Morgunblaðið - 21.10.2003, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 21.10.2003, Blaðsíða 32
LISTIR 32 ÞRIÐJUDAGUR 21. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Ó ttinn við að vera ein á hjara veraldar, grá- köld og öllum gleymd, hvetur sumt ungt fólk til að yf- irgefa fósturjörðina, þótt góð sé á margan hátt. Við þurfum þess vegna að leita allra ráða til að gera hana vænlegri til búsetu, endurheimta litinn sem lífið hefur glatað og hressa upp á andlit sam- félagsins. Við viljum ekki að ís- lensk menning, lág sem há, deyi úr fábreytni og leiðindum. Um öll vesturlönd ríkir stöð- ugur og bullandi áhugi á kónga- fólki. Menn geta rifjað upp allt sem sagt er og skrifað um bresku konungsfjölskylduna, ekki ein- vörðungu þar í landi heldur um mestallan heim. Og fyrir breskan efna- hag er þetta líka stórmál vegna þess að auglýsinga- og snobbgildi konungsættarinnar er meira en nokkur valdalaus forseti gæti nokkurn tíma bætt upp. Hver man nafnið á forseta Ítalíu? Við þurftum í snatri að breyta stjórnarskrá konungsríkisins Ís- lands frá 1920 þegar ákveðið var að rjúfa síðustu tengslin við Dani og stofna hér lýðveldi 1944. Stríð geisaði og okkur gafst ekki mikill tími til að velta því fyrir okkur hvernig embætti þjóðhöfðingja ætti að vera. Það sést vel á vand- ræðaganginum í sambandi við völd forseta. Hann má fresta gild- istöku laga en hefur aldrei notað það vald, sumir vilja afnema það með öllu. Krýndir þjóðhöfðingjar á Norðurlöndum hafa nú nær engin völd og reyndar hafa Svíar afnumið þau með öllu í stjórn- arskrá sinni, konungur þeirra er eingöngu þjóðartákn út á við. Við kvöddum danska kónginn eftri að hafa verið undir embætti hans frá 1380 en þá gengust Norðmenn undir Kaupmanna- hafnarvaldið. Við fylgdum með eins og hvert annað viðhengi og fannst að okkur væri ekki sinnt nógu vel. En við erum löngu búin að hefna fyrir ímyndaðar og raun- verulegar misgerðir Dana, búin að éta maðkaða mjölið sem þeir prönguðu inn á okkur, búin að fá handritin, eigum bara eftir að vinna þá í fótbolta. En er þá nokk- ur ástæða til að halda áfram í svo- lítið hlægilegt forsetaembætti sem aldrei verður konunglegt, þrátt fyrir hetjulegar tilraunir ábúenda á Bessastöðum? Kóróna úr gulli getur verið dýrgripur en kóróna úr plasti er barnaleikfang, jafnvel þótt sá sem beri hana reyni að vera ábúðarmikill í fasi. Við gætum vel komist af án þess að vera með nokkurn þjóð- höfðingja. Ráðherrar og forseti Alþingis gætu skipt þessum fáu, táknrænu embættisverkum á milli sín. En þjóðin vill víst að á tertunni sé rautt og fallegt kirsu- ber til skrauts. Við segjumst vera nútímaleg þjóð og hikum ekki við að tileinka okkur það sem best er gert erlendis. Nú er til siðs í vel reknum fyrirtækjum að „úthýsa“ sérstökum verkefnum sem hent- ugast þykir að fólk með reynslu á því sviði taki að sér. Leitað er til þeirra sem kunna til verka. Keypt er þjónusta af hreingerningafyr- irtækjum, öryggisgæslufyr- irtækjum og svo framvegis. Danska konungsættin hafði margra alda reynslu af því að vera þjóðartákn okkar þegar við rufum tengslin, hún kann þetta örugglega enn þá. Hvergi mun konungsfjölskylda