Morgunblaðið - 19.11.2002, Blaðsíða 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. NÓVEMBER 2002 39
✝ Sigurjón Parm-esson var fædd-
ur í Garði í Keldu-
hverfi 28. júní 1929.
Hann varð bráð-
kvaddur á heimili
sínu 10. nóvember
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Parmes Sigurjóns-
son, f. 8. maí 1887,
og kona hans Helga
Karlsdóttir, f. 11.
maí. 1891. Systkini
hans voru Sigríður,
f. 14. okt. 1922, bú-
sett á Hallbjarnar-
stöðum á Tjörnesi, Gunnar f. 28.
apríl 1924, búsettur í Reykjavík,
Stefán, f. 3. ágúst 1926, lést ári
síðar, og Karl, f. 18. júlí 1931,
lést af slysförum 16 ára gamall.
Árið 1952 hóf Sigurjón sambúð
með Sigríði Matthildi Arnórs-
dóttur og gengu
þau í hjónaband
1964. Stjúpdóttir
Sigurjóns er Arnrún
Sigfúsdóttir, gift
Eiði Guðjohnsen.
Þeirra börn eru:
Arnór, kvæntur
Önnu Borg og eiga
þau tvo syni, áður
átti Arnór einn son
af fyrra hjónabandi;
Ragnheiður, gift
Kevin Haukssyni og
eiga þau þrjú börn;
Sigríður Matthild-
ur, gift Björgvin
Pálssyni og eiga þau þrjár dæt-
ur, Sigríður átti einn son fyrir
hjónaband; og Þóra Kristín, gift
Andrew Mitchell.
Útför Sigurjóns fer fram frá
Húsavíkurkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Mágur minn, Sigurjón Parmes-
son, varð bráðkvaddur á heimili sínu
10. nóvember. Þetta kall kom mjög
óvænt og öllum að óvörum enda
langt um aldur fram.
Sigurjón, sem fæddur var í Garði í
Kelduhverfi, ólst upp við sveitastörf
og lengst af á Keltilsstöðum á Tjör-
nesi þar sem foreldrar hans bjuggu.
Ungur fer hann fljótlega að stunda
sjóinn og raunar höfðaði sjómennsk-
an alla tíð talsvert til hans. Um tví-
tugsaldur flytur hann til Húsavíkur
og má segja að hann hafi að mestu
átt heima þar eftir það. Hann hættir
til sjós, þó oftast ætti hann nú trillu-
horn, og fer að læra múraraiðn.
Hann lýkur prófi frá Iðnskóla Húsa-
víkur 1966 og stundaði sína iðn eftir
það. Meistararéttindi fékk hann
þremur árum seinna. Á þessum tíma
var nokkur uppgangur á Húsavík.
Ungir menn höfðu þá stofnað bygg-
ingarfyrirtækið Varða. Sigurjón var
einn af þeim. Það voru einkum múr-
arar sem stóðu að þessu fyrirtæki
og tóku að sér steypu og múrverk
við fjölda bygginga bæði á Húsavík
og annars staðar. Hjá þessum fé-
lögum var oft glatt á hjalla enda
voru þeir með stóran vinnuflokk.
Húmor Sigurjóns naut sín þar vel.
Hann varð þar fljótlega verkstjóri
og þótti nokkuð strangur í verk-
stjórn og gerði kröfur um góð vinnu-
brögð. Því varð hann fljótt eftirsótt-
ur vegna góðra vinnuskila og
vandaðrar vinnu. Þegar Sigurjón
hafði hlotið sín meistararéttindi
sóttust nemar eftir því að komast að
hjá honum. Hann vandaði það val.
Sigurjón var fastur á skoðunum sín-
um og hélt þeim ótrauður fram.
Hann var tryggur vinum sínum, en
vinahópur þeirra hjóna Sigríðar og
Sigurjóns var stór og vinirnir víða
um land. En ekki var það svo að allir
ættu upp á pallborðið hjá honum og
honum gekk illa að fyrirgefa það
sem hann taldi misgjörðir við sig.
Eftir að Varði hætti starfsemi
sinni vann Sigurjón sem sjálfstæður
verktaki. Hann var meistari við
fjölda bygginga. Hann var eftirsótt-
ur fyrir áreiðanleika í vinnu og alveg
sérlega vandað og gott verklag.
Hann var mikið snyrtimenni í öllu
sem hann gerði. Fínni vinna, svo
sem vandasamar flísalagnir, fórst
honum vel úr hendi enda mjög leitað
til hans um slík verk. Hin síðari árin
fékkst hann mikið við slíka vinnu. Þá
var honum sýnt um að finna lausnir
á verkefnum sem öðrum lágu ekki í
augum uppi.
