Morgunblaðið - 12.12.2002, Page 22
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
22 FIMMTUDAGUR 12. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Á HVERJUM degi mæta rúmlega
50 starfsmenn Múlalundar galvaskir
til vinnu. Þeir taka til við iðju sína við
að sérvinna eða framleiða staðlaða
framleiðslu, alls kyns hluti sem nýt-
ast á skrifstofum landsmanna, t.d.
Egla bréfabindi sem er þekktasta
framleiðsluvara Múlalundar.
En Múlalundur er enginn venju-
legur vinnustaður, þar starfa dags-
daglega 34 fatlaðir einstaklingar í 20
stöðugildum og eru því ýmist í 50–
100% störfum. Margir hafa lent í
slysum eða glíma við veikindi af ein-
hverjum toga og hafa af ýmsum
ástæðum ekki farið út á hinn al-
menna vinnumarkað.
Margir á biðlista –
næg vinna fyrir hendi
„Við gætum með léttum leik bætt
við okkur starfsfólki, eftirspurn eftir
vörunum er það mikil og fjölmargir
eru á biðlista eftir vinnu hjá okkur,“
segir Helgi Kristófersson, fram-
kvæmdastjóri Múlalundar. Hann fer
mánaðarlega á fund með Vinnumiðl-
un Reykjavíkurborgar þar sem tekn-
ar eru til umfjöllunar umsóknir fólks
sem sækist eftir vinnu á Múlalundi.
„En við höfum aðeins þessi 20 stöðu-
gildi og er það að þakka félagsmála-
ráðherra að þeim var fjölgað úr
fimmtán. Það er þakkarvert af ráð-
herra að fjölga stöðugildum. Ég
myndi segja að 27 stöðugildi myndu
strax breyta miklu. Við fáum greitt
frá félagsmálaráðuneytinu sam-
kvæmt samningi um þessi 20 stöðu-
gildi en í því felst að við látum á móti í
té starfsþjálfun og mat á starfsgetu.“
Helgi segir að Múlalundur sé
hugsaður sem vinnustaður þar sem
fatlaðir einstaklingar geti unnið
tímabundið, í 3–6 mánuði og í kjölfar-
ið farið út á almennan vinnumarkað.
Það sé raunin í mörgum tilvikum, en
margir dvelji lengur á vinnustaðnum,
sérstaklega þeir sem sýni miklar
framfarir og greinilegt er að vinnan
skili þeim árangri. „Margir fara út á
almennan vinnumarkað eftir að hafa
unnið hér í einhverja mánuði, margir
halda áfram hjá okkur lengur og enn
aðrir fara aftur á biðlistann til að
komast aftur hingað inn,“ segir
Helgi. „En það er alveg á hreinu að
það er árangur af þessu starfi hér,
við finnum það greinilega. Við höfum
fjölmörg dæmi um að fólk hafi náð
sér vel á strik og komist út á vinnu-
markaðinn og náð gífurlegum ár-
angri.“
Mörg dæmi um
ótrúlegar framfarir
Helgi lenti sjálfur í slysi fyrir
mörgum árum, hrapaði 6 metra í
byggingarvinnu. „Ég fann það þá
hvað bótakerfið er letjandi, en ekki
hvetjandi og þessu þarf að breyta.
Vonandi er þetta þegar eitthvað að
breytast. Ég vildi fara í skóla en það
þýddi að ég hefði misst bæturnar.
Svo ég þekki þetta allt af eigin raun.
En ég þrjóskaðist við og fór í Tækni-
skólann.
Vinnustaður eins og Múlalundur
hlýtur alltaf að vera þjóðhagslega
hagkvæmur. Hér fær fólk sín laun,
við borgum fasteignaskatta og önnur
opinber gjöld eins og öll önnur fyr-
irtæki. Það hlýtur líka alltaf að vera
betra fyrir samfélagið að fólk sé að
vinna en liggi ekki heima aðgerðar-
laust og bíði eftir bótunum sínum.“
Helgi sagði að því miður væri æði al-
gengt að fólk gæfist upp þegar eitt-
hvað bæri út af í lífsins ólgusjó.
