Morgunblaðið - 15.03.2003, Page 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. MARS 2003 39
✝ Ingibjörg Stef-ánsdóttir fæddist
á Mýrum í Skriðdal í
S-Múlasýslu 25. mars
1916. Hún lést á
Sjúkrahúsi Egils-
staða 7. mars síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Stefán
Þórarinsson og Jón-
ína Salný Einarsdótt-
ir. Ingibjörg átti níu
alsystkini, eitt er á
lífi, og fimm hálf-
systkini, öll á lífi.
Ingibjörg ólst upp að
mestu hjá Björgu
Jónsdóttur, ljósmóður. Með hús-
móðurstörfum vann Ingibjörg
sem ljósmóðir við Sjúkraskýli Eg-
ilsstaða.
Árið 1945 giftist Ingibjörg eft-
irlifandi eiginmanni sínum, Vil-
hjálmi Emilssyni, f. 8. febrúar
1920, frá Hánefsstöðum í Seyðis-
firði, fyrrv. vélstjóra
við Sláturhús Kaup-
félags Héraðsbúa.
Börn Ingibjargar og
Vilhjálms eru Björg
Vilhjálmsdóttir, f.
28.7. 1946, og Vil-
hjálmur Emil Vil-
hjálmsson f. 12.4.
1949. Þau eru bæði
búsett í Svíþjóð.
Börn Bjargar eru
Emelie Deinlein, f.
5.4. 1973, og Robert
Deinlein, f. 12.3.
1976. Vilhjálmur
Emil er kvæntur Sig-
ríði Bragadóttur, f. 7.3. 1954.
Dætur þeirra eru Sara Vilhjálms-
dóttir, f. 8.2. 1979, Eyrún Þór-
hallsdóttir, f. 23.1. 1975, og Stein-
unn Þórhallsdóttir, f. 10.2. 1972.
Útför Ingibjargar verður gerð
frá Egilsstaðakirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Öll erum við skilgetin afkvæmi
okkar tíma í þeirri merkingu að
ríkjandi aðstæður hverju sinni eiga
þátt í að móta lífsstefnu okkar,
sjálfsmynd og persónugerð, í sam-
spili við upplag. Seint verður sagt að
fyrstu æviár Ingu, en svo var hún
ætíð nefnd, hafi verið dans á rósum.
Inga var níunda í röð alsystkina
sinna. Tæplega ársgömul missti hún
móður sína af barnsförum. Þó svo að
nokkur eldri systkinanna væru orð-
in stálpuð og harðdugleg til vinnu þá
var einstæðum föður um megn að
tryggja lífsskilyrði svo ungs barns.
Inga var látin í fóstur á þarnæsta
bæ frá Mýrum séð, á Vað, til fólks er
hét Ingibjörg og Jón. Að sögn Ingu
bast hún þessu fólki sterkum bönd-
um, sérstaklega Ingibjörgu. Sagðist
hún ætíð upp frá því hafa litið á
þessa konu sem sína einu sönnu
móður. Og væntumþykjan virðist
hafa verið gagnkvæm.
Önnur kaflaskipti í bernskusögu
Ingu hefjast þegar hún er vart fjög-
urra ára gömul með því að Stefán,
faðir hennar, tekur hana aftur til
sín, og slítur þar með viðkvæm bönd
barns við fósturmóður sína. Þetta
var gegn vilja Ingu, en líklega hafði
íslenskt samfélag þessa tíma ekki
ráð á að vera barnamiðað. En ef við
viljum reyna að skilja Stefán þá má
ætla að ákvörðunin nokkrum árum
áður að láta Ingu sem ungabarn frá
sér hafi verið þungbær. Svo nú þeg-
ar heimilishaldið á Mýrum var kom-
ið í betra horf – eða svo má álykta af
lýsingum samtímafólks – er líklegt
að Stefáni hafi fundist við hæfi að
endurheimta dótturina. En hvað
sem því líður, og undirstrikar það
enn skýrar en framansagða hve lífið
var fullorðinsmiðað á þessum tím-
um, að Inga var vart fyrr komin aft-
ur í Mýrar en hún var fengin í hend-
ur Björgu Jónsdóttur, ljósmóður,
sem verið hafði ráðskona á bænum.
