Morgunblaðið - 29.07.2003, Qupperneq 20
AUSTURLAND
20 ÞRIÐJUDAGUR 29. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
FÓLKSFJÖLGUN á Austurlandi
hefur farið fram úr væntingum og
áætlunum sveitarstjórnarmanna
eystra. Þannig fjölgaði á tímabilinu
apríl til júní á þessu ári um 63 í fjórð-
ungnum, ef miðað er við aðflutta um-
fram brottflutta. Mest varð íbúafjölg-
un á Austur-Héraði, eða 43, og er
sveitarfélagið í fimmta sæti á lands-
vísu miðað við þessar forsendur.
„Fólksfjölgunin sem hefur átt sér
stað á þessu ári kemur skemmtilega á
óvart,“ segir Eiríkur Bj. Björgvins-
son, bæjarstjóri Austur-Héraðs.
„Þegar við unnum okkar markmið í
sex ára áætlun sveitarfélagsins,
2003–2009, vorum við með fjölgunar-
tölur upp á 34 einstaklinga á árinu.
Nú er fjölgunin komin í 43 og við
þurfum því strax að endurskoða
markmið okkar. Auðvitað höfðum við
væntingar til þess að hér yrði hröð
íbúaþróun og höfum unnið markvisst
að því að vera með íbúðaframboð og
ýmis verkefni til að hér gæti átt sér
stað fjölgun. En þetta kemur okkur
þó engu að síður í opna skjöldu.“
Í sex ára áætlun sveitarfélagsins er
gert ráð fyrir að íbúafjöldinn verði
3.200 manns árið 2009 og í fram-
kvæmdaáætlun framreiknað að íbúa-
talan nemi 3.700 manns árið 2017. Þá
er reiknað með 400 nýjum íbúðum til
að mæta þessari fjölgun.
Í þéttbýliskjörnum á Hallormsstað
og Eiðum er einnig gert ráð fyrir
fjölgun á komandi árum og er tilbúið
deiliskipulag fyrir þá. Sala á jörðum
hefur jafnframt farið vaxandi í sveit-
arfélaginu, en framboð er ekki mikið
og þær seljast því háu verði.
Engar lóðir lausar
á Egilsstöðum
„Í dag eigum við engar lóðir heldur
Eiríkur áfram. „Það er allt farið. Við
vorum þó það forsjál að skipuleggja
nýtt íbúðahverfi í bænum og fórum
líka í þéttingu byggðar. Það er að
segja að við bjuggum til lóðir inni í
gömlu hverfunum og út úr þessu
samanlagt fáum við í kringum 70 til
80 íbúðir. Næst verður farið í fyrri
hluta Selbrekku ofan við bæinn og
þær íbúðir koma út á markaðinn í
ágústmánuði og eru í kringum 50
talsins. Síðan er framhaldið deili-
skipulag efra svæðis Selbrekku sem á
að gefa okkur um 50 til 60 íbúðir. Allt
svæðið á að gefa á bilinu 110 til130
íbúðir. Þá eru Íslenskir aðalverktak-
ar búnir að óska eftir svokölluðu
Votahvammslandi á Egilsstöðum,
sem er 9,30 ha. Það er nýtt að verk-
takar komi og vinni með okkur að
deiliskipulagi íbúðarhverfa, en við er-
um að gera slíkt með Trésmiðju
Sveins Heiðars á Akureyri, sem ætl-
ar að byggja eina götu í Selbrekku og
ÍAV. Þær hugmyndir sem eru í gangi
gefa á bilinu 100 til 140 íbúðir. Það er
veruleg þétting á byggðinni.
Það sem bíður okkar næst er að
fara í svæðið suður af þéttbýlinu og
hefur verið sett fram bókun um að
fara í fyrstu 18 ha á því svæði og
byrja að deiliskipuleggja það alveg á
næstunni.“
Áberandi er á Egilsstöðum skortur
á húsnæði fyrir fyrirtæki og iðnað.
Eiríkur segir vera í pípunum fram-
lengingu á iðnaðarhverfi við Lyngás
og Miðás til suðurs og eigi eftir að
muna verulega um það.