„Dæmi eru um að fólk leggist hrein-
lega í kör. Það er mjög sorglegt að
horfa upp á það, sérstaklega þegar
maður veit af eigin raun að hægt er
að komast aftur á réttan kjöl. Það er
afar mikilvægt að vita að til eru leið-
ir, en þessar leiðir verða þá að vera
færar.“
Helgi nefnir sem dæmi mann sem
kom til starfa hjá Múlalundi eftir
mikil og erfið veikindi. Hann hafði
lágt sjálfsmat og þurfti að byggja sig
upp. Hann fékk því framlengingu á
starfstíma sínum og sýndi góðan
bata og árangur. Hann hafði unnið
við pípulagnir áður en hann veiktist
og í dag er hann orðinn pípulagn-
ingameistari, vinnur sem verktaki og
er með menn í vinnu hjá sér. „Þetta
er eitt af mörgum dæmum um það
hversu þjóðhagslega hagkvæmt það
er að reka stað eins og Múlalund. Það
þarf enginn að efast um að Múlalund-
ur er að skila aftur í þjóðarbúið því
sem lagt er fram af ráðuneytinu og
gott betur.“
Stærsti vinnustaður
sinnar tegundar á Íslandi
Aðspurður sagðist Helgi ekki geta
ímyndað sér hvað starfsfólk Múla-
lundar í gegnum árin hefði tekið sér
fyrir hendur ef vinnustaðarins hefði
ekki notið við. Margir kæmu þangað
eftir mikla endurhæfingu og væru
áfram í endurhæfingu meðfram
vinnunni. „Ég á erfitt með að ímynda
hvað myndi gerast ef Múlalundur
væri ekki valmöguleiki fyrir allt
þetta fólk. Þetta er stærsti og elsti
vinnustaður sinnar tegundar hér á
landi. Hann er sérstaklega hugsaður
með þarfir fatlaðra í huga, hvað varð-
ar allt starfsumhverfi og aðgengi.
Ég held að vinnustaður sem þessi
sé algjörlega nauðsynlegur því það
eru margir sem ekki treysta sér eða
geta farið út á almennan vinnumark-
að, í það minnsta ekki strax. Ég finn
líka að þegar nálgast starfslok hjá
mörgum í Múlalundi verða þeir
kvíðnir um framtíðina. Þeim líður vel
hér, þetta er persónulegur vinnu-
staður og hér myndast oft sterk vina-
bönd.“
Helgi segir að vinnuhópur meðal
starfsmanna hafi nýverið skilað til-
lögum og mati á starfseminni. „Þar
kemur fram að starfsfólkið er ánægt
með vinnustaðinn og gefur honum og
yfirmönnum sínum góða einkunn
sem er auðvitað mjög ánægjulegt.“
Reksturinn á réttri leið
Reksturinn er mun betri nú en
hann var áður að sögn Helga. „Fram-
leiðsla okkar er fjölbreytt og hér fer
fram stöðug og öflug vöruþróun. Við
erum sífellt að bæta við vöruflokk-
um,“ segir hann og sýnir blaðamanni
nýjustu afurðina, marglitar mjúkar
plastmöppur sem fari t.d. vel í bak-
poka unglinganna. „Margir velja að
versla við okkur því þeir hugsa sem
svo að þeir séu í leiðinni að láta gott
af sér leiða og séu að stuðla að bættri
framtíð fjölda einstaklinga. Ég er
bjartsýnn á framtíðina, fyrirtækið er
á góðri leið. Hjá Múlalundi er sem
betur fer nóg að gera og það hafa
mörg fyrirtæki tekið okkur og vörum
okkar vel. Reksturinn er að komast á
rétt ról og stefnir allt í að Múlalund-
ur nái að fylgja eftir sínum markmið-
um sem eru að skapa sem flestum
vinnu sem ekki fá vinnu annars stað-
ar.“
Rekstur Múlalundar að komast í rétt horf en fjölga mætti starfsfólki að mati framkvæmdastjóra
Allir hagnast á
rekstri Múlalundar
Kristinn Alexandersson er vandvirkur við plastumslögin.
Morgunblaðið/Jim Smart
Helgi Kristófersson framkvæmdastjóri segir engan vafa leika á því að
Múlalundur sé þjóðhagslega hagkvæmur vinnustaður.
Tún
Á Múlalundi vinna 34
einstaklingar sem glímt
hafa við sjúkdóma eða
lent í slysum og hafa
ekki náð að fóta sig á al-
mennum vinnumarkaði.