njóta jafnmik- illa vinsælda meðal þjóðar sinnar og sú danska. Drottningin er list- ræn, einstaklega alþýðleg og hef- ur, a.m.k. á skjánum, persónu- töfra sem þagga niður í hörðustu lýðveldissinnum. Nú er rétti tím- inn fyrir okkur til að fara þess á leit að Margrét Þórhildur gerist drottning Íslands og í fyllingu tímans mun þá Friðrik prins verða konungur okkar. Margréti var gefið íslenskt nafn (með Þ-i) enda varð hún prinsessan okkar við fæðingu 1940. Það má því segja að hún væri að koma aftur heim. Ekki er verra að Friðrik skyldi sækja sér kvonfang til Tasmaníu en þar lést á sínum tíma Jörundur nokkur Hunda- dagakóngur. Því miður bendir ekkert til þess að væntanleg Danadrottning sé afkomandi hans en það hefðu verið ný rök í mál- inu. Myndum við spara ríkisút- gjöld? Sennilega ekki, við yrðum að greiða hæfilegan skerf af því sem þarf til að halda uppi hirðinni og drottningin/konungurinn yrði að geta heimsótt okkur öðru hverju á tyllidögum ásamt mak- anum. Bessastaðir gætu orðið vettvangur fyrir glæstar veislur. Þar yrði að vera staðarhaldari sem yrði þá jafnframt fastur fulltrúi þjóðhöfðingjans, til- nefndur af honum og væntanlega riddari af Dannebrog. Pólitísku völdin yrðu hins vegar, eftir nauð- synlegar breytingar á stjórn- arskránni, að fullu í höndum Al- þingis. Enginn ruglingur í þeim efnum yrði framar liðinn. En góð íslensk fyrirtæki í út- rásarhug gætu fengið leyfi til að setja á vörumerki sín By Appoint- ment of the Royal Danish Court sem mun merkja að hirðin mæli með vörunni. Margir neytendur úti í heimi eru á því að svo virðu- leg ummæli séu traustari en orða- leppar eins og „vistvæn“ sem er víst skellt á lambakjötið okkar. Við vitum hvað rollan er vistvæn á hálendinu. Er ekki skárra að nota gamalt kóngasnobb en rakalaus ósannindi til að glepja neytendur? En við myndum vekja heims- athygli ef við yrðum af fúsum og frjálsum vilja þegnar Margrétar. Glöggskyggnir karlar og konur um allan heim myndu hæla okkur fyrir að vera vaxin úr grasi og vera búin að varpa af okkur hlekkjum gamallar, ofstækis- fullrar þjóðernisstefnu. Við eigum að segja Dönum að við séum löngu búin að fyrirgefa allt og viljum sýna það á táknrænan hátt. Um leið kæmum við á notalegu en hættulausu sambandi við siðmenntaða þjóð sem við getum lært svo mikið af og við myndum tengjast Evrópu traustari böndum. Þar eigum við heima. Kóróna úr skíru gulli En góð íslensk fyrirtæki í útrásarhug gætu fengið leyfi til að setja á vörumerki sín By Appointment of the Royal Danish Court sem mun merkja að hirðin mæli með vörunni. VIÐHORF Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is HLÍN Agnarsdóttir er íslenzkum lesendum og leikhúsunnendum að góðu kunn. Gamansemi og létt háð, orðaleikir og snarpar atlögur að samskiptum kynjanna hafa einkennt skrif Hlínar en nú kveður við allt annan tón. Nýj- asta bók Hlínar er skrifuð í minningu ástvinar hennar og sambýlis- manns til margra ára, Þorvaldar Ragnarssonar, en hann lézt úr krabbameini árið 1998, einungis hálf- fimmtugur. Hlín er hreinskilin og op- inská, leyfir sér að hleypa lesandan- um að innstu hjartarótum sínum, veltir upp atriðum úr lífi sínu