„Það er nokkuð erfitt að segja til
um hver þörf verður í uppbyggingu
sveitarfélagsins. Skipulagið þarf að
vera mjög sveigjanlegt og íbúarnir
sömuleiðis. Við viljum fá þá til að
vinna með okkur og sýna ákveðna
sanngirni. Það er svo dýrt fyrir sveit-
arfélagið og þar með íbúana að
byggja þetta allt saman og láta svo
jafnvel standa autt ef spár ganga ekki
eftir. Við verðum að leyfa sveiflunum
að koma á okkur upp að vissu marki
og spila svolítið eftir því.
Samkeppni um nýtt
miðbæjarskipulag
Lengi hefur verið rætt um að taka
þurfi miðbæ Egilsstaða til gagngerr-
ar endurskoðunar. Miðbærinn liggur
alls staðar og hvergi og mjög fjölfarin
aðalgata bæjarins, Fagradalsbraut,
klýfur hann eftir endilöngu. Í sumar
var haldinn opinn borgarafundur um
miðbæjarskipulag og kom fram vilji
fólks til verulegra umbreytinga.
Stofnuð voru miðbæjarsamtök þar
sem eru fulltrúar þeirra húsbygginga
sem eru á miðbæjarsvæðinu í dag,
fulltrúi frá Vegagerð og Þróunar-
stofu Austurlands og kynningar-
fulltrúi sveitarfélagsins.
„Það eru allir velkomnir í þennan
hóp sem áhuga hafa,“ segir Eiríkur.
„Við höfum óskað eftir að fá punkta
frá þessum aðilum um hvaða kröfur
þeir setja um þetta svæði. Síðan veg-
um við það og metum og búum til úr
því góða súpu sem heitir forsögn að
miðbæjarskipulagi og ætlum að fara
með það í verðlaunasamkeppni. Við
erum í sambandi við Arkitektafélag
Íslands því það eru ákveðnar reglur
sem þarf að fara eftir í slíkri sam-
keppni og málið verður þannig í föst-
um skorðum.
Ágiskun okkar er að við getum
klárað allt ferlið fyrir áramót og farið
þá að vinna deiliskipulagsvinnuna og
hafið jafnvel framkvæmdir næsta
vor. Þetta kostar umtalsverða fjár-
muni, en við teljum að þetta eigi að
skila okkur betri árangri og ekki síð-
ur snarpari umræðu, þar sem fleiri
geta verið með í að skapa nýjan
miðbæ.“
Austfirðingar þurfa stuðning
ríkisvalds og almennings
Um hina hröðu uppbyggingu í
sveitarfélaginu segir Eiríkur að hún
komi til með að kosta mikla fjármuni.
„Þó að menn sjái útsvarstekjur í
ákveðnum hillingum þá kostar hver
íbúi líka peninga í útgjöldum,“ segir
hann. „Það sem er að gerast hér fyrir
austan er afskaplega jákvætt fyrir
samfélagið. Ábyrgðin er hins vegar
ekki bara okkar sem búum hérna. Við
þurfum stuðning ríkisvaldsins og
allra annarra íbúa landsins til þess að
þetta megi allt saman ganga vel upp.
Við stöndum vel undir þessari
ábyrgð, en við þurfum að fá ákveðinn
skilning á því að bæði þetta sveitarfé-
lag og eins Fjarðabyggð þurfa að
skuldsetja sig verulega til að geta
staðið undir þeim væntingum sem
eru gerðar til þeirra. Við verðum því
að halda afar vel á spilunum. Við vit-
um jú að þenslan í landinu stafar af
því að það eru framkvæmdir á Aust-
urlandi. En þá mega menn heldur
ekki beita því gegn okkur. Það er tal-
að um að hið opinbera þurfi að draga
úr útgjöldum, þ.e. úr framkvæmdum.
