Morgunblaðið - 26.07.2002, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 26.07.2002, Blaðsíða 24
LISTIR 24 FÖSTUDAGUR 26. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ Menningardagskrá í Skálholti HELGARTILBOÐ Skálholtsskóli, Sumartónleikar í Skálholtskirkju og Fornleifastofnun bjóða upp á sérstaka dagskrá núna um helgina 27.-28. júlí Dagskráin felur í sér gistingu og sögutengdan veislukost m.a. að hætti Valgerðar biskupsfrúar, umræðustund með ungum tónskáldum, leiðsögn um fornleifauppgröftinn, staðarskoðun, þrenna tónleika og hátíðarmessu. Einnig er boðið upp á miðaldarkvöldverðinn sérstaklega á laugardagskvöld kl. 19.00. Sérstakt helgartilboð kr. 8.900. Pantanir og upplýsingar í Skálholtsskóla, sími 486 8870, netfang skoli@skalholt.is TÓNLISTARHÁTÍÐIN í Reykholti hefst í kvöld. Á dagskrá hátíðarinnar eru fernir tónleikar og er að vanda lögð áhersla á hugljúfa og skemmti- lega evrópska kammertónlist í vali efnisskrárinnar, auk norrænnar tón- listar. Í ár er Finnland það Norður- landanna sem er í forgrunni og af því tilefni er kominn hingað vel þekktur finnskur bassa-barítonsöngvari, Petteri Salomaa. Á tónleikum á morgun kl. 15 mun hann flytja finnska tónlist, allt frá verkum Jeans Sibelius og þjóðlagaútsetninga til verka ungra, núlifandi tónskálda, í bland við hefðbundin þýsk sönglög eftir Schubert og Wolf. Annar erlend- ur gestur hátíðarinnar að þessu sinni er Love Derwinger frá Svíþjóð, sem er Íslandi ekki ókunnur, en hann lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Ís- lands í píanókonsert Atla Heimis Sveinssonar árið 1998. Stjórnandi Reykholtshátíðar er sem fyrr Stein- unn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari sem jafnframt kemur fram á tónleik- um hátíðarinnar og leikur m.a. með Petteri Salomaa á tónleikunum á laugardag. Auk hennar eru íslenskir flytjendur á hátíðinni Auður Haf- steinsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Há- varður Tryggvason kontrabassaleik- ari, Sif Tulinius fiðluleikari og Þór- unn Ósk Marinósdóttir víóluleikari. Finnland að þessu sinni Hátíðin hefst með tónleikum í kvöld kl. 21 þar sem dagskráin er ein- göngu helguð W.A. Mozart. „Það er eiginlega orðið að einskonar hefð að helga fyrstu tónleikana einu tón- skáldi, og hefur gefist mjög vel,“ seg- ir Steinunn Birna þegar hún sest nið- ur með blaðamanni. „Í fyrra vorum við eingöngu með Beethoven á opn- unartónleikunum, sem mæltist mjög vel fyrir. Ég ætla að reyna að halda í þessa hefð. Það er alltaf fallegt að hafa heila efnisskrá tileinkaða einu tónskáldi, sérstaklega þessum stóru meisturum, sem svo mikið er til eftir af fallegri tónlist.“ Á tónleikunum verður flutt adagio og fúga, sem Sin- fóníuhljómsveit Íslands hefur nýlokið flutningi á í hljómsveitarútgáfu en verður nú flutt sem strengjakvintett, dúó fyrir fiðlu og víólu í G-dúr og pí- anókvartett í Es-dúr sem fluttur verður einn og sér eftir hlé. „Þetta er sá sem er ekki eins oft spilaður og hinn,“ segir Steinunn Birna og brosir við, „en mér finnst hann jafnvel fal- legri.