Morgunblaðið - 19.10.2003, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 19.10.2003, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 19. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Heimilisfólki á Arnarfellivar boðið í fermingar-veislu á Mjóanesi,næsta bæ í Þingvalla-sveit. Fæstir áttu þó heimangengt og heldur fimm ára snáði einn af stað fótgangandi og full- ur tilhlökkunar ásamt eldri systur sinni, Ýju. Systir mín vissi að ég var ekki veisluvanur og reyndi að kenna mér nokkur undirstöðuatriði í kurteisi á leiðinni svo að ég yrði hvorki henni né sjálfum mér til skammar. „Umfram allt máttu ekki leggjast á eina sort,“ sagði hún. „Jafnvel þótt þér þyki sykraðar pönnukökur góðar máttu bara taka eina, í mesta lagi tvær. Og þú átt að muna að þakka fyr- ir þig ef þér er boðið eitthvað og ef þú færð þér eitthvað á diskinn sem þér þykir ekki gott verðurðu samt að klára það. Mesti dónaskapur í veröld- inni er að leifa á disknum sínum í fín- um boðum. Heyrirðu það?“ „Já,“ sagði ég. „Það er eins gott,“ sagði hún, „því að annars skil ég þig eftir hérna hjá hreindýrinu. Og þú manst hvað amma sagði þér, þú átt að heilsa öllum með handabandi.“ „Já,“ sagði ég. „Og þú átt ekki að segja neinar fréttir. Ef einhver spyr þig hvort ekki sé eitthvað að frétta úr Arnarfelli, þá áttu að segja að það sé allt við það sama og öllum líði vel. Heyrirðu það?“ „Já,“ sagði ég. „Svo áttu að þurrka þér um munn- inn með servíettu og ekki sötra þegar þú drekkur. Og ef þú tyggur með op- inn munninn eða smjattar þá fer ég með þig úr boðinu og drep þig á heim- leiðinni.“ Ég samþykkti þetta fúslega. „Við erum orðin allt of sein,“ sagði Ýja. „Geturðu ekki gengið aðeins hraðar? Ég er viss um að veislan er byrjuð.“ „Ég er með hlaupasting.“ Stutt- stígur sem ég var þurfti ég að hlaupa við fót til að dragast ekki aftur úr systur minni. „Geturðu ekki haldið á mér smástund?“ „Heldurðu að þú sért smábarn? Á ég að mæta í veisluna með þig í fang- inu? Hvað heldurðu að fólkið í sveit- inni segi þá um strákinn í Arnarfelli sem er svo latur að það verður að bera hann á milli bæja?“ „Gerðu það. Elsku Ýja mín, gerðu það, taktu mig á hestbak. Bara smá- stund. Bara þangað til við sjáum heim að bænum. Ég skal engum segja að þú hafir þurft að bera mig.“ Hundurinn Eftir nokkurt þóf samþykkir Ýja að bera drenginn áleiðis. Við túngirðinguna í Mjóanesi lét systir mín mig af baki. Hún tók upp lítinn spegil og fór að spegla sig eins og hún hefði ekki speglað sig nóg áður en við lögðum af stað enda var hún Reykjavíkurmær og forfrömuð í Kvennaskólanum. „Erum við ekki orðin allt of sein?“ spurði ég og vildi halda áfram og komast í veisluna. „Jú, og það er þér að kenna. Hvað er maður að drattast með smákrakka með sér í boð?“ Um leið og ég kom við efri streng- inn í gaddavírsgirðingunni ofan á tún- garðinum heyrðist hundgá heiman frá bænum og þrír hundar komu á fullri ferð í áttina til okkar yfir túnið. „Jeminn eini,“ sagði systir mín. Það var reykvíska sem ég hafði hvergi fundið í Íslendingasögunum, en henni stóð ekki á sama um ókunn- uga hunda. „Vertu ekki hrædd,“ sagði ég. „Ég skal passa þig.