim. „Konur verða sjálfar að eiga möguleika á að taka upplýsta ákvörðun um þungun sína. Siðfræði er samofin öllum greining- um sem læknar gera á meðgöng- unni, því læknar eiga ekki að leggja til ákvarðanir sem skipta konuna miklu, til dæmis um hvort fóstri skuli eytt. Ákvörðun um slíkt, ef komið hefur í ljós að eitthvað amar að fóstrinu, getur enginn tekið nema konan sem gengur með barn- ið. Læknisfræðilegar staðreyndir málsins eru aðeins hluti málsins. Þungaðar konur hafa mjög ólíka af- stöðu til fóstureyðingar, sem fer eft- ir trú þeirra, fjölskylduaðstæðum, fjárhagsstöðu og aldri, því yngri konur líta málið oft öðrum augum en t.d. konur um fertugt sem gera sér grein fyrir að þetta gæti verið síðasti möguleiki þeirra til barn- eigna. Þegar ég ræði við lækna, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminu, legg ég alltaf áherslu á að þeir leggi hvorki að konum að láta eyða fóstri né halda meðgöngunni áfram. Þeir verða að halda eigin skoðunum utan við málið og leggja sig fram um að veita allar upplýsingar sem völ er á.“ Chervenak segir að um langa hríð hafi ómskoðun á öðrum þriðjungi meðgöngu verið viðurkennd aðferð til að skoða hvort útlit fósturs bendi til að það væri heilbrigt. „Hægt er að greina mörg frávik með ómskoð- un. Fyrir tuttugu árum, þegar ég var við nám, var þetta bylting. Nú hefur þetta hins vegar breyst, því með snemmskoðun, í 11.–14. viku meðgöngu, er hægt að greina og mæla hnakkaþykkt fósturs, sem gefur vísbendingu um Downs-heil- kenni. Auk þess má reikna út líkur á litningagöllum eftir niðurstöðum úr blóðsýni úr móðurinni, svonefndri lífefnavísamælingu. Sýnt hefur ver- ið fram á að í 80–90% tilvika getur aðferðin leitt til að litningagallar greinast svo snemma á meðgöngu, ef líkur á litningagalla reynast auknar eftir viðbótarrannsókn með fylgjusýnitöku. Fyrir okkur, sem höfum unnið að ómskoðunum árum saman, er þetta mikil breyting. Það er ekki aðeins hægt að fá vísbend- ingu um og svo greina Downs-heil- kenni, heldur má gera það miklu fyrr en áður var unnt. Ég ítreka að læknar eiga ekki að mæla með fóst- ureyðingu, hvaða frávik sem grein- ist hjá fóstri, en margar konur vilja eiga þess kost að binda enda á með- gönguna sem fyrst. Snemmskoðun gerir það að verkum að þær geta tekið þá ákvörðun áður en vinir og ættingjar vita af þunguninni.“ Þungaða konan hæfust til að taka ákvarðanir Chervenak segir að ef þungaðar konur vilji fullvissa sig um að engir litningagallar leynist í fóstrinu verði þær að gangast undir aðgerð á borð við legvatnsprufu. „Í New York hef ég sinnt mörgum konum, sem hafa gengist undir tæknifrjóvgun, eftir langa baráttu við ófrjósemi. Þær kæra sig oft ekki um að tekin sé leg- vatnsprufa því hún eykur hættuna á fósturláti. Kosturinn við hnakka- þykktarmælingu er sá að þar með geta margar konur forðast legvatns- prufu. Þessu er oft snúið á hvolf, þegar menn halda því fram að tíðari ómskoðanir þýði að fleiri fóstrum sé eytt. Ég lít fremur svo á að dregið sé úr líkunum á fósturláti. Konur, sérstaklega þær sem eru í áhættu- hópi vegna aldurs, taka í æ ríkari mæli þann kostinn að láta ómskoðun nægja, því þær geta fengið góðar vísbendingar um fóstrið með þeim hætti.“ Ómskoðunin veitir þó ekki 100% öryggi. „Líkurnar á að unnt sé að greina Downs-heilkenni við snemm- skoðun er líklega á bilinu 70–80%. Þetta er þó algjör bylting frá því sem áður var.“ Frank Chervenak segir að viðhorf lækna á Vesturlöndum hafi gjör- breyst á undanförnum árum, að því leyti að þeir telji nú fyrst og fremst skyldu sína að veita konum sem gleggstar upplýsingar svo þær geti sjálfar tekið ákvörðun um þungun sína. „Þetta er mjög heilbrigð þró- un. Þegar ég var við nám, fyrir tutt- ugu árum, var okkur læknanemun- um sagt að við ættum að segja konum hvað ráðlegast væri að gera hverju sinni. Hugsanagangurinn hefur breyst. Læknar gera sér nú grein fyrir að þeir eru ekki hæfastir til að leggja mat á þungun konu, það verður hún að gera sjálf. Nú segi ég læknanemum að bera virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti barnshafandi kvenna.