Morgunblaðið - 12.12.2002, Side 14
FRÉTTIR
14 FIMMTUDAGUR 12. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Nýbýlavegi 12, Kópavogi,
sími 554 4433.
Enginn afsláttur!
Opið laugard. 11-19
Renndar peysur frá kr. 2.900 • Síðar peysur frá 3.900
V-hálsmálspeysur frá kr. 2.900
Hnepptar og heilar peysur kr. 2.200
„ÉG held að Íslendingum sé í blóð
borið að ferðast og láta útþrána
seðja sig og hluti af ferðalaginu er
að segja söguna þegar heim er kom-
ið,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, en
Hið íslenska bókmenntafélag hefur
gefið út bókina Suður á pólinn. Ís-
lenski skíðaleiðangurinn, þar sem
Ólafur Örn segir frá ferð á suðurpól-
inn og skreytir með myndum frá
þremenningunum.
Fyrsti skíðaleiðangur Íslendinga
á suðurpólinn skilaði árangri á ný-
ársdag 1998, þegar Haraldur Örn
Ólafsson, Ingþór Bjarnason og Ólaf-
ur Örn Haraldsson náðu takmark-
inu eftir um tveggja mánaða skíða-
göngu. Ólafur Örn segir að hann
hafi verið búinn að ákveða að skrifa
bókina þegar þeir lögðu af stað og
hann hafi nýtt tímann á kvöldin til
að skrifa niður brot úr samtölum og
minnisatriði.
„Það var samt erfitt því við höfð-
um lítinn tíma og svona ferðalag
krefst þess að öll verk séu unnin
hratt,“ segir hann. „Hins vegar er
eins og minnið skerpist við þessa
einveru. Dags daglega er hver
göngumaður einn með sjálfum sér
og hefur nægan tíma til að hugsa og
festa atriði í minni.“
Ólafur Örn segir að á undirbún-
ingstímanum hafi hann meðal ann-
ars verið á þingi Evrópuráðsins og
þá hafi verið erfitt að einbeita sér að
samtölum, góðum réttum og ljúfum
frönskum vínum því hugurinn hafi
verið kominn út á ísbreiðurnar þar
sem lífið snúist um að ganga, borða
og sofa og allt sé naumt skammtað.
„Það eru ótrúlega miklar andstæð-
ur, allsnægtarlífið sem við búum við
við undirbúning jólanna og á jólum
og í góðum veislum og hins vegar
harðræðið sem fylgir pólferðum.“
Þrautseigja
Það er meira en að segja það að
ganga í tæplega tvo mánuði, en þre-
menningarnir gengu um sjö og hálf-
an til átta og hálfan tíma á dag eða
um níu til 11 tíma með hvíldum.
Haraldur Örn segir að þetta langa
ferðalag hafi verið mjög erfitt og til-
breytingaleysið hafi tekið á. „Þegar
við vorum búnir að ganga eins lengi
og hægt var á hverjum degi í heilan
mánuð sáum við fram á annan eins
mánuð,“ segir hann. „Það er einna
erfiðast að glíma við að hafa þraut-
seigju til að halda áfram og ganga
dag eftir dag. Að berja sig áfram í
þessari endalausu víðáttu.“
Ólafur Örn tekur í sama streng og
sonurinn. „Það hafa margir sagt að
ganga á suðurpólinn sé ekki aðeins
barningur gegn þessum stöðuga
mótvindi og brunakulda heldur er
tilbreytingaleysið svo mikið og mað-
ur þarf að taka svo mikið af sjálfum
sér, sökkva djúpt í eigin sál til að
laða fram það úthald sem þarf,“ seg-
ir hann. „Auk þess reynir þetta gríð-
arlega mikið á samheldnina og vin-
áttuna. Maður kynnist sjálfum sér
og bráðnar einhvern veginn inn í
náttúruna, en allir mannheimar
hverfa.“
Feðgarnir hafa reynt margt, en
þeir segja að útilokað sé að bera
saman einn leiðangur við annan.