“ Hundarnir nálguðust og ég tók mér stöðu fyrir framan systur mína: Ólafur konungur Tryggvason í krapparúmi. Verst að Einar þambar- skelfir skyldi ekki vera mættur með bogann. Amma hafði kennt mér þau fræði að heilsa ókunnugum hundum með því að rétta þeim handarbakið að þefa af. Tveir fyrstu hundarnir tóku kveðju minni vel, þefuðu augnablik og lögðu svo eyrun aftur og dilluðu rófunni til merkis um að í þeirra augum væri ég boðsgestur en ekki boðflenna. Sá þriðji stóð hins vegar álengdar og urraði og færðist undan þegar ég rétti að honum handarbakið svo að hann gæti smakkað lyktina af mér. Það voru græn í honum augun og flærðarleg og hann fitjaði upp á trýn- ið og sýndi heiðgular framtennur og vígtennurnar stórar eins og í krókó- dílnum sem ég hafði lesið um í sög- unni af forvitna fílnum, en eins og menn muna var það krókódíllinn í Limpópófljóti sem í árdaga beit í nef- ið á forvitna fílnum og teygði svo rosalega á því að allar götur síðan hafa fílar haft langan rana þar sem aðrir hafa nef. Þessi hundur hefði ekki teygt á fíls- nefinu, hann hefði bitið það af. Þetta var svartstrútóttur hundur, ekki stór, en vambmikill og loðinn með klepra aftan á lærunum eins og hann ætti við þrálátan meltingarsjúk- dóm að stríða og eftir því geðvonsku- legur í fasi og var um sig og gat ekki stillt sig um að urra að mér þegar við lögðum af stað síðasta spölinn heim að bænum. Húsbændurnir höfðu heyrt geltið og voru komnir út á hlað og ferming- arbarnið líka sem ég man því miður ekki lengur hvort var strákur eða stelpa. Allt er við það sama Gestunum er boðið til stofu þar sem bíður þeirra krásum hlaðið veisluborð, en drengurinn hefur nú misst alla matarlyst. Ég þáði eina jólakökusneið fyrir siðasakir og reyndi að plokka úr henni rúsínurnar svo að lítið bæri á og skildi þær eftir á diskbarminum. Einhver kona sem sat við hliðina á mér bauð mér meira. „Nei, þökk fyrir,“ sagði ég. „Ég er mettur.“ „Jahá,“ sagði hún. „Áttu við að þú sért saddur?“ „Já,“ sagði ég. „Ég er mettur. Þökk fyrir mig.“ Hún fór að spyrja mig frétta úr Arnarfelli. Hún virtist þekkja býsna vel til og spurði hvernig amma mín væri til heilsunnar og ég fullvissaði hana um að allir væru við góða heilsu og í Arnarfelli væri allt við það sama. Þá fór hún að spyrja um herbergja- skipan á bænum og svefntilhögun og ég sagði eins og var að ég svæfi í mínu rúmi inni hjá pabba, nema hvað stundum fengi ég að sofa fyrir ofan ömmu inni í litla herbergi. „En ráðskonan?“ spurði konan. „Hvar sefur hún? Ekki hefur hún sér- herbergi?“ „Hún sefur á dívaninum í stofunni,“ sagði ég. „Og skríður þú aldrei upp í til pabba þíns á nóttunni?“ spurði hún. „Jú, ef ég vakna. En stundum á morgnana er hann farinn. Hann fer alltaf fyrstur á fætur.“ „Og ferðu þá aldrei fram að gá að honum?“ spurði konan. „Nei, hann er farinn út í fjós eða fjárhús,“ sagði ég. „En ráðskonan? Fer hún líka svona snemma á fætur?“ „Já,“ sagði ég. „Hún býr til kaffið.“ Og konan virtist missa áhugann á morgunverkum og svefntilhögun í Arnarfelli og fékk sér kaffi í bollann til að skola niður súkkulaðinu. Óargadýrið Gestir fara að loknu borðhaldi í stórfiskaleik, en drengnum, sem er minnstur gestanna, gengur illa að fóta sig á spariskónum, hann næst alltaf fyrstur og beinir því athygli sinni að hundunum. Ég fór því að leika mér við hundana tvo sem höfðu þefað af handarbakinu á mér en sá svartstrútótti hélt sig álengdar og gjóaði öðru hverju til mín augunum eins og til að segja mér að hann hugsaði mér þegjandi þörfina þótt síðar yrði. Og áður en varði var kominn tími til heimferðar. Fyrst þurfti að kveðja fólkið og þakka fyrir veitingarnar og taka við kveðjum að bera fólkinu í Arnarfelli. Svo var að finna stígvélin og klæða sig í ullarsokkana og muna eftir að taka stígvélaskóna með heim. Við stóðum á hlaðinu. Ýja var að tala við einhverjar stúlk- ur og