Morgunblaðið - 22.06.2003, Page 10

Morgunblaðið - 22.06.2003, Page 10
10 SUNNUDAGUR 22. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ F ÁIR rithöfundar hafa notað sinn heimabæ, hús hans og íbúa, eins rækilega sem vettvang ódauðlegra skáldverka og Will- iam Heinesen. Það líður ábyggilega fleirum en mér eins og pílagrími á helgri jörð þegar gengið er um gamla bæjarhlutann í Þórshöfn í Færeyjum. Og þegar ég stend frammi fyrir húsinu „Í Tranti“ færi ég mig ósjálfrátt aðeins aftur, bæði minnist ég Fínu í Tranti sem hafði á valdi sínu að „forhexa“ fólk og eins fer hrollur um mann í sólskininu að hugsa um pestarholuna í garði Fínu, sem sagt var að líkum þeirra sem dóu í svartadauða hefði verið kastað í. Sumir sögðu jafnvel að í holum stönglum hvanna úr garðinum væru stundum dauðs manns fingur, en sú ágæta kona Fína lifði af að selja grænmeti meðan hún prýddi Þórs- höfn með tilvist sinni og dóttur sinn- ar „Rósadúkkunnar“, sem var með kinnar eins og rifsber og græn augu eins og stikilsber. Ég hef orð á þessum hrolli við kon- una við hlið mér, Jóhönnu Trausta- dóttur, sem er menntaður leiðsögu- maður sem býr í Þórshöfn og gengur þar undir nafninu Hanna Paulsen. „Ég skal taka úr þér hrollinn með kaffisopa, gakktu með mér heim til mín,“ segir Jóhanna hlæjandi. Svo góðu boði er ekki hægt að hafna, auk þess hef ég í bakþönkunum að heyra meira um hvernig skattstofustarfs- konunni Jóhönnu Traustadóttur var umbreytt í leiðsögumanninn Hönnu Paulsen. – Ég hef grun um að sú saga hefði skipað leiðsögumanninum mínum í raðir sögupersóna Heine- sen, hefði hann ekki að mestu verið hættur skriftum þegar þeir atburðir urðu. Jóhanna býr í fallegu húsi sem maður hennar Sjúrður Paulsen reisti, en hann er smiður að mennt og að auki með kennararéttindi, hann kenndi lengi smíðar við Kennarahá- skólann í Þórshöfn. „Hefði hann ekki verið kennari hefðum við kannski aldrei hist,“ seg- ir Jóhanna og býður mér til stofu, þar sem ýmsir fallegir munir setja svip á umhverfið. „Ég ákvað að taka tillit til þess að við vorum bæði „fólk með fortíð“ þegar við rugluðum saman reytum fyrir um tuttugu árum og skapa heimilið úr því sem við áttum hvort um sig, blanda því saman,“ segir hún. Þetta hefur tekist vel hjá henni. T.d. eru heimasmíðaðir lampar Sjúrðar og saumaborð sem hann spónlagði sjálfur í góðu samræmi við stólana og myndirnar sem komu frá Reykjavík. Myndin fyrir ofan sófann var þó að koma á heimaslóðir þegar hún komst á vegg í Færeyjum. „Hún hékk alltaf á vegg á heimili foreldra minna á Eiríksgötu 6 þegar ég var að alast upp, en hún er færeysk. Ömmu- bróðir minn, Jógvan Waagstein, mál- aði hana, hann bjó í Þórshöfn en var ættaður úr Klakksvík eins og móðir mín María Súsanna Petersen. For- eldrar mínir voru gefin saman í Klakksvík 1921 en þau kynntust þeg- ar þau voru bæði námsfólk í Kaup- mannahöfn, mamma fór fyrst á „hus- holdnings“-skóla en svo í kvöldnám í verslunarskóla en faðir minn, Trausti Ólafsson, var að lesa efna- verkfræði við Háskólann í Kaup- mannahöfn,“ segir Jóhanna. Meðan hún er að sækja Neskaffi í dönsku kaffibollana, sem merktir eru B&G, segir hún mér hlæjandi frá frænku sinni sem hélt að nafngiftin Neskaffi væri dregið af því að kaffið hefði fengist úti á Seltjarnarnesi. Ég nota tækifærið meðan Jóhanna er í eldhúsinu til að líta á manna- myndir á veggjum