Morgunblaðið - 14.09.2003, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 14.09.2003, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. SEPTEMBER 2003 19 É G ÆTLA aldrei að verða gamall,“ syng- ur David Bowie á nýrri plötu sinni, Reality, sem kemur út á morgun. Bowie er nú 56 ára gamall og virðist ekki þurfa að óttast aldurinn sérstaklega. Í það minnsta er margt forvitnilegt að finna á nýju plötunni, tilvitnanir í for- tíð og galsafengið nýjabrum. Bowie hefur verið afkastamikill upp á síð- kastið. Ekki er nema tæpt ár síðan síðasta plata hans, Heathen, kom út. Hún fékk góðar viðtökur gagnrýn- enda og voru margir þeirrar hyggju að þar væri á ferð hans besta plata um langan aldur og einnig seldist hún í tæplega tveimur milljónum eintaka, en platan á undan, Hours, rétt skreið upp í 750 þúsund eintaka sölu. Bowie er ekki þekktur fyrir að fara troðnar slóðir. Hann var með þeim fyrstu til að setja tónlist sína á Netið og hefur stofnað sérstakt netsam- félag um sjálfan sig, sömuleiðis hefur hann sett sjálfan sig á markað og selt skuldabréf í sjálfum sér og á mánu- dag var tónleikunum, sem haldnir voru í London til að kynna nýju plöt- una, varpað beint um gervihnött í 68 kvikmyndahús í 22 löndum. Þar lék hann öll lögin af nýju plötunni, auk nokkurra gamalla og svaraði spurn- ingum atðdáenda. Í október hefst síð- an tónleikaferð um heiminn. Kaflaskipti urðu hjá Bowie rétt fyrir jólin 2001 þegar hann komst að því að útgáfufyrirtækið Virgin hygð- ist rifta samningi, sem gerður hafði verið við hann þremur árum fyrr, eft- ir aðeins eina plötu, vegna sam- dráttar í efnahagslífinu. Bowie lét að því liggja að hann væri á förum frá fyrirtækinu, en hin raunverulega ástæða var sú að hann var dýr í rekstri og síðustu tvær plötur höfðu selst illa. Hann komst á samning hjá Columbia og setti allt á fullt. Árang- urinn lét ekki á sér standa og platan Heathen var tilnefnd til Mercury- tónlistarverðlaunanna 2002 og er Bowie elsti tónlistarmaðurinn, sem hlotið hefur þá viðurkenningu. Bowie hefur iðulega gefið út yfir- lýsingar um að hann væri hættur að koma fram eða hann myndi aldrei framar leika gömlu lögin á tónleikum. Hann virðist hins vegar hafa tekið fortíðina í sátt. Hann býr um þessar mundir í New York ásamt Iman, konu sinni, og þriggja ára dóttur, Alexandríu, sem hann segir færa sér meiri ánægju að ala upp en öll vel- gengni fortíðarinnar. Hann á einnig son af fyrra hjónabandi með Angelu Barnett. Drengurinn hlaut nafnið Duncan Zowie Haywood Bowie og gekk undir nafninu Zowie Bowie. Hann er nú 31 árs gamall, kallar sig Duncan Jones og fæst við kvik- myndagerð í Bretlandi. Bowie segir sambandið milli þeirra feðga gott, en viðurkennir að hann hafi ekki getað tekið „fulla ábyrgð“ á að ala son sinn upp á sínum tíma. Aukið sjálfstraust „Nú hef ég meira sjálfstraust þeg- ar ég er að semja,“ segir hann í sam- tali við dagblaðið The Miami Herald. „Í upphafi tíunda áratugarins hafði ég ekki mikla trú á að spila gamla dótið aftur vegna þess að það yrði borið saman við það sem ég var að semja á þeim tíma og ég var ekki viss um að ég hefði enn neistann.“ Á þessum tíma má segja að Bowie hafi spólað í sama farinu. Í gömlu við- tali við tímaritið Interview segir hann að hann hafi verið búinn að loka sig inni í kassa: „Martröðin við kassann, sem ég hafði smíðað, var að ég sá sjálfan mig fyrir mér sem rúmlega fimmtugan náunga, sem gerði ekki annað en að spila gamla smelli það sem eftir væri ævinnar vegna þess að hann hafði forritað bæði áhorfendur sína og sjálfan sig með þessum vænt- ingum. Ég hafði snúið á sjálfan mig og áttaði mig á því að ég var farinn að vinna fyrir áhorfendur í stað þess að vinna fyrir sjálfan mig. Og ég hafði lofað sjálfum mér þegar ég byrjaði að það myndi ég aldrei nokkurn tímann gera. Þetta tók úr mér allan kraft og hafði einnig áhrif í persónulega lífinu vegna þess að nú fann ég að eitur- lyfjafíknin, sem ég hafði hrist af mér á áttunda áratugnum, var að snúa aft- ur, þótt það væri ekkert í líkingu við það, sem var. Á þessum tíma byrjaði ég einnig að drekka mikið vegna þunglyndis og lítils sjálfsálits.“ Bowie naut á þessum tíma mikillar almennrar hylli: „Hún skipti mig alls engu. Hún fékk mig ekki til að líða vel. Ég var óánægður með allt, sem ég var að gera, og það fór að koma fram í verkum mínum. Let’s Dance var mjög góð plata í sínum flokki, en næstu tvær plötur [Tonight og Never Let Me Down] sýndu að skortur minn á áhuga á eigum verkum var bersýnilega farinn að koma fram. Botninn var Never Let Me Down. Það var hræðileg plata.