Sunna Ósk Logadóttir
spjallaði við starfsmenn
um fjölbreytta fram-
leiðsluna, framtíðina
og auðvitað jólin.
„MÉR LÍÐUR mjög vel hér á Múla-
lundi, hér dæmir mann enginn,
gónir á mann og spyr óþægilegra
spurninga,“ segir Rakel Sveins-
dóttir, sem lenti í bílslysi fyrir níu
árum og hefur nú unnið á Múla-
lundi í næstum eitt ár. Hún á von á
að halda vinnunni þar í hálft ár í
viðbót. „Ég vil helst halda áfram að
vinna hér. Ég treysti mér ekki til að
fara út á almennan vinnumarkað.
Mér líður langbest hérna.“
Eftir slysið var Rakel í endurhæf-
ingu og fer enn í sjúkraþjálfun en
segist lítið annað hafa verið að gera
áður en hún byrjaði á Múlalundi.
„Ég reyndi að vinna á nokkrum
stöðum eftir slysið. En það einfald-
lega gekk ekki upp. En hingað er
gott að koma. Hér er ég innan um
annað fólk sem er að fást við álíka
vandamál, sem þekkir mínar að-
stæður af eigin raun. Múlalundur
er yndislegur vinnustaður. Fé-
lagslega er hann góður og ég hef
eignast góða vini hérna.“
Rakel segir gefandi að vinna á
Múlalundi. „Það er mjög gott að
koma hingað eftir sjúkraþjálfunina
og vinna. Maður fær endalausa
hreyfingu í stað þess að hanga
heima hjá sér og gera ekki neitt.“
Rakel segir að þar sem stöðugildi
séu fá á vinnustaðnum sé ekki mikil
hreyfing á starfsfólkinu og sumir
hafi unnið á Múlalundi í mörg ár.
Fjölga þyrfti því stöðugildum. „En
það er fullt af fólki sem hefur ekk-
ert að gera og margir bíða eftir að
komast í vinnu hér.“
„Hér dæmir
mann enginn“
Rakel Sveinsdóttir og Halldór Arnarson önnum kafin við vinnu sína.
MÚLALUNDUR er stærsta og
elsta öryrkjavinnustofa landsins
ásamt því að framleiða og selja
mest allra af bréfabindum og laus-
blaðabókum.
Starfsemin hófst árið 1959. Fyr-
irtækið er í eigu SÍBS og er rekið af
því. Á Múlalundi hefur fólk með
skerta starfsorku átt þess kost að
vinna létt störf við hagnýtan iðnað
þar sem vinnutími getur verið
sveigjanlegur. Nú vinna um 75
manns hjá fyrirtækinu á tveimur
stöðum.
Múlalundur hefur sérhæft sig í
framleiðslu á plast- og pappavörum
fyrir skrifstofur en mikil og jöfn
þörf er fyrir þær. Hér er um að
ræða EGLU bréfabindi, laus-
blaðabækur, tölvumöppur, dagatöl,
glærar kápur og hulstur, ráð-
stefnu- og fundarmöppur og margt
fleira.
Vörur Múlalundar hafa hlotið
góðar móttökur sem hefur ýtt und-
ir fjölbreytni í vöruþróun undan-
farin ár.
Saga og söluvörur
Múlalundar
TENGLAR
.....................................................
www.mulalundur.is
AÐALSKOÐUN hf. býður viðskipta-
vinum og velunnurum til morgun-
verðarhlaðborðs í dag í skoðunarstöð
sinni við Helluhraun í Hafnarfirði.
Hefur þetta verið til siðs hjá fyrirtæk-
inu frá því það var stofnað.
Í frétt frá Aðalskoðun segir að
morgunverðarhlaðborðið hafi mælst
mjög vel fyrir hjá viðskiptavinum en
búist er við að um 300 manns mæti í
stöðina. Hlaðborðið hefst kl. 9.30 en
því hefur að vanda verið komið fyrir á
bílalyftunni og verður tekið á móti
gestum með harmónikkuspili. Þá flyt-
ur Árni Ibsen ljóð, Guðrún Eva Mín-
ervudóttir fjallar um skáldsögu sína,
Söguna af sjóreknu píanóunum, og
Eyjólfur Kristjánsson flytur lög.
Hlaðborð á
bílalyftunni
Hafnarfjörður
♦ ♦ ♦