Urðu nú aftur skörp kaflaskil í lífi
Ingu. Fyrst flutti hún með fóstru
sinni í Geirólfsstaði, sem eru á milli
Mýra og Vaðs, og skömmu síðar í
Mjóanes í grennd við Hallormsstað,
en þar bjuggu systkini Bjargar. Þar
dvöldu þær í um það bil tvö ár, eða
þar til Inga var sex eða sjö ára. Þá
flytja þær í Fljótsdal. Þegar Inga
var 13 ára fær Björg stöðu sem ljós-
móðir á Reyðarfirði, og flytja þær
þá þangað. Varð Reyðarfjörður fasti
punkturinn í tilveru Ingu næstu ár-
in, þó inn á milli hafi hún dvalið á
Laugarvatni og á Suðurlandsundir-
lendinu.
Hvernig skyldi Inga hafa mótast
af öllum sviptingum og óstöðugleika
bernsku- og æskuáranna? Erfitt er
um það að segja með nokkurri vissu
en í samtölum okkar – síðast sum-
arið 2002 – lýsti hún sig nokkuð
sátta við allt í uppvexti sínum, að
einu undanskildu: Hún þráði ætíð
Ingibjörgu, fósturmóður sína mikið,
og þótti enn í dag miður að hafa ver-
ið tekin frá henni. Inga bar þó
Björgu vel söguna, en móðurmiss-
inn hinn síðari gat samt fóstra henn-
ar aldrei bætt henni upp. Inga var á
allan hátt mild kona og æðrulaus.
Hvort það hafi á einhvern hátt verið
andsvar við þeim aðstæðum sem hér
hefur verið lýst skal ósagt látið. Eða
sá þáttur í fari Ingu, sem mér fannst
einna aðdáunarverðastur; að horfa
raunsæjum augum og hleypidóma-
laust til samtíðar og framtíðar. Inga
var blessunarlega laus við þá nei-
kvæðni sem birtist í óhóflegri fortíð-
arhyggju. Mér segja þessir eigin-
leikar, og fleiri sem ég kem að síðar,
að Inga hafi unnið vel úr sinni
bernsku; hún var þrátt fyrir allt
nógu örugg innra með sér til að bera
tiltrú til lífsins og annarra í kringum
sig og til að geta trúað góðu um
framhaldið, eða í það minnsta þar til
annað sannaðist. Hún hlýtur að hafa
verið sterk að upplagi. En svo átti
Inga einnig staðfasta trú, þó ekki
bæri hún hana á torg.
Fyrstu kynni Ingu og Villa urðu á
Reyðarfirði snemma á stríðsárun-
um. Þau giftust árið 1945. Fyrsti
samastaður hinna nýgiftu hjóna, en
bara í hálft ár, var Laufás á Egils-
stöðum. En þar bjuggu fyrir hjónin
Einar Stefánsson og Sigríður Vil-
hjálmsdóttir, þá nýbúin að reisa eitt
af allra fyrstu íbúðarhúsum hins
upprennandi kaupstaðar. Rétt fyrir
jól fluttu svo ungu hjónin í nýja hús-
ið sitt, Vindás, sem var í sömu götu
og Laufás. Þar bjuggu þau alla sína
tíð. Tvöfaldur skyldleiki var milli
Vindás- og Laufáshjónanna; Inga
var systir Einars, og Villi var fóst-
urbróðir Sigríðar. Einstakt sam-
band og vinátta ríkti alla tíð milli
þessara tveggja fjölskyldna.
Lesandanum til glöggvunar þá er
það í gegnum fjölskylduna í Laufási
sem undirritaður tengist Ingu og
Villa. Ég var, með öðrum orðum,
fóstursonur Einars og Sigríðar, og
fékk ríkulega að njóta ávaxtanna af
hinum nánu tengslum fjölskyldn-
anna beggja, og þá að sjálfsögðu
einnig við börnin í Vindási, Björgu
og Emil. Vinskapurinn við Emil hef-
ur haldist alla tíð síðan.
Á heimili Ingu og Villa ríkti ann-
áluð gestrisni og hlýja; það var ein-
hver mild og lágvær jákvæðni í loft-
inu. Því þótti bæði börnum og
fullorðnum gott að koma í Vindás.