Við hér fyrir austan getum ekki gert
það. Við verðum að framkvæma til að
geta staðið undir því sem á sér stað
hérna. Og ég vona að menn stilli mál-
um ekki þannig upp að af því að við
fengum þetta verkefni, eigi menn að
fá eitthvað annars staðar á sama
tíma. Vonandi fá aðrir landsmenn
sína þenslu líka, eins og við fáum hér,
þótt síðar verði. En það geta ekki all-
ir gert allt á sama tíma.“
Austur-Hérað og Fjarðabyggð
eiga í samkeppni um að draga að sér
fyrirtæki og íbúa og segir Eiríkur þá
samkeppni með jákvæðum formerkj-
um, en ekki felast í baktjaldamakki
og hrepparíg. „Bæjarstjórnin hér
hefur lagt línur í því að lækka skatta
á fyrirtæki í 1% eins og Fjarðabyggð
hyggst gera,“ segir hann. „Við þurf-
um að gera heilmargt til að þessi
fólksfjölgun og atvinnutækifæri verði
að veruleika og íbúar sáttir og
ánægðir með það sem þeir fá. Það
kostar vinnu og peninga. Það skiptir
miklu máli að koma því á framfæri við
almenning. Það er ekkert gefið í
svona bransa. Þetta er gífurlega
vandmeðfarið og við reynum að
vanda okkur eins og við getum, en
það þarf afskaplega lítið til að mis-
stíga sig í þessum hraða uppgangi,“
sagði Eiríkur bæjarstjóri að endingu.
Íbúafjölgun örari á Austur-Héraði en reiknað hafði verið með
„Fólksfjölgunin kemur
skemmtilega á óvart“
Austur-Hérað
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Það er alls staðar verið að byggja! Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri
Austur-Héraðs, við nýbyggingar í Litluskógum og Kelduskógum.Aðalskipulag til ársins 2017.
Sameining
norðanverðs
Austurlands
í salti
NÚ er unnið að sameiningu Austur-
Héraðs, Norður-Héraðs, Fellahrepps
og Fljótsdalshrepps. Standa vonir til
að jafnvel verði hægt að kjósa um
slíka sameiningu á þessu ári.
Aðilar frá sveitarfélögunum hafa
verið í sameiningarviðræðum undan-
farna mánuði og hafa Borgfirðingar
fylgst með álengdar, þó þeir taki ekki
þátt í viðræðunum að svo stöddu.
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hefur
jafnframt verið sent erindi um fjár-
veitingu vegna væntanlegrar samein-
ingar og vinnu við hana og er reiknað
með að jákvætt svar fáist frá sjóðn-
um. Í kjölfar þess verður væntanlega
ráðinn starfsmaður til verkefnisins og
þá sett fram formleg áætlun um sam-
eininguna.
Mismunandi mun vera hversu
sveitarstjórnir Austur-Héraðs, Norð-
ur-Héraðs, Fellahrepps og Fljóts-
dalshéraðs vilja ganga hratt fram til
verks og gæti hugsanlega komið upp
klofningur þar sem Austur-Hérað og
Fellamenn myndu sameinast fyrr og
hin tvö ganga síðar inn í ferlið. Þetta
skýrist þegar menn koma saman í
haust til frekari bollalegginga.
Á Austur-Héraði ríkir vilji til þess
að farið verði í kosningar innan þessa
árs en jafnframt er lögð áhersla á að
vinna við sameininguna verði vönduð
mjög.
Mikil vinna
Mikið var rætt um sameiningu á
norðursvæði Austurlands á síðasta
ári og hefur mikil vinna farið fram
undir þeim formerkjum. Einnig hafa
komið fram hugmyndir um samein-
ingu Austur-Héraðs við firðina sunn-
anvert í fjórðungnum.
Sveitarfélög á norðursvæðinu
vinna saman að margvíslegum verk-
efnum samfélagsþjónustunnar en í
sveitarstjórn Austur-Héraðs er talið
að styrkja þurfi samgönguþætti
fjórðungsins verulega, t.d. með jarð-
göngum undir Hellisheiði og bættum
vegasamgöngum, áður en grundvöll-
ur verður fyrir stærra sameiningar-
ferli. Bæjarstjórn Austur-Héraðs
hefur m.a. lýst því yfir að hún telji
skynsamlegast að byrja smátt og
horfa þegar tímar líða til sameiningar
stærri svæða.
