Morgunblaðið - 24.06.2003, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 24.06.2003, Blaðsíða 22
LISTIR 22 ÞRIÐJUDAGUR 24. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞEGAR Sigurbjörg Þrastar- dóttir sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Blálogaland (1999), vökn- uðu strax vonir um að hér væri á ferðinni ljóðskáld sem ætti eftir að auðga íslenska samtímaljóðlist. Ís- land sem uppspretta undrunar og væntumþykju var yrkisefni Sigur- bjargar og mörg ljóðanna miðluðu kankvísri náttúrusýn sem minnti á bestu skáld á borð við Steinunni Sigurðardóttur, Lindu Vilhjálms- dóttur og Gyrði Elíasson. Ljóðmál- ið var vandað og ljóst að hér var á ferðinni höfundur sem kunni að vinna úr áhrifum og hefð á sjálf- stæðan hátt. Vonirnar voru strax uppfylltar árið eftir með ljóðabókinni Hnatt- flug þar sem farið var á flug um veröld víða, auk þess sem föður- landið var kannað sem fyrr. Hnatt- flug er með glæsilegustu ljóðabók- um sem komið hafa út hérlendis á undanförnum árum – og á sú lýsing bæði við útlit og innihald bókarinn- ar sem hlaut viðurkenningu dóm- nefndar um Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar sem kennd eru við Tómas Guðmundsson árið 2000 og var valin besta ljóðabók ársins af afgreiðslufólki í bókabúðum sama ár. Sjálf Tómasarverðlaunin hlaut Sigurbjörg síðan fyrir sína fyrstu skáldsögu, Sólar sögu, í fyrrahaust og ekki lét hún þar við sitja heldur hlaut hún einnig verð- laun í einþáttungasamkeppni Leik- félags Akureyrar fyrir nokkrum mánuðum. Svona glæsilegt upphaf á höf- undarferli er óvenjulegt og gæti jafnvel verið erfitt fyrir ungan höf- und að standa undir væntingum sem óhjákvæmilega fylgja í kjöl- farið. En velgengnin virðist ekki vera þessu skáldi fjötur um fót; Sigurbjörg heldur sínu striki og bætir enn einu brotinu í ljóðaheim sinn með nýjasta verki sínu, ljóða- bókinni Túlípanafallhlífum sem kom út snemma vors. Það er ekki af tilviljun sem ég nota orðið „ljóðaheim“ því að Sigurbjörgu hefur tekist að skapa í verkum sín- um sérstakan heim sem lesendur hennar eru að verða kunnugir. Þessum heimi er miðlað í gegnum kvenkyns ljóðmælanda sem oftast er einn á ferð um Ísland og önnur lönd og lýsir skynjun sinni og hugsunum á hnitmiðaðan, hug- myndaríkan og oftast mjög skemmtilegan hátt. Þótt þessi kvenvera sé yfirleitt ein á ferð og jafnvel einmana er hún ekki kvart- sár og lítið fer fyrir þjáningunni sem margir telja forsendu skáld- skaparins. Hún veit „að það er kjaftæði“ „að vanræktir akrar vaxi best“, eins og segir í ljóðinu Yf- irgefa, og gerir grín að mýtunni um skáldið þjáða í ljóðinu Úlnliðirnir mínir sem hefst á þessum ljóðlín- um: Mér finnst eiginlega glatað að hafa aldrei þjáðst af þunglyndi ég meina svona alvöru svartnætti skúffandi að geta ekki rakið þjáningavetur í þakíbúðum [...] Að þessu sögðu er þó engu að síður staðreynd að Túlípanafall- hlífar er dekkri ljóðabók en hinar fyrri tvær – og kannski ekki svo fráleitt að tengja hana við skáld- sögu Sigurbjargar, Sólar sögu, þar sem fjallað er um ofbeldi og and- legt skipbrot. Einnig má benda á að titillinn er myndhverfing fyrir tár, eins og sjá má af ljóðinu Og tárin þín. Túlípanafallhlífar skiptist í fjóra kafla: Elsku Helíos [djöfuls róm- antíkin], Blómstrið eina, Veröld hlý & rjóð og Hauskúpa [falska gamla fjögurra gata]. Fyrirsagn- irnar gefa vísbendingu um þema eða andrúmsloft innan hvers kafla, þótt því fari fjarri að hvert eitt ljóð sé sniðið að ákveðnu þema og aðal- þemun teygja sig einnig út fyrir mörk hvers kafla. Í upphafi hvers kafla er að