Inga gaf sig að gestum sínum með
tilfinningalegri nálægð; hlustaði á af
næmi hvert svo sem tilefnið var, og
hvort sem börn eða fullorðnir áttu í
hlut. Virðing Ingu fyrir viðmæland-
anum birtist ekki endilega í því að
hún væri alltaf sammála – hún rök-
ræddi gjarna, var rökföst og stund-
um föst fyrir í skoðunum – heldur
fremur með því að vera í senn mál-
efnaleg og hlý. Enn eitt atriði sem
gerði að fólk laðaðist að hjónunum í
Vindási var væntumþykja þeirra og
hugulsemi í garð hvort annars, sem
segja má að hafi haft fagurfræðilegt
ívaf. Með árunum varð Inga háðari
aðstoð Villa með ýmislegt. Það var
fallegt að fylgjast með hvernig Villi
var sívakandi fyrir hvernig hann
gæti létt undir með Ingu, í smáu
sem stóru. Samt gerði hann það á
þann hljóðláta hátt að líklega fór
það framhjá mörgum. Það var til-
finning mín að með því hvernig Villi
bar sig að væri hann að tjá Ingu
sinni ekki bara ást heldur einnig
djúpa virðingu fyrir henni sem per-
sónu; leyfa henni að halda reisn
sinni, þó að vísu hafi hún átt nóg af
henni. Ekki skorti á að Villi hlyti
þakklæti Ingu í staðinn. Jafnhisp-
urslaus og fallegur kærleikur er
öðrum til eftirbreytni.
Björg og Emil hafa bæði verið
lengi búsett í Svíþjóð, ásamt fjöl-
skyldum sínum. Það hefur þó ekki
komið í veg fyrir marga – aldrei
færri en árvissa – endurfundi, hér
eða í Gautaborg. Barnabörnin hafa
ekki látið sitt eftir liggja, ekki held-
ur eftir að þau hafa fullorðnast; þau
hafa sóst eftir hlýjunni og notaleg-
heitunum í Vindási. Síðastliðið sum-
ar kom Robert og dvaldi í þrjár vik-
ur hjá afa sínum og ömmu. Síðari
árin – með minnkandi hreyfanleika
Ingu og Villa – hefur svo síminn
komið að góðum notum. Síðastliðið
sumar þegar ég og Svala, konan
mín, sóttum þau heim, sagði Inga
óspurð að hún væri þakklát að hafa
átt svo góð tengsl við börnin sín og
fjölskyldur þeirra; þau væru alltaf
svo hugulsöm. Að mínu mati lýsti
þetta Ingu vel; hún horfði fremur til
innihaldsins og viljans en til forms-
ins. Í svipaðri stöðu hefðu líklega
einhverjir frekar einblínt á fjar-
lægðina til barnanna, og jafnvel litið
á hana sem sína stóru sorg í lífinu.
Ekki Inga.
Sterkasti boðskapur hennar til
okkar hinna var kannski einmitt
mikilvægi þess að vinna með sinn
innri mann og tileinka sér jákvæð
lífsviðhorf.
Það var bjart yfir Héraðinu, Eg-
ilsstöðum og hjónunum í Vindási
þegar okkur Svölu bar þar að garði
síðla sumars 2002. Inga var nú orðin
86 ára, 17 árum eldri en þegar við
knúðum síðast dyra í Vindási. Sú
tæpa vika sem var til stefnu skyldi
vel nýtt, því öll vorum við undir það
búin að þetta gætu orðið okkar síð-
ustu samverustundir. Með sínu yf-
irvegaða æðruleysi færði Inga það
endurtekið í tal, þó engin teikn væru
á lofti um þann sjúkdóm sem svo
skyndilega bar hana ofurliði. Þvert
á móti var Inga glöð og í góðu formi,
og Villi líka. Það gladdi okkur hve
fús þau voru að fylgja okkur um sín-
ar gömlu slóðir. Því ákváðum við að
fara öll saman í dagsferð í Fjarða-
byggð, sem var ótvírætt hápunktur
heimsóknarinnar, því eins og hlut-
irnir þróuðust varð þessi ferð einnig
ferð í tíma og sögu Ingu, og að
nokkru leyti Villa einnig. Inga var
áhugasöm um allt það sem fyrir
augu bar, og vel með á nótunum. Að
hennar frumkvæði heimsóttum við
bæði Náttúrugripasafnið í Nes-
kaupstað og Sjóminjasafnið á Eski-
firði, og Inga drakk í sig það sem
hún sá á þessum söfnum. Hún, og
reyndar þau bæði, voru ótrúlega vel
að sér um staðhætti og mannlífið á
fjörðunum, einkum fyrr á árum, og
sögðu okkur margar sögur. Sérstak-
lega vel voru þau að sér um Reyð-
arfjörð og Norðfjörð; á þeim fyrr-
nefnda því þar var Inga hagvön og
reyndar Villi einnig, á þeim síðari
meðal annars vegna ættartengsla og
vensla bæði í sveitinni og kaup-
staðnum við Skriðdal og heimaslóðir
Ingu. Naut hún þess að miðla fróð-
leik sínum, og að sama skapi nutum
við á að hlýða.
