Morgunblaðið - 02.08.2003, Qupperneq 36
MINNINGAR
36 LAUGARDAGUR 2. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Kynni okkar Ástráðs
hófust haustið 1963
þegar hann tók við
starfi skólastjóra Rétt-
arholtsskólans. Við
vorum samstarfsmenn
á þeim vettvangi þar til
hann lét af skólastjórn
vorið 1981, eða í tæp tuttugu ár. Síð-
ustu árin var ég yfirkennari og sem
slíkur hans nánasti aðstoðarmaður
við stjórn skólans. Þarf ekki að hafa
um það mörg orð en ég tel mig hepp-
inn að hafa haft slíkan yfirmann.
Ástráður var mjög nákvæmur í
sínu starfi og vildi hafa allt í röð og
reglu, án þess þó að vera smámuna-
samur. Með slíkum mönnum er allt-
af gott að vinna. Á stjórnartíma Ást-
ráðs náði nemendafjöldi Réttar-
holtsskóla hámarki og var það engan
veginn létt verk að halda svo um
stjórnartaumana að allt gengi
snurðulaust fyrir sig. Af sjálfu leiðir
að oft komu upp vandamál sem
mikla stjórnkænsku þurfti til að
leysa. Þegar mikið er í húfi, að allt
gangi sem best fyrir sig, þá þarf að
sýna festu og halda sig við lög og
reglur. Hagur fjöldans verður að
vera leiðarljósið. En ég kynntist því
vel að Ástráður var mikill mannvin-
ur og leitaðist ávallt við að leysa
allra vanda, og þótti mér oft mikið til
um langlundargeð hans gagnvart
böldnum nemendum. Hann var hlýr
maður og tók það ákaflega nærri sér
ef hann í starfi sínu þurfti að beita
hörku.
Í sögu Réttarholtsskóla verður
þáttur Ástráðs fyrirferðarmikill.
Hann stjórnaði skólanum á mótun-
artíma hans, en Réttarholtsskólinn
var rétt búinn að slíta barnsskónum
þegar Ástráður tók þar við stjórn.
Eins og oft vill verða þá urðu sam-
skipti okkar Ástráðs minni eftir að
hann lét af störfum við skólann. En
ég á eingöngu góðar minningar frá
þeim árum sem við störfuðum sam-
an og ég lærði margt af honum sem
hefur gagnast mér vel í lífinu.
Ingibjörgu og öðrum að-
standendum votta ég samúð mína.
Gunnar Ásgeirsson,
fyrrverandi aðstoðarskólastjóri
Réttarholtsskóla.
Kveðja frá KFUM og KFUK
Í dag verður lagður til hinstu
hvílu Ástráður Jón Sigursteindórs-
son, skólastjóri og einn af forystu-
mönnum KFUM og KFUK í ára-
tugi. Ástráður kynntist ungur séra
Friðriki Friðrikssyni og starfi
KFUM. Lífsstarf hans var með
ungu fólki. Á námsárum í mennta-
skóla gerðist hann leiðtogi í drengja-
starfi félagsins og veitti síðar
Sunnudagaskóla KFUM forstöðu í
þrjá áratugi. Á níræðisaldri lagði
hann enn drengjastarfinu lið sem
sjálfboðaliði við hlið Þorvalds Sig-
urðssonar, tengdasonar síns.
Á árunum 1942–1946 starfaði Ást-
ráður sem framkvæmdastjóri
KFUM við hlið séra Magnúsar Run-
ólfssonar í fjarveru séra Friðriks.
Seinna sat Ástráður í stjórn KFUM
í 18 ár og í aldarfjórðung kenndi
hann við Kvöldskóla KFUM. Hann
gegndi einnig formennsku í stjórn
Skógarmanna KFUM í áratug og
sat þar í stjórn í 15 ár.
Ástráður var einn af frumkvöðlum
Kristilegs stúdentafélags og Bóka-
útgáfunnar Lilju og sat um árabil í
ritstjórn Bjarma. Hann þýddi
nokkrar bækur sem Lilja gaf út og
ritstýrði barnablaðinu Ljósberanum
í tæpan áratug. Forysta hans og
frumkvæði varð til þess að hann var
ÁSTRÁÐUR
JÓN SIGUR-
STEINDÓRSSON
✝ Ástráður JónSigursteindórs-
son fæddist í Reykja-
vík 10. júní 1915.