sem mörgum þætti erfitt að tala um, eink- um alkóhólisma Þorvaldar og hvernig hún sjálf varð meðvirk í sjúkdómi hans. Með því finnst mér hún ekki vera að niðra Þorvald eða minninguna um hann heldur skrifa sig frá erfiðum árum, reynslunni ríkari, horfandi nú í baksýnisspegilinn. Þó var hún meðan á meðvirkninni stóð oft á flótta undan sambandinu, flúði á vit vinnu og frama í leikhúsheiminum og vann sem leiðsögumaður á erlendri grund. Þekking höfundar á bókmenntum nýtist vel í þessari einlægu bók því Hlín vitnar í heimsbókmenntir til að undirstrika hina sjúku veröld alkóhól- istans og aðstandenda hans. Sem dæmi má nefna höfunda eins og Christinu Rossetti, Halldór Laxness, Oscar Wilde og Bertolt Brecht. Áhrifarík er umfjöllun hennar um leikrit Brechts um Púntila bónda og Matta vinnumann hans. Matti er nán- asti samstarfsmaður hins drykkfellda Púntila og þarf að leika tveimur skjöldum eins og allir aðstandendur alkóhólista. Í svarta þríhyrningnum stendur Bakkus mitt á milli alkóhól- istans og nánasta aðstandandans í öllu sínu ægiveldi og stjórnar alkan- um með harðri hendi, hvort sem hann er að reyna að halda sér frá flöskunni eða halla sér að henni (bls. 25). Eng- inn raunverulegur alki þolir til lengd- ar fólk sem gerir athugasemdir við drykkju hans og lífsstíl af því hann er fullkomlega ófær um að horfast í augu við sjálfan sig og óttast ekkert jafn mikið (bls. 28). Hlín skrifaði lokarit- gerð í leiklistarfræðum um þetta leik- rit en lítur greinilega á það í nokkuð öðru ljósi eftir að hafa kynnst ógn- arveröld alkóhólismans af eigin raun. Víða bregður fyrir tilvitnunum í Hið ljósa man eftir Halldór Laxness, og sem dæmi má nefna þegar alkóhól- istinn Magnús í Bræðratungu, rifinn, blóðugur, illþefjaður, skeggjaður, úf- inn, horaður og blár, er leiddur inn til sín af Snæfríði sem hjúkraði honum en hann grét í þrjá daga að venju (bls. 95–96). AA-bókin leikur allstórt hlutverk en í aðalhlutverki eru þó bréfaskipti milli Hlínar og Þorvaldar sem birt eru í sögulegu samhengi og tímaröð. Þess vegna er mun auðveldara að halda þræði við lesturinn og lifa sig inn í söguþráðinn, sem og hugarheim höf- undar. Einnig vitnar hún annað slagið í sorgardagbókina Eftir að þú fórst, sem er langt bréf skrifað árið 1998 eftir andlát Þorvaldar og inniheldur bæði ljóð og prósa. Ég dáist að því hugrekki Hlínar að leggja til atlögu við fortíðina á þennan hátt og tel að með þessari bók leggi hún þeim sem berjast við Bakkus verulegt lið. Það er ekki auðvelt að gera slíkt í litlu landi þar sem allir þekkja alla, en henni tekst að hefja sig til flugs þrátt fyrir það og halda les- andanum límdum við hreinskilna, ein- læga og dramatíska frásögnina. Fyrir henni eru skrif bókarinnar lokaáfangi í leit hennar að sjálfri sér og ég er viss um að sú leit mun bera árangur. BÆKUR Reynslusaga Höfundur: Hlín Agnarsdóttir. Útg. Salka 2003. 