Morgunblaðið - 15.09.2002, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 15. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ var á evrópskri kvikmyndahátíðárið 1986 sem ég sá í fyrsta skiptimynd eftir Pedro Almodóvar. Mynd-in var ótextuð og ég skildi fátt af þvísem sagt var og gerðist. En ég skildi
þó að eitthvað alveg nýtt og öðruvísi væri á
seyði í spænskri kvikmyndagerð. Myndin var
Matador, fimmta verk Almodóvars í fullri
lengd, myrk og ögrandi athugun á öfgum
mannlegs atferlis og lýsti fólki sem nær kyn-
ferðislegri fullnægingu um leið og það slekkur
líf þess sem það á mök við, fólki sem dansar
kynferðislegan dauðadans hvert við annað eins
og nautabaninn sem myndin dregur nafn sitt af.
Eins og stundum, bæði fyrr og síðar í myndum
hans, lá ekki ljóst fyrir hvort Alomodóvar væri
fúlasta alvara með þeirri sögu sem hann var að
segja eða hvort hún var í og með eins konar
kvikmyndalegt glott.
Hinn stílfærði veruleiki
Þegar maður rifjar upp í huganum höfund-
arverk Almodóvars standa sögurnar sjálfar
ekki endilega skýrar og aðgreindar í endur-
minningunni. Það sem stendur þar sterkast fót-
um er tvíræður tónninn í frásögninni, efnisval,
sem gjarnan virðist tilvalið sem hneykslunar-
hella fyrir smáborgara, samúð með kúguðum
manneskjum, ekki síst konum sem beygja sig
undir kúgun og stundum virðast jafnvel njóta
hennar, vegsömun einstaklingsfrelsis í öllum og
oft afkáralegustu myndum andspænis bælingu,
tvískinnungi og formfestu gamallar hefðar og
falsi kaþólskunnar, dýrkun ástríðna og kynlífs-
losta hvert sem hann beinist, enda heitir fram-
leiðslufyrirtæki hans El Deseo eða Girndin.
Myndirnar lifa í hugskotinu eins og glaðvært
jólatré, fagurlega og fjörlega litaðar perur, eins
og „kitschað“ popplistaverk, fullar af stílfærðu
umhverfi, kostulegum týpum, stórskornum og
stærri en allt sem hversdagslegt er en samt
augljóslega sprottnum úr jarðvegi þess nýja
spænska samfélags sem vaxið hefur og dafnað
eftir fall Franco-stjórnarinnar. Almodóvar er
óhreint og óþekkt en skilgetið afkvæmi þessa
samfélags, hvort sem því líkar betur eða verr,
og því líkaði það lengst af illa eða þangað til
upphefð leikstjórans kom að utan; þar marka
alþjóðlegar vinsældir Kvenna á barmi tauga-
áfalls (1988) og Óskarsverðlaun til handa Alls
um móður mína (1999) þáttaskilin. Almodóvar
teflir saman gamla Spáni og nýja Spáni eins og
nautabani etur kappi við naut með sögur sínar
að vopni og verju. Og hann er, hvort sem honum
sjálfum líkar betur eða verr, öfgafyllsti og þar
með skýrasti talsmaður hinna nýju viðhorfa og
lífshátta. Hann er mesti kvikmyndahöfundur
Spánar síðan Luis Bunuel lést og efalaust í hópi
áhrifamestu kvikmyndaleikstjóra samtímans.
Þegar guð yfirgaf lítinn dreng
Sjálfsagt er það tilviljun en í það minnsta
táknræn tilviljun, að fyrsta mynd Almodóvars,
Pepi, Luci, Bom, var frumsýnd árið 1980, um
svipað leyti og spænskt lýðræðisþjóðfélag sá
dagsins ljós. Í frumsýningarvikunni lést faðir
hans, einlægur fulltrúi gamla Spánar.