Hann lést 20. júlí síð-
astliðinn og var útför
hans gerð frá Selja-
kirkju 31. júlí.
árið 1978 valinn fyrsti
formaður Landssam-
bands KFUM og
KFUK á Íslandi og þar
starfaði hann einnig
sem framkvæmdastjóri
um tíma.
Alla starfsævi sína
var Ástráður mikilvirk-
ur ræðumaður á fund-
um, námskeiðum og
samkomum KFUM og
KFUK. Það má með
sanni segja að Ástráð-
ur hafi verið gjafmildur
á vinnu sína fyrir félög-
in. Hann vissi að menn
koma engu góðu til leiðar nema þeir
séu sjálfir virkir þátttakendur.
Trygglyndi hans var öðrum til fyr-
irmyndar og 17. júní 1995 var hann
kjörinn heiðursfélagi í KFUM.
Hann var ljúflingur í samskiptum en
stóð fastur fyrir þegar það átti við.
Hann naut mikillar virðingar fyrir
fagmennsku sína og heiðarleika sem
varð honum drjúgt veganesti til
vegsauka og velfarnaðar á löngum
og farsælum starfsferli. Trúin og
bænin var það mesta hnoss sem hon-
um hlotnaðist um ævina.
Góður vinur er kvaddur með
þakklæti og söknuði.
Guð blessi eftirlifandi eiginkonu
og ástvini alla.
Kveðja úr Vatnaskógi
Ástráður Sigursteindórsson var
formaður Skógarmanna KFUM frá
1936–1947 og varaformaður 1947–
1951. Í Vatnaskógi var hann drif-
fjöður og fyrirliði og Skógarmenn
eiga honum mikið að þakka. Ástráð-
ur var sæmdur gullmerki Skógar-
manna við vígslu Birkiskála hinn 2.
júlí 1999.
Hún er ógleymanleg, ljósmyndin
sem tekin var af honum hinn 5.
ágúst 1939, þegar hann tók fyrstu
skóflustunguna að Gamla skálanum.
Aðeins fjórum árum síðar, í miðri
seinni heimsstyrjöldinni þegar
skortur á byggingarefni var mikill,
var þetta stóra hús tekið í notkun.
Þvílíkt afrek! Gamli skálinn var ekki
bara þak yfir höfuð þeirra sem í
Vatnaskóg komu; húsið mótaði,
þroskaði og efldi starfið á staðnum.
Það gerði Ástráður einnig.
Skógarmenn minnast fallins for-
ingja með miklu þakklæti og biðja
fjölskyldu hans Guðs blessunar.
F.h. Skógarmanna KFUM,
Ólafur Sverrisson.
Við Ástráður bjuggum í sama húsi
og deildum sama garðinum í yfir 20
ár. Og þótt okkur kæmi ekki alltaf
saman um nýtingu garðsins þá bar
ég ómælda virðingu fyrir Ástráði og
þótti vænt um hann. Hann var eins
og náinn föðurbróðir enda einn af
nánustu samverkamönnum föður
míns og vinum.
Sem barn vildi ég gera garðinn
okkar við Sigtún 29 að fótboltavelli
eða leikvelli en hann vildi gera hann
að skrúðgarði. Ástráður hafði betur
og sannarlega var garðurinn flottur.
Fyrir sex árum keyptum við hjón-
in íbúðina góðu í Sigtúni 29 sem Ást-
ráður og Ingibjörg bjuggu í í yfir 40
ár. Þar er góður andi, þar er gott að
búa.
Margar minningar úr æsku minni
tengjast þeim Ástráði og Imbu, svo
samofin voru þau uppvexti mínum
og tilveru. Kynnin og minningarnar
hafa þroskað mig og kennt mér
margt.