finna ljóð sem lesa má sem e.k. einkunnarorð fyrir það sem á eftir kemur og í lok hvers kafla er að finna eftirmála eða „Epilogus“. Í Elsku Helíos ef fjallað um ástina og ástarsorgina að töluverðri kaldhæðni og já- kvæðum húmor og þar hefur upp- hafsljóðið að geyma „kenningu hins beiska“ sem þykist vita að „hjartað sé í eðli sínu svikult“ enda er það „bústið og mjúkt efst en / endar í hvössum oddi“. Í næstu 14 ljóðum er síðan að finna fjölbreyti- legar hugleiðingar um eðli ástar- innar og kaflinn endar síðan á skemmtilegu og margræðu ljóði, Epilogus I, þar sem ljóðmælandi svífur til himins í loftbelg „hærra & hærra & helíumið / flæðir & allt er svo fallegt …“ Ljóðin í næsta kafla tengjast flest dauða, eins og fyrirsögnin gefur vísbendingu um. En dauðinn getur birst í ýmiss konar líki: ást- leysis, einmanaleika, stöðnunar eða ótta við að eldast, svo fátt eitt sé talið. Í fyrstu tveimur ljóðunum má sjá skemmtilega samsömun lík- ama og náttúru og í því síðara, Vaxa, myndast ljóðveran við að breiða yfir sig „torfurnar“ strax, áð- ur en hún verður úr- skurðuð fullorðin. Myndin sem hér er dregin upp af lifandi líkama sem samsam- ast jörðinni minnir dá- lítið á „Kartöfluprins- essu“ Steinunnar Sigurðardóttur úr samnefndri ljóðabók og má velta fyrir sér hvort hér sé á ferðinni „kvenlegt mótíf“ (fleiri ljóð þeirra beggja mætti nefna í þessu sam- bandi, svo og ljóð fleiri skáld- kvenna). Eins og þegar er komið fram er bygging Túlípanafallhlífa útpæld og vel skipulögð. Ákveðið skipulag er á röð ljóðanna innan hvers kafla og jafnvel má lesa ákveðna sögu út úr titlunum einum og sér. Þannig finnst mér góður húmor í röð ljóðanna í öðrum hluta þegar heiti þeirra eru lesin: … Átta sig, Yfir- gefa, Sakna, Pipra, Týnast og Eld- ast. Í ljóðinu Pipra er leikið með tvíræðni á óvæntan hátt, þar sem skortur á kynlífi er myndhverfður sem vík full af hafís sem fáir voga sér að sigla í gegnum. Ljóðið Eld- ast bregður upp eftirminnilegri mynd af líkamlegri hnignun, eft- irsjá og iðrun (og maður þakkar forsjóninni fyrir að skáldkonan er enn ung og því tæpast að yrkja út frá eigin reynslu). Veröld hlý & rjóð hefur að geyma ljóð um heiminn allan og einstaka afkima hans og basl mannanna. Í síðasta ljóðinu, Epilogus III, dregur höfundur fram á hnitmiðaðan hátt reynslu kynslóðar sinnar sem hefur þurft að óttast fátt annað en morrann: ég öfunda þá sem eiga endurminningar úr stríði þeir hafa forskot þegar kemur að þakklæti mér líður einkennilega á gamlársdag of margir óvæntir hvellir samt gæti ég áreiðanlega skrimt á niðursoðnum mat eins og hver annar ég er líka staðráðin í að halda dagbók eins og anna frank en þangað til sef ég út og tef og lakka kommóður en stundum langar mig mest að horfa á teiknimynd helst einhverja einfalda fyrir lítil börn síðan ég veit ekki hvenær kannski múmínálfana en ég var alltaf smeyk við morrann og veit að hann er hérna Í síðasta hluta bókarinnar, Hauskúpu, er haldið áfram að spinna þann þráð sem finna má í ljóðinu hér að ofan (og má reyndar rekja lengra aftur um fyrri bók- arhluta). Það er líkast því að ljóðmælandinn þrái ógnina, þján- inguna og lífsháskann og kannski má reyna að særa þetta upp: „Hvar er ástsýkin / hvar er hvítblæðið / hvar er glossasteinn- inn þinn / og blúnduei- lífðin“ má syngja með ljóðmælanda í upphafi Hauskúpu (undir lagi ræningjanna í Karde- mommubæ) og síðan hefst ferð í gegnum þennan lokahluta Túl- ípanafallhlífa sem kannski er sá besti af fjórum góðum. Í ljóðinu Þeir sem hata eldhússtörfin háir ljóðmæl- andi sitt einkastríð í eldhúsinu, í því næsta, Í þessu landi er engin herskylda, er fjallað um „fyrirséð- ar blóðsúthellingar“ kvenna á skemmtilegan hátt. Í ljóðinu Heim- sending kemur undarlegur maður hjólandi inn í stofu hjá ljóðmæl- anda, „eyrnastór og drýpur af hon- um / óeirðaolía“, og spyr: „Já, varst þú að panta byltingu?