ég stóð álengdar þegar fótunum var allt í einu eins og kippt undan mér, eða öðrum fætinum réttara sagt. Einhver greip heljartaki um ökkl- ann á mér og rykkti í þannig að ég lá kylliflatur. Þarna var sá svartstrútótti kominn og hafði læst kjaftinum utan um legg- inn á stígvélinu mínu og ég fann hvernig tennurnar í honum stungust inn í ökklann. Mér varð fyrst fyrir að hugsa að óargadýrið ætlaði að sporðrenna mér í heilu lagi, byrja á öðrum fætinum, svo hinum, eins og úlfurinn Rauð- hettu og ömmu hennar forðum, en svo sá ég á harðneskjulegum þrjósku- svipnum á honum að hann hafði ein- sett sér að bíta af mér fótinn til að byrja með. Ég argaði upp yfir mig af skelf- ingu. Einhver góður maður kom og sparkaði í kviðinn á rakkanum svo að hann tókst á loft en það hvarflaði ekki að honum að losa takið svo að ég kipptist við með honum og sársauk- inn í fætinum varð óbærilegur. „Ég skil ekki hvað er hlaupið í hundskrattann að geta ekki séð krakka án þess að bíta þá,“ sagði reiðileg rödd en fulltrúi sanngirninn- ar svaraði: „Það er þó gott meðan hann leggst ekki á féð.“ Nú var kominn hópur af fólki og einhver hafði gripið nærtækan stunguspaða og reiddi til höggs. Ég hljóðaði af ótta því að ég hélt að ætlunin væri að höggva af mér fótinn til að losa mig úr gini ófreskjunnar og sá sjálfan mig í anda staulast um á tréfæti til dauðadags en höggið reið og flatur spaðinn lenti með glymjandi hljómi eins og hvellandi bjalla á dómsdegi á höfuðkúpu óargadýrsins sem virtist líta á höggið sem verð- skuldaða áminningu til sín um að herða enn tökin á fætinum á mér og grimmdin og drápseðlið logaði úr augum og kjafturinn læstist fastar um bráð sína. En enginn má við margnum og þar kom að margmenninu tókst með for- mælingum, spörkum og höggum að fá hundkvikindið til að láta af þeirri for- hertu ráðagerð sinni að bíta fótinn af saklausu barni. Allt í einu losaði hann heljartökin á stígvélinu mínu og spýtti fætinum á mér út úr sér eins og hann hefði skyndilega misst matarlystina og dró sig í hlé ýlfrandi með skottið milli lappanna. Einhver syndlaus aðili henti steini á eftir honum, því miður án þess að hitta. „Ekki kasta grjóti út á túnið, krakkar,“ var kallað og svo var farið að stumra yfir mér og stígvélið dregið varlega af fætinum og þá komu í ljós fjögur snyrtileg göt í ökklahæð eins og eftir lágvaxna blóðsugu. Ullarsokknum var rúllað niður og ökklinn skoðaður. Ég átti von á að blóðgusur mundu standa út úr sárinu og fóturinn héngi saman á taugaslitrum en svo var ekki. Þarna var ekkert að sjá utan fjögur hvít tannaför með örsmáum rauðum dílum í miðjunni. „Það er engin hætta á blóðeitrun,“ sagði einhver. „Hundfjandinn hefur ekki náð að bíta inn úr skinninu.“ „En hundaæði,“ sagði einhver ann- ar. „Það þarf ekki að blæða til að komi smit ef maður er bitinn af óðum hundi. Og við því er ekkert að gera. Fyrst verða menn brjálaðir, svo fara þeir að gelta og svo deyja þeir.“ Haninn Árum saman var ég sannfærður um að ég væri með hundaæði. Ég frétti af konu í Reykjavík sem hafði verið bitin af óðum hundi þegar hún var barn en læknum í útlöndum hafði tekist að halda sjúkdómnum í skefjum þannig að hún gekk um göt- urnar eins og venjuleg manneskja nema hvað hún rak upp smábofs og ýlfraði annað slagið og gerði sig lík- lega til að glefsa í fólk áður en hún gat hamið sig. Sumir sögðu að einu sinni hefði hún fengið kast og bitið tvo lög- regluþjóna sem báðir hefðu dáið kvalafullum dauðdaga skömmu síðar. Konuna var hins vegar ekki hægt að sækja til saka því að í henni tókst á eðli hunds og útlit manneskju og hún var því ekki sakhæf sem dýr og sem manneskju var heldur ekki hægt að lóga henni. Þar sem ég var fótlama og nær dauða en lífi af skelfingu eftir þessa hrottalegu árás varð Ýja að bera mig á bakinu alla leiðina heim. „Hvernig datt þér í hug að segja „þökk fyrir, ég er mettur“?