Morgunblaðið - 19.11.2002, Blaðsíða 28
LISTIR
28 ÞRIÐJUDAGUR 19. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er varla farið að birta þegar við Halla
Margrét Árnadóttir setjumst niður til að spjalla
í Kaffivagninum við Grandagarð. Innifyrir er þó
löngu kominn dagur – til marks um það eru
karlarnir sem eru þegar komnir á aðra ábót
undir heitum umræðum um prófkjörin, fiskinn
og pólitíkusana: „Þetta er nú ekkert,“ segir einn
þeirra til að fullvissa blaðamann um að það sé
nú stundum meira fjör í mannskapnum: „Þú
ættir að koma þegar nær dregur kosningum; þá
heyrist í okkur.“
Í þessu umhverfi vildi Halla Margrét hitta
mig: „Mér líður best innan um venjulegt fólk;
fólkið í landinu. Hér er engin uppgerð í gangi;
þetta eru Íslendingar.“
Hvað gæti svo sem verið íslenskara en kaffi
og kleina á Kaffivagninum? Það er kannski eins
konar áttaviti sem segir söngkonunni, sem er
búin að búa á Ítalíu í rúman áratug, að nú sé
hún komin heim.
„Ég stend á tímamótum á söngferlinum. Ég
vann í mörg ár við stærsta óperettuleikhús
Ítala, og það var rosaleg vinna. Á þremur árum
sýndi ég 450 sýningar á sýningartímabili frá
októberlokum og fram í byrjun maí, auk sum-
arsýninga í júlí og ágúst. Það voru stundum
tvær sýningar á dag, og það var geðveikt álag á
röddina. En þetta var mikil reynsla, og auðvitað
líka kikk, að fá að vera prímadonnan, fá öll aðal-
hlutverkin, og syngja í þessum gömlu húsum
sem þeir kalla Teatro di Tradizione. Þau eru öll
alveg eins – byggð eins og Scala, hljómurinn er
ótrúlega góður, allt svo fallega skreytt og fólk
sem situr í hálfhring kring um mann og hrópar
brava, brava. Það er freistandi að festast í svo-
leiðis starfi og maður er á föstu kaupi. Ég hef
haft fyrir því að læra mína list og þurft að redda
mér sjálf og þegar maður kemst allt í einu í
svona öryggi, þá er þægilegt að sitja þar
áfram.“
Náði Toscu í fyrstu tilraun
Það var þó ekki draumur Höllu Margrétar að
syngja bara í óperettum. Hana langaði líka að
syngja í óperum. Það var einhvern veginn þann-
ig, að þegar hún fann að hún þurfti að hlaupa á
eftir hinum, þá var þetta gaman, því hún lærði
mikið af samstarfsfólkinu og aganum í óper-
ettuleikhúsinu. Þetta var mikill skóli, en lítill
tími til að æfa annað, sinna sjálfri sér og rödd-
inni.
„En svo fór ég að finna fiðring inní mér – mig
langaði að gera meira og saknaði þess að hafa
ekki tíma til að gera betur og fínpússa það sem
ég var að gera. Það var því sársaukafull ákvörð-
un að hætta.“ Hún ákvað að syngja fyrir óp-
eruhús, og byrjaði í Val d’Aosta, þar sem hún
reyndi við hlutverk Toscu. „Mér fannst ég ekki
nógu vel undirbúin í prufunni, en ég fékk hlut-
verkið. Ég veit ekki hvaða engill var að hjálpa
mér þar; þetta var stórkostlegt. Fyrsta sýn-
ingin var í apríl á þessu ári, og þetta er það
stærsta sem ég hef gert á ævinni. Þá opnaðist
mér enn einn heimur. Þegar maður er fastur í
flokki eins og í óperettuleikhúsinu, þá eru allir
vinir og hjálpast að – í það minnsta á yfirborð-
inu. Í óperuhúsinu fann ég að þar gilti reglan
auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Þar var
keppni um það hver fengi mesta klappið, og
þetta var sjokk fyrir mig. Þetta var ný reynsla.