151 bls. Prentun: Prentmet. AÐ LÁTA LÍFIÐ RÆTAST – ÁSTARSAGA AÐSTANDANDA Bakkus er harður húsbóndi Katrín Fjeldsted Hlín Agnarsdóttir LES Liasons Dangereuses virðist vera nútímanum hugleikin þó þessi bréfaskáldsaga hafi verið rituð á síðari hluta átjándu aldar af frönskum liðs- foringja og segi frá heimi sem orðinn er okkur næsta fjarlægur, heimi sið- spilltra og miskunnarlausra sam- kvæmisljóna Parísarborgar. Sagan hefur að minnsta kosti tvisvar verið kvikmynduð, rómuð leikgerð Christ- opher Hampton sló í gegn og var meira að segja leikin í Þjóðleikhúsinu. Jafn- vel markaðsfræðingar Hollywood- maskínunnar sáu eitthvað í sögunni sem þeir töldu geta dregið markhóp sinn í bíó og gerðu unglingamyndina Cruel Intentions, þar sem sagan er lát- in gerast í heimi forríkra New York- búa. Og gekk algerlega upp. Og nú hafa forsprakkar Dansleikhúss með ekka kveikt á sögunni og gert sína eig- in sviðsgerð. Sagan segir frá glaumgosanum Val- mont og samkvæmisdrottningunni frú Merteuil, og hvernig þau eyðileggja líf tveggja kvenna, sakleysingjans Cecile og hinnar dyggðum prýddu frú Tourv- el. En Valmont seilist of langt í sókn sinni eftir að leggja þá síðarnefndu, verður ástfanginn – og ferst. Það er ekkert pláss fyrir ást í þessum heimi, hún er veikleiki sem kostar þig lífið. Sá sem er miskunnarlausastur og kald- astur vinnur, aðrir farast. Aðferð hópsins við smíð sýningar- innar er athyglisverð og er lýst í ein- faldri en smekklega hannaðri leikskrá. Hver leikari fékk einungis í hendur þau bréf úr bókinni sem þeirra persóna skrifaði eða fékk send. Þannig eru það fyrst og fremst afstaða og viðfangsefni viðkomandi persónu sem leikarinn hef- ur yfirsýn yfir. Síðan var spunnið og unnið upp úr bréfunum. Þessi aðferð minnir að vissu leyti á þann gamla sið að handrit leikara innihaldi einungis þeirra eigin texta og nauðsynleg mark- orð, og til eru þeir fræðimenn sem telja að það sé hin eina rétta aðferð við æf- ingar. Ekki er gott að átta sig á hverju þessi leið hefur skilað í sýningu Dans- leikhúss með ekka, sem virkar sem næsta hefðbundin vel smíðuð skáld- söguleikgerð, og hefur ekki hópvinnu- yfirbragð. Líklega hefur þetta þó fyrst og fremst hjálpað leikurunum til að vera trúir sinni persónu, nokkuð sem skilar sér vissulega í sýningunni. Einnig er athyglisvert hvað hlutur danslistarinnar er lítill en texti að sama skapi fyrirferðarmikill. Það er snjöll hugmynd að nota samkvæmisdansa í danskeppnisstíl, enda ýmsar hliðstæð- ur milli þess heims og verksins, með allri sinni yfirborðsfágun sem byggir á blóði, svita og tárum. Í leikgerð Hamp- tons segir frú Merteuil frá því hvernig hún æfði sjálfstjórn með því að sitja brosandi í matarboðum meðan hún rak gaffal í lærið á sér. Í danskeppnum tapast stig ef gleymist að brosa. En þó hugmyndin um samkvæmisdansana sé góð þá er hún tæpast nógu gegnum- færð til að dansinn verði lífrænn hluti sýningarinnar. Það er of lítið dansað og dansinum vandlega haldið utan við at- burðarásina. Eins er með speglana sem einkenna einfalda leikmyndina. Notkun þeirra er of takmörkuð miðað við hvað þeir eru afgerandi í rýminu. Búningarnir eru sóttir í samkvæm- isdansaheiminn og þar nýtur sú grunn- hugmynd sín vel – býr til fjarlægð án þess að elta ritunartímann. Kannski einna helst að erfitt sé að sætta sig við að púrítaninn frú Tourvel eigi heima í svona múnderingu, en hennar kjóll er þó hvítur, sem segir eitthvað. Fimm