“ Þetta viðhorf hefur ekki skotið rótum um heim allan. „Í Austur- löndum á þetta ekki við. Þar er til- hneigingin sú að læknarnir taki ákvörðun sem þessa fyrir konuna. Reyndar er staðan sú víða að sjúk- lingar sem eru t.d. haldnir krabba- meini, fá ekkert um það að vita, að- eins aðstandendur þeirra. Í þessum heimshluta mun því áreiðanlega líða allnokkur tími þar til sjálfsákvörð- unarréttur þungaðra kvenna verður virtur.“ Vanda þarf til ómskoðunar Á Íslandi er reglan sú að þung- aðar konur fara í ómskoðun á 18.– 20. viku meðgöngunnar, en áætlanir eru uppi um að bjóða öllum konum snemmskoðun. „Ef aðeins eru tök á að gera eina ómskoðun á meðgöngu, þá er hárrétt að gera hana sem næst tuttugustu viku,“ segir Frank A. Chervenak. „Þá er meðal annars hægt að greina hvort fóstrin eru fleiri en eitt og ýmis afbrigði eru komin í ljós á þessum tíma, auk þess sem heili og hjarta hafa ekki mótast fyrr en á öðrum hluta meðgöngunn- ar. Ég mæli þó eindregið með því að allar konur eigi einnig kost á snemmskoðun.“ Hann leggur mikla áherslu á að vanda verði vel til ómskoðunar, eigi hún að skila tilætluðum árangri. „Þeir einir ættu að framkvæma óm- skoðun sem hafa fengið til þess full- nægjandi þjálfun. Þetta hefur verið vandi í Bandaríkjunum. Það verður að hafa gott eftirlit með hæfni þeirra sem framkvæma ómskoðun, annars getur skoðunin jafnvel gert meira ógagn en gagn. Ég hef fengið til mín konur, sem hafa ætlað að láta eyða fóstri vegna upplýsinga sem þeim var sagt að komið hefðu fram í ómskoðun, en við nánari rannsókn hefur komið í ljós að ekk- ert amar að fóstrinu. Þetta er hræðileg tilhugsun og betra að láta ómskoðun eiga sig en að kasta til höndunum með svo skelfilegum af- leiðingum.“ Chervenak segir að hann þekki ekki af eigin raun hvernig málum sé háttað hér á landi, en nefnir hins vegar sérstaklega að Reynir Tómas Geirsson, yfirlæknir Landspítala, sé mjög virtur í heimi læknavísind- anna. Almannahagur ráði för Frank A. Chervenak hefur einnig fjallað töluvert um þau siðferðilegu álitamál sem koma upp þegar grípa á til aðgerða á fóstrum í móðurkviði. „Mikilvægasta læknisaðgerðin fyrir fóstur, sem eiga í erfiðleikum, er enn sem fyrr keisaraskurður,“ segir hann. „Eftir öll þessi ár og tækni- framfarir er enn mikilvægast að koma barninu í heiminn, svo unnt sé að takast á við vandann. Vissulega er nú farið að bera á ýmsum aðferð- um til að hjálpa fóstrum í vanda, til dæmis hafa verið framkvæmdar skurðaðgerðir á börnum í móður- kviði og um nokkurt skeið hefur verið unnt að gefa fóstrum blóð. Hins vegar hefur dregið mjög úr blóðsjúkdómum, sem kalla á slíkar aðgerðir.“ Eftir því sem tækninni fleygir fram verður nauðsynlegra að huga að því í hve miklum mæli eigi að nýta hana. Þótt hægt sé að gera eitthvað þýðir það ekki að ástæða sé til að gera það, eða að það sé æski- legt. „Ég tel að vísindin og siðfræð- in þurfi að haldast í hendur, en við þurfum að líta á hvert tilvik fyrir sig. Það er aldrei auðvelt að draga skýrar línur, en mér finnst einsýnt að við miðum við það sem kemur al- menningi vel. Stofnfrumurannsókn- ir geta til dæmis komið öllum vel og ég er fylgjandi þeim, en vissulega eru margir ósammála mér. Þeir hin- ir sömu og ástvinir þeirra gætu hins vegar notið góðs af rannsóknunum, þrátt fyrir siðferðilega andstöðu sína. Mér finnst hins vegar allt öðru máli gegna um einræktun. Ef ein- hver vill vera einræktaður, svo barnið hans verði alveg eins og hann, þá byggir það eingöngu á sjálfselsku og kemur almenningi alls ekki til góða. Því er engin ástæða til að leyfa slíkt, jafnvel þótt tæknin bjóði upp á það.“ Chervenak nefnir einnig, að hann sé andvígur því að konur gangist undir aðgerðir á borð við legvatns- prufu, sem geta aukið líkur á fóst- urláti, til þess eins að ákvarða kyn barns, með það í huga að eyða fóstri ef um „rangt“ kyn er að ræða að mati móðurinnar. „Ég vil auðvitað virða sjálfsákvörðunarrétt móður- innar, en ég hef ekki viljað gera próf af þessu tagi til þess eins að ákvarða kyn, vitandi að hugsanlega gripi konan til fóstureyðingar. Hins vegar vil ég ekki fordæma slík próf, þótt þetta sé mín persónulega skoðun.