heimilisins. Mér verður starsýnt á mynd af fjölskyldu, ungum hjónum með þrjá drengi, öll á færeyskum þjóðbúningum. Hræðilegt slys „Þetta er Sjúrður og fyrri kona hans með syni sína,“ segir Jóhanna blátt áfram þegar hún sér hvaða mynd ég er að horfa á. Þegar myndin var tekin af fjöl- skyldunni voru sem betur fer öllum hulin hörmuleg örlög hinnar ungu konu og yngri drengjanna tveggja. Þegar fjölskyldan var að fara til jólagjafakaupa um miðjan áttunda áratuginn missti konan stjórn á bíln- um. „Líklega hefur hún fest fótinn, hún var á töfflum, og því ekki náð að bremsa í tíma, það varð hræðilegt slys, bíllinn rann fram af höfninni við Eystrivog og konan og drengir litlu drukknuðu en Sjúrði tókst að komast út úr bílnum og ná í hjálp. Það tókst að bjarga lífi elsta sonarins,“ segir Jóhanna. „Það er ótrúlegt að fólk skuli geta náð sér eftir svo hræðilegt áfall, Sjúrður er gæddur miklu sálarþreki, það kom vel fram þegar svo mjög reyndi á hann,“ heldur Jóhanna áfram. Sjúrður fór að kenna eftir áramót- in, en slysið varð í desember, og í ell- efu ár bjó hann ásamt syninum Klæmint Eli í húsinu, áður en Jó- hanna kom til sögunnar í lífi þeirra feðga. Til að svo mætti verða þurftu örlögin að spinna sinn vef af mikilli list. Þess má geta að Sjúrður sagði frá þessari lífsreynslu sinni í viðtali við Rás 2 í Færeyjum en viðtalsþættirn- ir við hann urðu alls fimm. „Þeir fjölluðu um heilmargt annað en fyrrgreinda lífsreynslu Sjúrðar, hann er maður fróður og sérlega vel máli farinn,“ segir Jóhanna. En hvernig skyldi aðdragandinn hafa verið að því að Jóhanna Traustadóttir, starfsmaður á Skatt- stofu Reykjavíkur, giftist til Fær- eyja og starfar nú sem leiðsögumað- ur þar? „Fyrir röð tilviljanna eða kannski voru það örlög, hvað veit ég?“ svarar hún. Ég var í saumaklúbbi með mér talsvert eldri konum í Reykjavík. Þær voru allar kennarar, ein þeirra var Unnur Kolbeinsdóttir sem kenndi með mér í Hlíðaskóla í nokk- ur ár. Saumaklúbburinn hittist jafn- aðarlega og borðaði saman kvöld- verð. Í einum klúbbnum fóru konurnar að tala um að fyrir dyrum stæði menningarlegt námskeiðs- ferðalag til Færeyja „Af hverju ferð þú ekki bara til Færeyja?“ sögðu þær við mig, en engin þeirra ætlaði þó í ferðina. „Hvað, – ég er löngu hætt að kenna og fresturinn til að sækja um útrunninn,“ svaraði ég. En ég hringdi samt og tókst að komast í hópinn sem fór. Færeyjar, frændþjóð okkar Íslendinga, eiga sér merka sögu, ekki síst hefur William Heinesen borið hróður þeirra víða. Jóhanna Traustadóttir er leiðsögumaður í Færeyj- um. Jóhanna segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá aðdraganda þess að hún giftist til Færeyja og hóf þar störf sem leiðsögumaður, í bland við margt fleira. Morgunblaðið/Guðrún Guðlaugsdóttir Morgunblaðið/RAX Tindhólmur við Vogey í Færeyjum, séður frá Bö. „Grúsk mitt vegna leiðsögumannsstarfsins hefur orðið til þess að færa mig nærri sögu Færeyja og bókmenntum þeirra. Ég hef mikið dálæti á bókum Heinesens og líka myndum hans,“ segir Jóhanna. Kraumandi sögur Hús Fínu, Í Tranti, sem William Heinesen gerði ódauðlega í skáldverki sínu. En Fína hafði á valdi sínu að „forhexa“ fólk. Jóhanna Traustadóttir og Sjúrður Paulsen í færeyskum þjóðbúningum, Jóhanna erfði sinn búning eftir færeyska vinkonu móður sinnar.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.