Almodóvar hafði þá búið í Madrid í rúman
áratug, orðinn rúmlega þrítugur og hafði eink-
um unnið fyrir sér sem starfsmaður símafyr-
irtækis. Á kvöldin fékk hann útrás fyrir sköp-
unina í gerð smásagna og skopstælinga á
fréttamyndum og auglýsingum og stuttmynda
á Super 8-vél. Að baki var róstursöm og erfið
æska í fátækum smábæ, La Mancha,
þar sem hann fékk hefðbundið, al-
kaþólskt uppeldi hjá foreldrum sínum,
móðirin dyggur bakhjarl og áhrifa-
valdur upp á gamla móðinn, faðirinn
eindreginn en afskiptalítill fulltrúi
gamalla gilda; í myndum Almodóvars
er fátt um sterka feður. Afgerandi
kaflaskil æskunnar voru þegar hann
var settur í skóla hjá munkum þar sem
hann varð vitni að kynferðislegri mis-
notkun á drengjunum, 80% þeirra að
eigin sögn, og var sennilega fórnar-
lamb misnotkunar sjálfur. Þessi
reynsla setti varanlegt mark á dreng-
inn. Vistin hjá munkunum svipti hann
trúnni á guð og hún hefur ekki snúið
aftur, þótt í verkum hans megi skynja
trúarþörf.
Kvikmyndin tók sæti guðs í lífi Pe-
dros Almodóvar. Tólf ára gamall sá
hann Cat On a Hot Tin Roof, sem
Richard Brooks gerði eftir leikriti
Tennessees Williams og ákvað að
bjóða umhverfinu byrginn og helga líf
sitt „syndum og úrkynjun“, eins og
hann hefur sjálfur orðað það. Rétt eins
og ein söguhetjan í myndinni var hinn
ungi Almodóvar altekinn efasemdum
um kynhneigð sína og smátt og smátt
rann upp fyrir honum að hann er sam-
kynhneigður. Það var ekki fyrr en
hann hafði 18 ára gamall sest að í stór-
borginni Madrid sem hann gat lifað því
lífi sem tilfinningar hans stóðu til.
Myndir Almodóvars eru alsettar
merkjum um þessa æskureynslu.
Áhrifin og hugðarefnin
Sem unglingur varð Almodóvar fyr-
ir mestum áhrifum af nokkrum leik-
stjórum og einkenni þeirra má sjá með
ólíkum hætti í hans eigin verkum:
Hann hefur tileinkað sér skopgrein-
ingu Billys Wilder, melódrama Dou-
glas Sirk, hnitmiðað myndmál Hitchcocks, súr-
realískar aðferðir Bunuels við túlkun pólitísks
og félagslegs veruleika, trúðleikinn hjá Blake
Edwards og ögrandi efnisval Marcos Ferreri,
ekki síst í grófum kynlífslýsingum. Frumraun-
in, Pepi, Luci, Bom, var hrár hrærigrautur
þessara áhrifa og þeirra viðfangsefna sem hann
hefur síðan fengist við.
Samskipti kynjanna, flókin, spennt, óút-
reiknanleg og á stundum undirfurðuleg, eru
meðal helstu hugðarefna Almodóvars. Lengst
af hafa myndir hans verið taldar „kvennamynd-
ir“, í þeim skilningi að hugur hans er hjá kven-
persónum frekar en karlpersónum og konum
þykir hann næmari á kveneðli en flestir, ef ekki
allir, karlkyns kvikmyndaleikstjórar; því fer þó
fjarri að konur fái alltaf glæsilega meðferð í
myndum hans. Þótt hann hafi sannarlega látið
karlaheiminn líka til sín taka, einkum þó hinn
samkynhneigða, eins og í þeirri mynda hans
sem trúlega er sú sjálfsævisögulegasta til
þessa, Lögmál girndarinnar (1987), eru kven-
lýsingar hans almennt minnisstæðari en karl-
lýsingar; Almodóvar telur, eins og fleiri karl-
leikstjórar, þ. á m. íslenskir, að konur séu mun
sterkari persónuleikar en karlmenn.
Gamanleikir og harmleikir
Í svokölluðu „sjálfsviðtali“ sem hann skrifaði
í tilefni af nýju myndinni, Ræddu málin, segir
hann orðrétt: „Ég held að konur fái mig til að
semja gamanleiki en karlmenn harmleiki.“ Mig
hefði langað til að spyrja hann hvernig á þessu
stendur. En úr því það er ekki hægt verður
myndin að tala sínu máli. Og reyndar má einnig
taka mið af því sem Almodóvar skrifar um
hvaðan hann fékk innblásturinn fyrir handritið.
Hann byggir þar á nokkrum sannsögulegum at-
burðum frá síðustu tíu árum:
Bandarísk kona vaknar úr dásvefni eftir
hvorki meira né minna en 16 ár og lærir að
ganga upp á nýtt.
Næturvörður í líkhúsi í Rúmeníu verður ást-
fanginn af „líki“ ungrar stúlku og í einsemd
sinni hefur hann mök við hana. Við það
vaknar stúlkan til lífsins, enda hafði hún
aðeins fengið flogaveikiskast. Stúlkan
lifir enn en lífgjafi hennar situr í fang-
elsi fyrir nauðgun.