“ Veraldleg siðfræði lækna Chervenak segist vera þeirrar skoðunar að siðfræði læknavísind- anna þurfi að vera veraldleg. „Ég á mína trúarsannfæringu, líkt og svo margir aðrir, en í fæðingarlækning- um þarf siðfræðin að vera veraldleg. Með þessu er ég alls ekki að mæla gegn trúarbrögðum á nokkurn hátt, en til að siðfræði okkar nái til allra þarf hún að byggja á veraldlegum grundvallarreglum. Í Bandaríkjun- um eigum við nú við þann vanda að etja, að lögfræðinni er att gegn læknisfræðinni. Læknar eiga fyrst og fremst að hugsa um hag sjúk- linga sinna, en ekki velta því fyrir sér hvort þeir eigi yfir höfði sér málarekstur vegna mistaka í starfi. Þessi vandi mun áreiðanlega vaxa hér á landi. Siðfræðin getur hjálpað okkur á þessari leið. Allir þekkja þá frumreglu, að ekkert megi gera sem valdi öðrum skaða. Læknisfræðin gengur auðvitað lengra, því við vilj- um gera allt sem við getum, sjúk- lingnum í hag, með þeirri takmörk- un að virða sjálfsákvörðunarrétt sjúklingsins. Þarna liggur jafnvæg- ið, sem við verðum að leitast við að ná. Um leið verðum við að leita jafn- réttis. Það getur reynst erfitt í Bandaríkjunum, þar sem trygginga- félög leitast við að greiða sem lægstan lækniskostnað. Þau líta á læknisfræðina sem viðskipti. Það er auðvitað alrangt; samband læknis og sjúklings er ekki viðskiptalegs eðlis. Það er trúnaðarsamband, sem lýtur allt öðrum lögmálum en við- skiptasamband. Tryggingafélögin í Bandaríkjunum, og hið opinbera hér á landi, sem greiða fyrir læknismeð- ferð, eiga að mínu mati aðild að þessu trúnaðarsambandi og bera ábyrgð í samræmi við það.“ Chervenak segist líta til fjögurra dyggða, sem læknisfræðin þurfi að styðjast við. „Í fyrsta lagi þarf læknirinn að forðast að móta sér skoðun á sjúklingi sínum, heldur meðhöndla alla með sama hætti. Í öðru lagi þarf læknir að vera tilbú- inn að gefa af sjálfum sér, til dæmis með því að vaka yfir sjúklingi sínum heila nótt þótt hans eigin fjölskylda bíði heima. Í þriðja lagi er samúðin. Læknar verða að muna af hverju þeir ákváðu að leggja stund á lækn- isfræði; til að hjálpa fólki og lina þjáningar. Loks er svo heiðarleik- inn, eða ráðvendnin, sem kemur í veg fyrir að læknir byggi á nokkru öðru í starfi sínu en þeim staðreynd- um sem liggja fyrir. Trygginga- félögin í Bandaríkjunum og íslenska ríkið eiga að starfa í þessum anda, en ekki eingöngu reikna út hver kostnaður við heilbrigðisþjónustuna sé. Slíkt væri siðferðilega rangt.“ Læknar eru fagmenn, ekki tæknimenn Chervenak segir að helsti tilgang- ur sinn með fyrirlestrum um allan heim sé að gera fæðingarlæknum og ljósmæðrum ljóst að þeir verði að taka siðferðireglur sínar alvarlega, því annars sér lítil von til að aðrir geri það. „Við megum ekki láta lög- fræðinga, tryggingafélög eða hið op- inbera ákveða hvað sé rétt og hvað rangt í læknisfræðilegu tilliti. Það er okkar að kryfja þau mál til mergjar. Læknar eru ekki og mega aldrei verða tæknimenn, þeir eru fagmenn. Einu sinni voru læknar stundum teknir í guðatölu og ekki var það betra, enda getur enginn maður staðið undir slíku. Heiðar- legt, gott fólk getur gert mistök, en það gerir sitt besta.“ Siðfræði samofin öllum greiningum á meðgöngu Hlutverk lækna hefur breyst verulega á síðustu ár- um og áratugum. Þeir gera sér í æ ríkari mæli grein fyrir að þeim ber að virða sjálfsákvörð- unarrétt sjúklinga sinna, segir Frank A. Chervenak læknir í samtali við Ragnhildi Sverrisdóttur. Chervenak kom hingað til lands til að ræða við hérlenda kollega sína, m.a. um siðferðileg álitaefni við ómskoðanir á meðgöngu. Morgunblaðið/Ásdís Frank A. Chervenak: Viðhorf lækna til sjálfsákvörðunarréttar þungaðra kvenna hefur gjörbreyst á undanförnum árum. rsv@mbl.is ’ Siðfræði er ekkieitthvað sem á að dusta rykið af fyrir samkvæmi eða kennslustund. Hún er órjúfanlegur hluti af daglegu lífi. ‘
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.