Hér hefur verið stiklað á stóru í
lífi Ingu. Henni hlotnaðist langt og
gæfuríkt líf, og fyrir það var hún
þakklát. Við sem fengum að njóta
hennar erum sömuleiðis þakklát. En
allt vill sinn endi. Ég votta Villa,
börnum og barnabörnum mína inni-
legustu samúð.
Baldur Kristjánsson.
Í dag er til moldar borin hjartkær
mágkona og systir, Ingibjörg Stef-
ánsdóttir, ljósmóðir. Hún fæddist á
Mýrum í Skriðdal 25. mars 1916.
Foreldrar hennar voru sæmdar-
hjónin Jónína Salný Einarsdóttir og
Stefán Þórarinsson. Inga (en svo
kölluðum við hana innan fjölskyld-
unnar) var næstyngst í hópi alsystk-
ina af miðhjónabandi Stefáns. Stef-
án giftist Sesselju Bjarnadóttur frá
Viðfirði árið 1877 og lést hún á sama
ári. Árið 1989 giftist Stefán öðru
sinni Jónínu Salnýju Einarsdóttur
sem dó 14. sept. 1917. Árið 1918 kom
í Mýra ung stúlka, Ingifinna Jóns-
dóttir kennari, til að kenna börn-
unum í sveitinni. Árið 1923 kvæntist
Stefán Ingifinnu og eignaðist með
henni fimm börn. Barnahópurinn
var stór, eða 15 alls. Inga fór því
strax eftir lát móður sinnar í fóstur.
Björg, fóstra Ingu, var ljósmóðir í
Skriðdal og síðar á Reyðarfirði. Árið
1933 fór Inga til náms að Laugar-
vatni þar sem hún lauk tveggja
vetra námi og vann þar yfir sum-
artímann. Þessi ár voru Ingu mjög
kær, þar sem Þórarinn bróðir henn-
ar og Munda kona hans bjuggu á
Laugarvatni og talaði hún oft um
þennan yndislega tíma með þeim.
Haustið 1940 flutti hún til fóstru
sinnar á Reyðarfjörð og var það
mjög afdrifaríkt fyrir Ingu því þar
kynntist hún mannsefni sínu, Vil-
hjálmi Emilssyni frá Seyðisfirði.
Haustið 1941 fór hún í Ljósmæðra-
skólann í Reykjavík og lauk þar
námi, vann svo á Landspítalanum
fram í júní 1943. Þá fór hún heim til
Reyðarfjarðar og tók við ljósmóð-
urstörfum af Björgu fóstru sinni.
Árið 1945 var mikið gæfuár í lífi
Ingu því 29. júlí giftist hún eftirlif-
andi eiginmanni sínum, Vilhjálmi
Emilssyni, og gifti Hjálmar Vil-
hjálmsson, sýslumaður þau á Seyð-
isfirði, sem var heimabyggð Vil-
hjálms. Inga og Villi settust að á
Egilsstöðum. Dóttir þeirra Björg
fæddist 28. júlí 1946, fyrsta barnið
sem fæddist í Egilsstaðaþorpi. Þá
um haustið fluttust þau í nýja húsið
sitt Vindás og hafa búið þar síðan.