Í New York verður stúlka, sem hafði
verið í dásvefni í 9 ár, barnshafandi án
þess að vakna og er starfsmaður spít-
alans gripinn fyrir verknaðinn.
Að lokum nefnir leikstjórinn per-
sónulega minningu um ástarsamband
sem rofnaði áður en því var lokið.
Ræddu málin segir samhliða sögur
tveggja karlmanna sem eru gagnteknir
af tveimur konum sem báðar eru með-
vitundarlausar. Í sjálfu sér er það
harmleikur kvennanna, en engu að síð-
ur og í réttu samhengi við ofangreind
ummæli leikstjórans er Ræddu málin
umfram allt harmleikur, auðvitað með
drjúgu ívafi lífsgáska, um karla, sem
eru innlyksa, einmana, í hlutskipti sínu,
ástinni og einsemdinni.
Þessi fjórtánda bíómynd Pedros
Almodóvar í fullri lengd slær á gömul
ummæli hans sem í gegnum tíðina hef-
ur mátt nota sem gagnrýni á a.m.k.
sumar myndanna: „Mér þykir ekkert
sérstaklega vænt um persónur mínar,
um veröldina og jafnvel sjálfan mig.“
Hafi þetta verið rétt varðandi, segjum,
fyrstu fimm-sex myndirnar hefur mátt
merkja hægfara breytingar í þeim að
þessu leyti seinustu árin; eftir að Almo-
dóvar varð fertugur er eins og hlýjan
hafi aukist, þroskaðri persónusköpun
tekið við af einföldunum og ýkjum og í
Ræddu málin hvílir meiri kyrrð yfir
vötnum, hugmyndaauðgin yfirvegaðri,
sagan einlægari, tregafyllri, tilfinninga-
næmari en oft áður. Aldrei hefur Almo-
dóvar verið nærfærnari og hlýlegri;
aldrei hefur hann náð betur því list-
ræna markmiði að gera tilfinningar,
sem utanfrá gætu talist óeðlilegar, eðli-
legar á tjaldinu, í þeim söguheimi sem þar lifnar
af hans völdum - þar sem hann er guð; þar eru
allar mannlegar tilfinningar jafnréttháar,
vegna þess að þær eru mannlegar. Ræddu mál-
in er í fremstu röð verka hans, jafnvel fremst.
Pedro Almodóvar var listamaður í þjóðfélagi
þar sem næstum ekkert var leyfilegt og því
gerði hann einmitt það sem ekki var leyfilegt.
Hann er núna listamaður í þjóðfélagi þar sem
nánast allt er leyfilegt og því þarf hann ekki
lengur að gera annað en það sem saga hans
krefst. Þannig hefur Pedro Almodóvar þrosk-
ast með spænsku þjóðfélagi.
Hann hefur sjálfur lýst nýju myndinni sem
löngun til að faðma áhorfendur að sér. Senn
kemur vonandi að því að hann tekur sjálfan sig í
sátt líka, að hann faðmi sjálfan sig að sér. Líkur
benda til að næsta verkefni Almodóvars verði
fyrsta, klára endurminningamynd hans. La
Mala Educatión á að fjalla um þá sáru æsku-
reynslu sem svipti ungan dreng guði og gaf
honum kvikmyndirnar í staðinn.
Faðmlag Almodóvars
„Allar persónur myndarinnar
eiga eitt sameiginlegt – einmana-
leikann,“ segir spænski
kvikmyndahöfundurinn Pedro
Almodóvar um nýju myndina
Ræddu málin – Hable con ella,
sem var opnunarmynd spænsku
kvikmyndahátíðarinnar sem nú
stendur yfir í Reykjavík. Í raun
lítur þessi fremsti og frægasti
leikstjóri Spánar á kvikmynda-
gerð sem útrás úr einsemd,
skrifar Árni Þórarinsson, eins og
samtal við þá sem vilja sjá og
heyra. Í Ræddu málin eiga karl-
persónur einkum samskipti við
tvær konur sem svo vill til að
geta ekki svarað fyrir sig.
Kynjahlutverkum snúið við: Almodóvar leikstýrir Rosario Flores í hlutverki kvennautabanans Lydia í Ræddu málin.
Karlmenn og konur á barmi dauðadás: Javier Camára, Leonor Wat-
ling, Dario Grandinetti og Rosario Flores í Ræddu málin.