Morgunblaðið - 27.11.2002, Page 21
LANDIÐ
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 27. NÓVEMBER 2002 21
Á DÖGUNUM var vefmiðillinn
skarpur.is formlega opnaður sem
rekinn verður samhliða úgáfu hér-
aðsfréttablaðsins Skarps. Skarpur.is
leysir jafnframt af hólmi fréttavefinn
vikin.is sem Prenstofan Örk/Tröð
ehf. hefur haldið úti ásamt útgáfu
blaðsins. Samhliða þessum breyting-
um var útliti blaðsins breytt til sam-
ræmis við vefinn.
Í tilefni þessara tímamóta buðu
aðstandendur blaðsins til veislu í sal
stéttarfélaganna þar sem Húsvík-
ingum og öðrum héraðsbúum var
boðið upp á léttar veitingar. Fjöldi
manns þáði boðið og var Víðir Pét-
ursson, framkvæmdastjóri og eig-
andi fyrirtækisins, ánægður með
daginn, bæði gestakomuna sem og
útlit miðlanna. Hann sagði mesta
kostinn við breytingarnar á vefnum
vera þann að nú væri mun auðveld-
ara og fljótlegra að skrifa inn og upp-
færa efni hans.
Arngrímur Arnarson og Hróbjart-
ur Sigurðsson, starfsmenn á Örk/
Tröð, hönnuðu hið nýja útlit blaðs og
vefjar og lögðu mikla vinnu í það. Þá
sá Arngrímur um forritun á þessum
nýja gagnvirka vefmiðli. Blaðið og
vefmiðillinn munu vinna nánar sam-
an en til þessa, og munu ritstjórarnir
Arngrímur á skarpi.is og Jóhannes
Sigurjónsson á héraðsfréttablaðinu
Skarpi, starfa eftir þörfum á báðum
stöðum þótt hvor um sig stýri sínum
miðli áfram.
Vikin.is verð-
ur skarpur.is
Húsavík
ÞAÐ var í lok þjóðhátíðarinnar í
byrjun ágúst að Keikó yfirgaf heim-
kynni sín í Klettsvík og synti á vit
örlaga sinna í Noregi. Þar hefur
Keikó dvalið síðustu vikur við ágætt
atlæti og fögnuð Norðmanna sem
hafa tekið honum vel.
Smári Harðarson kafari sem
starfað hefur við Keikó-verkefnið
frá upphafi telur að Keikó eigi ekki
afturkvæmt til Eyja, nema þá sem
gestur. Hann fór eftir lætin á
þjóðhátíðinni, en bæði vont veður og
hávaði frá flugeldasýningunni virtist
trufla hann, að sögn Smára. Hann
bætti því við að líklega væri Keikó
ekki mikið fyrir þjóðhátíð eins og
sannir Eyjamenn eru jafnan.
Kvíar notaðar fyrir þorskeldi
Frá því að ljóst var að hvalurinn
kæmi ekki aftur til heimilis síns í
kvínni í Klettsvík hafa starfsmenn
verkefnisins unnið að því að taka
niður girðingu úr Klettshelli í
Heimaklett sem gerði Keikó kleift
að synda utan við búrið sem hann
var upphaflega vistaður í. Kvíin sjálf
hefur verið seld aðilum sem hyggj-
ast hefja framhaldseldi á þorski í
Klettsvík.
Smári sagði að nú sæi fyrir end-
ann á tiltektinni sem hann, ásamt
Ingunni Sigurðardóttur og Michael
Parks hafa starfað að. Nokkur
hreinsun er eftir á botni Klettsvíkur
en henni lýkur á næstunni. Í síðustu
viku var síðasti búturinn úr girðing-
unni dreginn að landi.
Þá er til sölu margskonar bún-
aður sem fylgdi starfseminni. Hægt
er að nálgast upplýsingar um þenn-
an búnað og tæki á vefsíðu samtak-
anna í Eyjum, keikó.is. Smári sagði
að nú sæi fyrir endann á skemmti-
legu verkefni. „Innst inni vonaði
maður að þetta stæði lengur þó svo
að alltaf væri vitað að fyrr en seinna
tæki þetta enda í Klettsvík og ein-
hvernveginn var maður óviðbúinn
þegar því lauk,“ sagði Smári. Að-
spurður um hvort hann myndi
starfa áfram fyrir samtökin sagði
Smári ekkert geta sagt um það á
þessu stigi, framtíðin væri óráðin
hvað það varðaði.
Morgunblaðið/Sigurgeir
Lokafrá-
gangur
eftir Keikó
Vestmannaeyjar
ÞAÐ er ekki á hverjum degi sem
erlendir listamenn heimsækja fá-
menn samfélög úti á landi. Djúpa-
vogsbúar voru svo lánsamir að fá
píanóleikarann Simon Marlow í
heimsókn frá Bretlandi um miðjan
nóvembermánuð.
Simon Marlow stundaði nám í
tónlistarfræðum við háskólann í
Cambridge. Hann kom fyrst fram
sem píanóleikari árið 1973 í Wig-
more Hall ásamt fiðluleikaranum
Roger Garland. Síðan þá hefur
hann komið fram sem einleikari og
undirleikari víða um heim. Simon
spilaði Impromptu eftir Schubert
auk þess að spila undir hjá Berg-
lindi Einarsdóttur mezzosópran í
verkum eftir Atla Heimi Sveinsson,
Mozart, Rossini o.fl. Berglind hefur
sungið einsöng með mörgum kór-
um og söng til skamms tíma í kór
Þjóðleikshússins. Hún söng m.a.
með kórnum í „My fair Lady“ og
óperunni „Valdi örlaganna“. Hún
starfaði sem söngkennari við Tón-
listarskóla Árnesinga 1995–2001 en
þá fluttist hún á Djúpavog. Heima-
menn fjölmenntu á tónleikana og
kunnu vel að meta þennan frábæra
tónlistarflutning listamannanna.
Morgunblaðið/Sólný Pálsdóttir
Simon Marlow píanóleikari og Berglind Einarsdóttir mezzosópran buðu
upp á fjölbreytta dagskrá á hinum fjölsóttu tónleikum á Djúpavogi.
Mikil
stemning á
tónleikum
Djúpivogur
LEIKSKÓLABÖRN á Garðaseli á
Akranesi tóku forskot á afmælisdag
Jónasar Hallgrímssonar er boðið
var til sýningar á afrakstri stífra
æfinga á þulum og söngvum sem að
sjálfsögðu voru öll á íslensku, í til-
efni dags íslenskrar tungu.
Fullt var út úr dyrum í húsnæði
leikskólans og stigu allar deildir
hans á svið en yngstir eru Lónarar.
Holtarar koma þar næstir og Vík-
arar eru elstir, eins og þeir eru
nefndir af yngstu starfsmönnum
leikskólans. Börnin af Víkinni lifðu
sig inn í söngva sína er Morg-
unblaðið leit inn á skemmtun
þeirra, sumir sungu af miklum
krafti og innlifun en aðrir lögðu
meiri áherslu á hljómgæðin, en allt
komst skýrt og greinilega til skila
að lokum.
Sungið
af innlifun
á ylhýrri
íslensku
Akranes
Morgunblaðið/Sigurður Elvar
Börnin á Vík sungu hátt og snjallt á skemmtuninni á Akranesi.