Seinna barn þeirra, Vilhjálmur Em-
il, fæddist 12. apríl 1949. Börnin
hafa ætíð verið þeim sólargeislar,
enda sérstaklega elskuleg öllum
þeim sem þeim kynnast. Björg á tvö
börn, þau Ingu Emelie Deinlein og
Róbert Deinlein. Vilhjálmur Emil er
giftur Sigríði Stefaníu Bragadóttur,
hún átti fyrir tvær dætur, þær
Steinunni og Eyrúnu. Eyrún hefur
alist upp hjá móður sinni og Milla.
Saman eiga þau dótturina Söru. Öll
eru þessi barnabörn Ingu falleg og
gott ungt fólk. Þau Björg og Milli
eru bæði búsett í Svíþjóð.
Þegar ég læt hugann reika aftur
til minna fyrstu kynna af Ingu þá er
mér minnisstæðust sú mikla virðing
og umhyggja sem hún sýndi öllum á
sinn elskulega og hljóðláta hátt.
Þegar við Svavar byrjuðum að
byggja okkar fyrra hús á Egilsstöð-
um árið 1952, Ás, sem er á móti
Vindási, þá voru þau Inga og Villi
ætíð reiðubúin til að leiðbeina og
hjálpa. Við fengum fyrsta rafmagnið
frá þeim sem leitt var í röri á milli
húsanna svo við gætum haft ljós og
hlustað á útvarpið. Alltaf þegar okk-
ur vantaði eitthvað var farið yfir til
Ingu og Villa og fengið lánað. Börn-
in léku sér saman og dætur okkar
sóttu mikið í að fara og heimsækja
Böggu og Milla og komu alsælar
heim úr hverri heimsókn. Við keypt-
um okkur kaffikvörn saman og auð-
vitað var hún staðsett hjá Ingu og
Villa svo oft þurfti að skreppa og
mala kaffi. Þá var stoppað og drukk-
ið kaffi og spjallað í leiðinni því Inga
átti nefnilega alltaf svo mikið gott
með kaffinu. Jólaboðin voru alveg
sérstök, allt húsið skreytt og þessi
sérstaki hátíðarblær yfir öllu og svo
kom jólasveinninn, hann sló öll met,
Villi var nefnilega svo góður leikari.
Ekki er hægt annað en að minn-
ast allra þeirra yndislegu stunda
sem við fjölskyldan áttum saman í
sumarbústaðnum þeirra, Öngulsá.
Þar var oftar en ekki grillaður góm-
sætur silungur úr ánni, snæddur
með nýuppteknum kartöflum og í
eftirrétt fersk bláber úr landinu
þeirra. Við fráfall Ingu mágkonu
minnar finn ég betur en áður hvað
ég á henni mikið að þakka. Hún var
ætíð svo áhugasöm um velferð okk-
ar og dætra okkar. Við hjónin vor-
um svo heppin að fá að hafa þau
Ingu og Villa hjá okkur nokkra daga
nú fyrir stuttu og er sá tími dýr-
mætur í minningunni. Inga heim-
sótti fólkið sitt hér í Reykjavík á
meðan hún var hjá okkur, vildi fara
vel til höfð í alla staði og kom úr
hverri heimsókn glöð og þakklát.
Við Svavar höfum verið svo gæfu-
söm að eiga vináttu þeirra hjóna frá
fyrstu tíð og hefur aldrei borið
neinn skugga þar á. Fyrir þessa
tryggu vináttu viljum við nú þakka,
einnig fyrir alla vinsemd og hlýhug
til dætra okkar. Við sitjum nú eftir
með söknuð í hjarta.
Inga varð þeirrar gæfu aðnjót-
andi að halda sinni reisn til hinstu
stundar. Það urðu allir betri í návist
hennar.
Þitt hjarta geymdi gullið dýra og sanna,
að gleðja og hjálpa stærst þín unun var.
Því hlaust þú hylli Guðs og góðra manna,
og göfugt líf þitt fagran ávöxt bar.
(I.S.)
Blessuð sé minning Ingibjargar
Stefánsdóttur. Við biðjum algóðan
Guð að styrkja aðstandendur henn-
ar.
