Morgunblaðið - 26.02.2003, Side 16
ERLENT
16 MIÐVIKUDAGUR 26. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
BANDARÍSKIR embættismenn
leggja nú áherslu á að framtíð Sam-
einuðu þjóðanna geti oltið á því hvort
öryggisráð SÞ samþykkir nýja álykt-
un um Íraksmálin eður ei. Spurn-
ingin snúist ekki lengur um það hvort
háð verður stríð við Írak, heldur
hvort aðildarríki öryggisráðsins séu
reiðubúin að eyðileggja trúverð-
ugleika ráðsins með því að beita sér
gegn samþykkt nýrrar ályktunar
sem heimilar hernaðaraðgerðir gegn
Írak.
Ráðamenn í Washington hafa
ítrekað sagt að öryggisráðið hætti að
skipta máli eða hafa áhrif ef það
bregðist skyldum sínum í Íraksmál-
inu. Er augljóst af öllu, nú þegar ný
ályktun þeirra um Íraksmálin er
komin fram, að þeir ætla að setja
þessa afstöðu í forgrunn til að reyna
að hafa áhrif á afstöðu þjóðanna sem
eiga fulltrúa í öryggisráðinu.
Dagblaðið The Washington Post
hefur eftir háttsettum embættis-
manni í Washington að John R. Bolt-
on aðstoðarutanríkisráðherra hafi í
samtölum við háttsetta rússneska
embættismenn á mánudag sagt
hreint út að Bandaríkin ætli „að taka
slaginn“ hvort sem öryggisráðið
leggur blessun sína yfir herför eða
ekki. „Samstaða innan ráðsins er það
sem hér er í húfi,“ sagði heimild-
armaður blaðsins.
Sömu sögu hafi fulltrúi ónefnds
ríkis í öryggisráðinu að segja;
Bandaríkjamenn reyni nú að sýna
fulltrúum í öryggisráðinu fram á að
andstaða við ályktunina sé til einskis
– en geti hins vegar haft alvarlegar
afleiðingar. „Þú munt ekki taka
ákvörðun um það hvort háð er stríð í
Írak eða ekki,“ sagði þessi diplómati
að bandarískir embættismenn hefðu
sagt honum. „Sú ákvörðun er okkar,
og við höfum þegar tekið hana. Hún
er endanleg. Spurningin núna er að-
eins sú hvort öryggisráðið fylkir liði
um hana eða ekki.“
Gert til að „hjálpa“ Blair
George W. Bush Bandaríkjaforseti
heldur sig enn við þá línu á opinber-
um vettvangi að engin ákvörðun hafi
enn verið tekin um það hvort ráðist
verður á Írak. Háttsettir embætt-
ismenn eru þó ekkert að leyna þeirri
skoðun sinni á fundum með erlend-
um starfsbræðrum sínum að stríð sé
óhjákvæmilegt. Og í fyrradag lét
Condoleezza Rice, þjóðarörygg-
isráðgjafi Bush, þau orð falla að eng-
inn ætti að vanmeta þann staðfasta
ásetning Bandaríkjastjórnar að af-
vopna Írak með einum eða öðrum
hætti.
Barátta Bandaríkjastjórnar fyrir
því að fá öryggisráðið til að sam-
þykkja nýja ályktun hófst fyrir al-
vöru um helgina, en Bretar og Spán-
verjar lögðu ályktunina síðan fram á
mánudag. Orðalag hennar er ekki
með þeim hætti að hernaðarárás sé
beinlínis heimiluð; enginn þarf þó að
velkjast í vafa um að samþykkt henn-
ar felur í sér einmitt þetta.
Embættismenn Bandaríkja-
stjórnar telja enn að ályktun nr.
1441, sem var samþykkt í nóvember,
feli í raun í sér heimild til hernaðar-
aðgerða hlíti Írakar ekki skilyrð-
islaust öllum skilmálum hennar.