“ spurði systir mín þegar við vorum komin út fyrir túngarðinn. Það virtist vera miklu auðveldara að vera persóna í bók en alvörumann- eskja. Pabbi klippti bætur úr gamalli slöngu og límdi yfir götin á stígvélinu mínu. „Þetta hlýtur að vera makalaus skepna, þessi hundur,“ sagði hann með óþarflega mikilli aðdáun í rödd- inni. „Að bíta inn úr strigafóðruðu gúmmíi eins og ekkert sé og gegnum ullarsokk! Það væri gaman að vita hvort hann gæti bitið gegnum leður- stígvél.“ Svo hélt hann uppi fyrirspurnum um hundinn og það kom í ljós að þetta var frægur slagsmálahundur og hét Vígi og var illræmdur í sveitinni og hafði bitið fjölda manns og suma oftar en einu sinni en laðaðist þó helst að börnum í seinni tíð. „En nú bítur hann ekki fleiri,“ sagði pabbi, „því að þeir Mjóanes- feðgar lokkuðu hann inn í skemmu og handsömuðu og festu hausinn á hon- um í skrúfstykki. Svo komu þeir með rafmagnssmergil og surfu tönnurnar í honum alveg niður í rót svo að hann getur ekki einu sinni nagað bein leng- ur heldur lifir á murtu og grautaraf- göngum. Og börnin leika sér að því að setja handlegginn á sér upp í kjaftinn á honum og láta hann bíta saman tannlausum skoltunum og sveifla honum í kringum sig. Kannski tálga ég upp í hann falskan góm úr mahóní svo að hann geti japlað á ketbita um jólin.“ Ég veit ekki hvort þetta var satt. Kannski sagði pabbi þetta bara til þess að ég væri ekki hræddur við að koma að Mjóanesi. Ég var samt hræddur og næst þeg- ar ég kom þangað var Vígi lokaður inni í fjósi svo að ég sá hann aldrei tannlausan. Þaðan af síður varð ég var við að faðir minn sæti við að tálga gervitennur upp í þennan hundskjaft sem upp frá þessu birtist mér í draumum fram eftir öllum aldri, froðufellandi í tilefnislausu grimmd- aræði, og leysti af hólmi jólasveina- grímuna sem fyrst vakti ótta minn við tvíeðli mannsins. Lítil saga sem ég heyrði einu sinni af geðstirðum hana sem sögumaður taldi að hefði verið til heimilis á Húsa- vík hjálpaði mér loks til að skilja – og fyrirgefa – hundinum grimma í Mjóa- nesi og ekki síður varð þessi dæmi- saga til þess að stuðla að skilningi mínum á sjálfum mér – en þessi hani var töluvert frægur í sinni heima- byggð. Hann var mannýgur og fékk reiði- köst af engu merkjanlegu tilefni og réðst á hvað sem fyrir varð, en eink- um börnin í plássinu sem hímdu inn- anhúss og þorðu ekki út að leika sér, uns þar kom að haninn tók líka að ráðast á fullorðna og þá var honum lógað. Þá kom í ljós að tveggja tommu nagli stóð þversum í kokinu á honum og hafði víst setið þar lengi. Það þarf ekki djúpan skilning á sál- fræði til að ímynda sér að þetta kunni að hafa haft einhver áhrif á geðslag hanans og stjórnlausa framkomu. Bókarkafli Fátækt, geðveiki, einelti, þunglyndi og töframáttur lífsins eru viðfangsefni sjálfsævisögu Þráins Bertelssonar. Hér er gripið niður í upplifun hans af fyrstu fermingarveislunni og kynnum af svarta óargadýrinu er áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Veisla Einhvers konar ég eftir Þráin Bertels- son kemur út hjá JPV-útgáfunni. Bókin er 327 bls. að lengd.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.