Árið 1952 hefja þau sambúð Sig-
ríður systir mín og Sigurjón. Þau
eignuðust strax myndarlegt heimili
enda bæði smekkleg og listræn í sér.
Árið 1960 fluttu þau í eigið hús
Fossvelli 8. Þar bjuggu þau uns þau
keyptu Litla Hvamm 3, hús á vegum
Dvalarheimilis aldraðra 1992, og
hafa búið þar síðan. Sigurjón var
mikið fyrir að ferðast og efa ég að
margir hafi komið á fleiri staði hér
innanlands. Hann var mikill nátt-
úruunnandi og undi sér hvergi betur
en í góðri berjabrekku. Í þessu voru
þau hjónin mjög samrýnd og tóku
margar helgarreisur á sumrin hing-
að og þangað um landið. Síðustu
áratugi hafa þau eytt nokkrum vik-
um á vetri hverjum á Kanaríeyjum
til að stytta skammdegið. Enda var
það svo framan af að Sigurjón gat
helst tekið sér frí á útmánuðum. Þau
nutu þessara ferða mjög vel og eign-
uðust þar fjölda kunningja sem þau
heimsóttu svo á sumrin eða tóku á
móti hér heima. Búið var að ákveða
eina slíka ferð á þessum vetri.
Sigríður átti eina dóttur, Arnrúnu
Sigfúsdóttur, er þau Sigurjón tóku
saman. Arnrún stofnaði ung heimili
og Sigurjón reyndist stjúpdóttur
sinni, heimili hennar og stjúpbarna-
börnum sínum einstaklega vel.
Hann lifði fyrir þennan barnahóp og
varla það til sem hann var ekki tilbú-
inn að gera fyrir þau. Þetta kunnu
þau vel að meta. Eitt barnabarnið
ber líka hans nafn.
Það var alltaf tilhlökkun að fá
mág minn og systur í heimsókn þeg-
ar þau komu til borgarinnar og þá
ekki síður að heimsækja þau á
Húsavík. Þar var alltaf veitt af mik-
illi rausn.
Fyrir nokkrum árum fékk Sigur-
jón kransæðastíflu og fór þá í lækn-
ismeðferð. Ekki hafði í langan tíma
borið á þessum krankleika eftir þá
aðgerð en slíkt gerir ekki alltaf boð
á undan sér og nú kom kallið, hann
sofnaði hinsta svefninum. Dauði sem
ber svo brátt að er erfiður þeim sem
eftir lifir. Erfiðastur er hann fyrir
þig, systir, og þína fjölskyldu svo og
systkini Sigurjóns. Í þeim hópi verð-
ur hans sárt saknað en eftir lifir
minningin um traustan félaga og
hjálpsaman.
Við Ingibjörg sendum ykkur öll-
um innilegar samúðarkveðjur um
leið og við kveðjum Sigurjón með
þökk fyrir samveruna.
Kári Arnórsson.
Elsku Diddi. Við kveðjum þig með
sárum söknuði og sjáum ekki fyrir
okkur hvernig lífið verður án þín.
Það væri til að æra óstöðugan að
telja upp öll góðverkin þín, sem þér
sjálfum fannst sjálfsagður hlutur.
Við erum svo þakklát fyrir að hafa
átt þig að og höfum misst svo mikið
núna og svo óvænt, en enginn þó
eins og mamma, sem horfir á eftir
lífsförunautnum sem hún setti allt
sitt traust á og sannarlega varst þú
traustsins verður.
Minningarnar hrannast upp hjá
okkur og við áttum eftir að gera ým-
islegt saman, kannski að fara aftur
til Kanaríeyja eins og fyrir tveimur
árum þegar að þú bauðst okkur
þangað ásamt þremur barnabörnum
okkar, það var ógleymanlegt. Svona
varstu, alltaf boðinn og búinn og
taldir aldrei neitt eftir sem þú gerðir
fyrir okkur fjölskylduna, meira að
segja horfðir á fótbolta þegar Arnór
eða Eiður Smári voru að leika, ekki
af því að þú værir knattspyrnu-
áhugamaður, heldur rann þér blóðið
til skyldunnar og fólkið þitt sveikstu
ekki.
Gjafirnar sem fjölskyldan fékk
voru dálítið meira en í meðallagi og
alltaf varstu jafn glaður að gefa þær
og við þakklát. Guð elskar glaðan
gjafara.