Ég gerði mér líka grein fyrir því að ef ég ætla að
syngja á Ítalíu, verð ég að vinna upp hlutverk
sem fáir geta sungið. Það eru milljón Mímíar og
Travíötur með litlar sætar englaraddir, en
röddin mín er dökk og stór, og hefur ekki í sér
þetta litla sæta. Eftir að sýningum á Toscu lauk,
fann ég að ég þurfti að gefa mér tíma til að
vinna þessi hlutverk. Það tekur tíma. Ég ákvað
að taka ekki að mér fleiri verkefni, heldur ein-
beita mér að því að æfa tækni og það sem ég
þarf til að geta haldið áfram að syngja þau óp-
eruhlutverk sem henta mér: Tourandot, Mac-
beth, Attilla og Nabucco. Í þessum óperum eru
hlutverk sem fáar konur í heiminum syngja.
Auðvitað er þetta sársaukafullt, því ég elska að
vera á sviðinu – ég þrífst og þroskast á sviði,
fyrir framan fólk. Ég á til dæmis mjög erfitt
með að syngja í kirkjum, vegna þess að þá horf-
ir enginn á mig.“
„Þeir spiluðu frá hjartanu“
En það var þó eitt verkefni sem Halla Mar-
grét ákvað að sinna – að gefa út plötu, en það
hafði hún verið að hugsa um að gera í tvö ár.
Hana langaði að gefa Íslendingum sól í hjarta,
því það er það sem hún segir Íslendinga vanta.
„Við erum hlýtt fólk, en höfum svo fáar afsak-
anir til að opna fyrir þessa hlýju, því það er svo
kalt hérna.“ Halla Margrét ákvað að fara í sjóð
ítalskra uppáhaldslaga sinna, „ryksugulögin“
eins og hún kallar þau – lög sem bæði er hægt
að syngja með meðan maður ryksugar, en er
líka hægt að sitja við að hlusta á og njóta; hlæja
með og gráta. „Þetta eru Napólíljóð; textarnir
eru dásamlegir og fást við tilfinningar sem við
finnum öll, og þá er alveg sama hvort maður er
Íslendingur eða Ítali.“ Um jólin í fyrra fór Halla
Margrét á fund vinar síns, Jóns Skugga, og
spurði hvort hann væri ekki til í að vinna plötu
með henni. Hún hugsaði ekki meira um plötuna
meðan hún var upptekin í Toscu, en daginn áður
en hún kom heim í lok ágúst stóð hún sig að því
að horfa á nóturnar að Napólílögunum, og velta
því fyrir sér hvort hún ætti að taka þær með
heim. Á síðustu stundu duttu þær niðrí tösku,
og daginn eftir heimkomuna hringdi hún aftur í
Jón og Skúla Helgason hjá Eddu. Skúli gaf
henni frjálsar hendur með útgáfu á geisladiski
og Jón Skuggi fór að safna liði í hljómsveit. „Ég
sagði honum hvaða hljóðfæri ég vildi hafa með,
og hann bjó þá svo vel að eiga góða samstarfs-
menn úr Rússíbönunum og þekkja aðra úrvals
tónlistarmenn sem hann gat hóað í. Þessir
menn reyndust svo frábærir, að núna held ég að
án þeirra hefði ég aldrei getað gert þennan disk.
Sumir þeirra höfðu aldrei spilað Napólítónlist
áður, en samt var eins og þeir hefðu aldrei gert
annað. Við töluðum öll sama tungumál og þeir
spiluðu frá hjartanu. Ég hef sjaldan lært eins
mikið í samvinnu eins og þarna. Svo voru þetta
svo góðir menn. Ég get ekki unnið með fólki
sem er ekki gott – ég verð að vera innan um fólk
sem eyðir ekki orkunni í að vera hrætt hvert við
annað heldur leyfir kærleikanum að fljóta inn í
vinnuna; ég kann bara ekki að vera kúl.