Eitt af því sem upp úr stendur eru
ferðir mínar með honum í sunnu-
dagaskóla KFUM, en Ástráður
veitti þeim merka skóla forstöðu í
áraraðir. Það er algjörlega ógleym-
anlegt hvernig hann lauk upp fyrir
mér ritningunum. Einlægar og lif-
andi frásagnir af sögum Biblíunnar,
pínu og dauða frelsarans Jesú Krists
að ógleymdri hrífandi frásögn hans
af sjálfri upprisunni. Þessar frá-
sagnir og myndir eru nokkuð sem
hafði djúp áhrif á barnssálina. Ómet-
anlega blessunarrík áhrif sem síðan
hafa verið ræktuð. Nokkuð sem
aldrei mun gleymast og ásamt öðru
jafnvel skipti sköpum í lífi mínu. Þar
fór maður með djúpa þekkingu á
guðfræði en jafnframt einlæga trú á
frelsarann Jesú Krist.
Þá mun ég aldrei gleyma jákvæð-
um viðbrögðum Ástráðs og Imbu
þegar ég var óvænt kallaður til að
gegna starfi framkvæmdastjóra
KFUM og KFUK árinu áður en
halda átti upp á hundrað ára afmæli
hinna sögufrægu og dýrmætu fé-
laga, sem hafa verið eins og andlegt
heimili og varnarþing svo ótal
margra í yfir 100 ár. Það var ómet-
anlegt að finna fyrir stuðningi Ást-
ráðs, hvatningu og uppörvun á þeim
tímamótum, manns sem ég virti og
hafði haft mikil og mótandi áhrif á
mig í æsku, öldungs sem enn var
leiðtogi í æskulýðsstarfinu þá 83 ára.
Það var ómetanlegt.
Hann Ástráður hafði háleitar hug-
sjónir. Hann ræktaði garðinn sinn,
sem sést kannski best í samhentri
fjölskyldu hans. Þann dýrmæta garð
vökvaði hann með væntumþykju og
fyrirbænum. Það er nokkuð sem
fjölskyldan þakkar nú og mun búa
að um ókomna tíma.
Mér finnst ég vera einn af ykkur.
Með einlægri vinarkveðju úr Sig-
túni 29.
Sigurbjörn Þorkelsson.
Góður vinur til margra áratuga,
Ástráður Jón Sigursteindórsson
cand. theol., lést hinn 20. júlí sl.
Hann hafði verið sjúkur um langan
tíma. Nokkrum dögum áður en hann
kvaddi þetta jarðlíf sat ég hjá hon-
um og við töluðum saman um andleg
málefni. Við höfðum okkar bæna-
stund, ég tók í hönd hans og kvaddi
hann. Þá sagði hann við mig: „Helgi
minn, ég hef fengið að lifa lengi, ég
er tilbúinn að kveðja þetta jarðlíf
þegar Drottinn Guð vill.“ Ég hugs-
aði um þessi orð hans á leiðinni
heim.
Það var ávallt ánægjulegt að
heimsækja þau hjón, Ástráð og Ingi-
björgu, þegar kristniboðshópurinn
Vorperlan sem starfað hefur um 50
ára skeið hélt fundi á heimili þeirra,
tíminn leið hratt á slíkum stundum.
Vorperlan er stuðnings- og fyrir-
bænahópur fyrir kristniboðsstarfinu
í Afríku. Þegar heim var haldið kom
í huga okkar þakklæti til Guðs að
eiga svo heilsteypta og góða vini til
margra ára.
Ástráður tók þátt í hinu mikla
starfi KFUM. Hann var formaður
Skógarmanna um áratuga skeið.
Þegar elsti skálinn í Vatnaskógi var
byggður komu margir Skógarmenn
á öllum aldri sem sjálfboðaliðar til
vinnu. Hver frítími sem gafst var
notaður til þess að taka þátt í þessu
uppbyggingarstarfi. Það ríkti gleði
og hamingja hjá öllum sem að starf-
inu komu þótt hendurnar yrðu sárar
við skóflumokstur.
Ástráður starfaði sem sveitar-
stjóri þriðju deildar í KFUM um
árabil. Á deildarfundum hans bauð
hann upp á áhugavert efni og sögur
sem voru bæði drengjum og ung-
lingum til ánægju og eftirbreytni.
Einnig starfaði Ástráður í Kristilegu
stúdentafélagi í mörg ár ásamt góð-
um vinum, mikið líf var í því félagi á
þeim tíma.