“ Reykholtshátíð hefur gegn um tíð- ina haft norræna tengingu og er svo einnig í ár, þar sem Finnland er í for- grunni. „Þetta er í annað sinn sem við tökum Finnland fyrir. Við erum með hátíðina í sjötta sinn núna og höfum haft öll Norðurlöndin einhverju sinni. Ísland var í forgrunni ásamt Noregi árið 2000, kristnihátíðarárið, en í fyrra höfðum við evrópska meistara í brennidepli, þar sem þýskir flytjend- ur voru gestir hátíðarinnar,“ segir hún. „Nú höfum við fengið finnskan söngvara, Petteri Salomaa, sem þykir af mörgum einn besti bassa-baríton í heiminum í dag. Hann mun flytja eins konar þverskurð af finnskri söngtón- list frá dögum Sibeliusar og fram á þennan dag á tónleikum á laugardag kl. 15, auk hefðbundinna þýskra sönglaga eftir Schubert og Wolf. Mig langar til að hvetja fólk til þess að missa ekki af þessum frábæra lista- manni því að það er mikil upplifun að heyra hann syngja og frábært að vinna með honum.“ Barokk í fyrsta sinn Tónleikar laugardagskvöldsins, sem hefjast kl. 21, verða helgaðir bar- okki fyrir hlé. „Það er svolítið nýtt að við séum með barokk, þar sem við höfum ekki haft slíka tónlist á tón- leikum okkar áður. Það kemur til af því að við erum að taka á móti ný- uppsettu orgeli í kirkjunni, gamla dómkirkjuorgelinu, og þá fannst mér tilvalið að hafa nokkur barokkverk á dagskránni,“ segir Steinunn Birna. Blaðamaður heggur eftir fjölbreytni tónskáldanna á efnisskránni en þar má finna bæði Händel og Piazzolla. „Já, ég ákvað að gera smátilraun í ár,“ svarar Steinunn Birna. „Yfirleitt hefur dagskráin verið þannig upp- byggð, að það hefur verið eitt stærra kammerverk á hverjum tónleikum eins og verður núna á tónleikum föstudagskvöldsins og sunnudagsins. Á tónleikum laugardagskvöldsins ákvað ég núna að setja frekar saman efnisskrá sem samanstæði af ein- leiks- og tvíleiksverkum og hlakka til að sjá hvernig það kemur út. Efnis- skráin er fjölbreytt, en ég reyni samt að raða svolítið niður eftir stílum og því hvernig verkin virka saman sem heild. Fyrir hlé verður sem sagt bar- okktónlist eingöngu, þótt sumt sé tónlist sem ekki margir hafa heyrt,“ segir Steinunn Birna og vísar til verks eftir norska tónskáldið J. Hal- vorssen sem fæddist árið 1864 og not- ar stef eftir Händel í verki sínu. „Það er mjög norskt, en samt greinilega byggt á stefi eftir Händel. Nokkurs konar barokk með norskum hreim. Eftir hlé er annars konar tónlist, im- pressjónistar, tangó og Chopin, svo það kveður við nokkuð ólíkan tón eftir hlé.“ Líkt og á opnunartónleikunum er á tónleikum sunnudagsins stórt kamm- erverk eftir hlé. Að þessu sinni verð- ur Silungskvintettinn eftir Franz Schubert lokaverkið á hátíðinni. „Hann er eiginlega demanturinn í kórónunni. Það er alltaf ótrúlega gaman að spila hann og þetta er verk sem mjög margir þekkja og mörgum þykir vænt um. Hann er eiginlega eins og lítill píanókonsert, svo það er alltaf mjög gaman fyrir píanista að komast í þetta verk,“ segir Steinunn Birna. Húsmúsíkantar í bland við þekkta erlenda flytjendur Hún segir flytjendur á hátíðinni oft vera þá sömu ár eftir ár, fyrir utan er- lenda flytjendur. Þeir hafi oft og tíð- um verið virtir flytjendur og að svo sé einnig nú. „Það er gaman til þess að vita að Reykholtshátíð sé komin á kortið og geti laðað til sín tónlistar- fólk úr fremstu víglínu, rétt eins og Petteri nú,“ segir hún. „Íslensku flytjendurnir eru einnig þekktir tón- listarmenn á Íslandi og eru eiginlega orðnir hálfgerðir húsmúsíkantar hér. Margir eru nánir samstarfsmenn mínir gegn um tíðina, sem er í raun nauðsynlegt þar sem við höfum oft svo stuttan tíma til undirbúnings hér. Við Bryndís Halla höfum til dæmis unnið svo lengi saman að við þurfum varla að ræðast við um verkin, við byggjum einfaldlega á því að hafa spilað saman svona lengi. En auðvit- að eru alltaf einhverjar breytingar frá ári til árs.