Ráðamenn í Washington munu hins
vegar hafa ákveðið að verða við ósk-
um sinna helstu bandamanna í þess-
um pólitísku átökum – þ.e. Spánverja
og Breta – um að fá samþykkta nýja
ályktun í öryggisráðinu; í því skyni
að reyna að draga úr mikilli andstöðu
í þessum löndum við hernaðaríhlutun
í Írak. Dagblaðið The New York
Times fullyrðir raunar í gær að
ákvörðun um að leggja fram nýja
ályktun í öryggisráðinu hafi fyrst og
fremst verið tekin til að létta undir
með Tony Blair, forsætisráðherra
Bretlands, sem hefur sætt mikilli
gagnrýni heima fyrir vegna stuðn-
ings síns við áform Bandaríkja-
manna.
Aðrir ötulir bandamenn Bush –
Jose Maria Aznar, forsætisráðherra
Spánar, og Silvio Berlusconi, for-
sætisráðherra Ítalíu – eiga þó við
sömu erfiðleika að etja og Blair og
hafa því einnig talið mikilvægt að fá
sérstaka heimild frá öryggisráðinu.
Spurningin sem greinilega leikur á
vörum margra áhrifamanna í Banda-
ríkjunum er þó sú hvort Bush hafi
ekki tekið óþarfa áhættu með því að
gera þessa tilraun til „að hjálpa vin-
inum Blair“, eins og það er orðað í
The New York Times í gær. Sitji
Frakkar, Þjóðverjar og Rússar við
sinn keip sé nefnilega hætta á að víg-
staða þeirra, sem vilja ráðast til at-
lögu gegn Saddam Hussein Íraks-
forseta, veikist við það að nýrri
ályktun sé hafnað í öryggisráðinu.
Uppgjör í öryggisráðinu?
Þannig varaði Richard Holbrooke,
fyrrverandi sendiherra Bandaríkj-
anna hjá SÞ, við því í grein í The
Washington Post á sunnudag að þó
að eðlilegt hafi verið að verða við ósk-
um Blairs, til að styrkja stöðu hans,
þá væri hættan sú að Bush „lenti í
ógöngum“ og að til afdrifaríks upp-
gjörs myndi koma í öryggisráðinu.
Ólíklegt væri nefnilega að önnur
ályktun fengist samþykkt, enda
væru Frakkar, Þjóðverjar og líklega
Rússar jafnandsnúnir hernaðar-
áformum Bandaríkjanna og áður.
„Af þessu leiðir að það bandalag sem
Bandaríkin veita forystu á það nú á
hættu að grafið verði undan þeim
mikla sigri sem náðist er ályktun
1441 fékkst samþykkt, með því að
annarri ályktun, sem engan veginn
var nauðsynleg, verði hafnað með
þorra atkvæða,“ sagði Holbrooke.
Þar með liti svo út að það væru þeir,
sem í kjölfarið efndu til hernaðar-
aðgerða, sem væru brotlegir við vilja
öryggisráðsins, en ekki Saddam
Hussein.
Vissulega gætu aðgerðir Íraka
breytt þessari stöðu algerlega. Þann-
ig leit allt út fyrir í gær að Saddam
hygðist hafna kröfu Hans Blix, yf-
irmanns vopnaeftirlitsnefndar SÞ,
um að eyðileggja Al Samoud 2-
eldflaugar sínar. Slík ákvörðun gæti
orðið til þess að andstæðingar hern-
aðaraðgerða breyttu afstöðu sinni;
enda Saddam þá augljóslega farinn
að hunsa vilja vopnaeftirlitsmanna.
„Ef Saddam er nógu heimskur til að
neita að afvopnast, þá munu Banda-
ríkin fá þessa ályktun samþykkta,“
sagði Holbrooke í samtali við New
York Times í gær.
Ekki borin upp til atkvæða?
Tæknilega séð geta Bandaríkja-
menn farið fram á að öryggisráðið
greiði atkvæði um ályktunina sólar-
hring eftir að hún er komin fram.
Ekki er þó gert ráð fyrir að örygg-
isráðið greiði atkvæði um hana fyrr
en að tveimur vikum liðnum eða svo.