“ Á þessum tíma kúventi Bowie og stofnaði hljómsveitina Tin Machine þar sem allir áttu að standa jafnir að vígi. Flestir afskrifuðu manninn. Í kjölfarið kom út sólóplatan Black Tie White Noise, sem nú hefur verið end- urútgefin ásamt viðbótarefni bæði á geisladiski og DVD. Á þeirri plötu eru djassáhrif greinileg og einnig er sótt í smiðju rapps og hipphopps. „Ég var nýbyrjaður með Iman, við höfð- um gifst, og þessum tíma má líkja við endurmat á mínu tilfinningalega og andlega lífi, sem þarna var að vaxa og gróa með einstökum hætti.“ Trúi ekki að ég hafi lifað þetta af Í viðtali í nýjasta tölublaði Q spyr fyrirsætan Kate Moss Bowie hvaða eiturlyf hann taki nú fram yfir önnur. „Núna?“ svarar hann. „Kaffi. Ristað á franska vísu. Þá? Fjandinn sjálfur, stelpa, ég var rétt að byrja að neita harðra lyfja þegar þú fæddist [árið 1974 þegar platan Diamond Dogs kom út]. Ziggy Stardust var reyndar án eiturlyfja, fyrir utan stöku pillu, amfetamín og örvandi.“ Síðan fór að síga á ógæfuhliðina: „Ég fór til Bandaríkjanna og þar kynntist ég al- vöru eiturlyfjum og allt varð peru- laga … Ég var kominn niður í 45 kíló. Þegar ég skoða myndir af sjálfum mér – sem aldrei hafa verið birtar sem betur fer – trúi ég ekki að ég hafi lifað þetta af. Ég lít út fyrir að vera fárveikur. Mér bregður þegar ég skoða þessar myndir. Ég var gang- andi beinagrind. Ég lifði á grænum og rauðum paprikum og drakk mjólk.“ Bowie fór til Berlínar til að hreinsa sig upp og þar tók við skapandi tíma- bil. En hann kveðst enn eiga erfitt með að eiga við fíknina, sem búi í per- sónuleika sínum. Nú geri hann það með því að steypa sér í vinnu: „Það er leið til þess að þurfa ekki að hugsa of djúpt um sjálfan mig og stöðu mína. Ég er ekkert sérstaklega fær í því. Iman getur borðað kvöldverð og drukkið aðeins eitt vínglas. Ég get ekki gert það og þess vegna hef ég ekki drukkið í 14 ár.“ Hann er þó ekki laus við öll fíkni- efni. Sígarettan er eftir. „Kókaínið var nokkuð erfitt, áfengið er erfitt viðureignar, en nikótínið slær allt út. Það eru 437 tegundir af eitri í sígar- ettu og hvert þeirra er hannað til að tryggja að þú getir ekki sagt nei.“ Eiturlyfjaneysla hefur iðulega ver- ið tengd sköpunarkrafti, en Bowie gefur lítið fyrir slíkar vangaveltur: „Ég veit ekki hvort eiturlyf hafa hjálpað mér í minni vinnu. Ég tek ekki mark á þeirri kenningu að mað- ur verði að vera skakkur til að skapa. Ég held að Low, Heroes og Scary Monsters hafi verið bestu plöturnar mínar og ég var ekki á eiturlyfjum þegar ég gerði þær. Mér fataðist þeg- ar ég gerði Let’s Dance og sumir myndu segja að það væri ekki besta platan mín. Persónulega held ég að ég hafi fundið sjálfan mig á ný sem lagahöfundur á tíunda áratugnum og þá var ég án lyfja.“ Undir áhrifum New York Nú býr Bowie í New York og kveðst aldrei hafa búið jafn lengi í einni borg. Þar eigi hann heima og það heyrist á nýju plötunni þar sem ýmis staðarnöfn og kennileiti eru nefnd í textunum. Hann vill hins veg- ar ekki ganga svo langt að segja að platan sé um New York, en lögin séu samin undir áhrifum af borginni. „Ég lít á plötuna sem samsafn laga, sem ég samdi um leið og tónleikaferð- inni minni lauk á síðasta ári,“ segir hann. „Ég var heima á ný með konu og barni og var að gera þessa daglegu hluti og byrjaði strax að semja. Samningur minn við nýja plötufyr- irtækið er laus í reipunum og þægi- legur og þess vegna var frábært að geta farið og byrjað að taka upp á meðan hlutirnir voru að gerjast.“ Reality var tekin upp í New York. Stjórn upptöku var í höndum Tonys Viscontis, sem og hefur oft unnið með Bowie áður. Lögin á plötunni eru öll eftir Bowie utan tvö, Pablo Picasso eftir Jonathan Richman og Try Some, Buy Some eftir George Harrison. Yfir plötunni er bjartur tónn, þótt Bowie segist ekki sjá ástæðu til að vera bjartsýnn þessa dagana. „Maður setur allt á mæli- stiku atburða síðustu tveggja ára í New York,“ segir hann í viðtalinu við Miami Herald. „En ég verð að halda í bjartsýnina vegna dóttur minnar frekar en nokkurs annars. Ég færði hana í þennan heim og vil að hún njóti sem mestrar fullnægju í lífinu og það er ekkert unnið með því að pabbi sé bara neikvæður. Þannig að það er ákveðin ábyrgðartilfinning.“ „Ég er heppnasti náunginn,“ syng- ur Bowie á nýju plötunni. „Ekki mest einmana náunginn.“ Raunveru- leikinn David Bowie á tónleikum. David Bowie hefur á löngum ferli tekist að ganga í gegnum stöðuga endurnýjun í stað þess að festast í fjötrum fortíðar. Karl Blöndal fjallar um Bowie og nýja plötu hans, Reality, sem kemur út á morgun.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.