“ Hún segist hlakka mikið til helgar- innar. „Í raun er þetta eins og að eiga afkvæmi á hverju ári,“ segir hún og hlær við. „Þó að það gangi mikið á og maður hafi heilmikið fyrir því gleym- ist það um leið og það er búið, vegna ánægjunnar. Svo hefst bara næsta meðganga. Í raun þarf manneskju með nokkra persónuleika til að fram- kvæma þetta, maður þarf að vera fjáraflari, sjá um kynningu og vera tónlistarflytjandi. Það er algjört lág- mark að hafa þrjá persónuleika.“ Hún segir aðstöðuna í Reykholti alltaf hafa verið til fyrirmyndar. „Það er í raun forsenda þess að hægt sé að halda svona hátíð. Aðstaðan hefur alltaf verið fyrsta flokks og heima- menn tekið okkur opnum örmum og stutt okkur í hvívetna frá byrjun há- tíðarinnar.“ Eitt af meginmarkmiðum tónlistarhátíðarinnar í Reykholti hef- ur ávallt verið að skapa stemmningu með vönduðum flutningi á góðri tón- list sem gleður. „Ég hef alltaf lagt á það mikla áherslu að hátíðin sé upp- lifun fyrir alla þátttakendur. Það er nú kannski það sem tónlist snýst fyrst og fremst um, að hún bæti ein- hverju við heimsmynd manns og líf- reynslu, og já, bara lífsgleði,“ segir Steinunn Birna að lokum. Mynd af finnskri söngtónlist Finnski bassa-barítonsöngvarinn Petteri Salomaa, sem fram kemur á Reykholtshátíð á síðdegistónleikum laugardagsins, nam söng við Sibelius- akademíuna í Helsinki. Hann kom fram í fyrsta sinn í óperuhlutverki að- eins 22 ára gamall, sem Fígaró í Brúðkaupi Fígarós eftir W.A. Mozart við Finnsku þjóðaróperuna. Síðan þá hefur hann sungið mörg aðalhlutverk við Drottningholm-óperuna í Svíþjóð og verið fastráðinn við óperuna í Freiburg um þriggja ára skeið. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum og sungið í mörgum helstu óperuhúsum heims, og hefur sungið inn á geisladiska fyrir bæði EMI og Decca. Um þessar mundir er hann búsettur í Finnlandi, þar sem hann starfar við Finnsku þjóðaróperuna, en ferðast víða og syngur erlendis. Salomaa mun á tónleikum á morg- un, sem hefjast kl. 15, flytja m.a. finnska söngtónlist. Hann mun flytja verk núlifandi finnskra tónskálda, finnskar þjóðlagaútsetningar og sönglög eftir Jean Sibelius. „Hug- myndin var að setja saman blandaða efnisskrá þar sem kæmu við sögu mörg ólík tónskáld,“ segir Salomaa. „Ég vildi gefa áheyrendum nokkuð skýra mynd af finnskri söngtónlist, verk eftir núlifandi finnsk tónskáld, nokkrar þjóðlagaútsetningar finnskra tónskálda, sem allar eru samdar á fyrri hluta síðustu aldar, og svo lög eftir Sibelius sem er auðvitað frægasta finnska tónskáldið og frá- bært sönglagatónskáld.“ Hann segir að sönglög Sibeliusar séu fremur sjaldan flutt á tónleikum en hann hafi fengist nokkuð við þau að undan- förnu. „Ég hef verið með röð af tón- leikum þar sem ég syng eingöngu sönglög Sibeliusar, ásamt öðrum söngvurum,“ segir hann. „Þetta eru allt afskaplega falleg lög.“ Salomaa segist hafa horft til þess við val á efnisskránni að textar lag- anna væru á sænsku í stað finnsku, til þess að íslenskir tónleikagestir ættu betra með að skilja þá. „Þannig er því til dæmis farið með öll lögin sem ég syng eftir Sibelius,“ segir Salomaa. „Textarnir við þau eru eftir mörg af frægustu skáldum Svía og Finna.