Við elskum þig ekki bara vegna
rausnarinnar, heldur vegna kær-
leika þíns og umhyggju fyrir okkur
öllum. Ekki vorum við alltaf sam-
mála en það var eitt af persónuein-
kennum þínum að hafa fastar skoð-
anir og það er heilbrigt.
Við kveðjum þig og lofum að
reyna að hugsa vel um mömmu,
bæði fyrir þig og vegna þess að við
elskum hana og hún, eins og þú,
miðar allt sem hún þarf að gera við
börnin sín.
Elsku mamma, Drottinn varðveiti
þig, huggi og verndi. Góður maður
er genginn, Guð blessi minningu
hans. Góða ferð, elsku Diddi.
Saknaðarkveðjur.
Arnrún Sigríður Sigfúsdóttir
og Eiður Guðjohnsen.
Núna hefur afi Diddi kvatt okkur
og langar okkur að minnast hans
með nokkrum orðum. Afi Diddi á
Húsavík var alltaf svo hress og
skemmtilegur, og það var alltaf svo
gott að koma norður til ömmu og
afa. Einhvern veginn var eins og
hann hefði alltaf nægan tíma fyrir
okkur krakkana. Hann gat enda-
laust verið að fræða okkur um landið
okkar og elskaði að keyra um og
sýna okkur ýmsa staði og auðvitað
áttum við okkar uppáhaldsstaði,
eins og Ásbyrgi og Ástjörn, þar sem
við fórum tvisvar í sumarbúðir. Svo
má ekki gleyma Botnsvatni þar sem
veiðiskapurinn var stundaður af
kappi og afi gladdist með okkur yfir
hverjum sporði sem við fengum.
Lúpínuskógurinn „hans afa“ var líka
heill ævintýraheimur, þar sem mað-
ur átti von á að hitta ljón við hvert
fótmál.
Afi átti líka aðra eyju en Ísland,
Gran Canaria, sem hann hélt mikið
upp á. Við fengum að fara með þeim
ömmu og afa þangað, þegar við
fermdumst, og er sú ferð eftirminni-
leg og mun ekki gleymast. Afa
fannst svo gaman að sýna og segja
okkur frá eyjunni, sem hann var bú-
inn að heimsækja í meira en tuttugu
ár. Það var eins og afi þekkti alla,
hvort sem það var á Kanaríeyjum
eða heima á Húsavík. Hann var svo
kærleiksríkur og gaf endalaust af
sér.
Við þökkum Guði fyrir að hafa
gefið okkur svona góðan afa og vit-
um að hann tekur vel á móti honum.
Elsku amma Sigga, megi Guð
gefa þér styrk. Við elskum þig.
Afabörnin
Ásgeir (Bláskjár) og Arnrún.
Mikið rosalega var mér brugðið
sunnudagskvöldið 10. nóvember síð-
astliðinn þegar þær sorgarfréttir
bárust að afi Diddi hefði kvatt þenn-
an heim án nokkurrar vísbendingar
um að sá dagur væri í nánd. Þetta
kom öllum að óvörum þar sem hann
leit alltaf svo vel út, sólbrúnn og
hraustlegur.
Oftar en ekki kallaði afi: „Nafni,
komdu og finndu mig,“ og var til-
efnið oftast að gauka að mér ein-
hverju góðgæti eða öðru þaðan af
betra. Hann vissi hvað þurfti til að
gleðja hjörtu okkar krakkanna og
allt gerði hann fyrir okkur. Glaður
tók hann á móti barnabörnunum og
barnabarnabörnunum sínum sumar-
langt og fórum við því á hverju
sumri og dvöldum í faðmi þessa
hjartahlýja manns.
Þær voru ófáar veiðiferðirnar
sem við afi skruppum í. Minnisstæð
er mér ferð þegar ég datt út í og hélt
að lax hefði bitið í stígvélið mitt.
Það þótti afa ákaflega sniðugt og
var sífellt að rifja það upp eins og
svo margar æskuminningar af okk-
ur afabörnunum sem sýndi hversu
vænt honum þótti um okkur.
Ferð til Kanaríeyja var árlegur
viðburður hjá afa og ömmu og var
ég svo heppinn að fá að fara með
tvisvar. Kanarí var paradísin hans
afa og maður bjóst alltaf við því að
hann myndi á endanum fá sér þar
íbúð. Samt sem áður var hann bund-
inn sterkum böndum við heimahaga
sína á Húsavík og ég gleymi því ekki
þegar ég spurði hann í fyrra skiptið,
þegar við vorum að fara heim, hvort
hann vildi ekki vera lengur: „Nei,“
sagði hann ákveðinn, „heima er allt-
af best,“ og svo hló hann við. Á Kan-
arí kynntist ég honum vel og þá sér-
staklega á okkar löngu göngu-
ferðum um Ensku ströndina þegar
við ræddum um allt milli himins og
jarðar. Einnig uppgötvaði ég þar
hans frábæra húmor, sem var alveg
óborganlegur.