“ Næsta ljóð kallast Njósnir um nágranna, og það þarnæsta hefst á orðunum: „Helst vildi ég drepa / eins og Rósa á heiðinni / helst af öllu lítið lamb / sökkva / höndum í blóð og innyfli.“ Á eftir þessari morðfantasíu kem- ur annað ljóð sem heitir einfald- lega Morðsaga sem lýsir „falleg- asta dauðdaganum“, að láta „rammíslenskt laufblað / næfur- þunnt“ loka á sér kokinu! Kannski er skýringuna á hinum myrka leik ljóðmælandans í svo mörgum ljóða bókarinnar að finna í þessum einföldu ljóðlínum næst- síðasta ljóðsins: daglega falla turnar úti í heimi í fáeinum rjóðrum er allt krökkt af ást annars fátt nýtt Ógnin og ástin (og ótal afbrigði af hvoru tveggja) eru óumdeilan- lega hlutskipti mannsins og Sigur- björg Þrastardóttir reynir að ná utan um þetta hlutskipti á athygl- isverðan og oft á tíðum afar skemmtilegan hátt. Í ljóðum Sigurbjargar er krökkt af tilvísunum í íslenskar bók- menntir, ekki síst ljóðahefðina. Úr- vinnsla hennar er bæði sjálfstæð og frumleg og ég er þess fullviss að Túlípanafallhlífar mun ekki valda aðdáendum Sigurbjargar von- brigðum og vonandi kemur hún fleirum á bragðið. „Varst þú að panta byltingu?“ BÆKUR Ljóð Sigurbjörg Þrastardóttir, JPV útgáfa 2003, 73 bls. TÚLÍPANAFALLHLÍFAR Sigurbjörg Þrastardóttir Soffía Auður Birgisdóttir HIN árlega listahátíð Á seyði var formlega sett á laugardag í menn- ingarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði. Það eru Menning- arráð Austurlands, Menningar- borgarsjóður og Seyðisfjarð- arkaupstaður sem standa fjárhagslega að baki listahátíð- inni, en framkvæmdastjóri hennar er sem fyrr Aðalheiður Borgþórs- dóttir. Hátíðin var sett með ávörpum Tryggva Harðarsonar bæjarstjóra og Arnbjargar Sveinsdóttur og því næst var opnuð sýning á verk- um þýska myndlistarmannsins Lothars Baumgartens. Nefnist hún Fogelvlug. Lothar hefur m.a. sýnt í Guggenheim-safninu í New York og tekið þátt í Dokumenta- sýningunni í Kassel og Fen- eyjatvíæringnum. Hann hefur ver- ið framarlega í myndlistarumræð- unni síðustu 30 árin eða svo, en þetta er fyrsta sýning hans á Ís- landi. Hann er þekktastur fyrir innsetningar sínar og skúlptúra og vinnur mikið með mann- fræðilegar athuganir sínar á frumbyggjum Ameríku. Baumgarten er fæddur árið 1944 í Rheinsberg, Mark Brand- enburg. Hann nam við myndlist- arakademíuna í Karlsruhe árið 1968 og síðar í Düsseldorf á ár- unum 1969 til 1971, en þar naut hann leiðsagnar myndlistarmanns- ins Josephs Beuys. Hann býr nú og starfar í Düsseldorf, New York og París. Sýning Baumgartens stendur fram til 17. ágúst nk. og er opin daglega milli kl. 11 og 24. Á seyði stendur í allt sumar og er dagskráin fjölbreytt að vanda. Má þar nefna tónleika Bláu kirkj- unnar öll miðvikudagskvöld, menningardag barna 21. júní, leikhús, svokallað ljóðapartí, kvik- myndasýningar og norska menn- ingardaga. Þá er listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, frá 16. til 20. júlí, en sú hátíð hefur skipað fastan sess í menningarlífi fjórðungsins undanfarin ár. Vefsíða Á seyði listahátíðar er www.sfk.is/aseydi.htm. Lothar Baumgarten sýnir á Seyðisfirði Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Frá opnun listahátíðarinnar Á seyði, sem hófst á laugardag á Seyðisfirði. Meðal viðstaddra