„Hver ferð er einstök, en þetta er
með allra erfiðustu ferðum sem ég
hef farið,“ segir Haraldur Örn. Ólaf-
ur Örn segir að göngumaðurinn í
svona langri einveru verði að finna
sér einhverja hugarleikfimi og að-
ferð til að útiloka sársauka og drepa
tímann. „Ég lýsi ákveðinni sjálfdá-
leiðslu sem við komumst upp á lag
með og aðferð til að fást við tilbreyt-
ingaleysið.“
Af því að …
Ólafur Örn segir að í bókinni
reyni hann ekki aðeins að segja
ferðasöguna heldur hleypi lesandan-
um að sér, að eigin sálarlífi og átök-
um sínum við það. „Ég tek nokkra
áhættu með þessu en ég reyni að
vera einlægur til að láta fólk skynja
baráttuna, sem ég hái við mig sjálf-
an en ekki aðeins náttúruöflin og
erfiðleikana. Fólk vill skyggnast inn
í hugarheim og baráttu göngu-
mannsins og reyna að fá svar við
spurningunni af hverju? Af hverju
leggja menn allt þetta á sig? Ég
reyni að svara þessari spurningu í
bókinni.“
Ýmislegt hefur á daga þeirra drif-
ið frá göngunni á suðurpólinn en
þeir segja að bókin sé kærkomin
upprifjun. „Ferðalagið lifnar að
mörgu leyti við í huga manns við
það að fletta bókinni,“ segir Har-
aldur Örn. „Það er gaman að sjá
þetta allt saman skjalfest og sam-
ansett. Það er góð tilfinning.“
Ólafur Örn segir að gangan á suð-
urpólinn og bókin séu einn áfangi í
langri röð ferða þeirra feðga.
„Þarna gátum við brotið ísinn og
farið inn á nýjar brautir í fjalla-
mennsku Íslendinga. Þetta var ein-
stök ferð en um leið liður í ákveðinni
sögu.“
Ólafur Örn Haraldsson með bók um gönguna á suðurpólinn
Morgunblaðið/Kristinn
Feðgarnir Ólafur Örn Haraldsson og Haraldur Örn Ólafsson með bókina
um ferðina sem nefnist Suður á pólinn. Íslenski skíðaleiðangurinn.
„Liður í ákveð-
inni sögu“
ALLIR þingmenn fá afhenta svonefnda geð-
ræktarkassa í dag í tengslum við þriggja ára
forvarnar- og fræðsluverkefni Geðræktar, sem
lýkur á næsta ári. Verkefnisstjóri Geðræktar,
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, segir að geð-
ræktarkassinn komi að notum þegar neikvæð-
ar hugsanir leita á hugann og geti hann gegnt
svipuðu hlutverki og sjúkrakassi heimilisins.
Þannig megi leita í geðræktarkassann við
minniháttar áföll, t.d. eftir erfiðan dag, rifrildi
eða skammir. Innihald kassans er tómt við af-
hendingu og kemur það í hlut eigenda hans að
setja í hann nytsama hluti til verndar geðheils-
unni.
Geðrækt er sjálfstætt starfandi verkefni
sem vinnur í samstarfi við Landlæknisembætt-
ið, Geðhjálp, geðsvið Landspítala-Háskóla-
sjúkrahúss og Heilsugæsluna. Helstu styrkt-
araðilar eru Landsbanki Íslands, Delta,
Íslensk erfðagreining, Eimskip, Skeljungur,
Háskóli Íslands og íslenska ríkið.
Markmiðið verkefnisins er að opna um-
ræðuna um geðheilsu, gera þjóðinni grein fyrir
að allir búi við geðheilsu, efla geðheilsu lands-
manna og koma í veg fyrir geðraskanir með
fræðslu, forvarnir og heilsueflingu að leiðar-
ljósi.
Tveir þingmenn, þær Jónína Bjartmarz og
Margrét Frímannsdóttir, hafa lagt hönd á
plóginn við verkefnið og munu segja frá geð-
ræktarkössum sínum á sérstökum
geðræktarfundi í Iðnó kl. 12 í dag og hvað
þær gera til að halda geðheilsunni. Að loknum
fundinum verður haldið inn í Alþingishúsið við
Austurvöll og þingmönnum gefnir geðræktar-
kassarnir, sem búnir hafa verið til í samstarfi
við iðjuþjálfun Geðhjálpar. Verða þingmenn
hvattir til að hlú að geðheilsu sinni og lands-
manna allra.
En hvað er gott að hafa í geðræktarkass-
anum sínum? Það geta verið uppáhalds
myndabandið eða tónlist, bók, bréf og ýmsir
persónulegir munir sem tengjast jákvæðum og
góðum tilfinningum.
Varð að láta
frá sér átta börn
Hugmyndina að geðræktarkassanum á Elín
Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á
geðsviði Landspítalans. „Fyrirmyndin að kass-
anum er ráð konu nokkurrar sem missti mann
sinn frá tíu börnum þeirra um aldamótin,“ seg-
ir hún.