Mig langaði til þess að diskurinn höfðaði bæði
til þeirra sem hlusta á klassíska tónlist, og líka
til þeirra sem hlusta meira á dægurmúsík. Ég
held að hann sé þess eðlis að báðir þessir hópar
geti notið hans.“
Listamennirnir sem léku með Höllu Margréti
voru auk bassleikarans Jóns Skugga, Tatu
Kantouma harmónikkuleikari, Kristinn H.
Árnason gítarleikari, Magnús R. Einarsson
mandólínleikari og Erik Qvick slagverksleikari.
Auk þeirra syngja Barnakór Skálholtskirkju og
Kirkjukór Selfosskirkju og söngmennirnir
Friðrik Snorrason, Þorsteinn Guðnason og Þrá-
inn Sigurðsson. Þarna eru bæði sjaldheyrð lög,
og lög sem allir þekkja, Torna a Surriento,
Funiculi, Mamma, Santa Lucia, Volare og jafn-
vel O, sole mio, sem Halla Margrét segist
syngja öðruvísi en almennt gengur og gerist
með þennan sígilda tenóratrylli. „Ég vil ekki
þenja mig í þessu lagi – þetta er viðkvæmur
texti, og krefst þess að maður syngi lagið blíð-
lega. Þannig er þetta hjá mér.“
Annað kvöld kl. 20.00 heldur Halla Margrét
útgáfutónleika í Íslensku óperunni, með Napólí-
sveitinni sinni og öðrum listamönnum sem unnu
með henni að geisladiskinum. Það koma í hug-
ann hennar eigin orð, að hún elski að vera á
sviðinu og syngja fyrir fólk. Það þarf því varla
að spyrja að væntingum hennar til tónleikanna:
„Ég hlakka mjög mikið til, þetta verður ofboðs-
lega gaman.“
Ég kann ekki
að vera „kúl“
Morgunblaðið/Þorkell
Halla Margrét Árnadóttir: „Ég þrífst og þroskast á sviðinu, fyrir framan fólk.“
Hún er jákvæð og björt og er komin heim til að færa Ís-
lendingum Sól í hjarta. Halla Margrét Árnadóttir segir
Bergþóru Jónsdóttur frá söngnum á Ítalíu, nýju plöt-
unni sinni og tónleikum hennar og Napólísveitarinnar í
Óperunni annað kvöld.
begga@mbl.is
HRÆRINGUR var eitt sinn uppá-
haldsmatur þjóðarinnar. Uppskrift:
hafragraugur settur í skál og vænum
slatta af óhrærðu skyri, – súru ef vill,
hrært saman við. Þjóðlegt, ekki satt!
Eða eins og Ómi, ein af útgáfum
Eddu, lýsir Röddum þjóðar, tónlist-
inni á nýjum geisladiski Sigurðar
Flosasonar og Péturs Grétarssonar:
„Ævintýralegur hrærigrautur þar
sem þjóðararfurinn er í hættu! Látnir
kveða að handan, framandi hljóð ber-
ast úr fortíð og framtíð. Raddir þjóð-
ar eru fyrir alla sem vilja prófa eitt-
hvað nýtt.“ Sigurður og Pétur eru
landskunnir tónlistarmenn; þekkt-
astir úr djassinum; líka klassíkinni,
og jafnvel poppinu; báðir eru þeir
ólíkindatól í tónlistinni eins og sann-
ast hér; raddir þjóðar eru svo sér-
stakar að það er ekki hægt að flokka
þær með neinni þeirri tónlist sem
þeir hafa áður spilað. En hvers konar
fyirbæri er þetta?
„Við blöndum þjóðararfinum
ómenguðum við hljóðfæraleik okkar,
tónsmíðar og spuna,“ segir Sigurður.