Austur-Hérað
Grunnskóla-
nemum
fjölgar ört
NEMENDUM sem hefja nám í
Grunnskólanum á Egilsstöðum í
haust hefur fjölgað um 25 á síðustu
vikum. Grunnskólinn er þegar fullset-
inn og verður bætt við þremur laus-
um kennslustofum til að mæta þess-
ari fjölgun. Þá verður farið í
framkvæmdir við nýjan leikskóla á
Egilsstöðum í haust.
Færanlegar kennslustofur verða
settar við Grunnskólann á Egilsstöð-
um, þar sem sveitarfélagið getur ekki
brugðist nægjanlega hratt við mjög
vaxandi eftirspurn eftir skólaplássi.
Þó stendur til að byggja við skólann
og einnig mun Tónlistarskóli Austur-
Héraðs, sem nú er í þröngu húsnæði í
íbúðarhverfi, fá nýja aðstöðu í grunn-
skólanum. Þá er Austur-Hérað í sam-
vinnu við Fellahrepp um samnýtingu
grunnskóla og leikskóla.
Framkvæmdir við nýjan leikskóla
á Egilsstöðum hefjast í haust og verð-
ur hann byggður í áföngum. Fyrst
verða byggðar tvær deildir og hinar
síðari eftir þörfum.
Þegar fram í sækir stendur til að
stækka þéttbýlið á Egilsstöðum til
suðurs og mun þá jafnframt grunn-
skóli og leikskóli verða byggðir í því
hverfi.
Austur-Hérað
♦ ♦ ♦
FJÖLFARIN umferðaræð sker
miðbæ Egilsstaða í tvennt. Þar fara
daglega um fleiri tugir flutningabíla
með tengivagna, tankbílar, vörubílar
og aðrir þungaflutningar, bifreiðar
með tjaldvagna og fellihýsi á eftir
sér, auk almennrar umferðar fólks-
bíla.
Þungaflutningar hafa aukist mjög
mikið síðan framkvæmdir við Kára-
hnjúkavirkjun hófust og eiga eftir
að vaxa hraðbyri með meiri fram-
kvæmdaþunga bæði við virkjun og
álver. Þá er ferðamannatíminn nú í
algleymingi og talið að á Egilsstöð-
um jafngildi ferðamannastraumur-
inn um 1.000 manna viðvarandi
byggð yfir hásumarið. Segja má að
alger glundroði ríki í miðbæ Egils-
staða þar sem farartækjum af öllum
tegundum ægir saman og bílaplön,
bílastæði og samgönguæðar er allt
sprungið með hvelli af álaginu, auk
þess sem gatnamót eru óhönduglega
staðsett í miðbænum.
Skipuð hefur verið umferðarnefnd
hjá sveitarfélaginu sem hefur það
hlutverk að koma með tillögur að
úrbótum. Hugmyndin er að leiða
umferðina með einhverjum hætti á
kafla fram hjá miðbænum og gera
einhverja bráðabirgðaaðstöðu fyrir
þungaflutningsumferðina, sem ekki
aðeins fer í gegnum bæinn, heldur
staðnæmist líka til að fá ýmsa þjón-
ustu í miðbænum. „Við erum í mjög
sérstakri stöðu til ársins 2007 vegna
framkvæmdanna í kringum okkur,“
segir Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæj-
arstjóri Austur-Héraðs. „Við getum
þó ekki byggt framtíðarskipulagið í
miðbænum á því, heldur verðum við
að horfa til næstu fjörutíu ára eða
lengra. Ég held að við höfum ekki
gert okkur almennilega grein fyrir
hvað myndi gerast hér umferðar-
lega í kjölfar framkvæmdanna. Auð-
vitað vissu allir að hér yrði mikil
þungaumferð í gegnum bæinn, en
kannski gleymdum við að reikna
með að hún staðnæmdist hjá okkur
líka.“
Umferðin á suðu-
punkti í miðbænum
Egilsstaðir