“ Auk finnskrar tónlistar mun Sal- omaa flytja nokkur söngljóð eftir Franz Schubert og Hugo Wolf. „Þetta eru hefðbundin þýsk sönglög í rómantískum anda,“ útskýrir hann. „Finnska tónlistin er minna þekkt ut- an Finnlands en þessa þýsku tónlist ættu fleiri að þekkja. Verk þeirra eru oftast flutt þegar um söngljóða- tónleika er að ræða.“ Hann segist ekki hafa lagt meiri áherslu á söng- ljóðaflutning en annars konar söng- tónlist á ferli sínum. „Ég syng jöfnum höndum óperu, óratóríur og söngljóð, nánast í sömu hlutföllum. En það er bara eins og uppbygging lífs tónlistarmanns er, brauðið fæst með óperusöng,“ svarar hann. „Ljóða- söngur er alltaf minni hluti af starfi söngvara, þar sem slíkir tónleikar eru ekki eins algengir og fjölsóttir og óp- erur, og óratóríur eru yfirleitt bundn- ar við ákveðna tíma ársins, eins og jól og páska.“ Sibelius getur höfðað til Íslendinga Þetta er í fyrsta sinn sem Salomaa sækir Ísland heim og lætur hann vel af dvöl sinni hér. „Á níunda áratugn- um stóð eitt sinn til að ég kæmi hing- að en af því varð aldrei, því miður. Ég tók því boði Steinunnar Birnu um leið og það barst,“ segir hann. Hann seg- ist hafa heyrt góða hluti um Ísland og íslenskt tónlistarlíf. „Hér hafa verið aðrir finnskir tónlistarmenn, til dæm- is Petri Sakari, sem hafa borið Íslandi vel söguna. Einnig hef ég haft ís- lenska samstarfsmenn, eins og Krist- in Sigmundsson hjá Drottningholm- óperunni í Svíþjóð, sem ég hef kunn- að mjög vel við og gott hefur verið að vinna með.“ Þegar viðtalið var tekið hafði Sal- omaa ekki enn haft tækifæri til þess að æfa sig í kirkjunni en sagðist hlakka mjög til að syngja þar. „Ég hef einungis athugað hljómburðinn lítillega, og hann heyrist mér vera af- skaplega góður. Húsinu öllu fylgir einhver góð og hlý tilfinning, fyrir ut- an það að kirkjubyggingin sjálf er mjög falleg,“ segir Salomaa. „Það eina sem mér þykir leitt er að hafa ekki kynnt mér sögu staðarins betur áður en ég kom. Ég hefði ef til vill getað valið efnisskrána meira með Reykholt og sögu þess í huga. En þó eru nokkur lög sem ég syng sem ég held að eigi vel við umhverfið hér. Til dæmis tel ég að lög Sibeliusar geti höfðað mjög til íslenskra áheyrenda enda eiga Finnar og Íslendingar margt sameiginlegt, til dæmis þessa sterku tengingu við náttúruna sem kemur greinilega fram í verkum hans.“ „Tónlistin stækkar heimsmyndina og eykur lífsgleði“ Sjötta Reykholtshátíðin hefst í kvöld. Meðal tón- leika helgarinnar eru einsöngstónleikar finnska stórsöngvarans Petteri Salomaa og tón- leikar með verkum Mozarts eingöngu. Inga María Leifsdóttir brá sér í Reykholt og ræddi við Salomaa, auk þess sem Steinunn Birna Ragnarsdóttir sagði henni undan og ofan af hátíðinni í ár. Morgunblaðið/Jim Smart Finnski bassa-barítonsöngvarinn Petteri Salomaa heldur ein- söngstónleika í Reykholti á morgun kl. 15, þar sem efnisskrá- in samanstendur af finnskum verkum og þýskum söngljóðum. Morgunblaðið/Jim Smart Íslenskir flytjendur á Reykholtshátíð í ár: Þórunn Ósk Marinósdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Auður Hafsteinsdóttir, Sif Tulinius, Steinunn Birna Ragnarsdóttir og Hávarður Tryggvason. ingamaria@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.