„Þetta er eitthvað sem hefur aldrei
verið gert áður. Fólk í öllum greinum
tónlistar hefur áður unnið með þjóð-
lög, en við erum að nota gamlar upp-
tökur eins og þær koma fyrir úr há-
tölurunum; – fólkið syngur með
okkur, bæði hreint og ómengað, en
líka prósesserað og unnið. Út á þetta
gengur þetta.“ Pétur útskýrir þetta
nánar: „Við hlustuðum á lög og talmál
úr safni Árnastofnunar; spekúleruð-
um í því hvort hvert og eitt þeirra
gæti verið stökkpallur fyrir músík, og
svo byrjuðum við bara að spila. Við
gerum allt sem hægt er að gera, lúpp-
um upptökunum, klippum og gerum
bara hvað sem er. Við höfum helst
sneytt hjá rímunum, það eru aðrir að
nýta sér þann hluta arfsins. Það sem
hefur verið að koma í þetta nú seinna
hjá okkur eru alls konar pælingar um
rytmana og íslenska þúfnataktinn; –
hver er hann? Það liggja margir
klukkutímar af heimildum um hann í
Árnastofnun.“
Það eru auðvitað einkenni íslenska
kveðskaparins, taktskiptin, sem Pét-
ur kallar þúfnatakt. „Þegar maður
heyrir þetta gamla fólk syngja þetta,
þá gerir maður sér ekki alltaf grein
fyrir því hvort fólk er að draga seim-
inn til að ná andanum, eða hvort það
var bara svona avanserað í rytman-
um. Það er þó einhver rauður þráður í
gegnum þetta allt, sem við eigum eft-
ir að finna út hver er.“
Stílrænt landamæraleysi
Þá Pétur og Sigurð langaði að
draga fram breiddina í íslenskum
kveðskap og sögum og segja efnið
jafnt passíusálma sem klámvísur,
drykkjuvísur og barnagælur og
barnafælur, ættjarðarljóð og sálma;
allt það sem þjóðinni var tamt á
tungu.
Alls syngja tuttugu og tveir Íslend-
ingar með þeim Pétri og Sigurði,
flestir löngu látnir. Sá elsti var fædd-
ur 1830 og látinn um 1910. Pétur leik-
ur á frumskóg af slagverkshljóðfær-
um, þar á meðal tyrkjatrommur,
loddaratól, soðnaglagígju og bifhörpu
og stýrir einnig raftækjum, en Sig-
urður spilar ég á ýmsar stærðir saxó-
fóna, klarinett og flautur. Frumrit
hljóðritanna sem notuð eru eru varð-
veitt á Stofnun Árna Magnússonar og
þjóðminjasafni Íslands og hafa ekki
komið út áður. Hugmyndin með verk-
efninu er að skoða fortíðina með aug-
um nútíðarinnar. Að ýmsu leyti er
gengið langt í túlkuninni, með þeirri
raftækni sem beitt er, og eins og þeir
Pétur og Sigurður segja, er ekki allt-
af farið silkihönskum um viðfangsefn-
ið. Öllu er hrært saman í stílrænu
landamæraleysi. „Við erum ekki
endilega að spila lögin sem fólkið er
að syngja,“ segir Sigurður, „við erum
að spila eitthvað sem er okkar spuni
eða okkar tónsmíðar, en svo birtast
gömlu lögin inni í okkar músík.“ Þeir
eru sem sagt allt eins að bjóða fólkinu
úr fortíðinni að syngja með þeim. Til
þess að Íslendingar dagsins í dag,
geti betur kynnst þessum tímalausa
gjörningi ætla þeir Sigurður og Pétur
að kynna Raddir þjóðar á útgáfutón-
leikum í Tjarnarbíói í kvöld kl. 20.30.
Sigurður Flosason og Pétur Grétarsson kynna guðhræddar og klámfengnar Raddir þjóðar
Stefnumót samtím-
ans við þúfnataktinn
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Pétur Grétarsson og Sigurður Flosason hlusta eftir Röddum þjóðar.