Afi bar alltaf hag fjölskyldunnar
fyrir brjósti og því var ævinlega
hægt að leita eftir stuðningi frá hon-
um. Manni leið alltaf vel í nærveru
hans.
Þó svo að hann hafi dáið of
snemma er ég þakklátur fyrir að
hafa náð að kynnast honum svona
vel og fyrir að taka virkan þátt í lífi
mínu alveg þar til hann lést. Blessuð
sé minning Sigurjóns Parmessonar.
Sigurjón Kevinsson.
Margar minningar koma upp í
hugann með sorginni yfir því að
þurfa að kveðja þig svona óvænt.
Ferð okkar afa Didda í Másvatn
að veiða silung er ógleymanleg. Þar
reri afi árabátnum og ég kastaði út
og beit hann á í hvert skipti. Oft fór-
um við í kríuegg, út á sjó að veiða og
margt mætti telja. Mér er minnis-
stætt þegar ég fór með afa í kaup-
félagið. Sáum við þar módel af
Bismark-orrustuskipinu og hreifst
ég mjög af því. Stóðst afi ekki frekj-
una í mér og keypti módelið, setti
það síðan saman heima á Fossvöll-
um og tók það heilan dag. Glaðastur
er ég þó yfir að hafa átt afa að og
notið þeirrar umhyggju og ástar
sem hann gaf okkur systkinum og
börnum okkar. Elsku amma, Guð
veri með þér á þessum erfiða tíma.
Eiður Smári varð mikið aumur yf-
ir þessari sorgarfrétt sem ég færði
honum. Hlýju bar hann mikla til
langafa síns og er þetta nú það erf-
iðasta við að búa erlendis að fá svona
fregnir. Elsku afi, takk fyrir allt.
Arnór Guðjohnsen,
Eiður Smári Guðjohnsen.
Þegar pabbi hringdi í mig og
sagði að hann væri ekki með góðar
fréttir og sagði mér þá að afi Diddi
væri dáinn, þá hugsaði ég: Nei, nei
það getur ekki verið, hann er svo
hress. Mikið var maður búinn að
kvíða fyrir þessum tíma. Mér finnst
lífið bara ekki alveg virka þegar afa
vantar.
Hann afi Diddi var einstakur afi í
alla staði. Það var alveg sama hvað
maður bar upp á borð til hans, svar-
ið var alltaf ,,ekkert mál, afi reddar
því“. Mér er sérstaklega minnis-
stætt þegar afi og amma komu til
Danmerkur, þar sem ég var að læra.
Allar bíóferðirnar sem þau létu sig
hafa bara fyrir mig. Afi sem fór aldr-
ei í bíó og fannst allt svoleiðis bara
vitleysa, en fyrir okkur var ekkert of
mikið. Hann hefði labbað með okkur
krakkana í kringum hnöttinn, bara
fyrir okkur.
Mikið er sárt að kveðja besta og
mesta afa í heimi.
Elsku amma mín, sárast er þetta
nú fyrir þig, bið ég góðan Guð að
umvefja þig og hjálpa þér að venjast
lífinu án afa. Bið ég Guð að styrkja
líka barnabarnabörnin.
Sigríður Matthildur
Guðjohnsen.
Það kom eins og þruma úr heið-
skíru lofti þegar fréttirnar bárust af
andláti afa okkar. Ekki grunaði okk-
ur að hans tími væri kominn. Við
vorum öll viss um að við fengjum að
hafa hann miklu lengur. Það eru for-
réttindi að hafa átt afa að öll þessi
ár, ekkert er sjálfsagt í þessu lífi. Ég
gat talað um margt við afa og var
það mest blessun fyrir mig þegar
kom að trúmálum hvað afi var með-
vitaður um kærleika Guðs og syndir
okkar. Það segir mér mikið. Hann
var með eindæmum barngóður og
skipti ekki máli hvort það voru hans
eigin börn eða annarra. Þvílíkt
gæðablóð var hann.
Það er líka aðdáunarvert hvernig
afi tók á móti mökum okkar systkina
eins og þau væru hans eigin, þessi
missir tekur þau öll mjög sárt og
þótti þeim óendanlega vænt um afa.
Ég held að afi hafi ekki gert sér
grein fyrir því hvað hann var okkur
fjölskyldunni mikils virði eða hvað
hann kom sterkt inn í líf okkar.