„Hún þurfti að láta frá sér átta elstu börnin
og að skilnaði útbjó hún kassa handa hverju og
einu þeirra, sem hún setti í hluti sem höfðu
mikið persónulegt gildi fyrir þau. Í suma kass-
ana setti hún klúta sína sem báru með sér lykt
af henni og leikföng og annað smálegt. Börnin
áttu að nota kassana ef þeim liði illa og draga
upp fallegar minningar og minnast um leið lof-
orðs móður þeirra um að fjölskyldan myndi
sameinast aftur þótt síðar yrði. Það gekk eftir
að lokum.
Hugmyndin að geðræktarkassanum er jóla-
gjöf Geðræktar til þjóðarinnar og um leið
hvetjum við fólk til að staldra við í lífsgæða-
kapphlaupinu og hugsa um hvað hefur áhrif á
líðan þess.“
Þannig segir Elín Ebba upplagt að fólk búi
til geðræktarkassa og gefi vinum og vanda-
mönnum í jólagjöf. Kassarnir sem þingmenn-
irnir fá í dag eru málaðir og skreyttir skókass-
ar svo íburðurinn þarf ekki að vera mikill.
Helmingur landsmanna
þekkir Geðræktarverkefnið
Gerð hefur verið Gallupkönnun á vitneskju
landsmanna á Geðræktarverkefninu og verða
niðurstöður hennar kynntar á fundinum í Iðnó
í dag. Dóra Guðrún segir niðurstöðurnar mikið
gleðiefni fyrir aðstandendur verkefnisins, en
könnunin leiðir í ljós að um helmingur lands-
manna hafi heyrt um verkefnið.
„Það teljum við nokkuð gott á þeim tveimur
árum sem verkefnið hefur verið í gangi,“ segir
hún. „Okkur finnst mjög hvetjandi að sjá að við
höfum náð til um helmings þjóðarinnar og telj-
um mjög mikilvægt að stefna að því að ná til
hins helmingsins í framhaldinu. Samkvæmt
könnuninni vita konur meira um verkefnið en
karlar og þá veit fólk meira um verkefnið eftir
því sem menntun þess er meiri. Við töldum að
með könnuninni gætum við fengið að vita
hvaða árangri verkefnið hefði skilað og hvernig
við eigum að haga vinnunni í framhaldinu. Nið-
urstöðurnar segja okkur líka að verkefnið er
jafnvel kynnt á landsbyggðinni sem á höfuð-
borgarsvæðinu og það er mikið ánægjuefni. Að
því hafa unnið einn til tveir starfsmenn með
stuðningi góðra aðila og meðal þess sem gert
hefur verið er að halda fyrirlestra fyrir skóla
og almenning. Haldin hafa verið námskeið um
geðheilbrigðismál fyrir kennara, útbúið náms-
efni fyrir leik- og grunnskóla. Einnig höfum við
útbúið sérstakan lista í póstkortaformi með
„Geðorðunum tíu“, sem náð hefur mikilli út-
breiðslu.“ Svo tekið sé dæmi um geðorðin tíu er
sjötta geðorðið: „Flæktu ekki líf þitt að
óþörfu.“ Áttunda er: „Gefstu ekki upp, vel-
gengni í lífinu er langhlaup.“
Meðal þess sem Geðrækt hefur á prjónunum
á næsta ári eru námskeið um vellíðun í
vinnunni í samvinnu við VR, stofnun heimasíð-
unnar sjalfsmynd.is í samstarfi við Jafningja-
fræðsluna. Í samstarfi við Landspítalann, RKÍ,
Geðhjálp og fleiri verður þá unnið verkefnið
„Geðrækt fyrir þá sem þjást sem hefur það að
markmiði að efla jákvæða hugsun hjá þeim
sem þjást, s.s. langveikum börnum. Einnig er á
döfinni samvinna við Borgarleikhúsið sem
hyggst setja upp leikritið Psychosis 4:48 með
það að markmiði að hjálpa almenningi að skilja
þá sem glíma við geðraskanir.
Um helmingur landsmanna þekkir Geðræktarverkefnið samkvæmt könnun
Þingmenn hvatt-
ir til að hlúa að
geðheilsunni
Morgunblaðið/Sverrir
Geðræktarkassarnir í vinnslu fyrir alþingismenn en kassarnir verða afhentir í dag. Elín Ebba
Ásmundsdóttir og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir á vinnustofu Geðhjálpar við Túngötu.
Góðir skór
Skóbúðin
Miðbæ Háaleitisbraut 58-60 Sími 553 2300
Ráðgjöf á fimmtud. kl. 15-18 og laugard. kl. 11-15.