voru Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austur- lands, og Arnbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Egilsstöðum. Morgunblaðið. ÚT eru komnar fjórar bækur í kilju: Karlar hlusta aldrei og konur geta ekki bakkað í stæði er eftir hjónin Allan og Barbara Pease. For- mála skrifar Bjarni Haukur Þórsson en Gísli Rúnar Jónsson þýddi bók- ina og staðfærði. Leitast er við að útskýra hvernig á því stendur að karlar og konur eru svona ólík. Þau byggja á nýj- ustu rannsóknum á starfsemi heil- ans, eigin athugunum og viðtölum við fólk um allan heim. Bókin hefur komið út víða um heim, selst í milljónum eintaka og verið vikum saman á met- sölulistum. Útgefandi er Almenna bóka- félagið. Bókin er 314 bls., prentuð í Nørhaven í Danmörku. Björg Vil- hjálmsdóttir hannaði bókarkápu. Verð: 1.599 kr. Barist fyrir frelsinu er eftir Björn Inga Hrafnsson. Í bókinni, sem kom út fyrir síðustu jól, segja tvær íslenskar mæðgur sögu sína, þær Guðríður Arna Ingólfsdóttir og Heba Shahin. Guðríður hóf ung sambúð með Egypta, sér eldri manni, sem virtist hafa samlagast lífinu á Vest- urlöndum vel. Í fyrstu lék allt í lyndi en með tímanum og einkum eftir að þau eignuðust börn kom annað andlit eiginmannsins í ljós – andlit heittrúarmannsins. Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bók- in er 286 bls., prentuð í Danmörku. Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu. Verð: 1.599 kr. Þriðji tvíburinn eftir Ken Follett. Ung vísindakona gerir ótrúlega upp- götvun við rannsókn á árásargirni út frá erfðum. Hún finnur upplýs- ingar um tvo unga karlmenn sem virðast vera eineggja tvíburar en eiga þó ekki sömu móður og fædd- ust hvor á sínum stað. Sama dag er hún tekin úr þessu verkefni og skyndilega hefur hún ríka ástæðu til að óttast um líf sitt. Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bók- in er 437 bls., prentuð í Danmörku. Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu. Verð: 1.599 kr. Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson segir frá fjórum vinum og viðburðaríku sumri í lífi þeirra. Regla rauða drekans er stofnuð og þeir Róland dreki, Andrés örn, Bald- ur hvíti og Benjamín dúfa hafa nóg fyrir stafni í baráttu sinni gegn ranglæti. Lífið virðist vera óslitið ævintýri, en það koma brestir í vin- áttuna, ævintýrið breytir um svip og kaldur raunveruleikinn ryðst inn í líf félaganna. Friðrik Erlingsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Benjamín dúfu, og margvíslegar viðurkenn- ingar aðrar. Bókin hefur verið þýdd og gefin út í fimm öðrum löndum. Gerð var kvikmynd eftir sögunni sem sýnd hefur verið víða um lönd og hlotið mörg verðlaun. Útgefandi er Iðunn. Bókin er 137 bls., prentuð í Danmörku. Hilmar Sigurðsson hannaði kápu. Verð: 1.599 kr. Kiljur Íslensk speki hefur að geyma eitt þúsund til- vitnanir í sam- antekt Jónasar Ragnarssonar. Einnig er vitnað í fjölda Íslendinga, lífs og liðna. Höfundur hefur víða leitað fanga, svo sem í bók- um, blöðum, tímaritum og á verald- arvefnum. Þetta eru hnitmiðaðar til- vitnanir, flestar frá síðustu áratugum. Meðal efnisflokka eru fegurð, frelsi, gæfa, lýðræði, tími, vinátta og von, svo fátt eitt sé nefnt. Jónas Ragnarsson er kunnur fyrir bók sína Dagar Íslands, sem kom fyrst út fyrir tæpum áratug. Auk þess er hann höfundur bókanna Ís- lendingar dagsins og Íslensk hugs- un. Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 207 bls., prentuð í Sví- þjóð. Kristín Ragna Gunnarsdóttir hannaði bókarkápu. Verð: 2.990 kr. Handbók

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.