Þennan tíma munu Bandaríkjamenn
nota til að reyna að tryggja að tilskil-
inn meirihluti fulltrúa öryggisráðsins
– níu af fimmtán – greiði atkvæði
með samþykkt ályktunarinnar og að
hvorki Frakkar, Rússar né Kínverjar
beiti neitunarvaldi sínu.
Þetta mun ekki verða auðvelt verk
– nema Saddam geri eitthvað í milli-
tíðinni sem breytir myndinni – því
eins og staðan er núna mætti gera
ráð fyrir að a.m.k. Frakkar myndu
einmitt beita neitunarvaldinu.
Ef aðeins er talað um þær tíu þjóð-
ir, sem eiga sæti í ráðinu um þessar
mundir en hafa ekki neitunarvald, þá
geta Bandaríkin í dag einungis bókað
stuðning Spánverja og Búlgara við
nýja ályktun. Öruggt er talið að Sýr-
land og Þýskaland greiði atkvæði
gegn samþykkt ályktunarinnar og að
Pakistan segi annaðhvort nei eða sitji
hjá. Því verða hin ríkin fimm, sem
eiga sæti í ráðinu, öll að samþykkja
ályktunina eigi hún að ná fram að
ganga. Þar er um að ræða Mexíkó,
Chile, Angóla, Gíneu og Kamerún;
hafa ráðamenn í Washington þegar
hafist handa við að reyna að fá þessar
þjóðir til liðs við sig.
Virðist sem Bandaríkin myndu
fyllilega sætta sig við að tryggja
stuðning níu af 15 þjóðum í örygg-
isráðinu, þar sem tvær yrðu á móti
en aðrar – þ.á m. þær sem hafa neit-
unarvald – sitja hjá.
Hvort hægt verður að fá Kína,
Frakkland og Rússland, sem öll hafa
neitunarvald, til að kjósa að beita því
ekki, er óljóst á þessari stundu og
The Washington Post hefur eftir
bandarískum embættismanni að
Bandaríkin muni leggja mat á stöð-
una þegar þar að kemur. Sýnist
mönnum sem ekki sé líklegt að álykt-
unin fáist samþykkt verði tekin
„taktísk ákvörðun“ um það hvort
ályktunin verður borin upp til at-
kvæða eður ei. Að ráðast í hernaðar-
aðgerðir án þess að hafa hlotið til
þess beina heimild kunni að vera
betri kostur en að heyja stríð sem ör-
yggisráðið hafi beinlínis lýst sig and-
vígt.
Segja framtíð SÞ ráðast
af afdrifum ályktunar
Reuters
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, er hann ræddi Íraksmálið á þingi í gær. Hafnaði hann tillögu Frakka og
Þjóðverja um meiri tíma fyrir vopnaeftirlitið og sagði, að aldrei myndi neitt finnast án samstarfs Íraksstjórnar.
Bandaríkjamenn eru
sagðir hafa ákveðið að
leggja fram nýja álykt-
un um Íraksmálin í ör-
yggisráði SÞ til að
hjálpa Tony Blair að
eiga við almennings-
álitið í Bretlandi.
’ Að ráðast í hern-aðaraðgerðir án þess
að hafa hlotið til þess
beina heimild kunni
að vera betri kostur
en að heyja stríð
sem öryggisráðið
hafi beinlínis lýst
sig andvígt. ‘
SADDAM Hussein Íraksforseti segir Íraka
ekki ráða yfir eldflaugum sem dragi lengra en
skilmálar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna
segja fyrir um. Því hyggist Írakar ekki verða
við þeirri kröfu Hans Blix, yfirmanns vopnaeft-
irlits Sameinuðu þjóðanna, að þeir hefji að
eyðileggja eldflaugarnar fyrir næstu helgi. Ná-
inn aðstoðarmaður Íraksforseta sagði þó í gær
að enn væri verið að skoða þessa kröfu Samein-
uðu þjóðanna.
Saddam Hussein sagði í viðtali við banda-
ríska sjónvarpsmanninn Dan Rather á mánu-
dag að Írakar ættu þann kost einan að verja
hendur sínar þar sem Bandaríkjamenn hefðu
ákveðið að láta sverfa til stáls. „Stjórn litla
Bush hefur ákveðið að hundsa vilja alþjóða-
samfélagsins … og því geta Írakar ekki annað
en varið land sitt,“ sagði Saddam Hussein m.a.