Drottinn elskar glaðan gjafara, seg-
ir í orði Guðs og þau orð eiga sann-
arlega við afa Didda.
Elsku amma mín, Drottinn fari á
undan þér og greiði veginn, gefi þér
styrk, þrótt og þrek í það verkefni
sem framundan er.
Við elskum þig.
Ragnheiður Guðjohnsen.
Elsku hjartans besti afi okkar
hefur nú kvatt okkur.
Ég sé afa fyrir mér, fasið hans
notalega, labbandi um með hendur í
vösum, ganga að ömmu þar sem hún
sat, beygja sig niður að henni og
smella einum. Hann átti líka til að
grípa undir vangann á manni sjálf-
um og smella þar einum og svo var
ekkert hauj að sitja undir vængnum
hjá afa í sófanum. Ég á eftir að
sakna þess að heyra hann segja
,,engill, er ekki allt í lagi?“ eða þegar
hann svaraði alltaf fyrst ,,ha“. Hann
stundi líka oft í bílnum, með sínum
norðlenska hreim: ,,Nei, sjáið litla
spunkinn, hann er laglega flottur
þessi.“ Það átti við lítinn pollastrák.
Afi var nú ekkert lítið notalegur
karl. Mikið sakna ég þessa alls og
fleira.
Sem krakkar vorum við heilu
sumrin hjá ömmu og afa og ekkert
var betra en að koma í hlýjuna til
þeirra á Húsavík. Það var alltaf
stutt í kímnina hjá afa og engin
lognmolla þar. Afi elskaði landið sitt
og ferðaðist hann mikið og ekki var
það sjaldan sem hann tók stóran
aukakrók á leiðinni suður. Ferðir
hans og ömmu voru líka margar til
Kanaríeyja og auðvitað fengum við
að vera miðpunktur þar eins og í öllu
öðru hjá afa.
Guð er réttlátur og oft finnst okk-
ur það sárt en við megum til með að
muna að vegir Guðs eru órannsak-
anlegir. Elsku amma mín, Guð leiði
þig og varðveiti og gefi þér allan
þann styrk sem þú þarft á að halda á
komandi tímum.
Þóra Kristín Guðjohnsen.
Með þessum fáu orðum langar
mig að minnast afa Didda eins og við
í fjölskyldunni kölluðum hann. Það
var erfitt símtalið sem ég átti við
tengdaföður minn hinn 10. nóvem-
ber sl. er hann hringdi og tilkynnti
okkur að afi Diddi væri dáinn.
Ekki afi Diddi sem var svo
hraustlegur og lífsgleðin skein frá
honum.
Fyrstu kynni mín af afa Didda og
ömmu Siggu voru fyrir u.þ.b. 12 ár-
um er ég kom í fyrsta skiptið með
tilvonandi eiginkonu minni, Siggu
Möttu, og Ásgeiri Arnóri syni henn-
ar norður á Húsavík að Fossvöllum
8, sem hann byggði sjálfur. Þar
mátti sjá að góður múrarameistari
hafði unnið gott verk. Við þessi
fyrstu kynni okkar var mér tekið
opnum örmum eins og ég hefði alltaf
verið einn af afa- og ömmubörnun-
um.
Við afi Diddi áttum margar góðar
stundir saman sem verða vandlega
varðveittar í minningunni um góðan,
hjálplegan og heiðarlegan mann.
Síðasta ævintýrið okkar var sl. sum-
ar er við vorum samankomnir ásamt
Ásgeiri Arnóri að leggja net uppi í
Botnsvatni á litla bátnum sem hann
hafði fest kaup á árið áður og var
mikið stoltur af. Á þessum netaveið-
um okkar á vatninu var bæði gleði
og alvara. Mikið var hlegið þegar við
fórum fyrsta veiðitúrinn með honum
og hann sagði við okkur að við ætt-
um að ,,stinga á“. Við höfðum aldrei
áður heyrt þetta orð svo að við
spurðum hann í gríni á hvað við ætt-
um að stinga. Svaraði hann því ró-
lega að við ættum að halda netinu
strekktu með því að róa annað slagið
og lét svo fylgja með „það finnast nú
furðufuglar þarna fyrir sunnan“ og
hló mikið.
Að endingu vil ég þakka þér fyrir
að hafa fengið að kynnast þér, allan
þann kærleika og hjálpsemi sem þú
sýndir okkur Siggu Möttu og börn-
unum. Blessuð sé minning þín.
Elsku amma Sigga og Arnrún,
megi góður Guð styrkja ykkur í ykk-
ar miklu sorg.
Björgvin I. Ormarsson.
SIGURJÓN
PARMESSON