Kristbjörg og Svavar
Stefánsson.
Inga Stefáns er dáin. Ég er ekki
ennþá farin að trúa því. Hún, sem
alltaf var svo lifandi og full af áhuga
á öllu og öllum. Ég sé hana ljóslif-
andi fyrir mér þegar ég kvaddi hana
í dyrunum á Vindási fyrir stuttu síð-
an. Hlýja elskulega brosið og þakk-
lætisorðin fyrir heimsóknina. Það
verður erfitt að hugsa sér Vindás,
heimili þeirra Villa, án hennar.
Það var alltaf jafn notalegt að
heimsækja þau Ingu og Villa. Gest-
risni þeirra var einstök. Alltaf tóku
þau á móti mér og fjölskyldu minni
eins og þar væru stórhöfðingjar á
ferð. Andrúmsloftið í húsinu var líka
svo sérstakt. Friðsælt og fullt af
hlýju og „góðum anda“. Snyrti-
mennska og góð umgengni þeirra
beggja jafnt utan dyra sem innan
var einstök. Allir hlutir áttu sinn
stað og þar voru þeir og alltaf var
allt tandurhreint og fínt.
Inga frænka mín var harðdugleg
að hverju sem hún gekk. Ég held að
hún hafi ekki vitað hvað orðið leti
þýddi. Hún gekk að öllum verkum
sem gera þurfti með ánægju og
áhuga og þar naut hún aðstoðar
Villa, en hann var óþreytandi að
rétta henni hjálparhönd. Þau voru
samhent og samtaka í öllu sem gera
þurfti.
Þau Villi og Inga voru búin að
koma sér upp gróðurhúsi í garðinum
og þar undi Inga mörgum stundum
við að hlúa að blómunum. Hún hafði
mikla ánægju af því að fylgjast með
rósunum koma upp og springa út.
Oft færði hún mér og fleirum blóm
úr gróðurhúsinu. Inga var mjög art-
arleg. Alltaf mundi hún eftir afmæl-
um og kom þá í heimsókn með gjaf-
ir. Hún var einstaklega gjafmild og
hafði gaman af því að gefa og veita.
Það voru ófáir búnir að þiggja kaffi-
sopa og með því í Vindási, því alla tíð
hefur verið mikill gestagangur í
kringum þau hjón.
Ég minnist margra atvika frá því
í gamla daga þar sem Inga kemur
við sögu en einhvern veginn hafa tvö
fest í huga mínum þó að ekkert sé
merkilegt við þau. Kannski, ef mað-
ur veltir þeim fyrir sér, eru þau
samt lýsandi fyrir frænku mína.
Eitt sinn þegar Inga var stödd
heima á Mýrum þegar ég var lítil
vorum við systir mín sendar til að
sækja dráttarklárinn Bleik. Það átti
að nota hann við heyskapinn. Vel
gekk að ná hestinum og setja upp í
hann beislið en þegar halda átti af
stað stóð hann sem fastast og
hreyfði sig ekki hvað sem við tog-
uðum og lömdum. Pabbi sá til okkar
og kom á vörubílnum með Ingu og
skildi hana eftir okkur til hjálpar og
viti menn, þegar Inga kippti ákveðið
í tauminn gaf Bleikur sig umsvifa-
laust og rölti af stað og stoppaði
hvergi alla leið heim. Hitt atvikið í
sambandi við Ingu sem er mér
minnisstætt var þegar ég sá til Ingu
með hrífu. Það var verið að raka
saman heyi í garða og fór Inga út
með okkur að raka dreifina eftir
rakstrarvélina. Mér er minnisstætt
hve rösklega Inga rakaði og hvað
gekk undan henni. Hvorugt þessara
atvika eru að neinu leyti merkileg
en kannski eru þau bæði lýsandi fyr-
ir Ingu.
Elsku Villi, Bögga, Milli og fjöl-
skyldur ykkar. Við Sveinn, Magga
og Soffía samhryggjumst ykkur
innilega. Við erum þakklát fyrir að
hafa fengið að umgangast Ingu.
Guð geymi þig, elsku Inga mín.
Ólöf Zophaníasdóttir.
INGIBJÖRG
STEFÁNSDÓTTIR