Ástráður prédikaði víða, bæði í
KFUM og KFUK og einnig í
kirkjum. Hann var nákvæmur í
flutningi Guðs orðs. Hann lagði ríka
áherslu á að flytja orð Guðs sam-
kvæmt Biblíunni á þann hátt að hver
sem hlustaði skildi nauðsyn þess að
einstaklingurinn þyrfti að eignast
persónulega trú á hinn krossfesta og
upprisna frelsara Jesú Krist og lifa
kristnu lífi.
Hvar sem Ástráður starfaði í
kristilegu starfi var hann drifkraft-
urinn og hvatning fyrir aðra. Hann
lagði ríka áherslu á nauðsyn þess að
vera vakandi í bæninni fyrir kristni-
boðinu.
Við sem sem erum í kristniboðs-
hópnum Vorperlunni drúpum höfði í
þakklæti til Guðs fyrir að hafa feng-
ið að eignast slíkan vin sem Ástráð-
G
æs er merkilegur
fugl og ótrúlega
næmur á umhverfi
sitt. Að mati margra
bænda er þessi fugl
hrein plága. Hann situr á túnum
á vorin og haustin og étur upp
gras sem ætlað er búpeningi.
Gæsin er t.d. sérstaklega sólgin í
gras sem sáð er í nýræktir á vor-
in og dæmi eru um að hún hafi
étið upp heilu hektarana. Að
þessu leyti er engu betra að vera
með gæs í túninu en sauðfé.
Bændur standa í því allt sumarið
að verja tún
sín fyrir tún-
rollum sem
bera litla
virðingu fyrir
girðingunum,
en góðar girð-
ingar hafa ekkert að segja þegar
kemur að gæsunum. Fuglahræð-
ur og smalahundar gera eitt-
hvert gagn við að hrekja gæsir
af túnum, en líklega eru skot-
veiðar árangursríkastar.
Ég er ekki mikill skot-
veiðimaður, en ég hef þó gert
heiðarlegar tilraunir til að skjóta
gæsir. Fyrsta tilraun mín til að
bana gæs fékk heldur skjótan
endi. Ég var orðinn þreyttur á
því að smala gæsum og hafði
gert margar misheppnaðar til-
raunir til að kenna hundtík að
fæla gæsir af túnum. Mér rann í
skap, sótti byssu inn í hús og
skellti hurðinni duglega á eftir
mér. Þegar ég kem með vopnið
upp á bæjarhólinn sé ég hvar
gæsahópurinn tekur sig flugs og
flýgur rólega yfir ána. Það var
engu líkara en að gæsirnar
skynjuðu að nú var hætta á ferð.
Reyndar taldi ég hugsanlegt
að gæsirnar hefðu fælst við
hurðarskellinn eða þegar ég birt-
ist með byssuna á bæjarhólnum.
Daginn eftir, þegar enn stærri
gæsahópur sat og hámaði í sig
grængresið sem átti að fara í
mjólkurkýrnar á bænum, gerði
ég tilraunir með að skella úti-
dyrahurðinni. Gæsahópurinn leit
ekki einu sinni upp. Þá sótti ég
byssu og veifaði henni sem óður
maður á bæjarhólnum. Ekkert
gerðist. Ég hlóð byssuna og
skaut. Gæsirnar litu upp og
gengu svo hægu skrefum eftir
túninu, aðeins fjær bænum. Það
var alveg ljóst að þær skynjuðu
að af mér stafaði engin hætta.
Nokkrum dögum síðar ákvað
ég að fara á veiðar. Ég vissi að
ef einhver von ætti að verða til
þess að ég hitti fuglinn yrði ég
að komast svo nálægt gæsinni að
ég heyrði smjattið í henni þegar
hún rifi í sig grængresið. Ég
þurfti því að vera lúmskur og
klókari en hún. Ég lagði því á
mig langa göngu. Fyrst gekk ég
upp veg og lét eins og ég væri að
ná í beljurnar með prik í hönd.