í samtalinu við Rather en þetta er fyrsta við-
talið sem hann veitir vestrænum fréttamanni í
meira en tíu ár. Rather gerði grein fyrir helstu
efnisatriðum viðtalsins í gær og á mánudag en
viðtalið verður sýnt í heild á bandarísku CBS-
sjónvarpsstöðinni í dag, miðvikudag, í frétta-
þættinum 60 Minutes II.
Hussein neitaði því einnig að eldflaugarnar
sem deilt er um dragi lengra en kveðið er á um
í vopnahlésskilmálum Sameinuðu þjóðanna frá
árinu 1991. Þar segir að Írakar megi ekki ráða
yfir eldflaugum sem draga lengra en 150 kíló-
metra. Hans Blix segir hins vegar að flaug-
arnar, sem eru af gerðinni al-Samoud 2, dragi
allt að 190 kílómetra. Því beri Írökum að eyða
þeim og hefja það starf fyrir næsta laugardag.
„Við eigum ekki eldflaugar sem draga lengra
en kveðið er á um,“ sagði Íraksforseti í viðtal-
inu.
Helsti vísindaráðgjafi Saddams Husseins
sagði hins vegar í samtali við fréttamenn í
Bagdad í gær að enn væri verið „að skoða“
þessa kröfu Sameinuðu þjóðanna. Írakar hafa
látið að því liggja að þeir vilji semja um að eld-
flaugunum verði breytt og að hugsanlega komi
til greina að eyða hluta þeirra.
Erfið staða Íraka
Fréttaskýrendur segja ljóst að eldflauga-
deilan muni reynast Írökum erfið mjög. Ákveði
þeir að hundsa kröfu vopnaeftirlitsmanna um
eyðingu þeirra gefi þeir Bretum og Banda-
ríkjamönnum tilefni til að halda því fram að
Írakar hafi brotið efnislega gegn skilmálum
Sameinuðu þjóðanna. Slík brot réttlæti að her-
valdi verði beitt samkvæmt ályktun Samein-
uðu þjóðanna nr. 1441.
Ákveði Írakar á hinn bóginn að farga eld-
flaugunum muni það draga úr getu þeirra til að
verjast hugsanlegri innrás Bandaríkjamanna
og bandamanna þeirra. Eldflaugarnar eru þær
langdrægustu sem Írakar eiga og yrði þeim því
trúlega beitt á fyrstu stigum átaka. Ekki liggur
fyrir hversu margar eldflaugar af gerðinni al-
Samoud 2 Írakar eiga en talið er að þær kunni
að vera um 100. Þær geta borið 300 kíló-
gramma sprengjuhleðslu en deilt er um
drægni þeirra. Írakar halda því fram að eld-
flaugarnar hafi sumar hverjar reynst draga
lengra en 150 klílómetra vegna þess að þær
hafi verið reyndar án miðunarbúnaðar og
sprengjuhleðslu.
Vill einvígi við Bush
Í viðtalinu við Dan Rather lýsti Saddam
Hussein yfir því að hann vildi mæta George W.
Bush Bandaríkjaforseta í kappræðu um gervi-
hnött. Þar gætu þeir rætt Íraksmálið og rök-
stuðning Bandaríkjamanna fyrir nauðsyn þess
að farið verði með hernaði gegn Írökum.
Heimsbyggðin gæti síðan fylgst með.
Talsmaður Bush Bandaríkjaforseta sagði að
áskorun Saddams Husseins væri ekki tekin al-
varlega. Engin þörf væri á slíkri rökræðu. „Af-
vopnun Íraka er það eina sem þörf er á,“ sagði
talsmaðurinn Ari Fleischer.
Eldflaugadeilan
Írökum erfið
Saddam Hussein segir flaugarnar ekki
brot á skilmálum Sameinuðu þjóðanna
Bagdad. AFP. AP.