(Prikið var að sjálfsögðu byssa
sem ég hélt þétt að mér.) Síðan
beygði ég niður að túni í um
tveggja kílómetra fjarlægð frá
gæsunum. Þar skreið ég niður í
skurð. Þá hófst lengsti og erfið-
asti hluti veiðanna, að þræða
skurðina í átt að gæsunum. Ég
gekk boginn í baki, stundum
skreið ég á maganum eins og
hermenn gera í bíómyndum. Ég
var orðinn blautur í fæturnar og
grútskítugur þegar ég komst að
túninu þar sem gæsahópurinn
var og át gras. Ég ákvað að taka
enga áhættu og kíkja ekki upp
fyrir skurðbakkann, en fikraði
mig í áttina að veiðisvæðinu. Ég
var orðinn eilítið móður og ótt-
aðist að andardráttur minn yrði
mér að falli. Mér fannst líka
hugsanlegt að gæsin, þessi lævísi
fugl, myndi greina hjartslátt
minn. Loks þegar ég var kominn
á staðinn þar sem ég hafði ætlað
mér að láta kúlnahríðina dynja á
gæsinni setti ég skot í byssuna.
Ég tók mér góðan tíma til að róa
mig niður í von um að mér gengi
betur að hitta. Loks áræddi ég
að leggja byssuna á skurðbakk-
ann og miða á gæsina. Mér gekk
erfiðlega að koma auga á hana
því talsvert gras var á skurð-
bakkanum þó að hún væri búin
að éta sig niður í mold innar á
túninu. Ég áræddi því að stinga
höfðunum lengra upp úr skurð-
inum og þá blasti sannleikurinn
við mér. Gæsin var löngu flogin á
brott. Allur undirbúningur minn
og skrið eftir skurðbotnum var
til einskis.
Ég gekk sneyptur heim og
kom byssunni fyrir á sínum stað.
Þegar ég kom út var gæsin kom-
in á sinn venjulega stað og tekin
upp við fyrri iðju. Ég játaði mig
sigraðan og hef ekki farið á veið-
ar síðan.
Þessi kynni mín af gæsaveiði
hafa leitt til þess að ég ber mikla
virðingu fyrir gæsaveiðimönnum.
Ég veit við hvað er að etja og
hversu mikla leikni þarf við veið-
arnar.
Hins vegar hef ég aldrei haft
neina samúð með rjúpna-
veiðimönnum. Mér hefur alltaf
þótt rjúpan einstaklega fallegur
fugl og hef haft gaman af því að
fylgjast með henni þegar hún
flýgur heim að bæjum við að
flýja undan fálkanum. Þess
vegna tók ég því illa þegar
rjúpnaveiðimenn bönkuðu eitt
sinn upp á og vildu fá að skjóta
rjúpur í trjágarðinum við bæinn.
Rjúpan er ekki bara ein-
staklega spakur fugl heldur
ákaflega hrekklaus. Hún er ekki
lúmsk eins og gæsin. Mér hefur
alltaf virst rjúpnaveiðin ganga út
á að finna fuglinn, en það kostar
oft langar göngur, og skjóta
hann síðan. Þegar maður er
kominn með rjúpu í sigtið er
álíka erfitt að hitta hana og
hænu. Báðir þessir fuglar virðast
bara bíða þess sem verða vill.
Hænsnadráp hefur mér aldrei
þótt sérstakt virðingarstarf.
Sumum þykir hlægilegt að drepa
hænur vegna viðbragða hæn-
unnar við dauða sínum, en flest-
um ber saman um að þetta er
leiðinleg iðja. Þess vegna harma
ég ekki þó að rjúpum séu gefin
grið í þrjú ár.
Veiðisögur
Þegar maður er kominn með rjúpu í
sigtið er álíka erfitt að hitta hana og
hænu. Báðir þessir fuglar virðast bara
bíða þess sem verða vill. Hænsnadráp
hefur mér aldrei þótt sérstakt virðing-
arstarf. Sumum þykir hlægilegt að
drepa hænur vegna viðbragða hæn-
unnar við dauða sínum, en flestum ber
saman um að þetta er leiðinleg iðja.
Þess vegna harma ég ekki þó að
rjúpum séu gefin grið í þrjú ár.
VIÐHORF
Eftir Egil
Ólafsson
egol@mbl.is