leikarar taka þátt í sýning- unni. Samkvæmisflagðið frú Merteuil er leikið af Völu Þórsdóttur sem nær firnasterkum tökum á þessu óræða en bitastæða hlutverki. Ekki dró það heldur úr áhrifunum að fyrirfram hefði ég ekkert endilega búist við því að verkefnið lægi vel fyrir henni. En hún nær að beisla krafta sína og gefa mjög sannfærandi mynd af þessari konu. Við vissum alltaf hvað hún var að hugsa, en skildum jafnframt vel hvers vegna aðr- ar persónur létu blekkjast af yfirborð- inu. Undir lokin sýnir Vala okkur svo í eitt andartak hverju frú Merteuil hefur fórnað til að verða sá ótvíræði sigur- vegari sem hún er í samkvæmisleikn- um. Því þó þú getir brosað með gaffal í lærinu þá breytir það því ekki að hann skilur eftir sár, og ef þú telur þér trú um að blekkingin sé raunveruleikinn og vanrækir sárið er sýking á næsta leiti. Hversu dýrmæt eru stigin sem þú færð fyrir að missa ekki brosið? Ungu elskendurnir Danceny og Cecile eru prýðilega teiknuð af Agnari Jóni Egils- syni og Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, og eins og hæfir á okkar kaldhæðnu öld voru þau helsta uppspretta fyndi í sýningunni, ekki síst ástarljóð þau sem Danceny hafði sótt í íslenska dægur- lagatexta og þuldi yfir ungmeynni. Jón Páll Eyjólfsson er Valmont og er sannfærandi flagari, geislar af sjálfsöryggi og skeytingarleysi um aðra. Ekki náði Jón eins vel utan um umskipti persónunnar, hvernig hann flækist sjálfur í neti því sem hann legg- ur fyrir frú Tourvel. Að sumu leyti er þetta leikgerðarinnar sök, þau tvö fá mögulega of lítið pláss til að sýna þró- un sambandsins. Þetta bitnar enn frek- ar á Kristjönu Skúladóttur í vanþakk- látu hlutverki hennar, frú Tourvel verður ekki skýr persóna að þessu sinni. Sterkust var Kristjana þó þegar mest á reyndi, þegar hún gefst upp fyr- ir Valmont. Hið óbærilega atriði þegar hann segir skilið við hana var hins veg- ar þannig staðsett í rýminu og lýst að erfitt var að njóta þess eða átta sig á viðbrögðum hennar við makalausri ræðu elskhugans. Hættuleg kynni segir spennandi og áhrifaríka sögu sem heldur áhorfand- anum við efnið. Fram hefur komið að sýningin er sprottin úr ástríðuþrung- inni þörf aðstandenda til að segja þessa sögu, en herslumuninn vantar til að þessari ástríðu sjáist stað í sýningunni. Maður saknar ferskari sýnar á efnið, róttækari lausna og meiri kynferðis- legri spennu. Útkoman er prýðileg skemmtun, ágæt kvöldstund í leikhús- inu, en sálarháskann skortir. LEIKLIST Dansleikhús með ekka Byggt á Les Liasons Dangereuses eftir C. de Laclos. Leikstjóri: Aino Freyja Järvelä, aðstoðarleikstjóri: Hrefna Hallgríms- dóttir, tónlist: Ingibjörg Stefánsdóttir og Hallur Ingólfsson, hreyfingar: Jóhann Freyr Björgvinsson, búningar: Guðrún Lárusdóttir, lýsing: Alfreð Sturla Böðv- arsson, förðun: Elín Reynisdóttir, hár: Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir. Leikendur: Agnar Jón Egilsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Kristjana Skúladóttir og Vala Þórsdóttir. Borgarleikhúsinu 19. október 2003. HÆTTULEG KYNNI Ekkert pláss fyrir ást Morgunblaðið/Árni Sæberg „Útkoman er prýðileg skemmtun, ágæt kvöldstund í leikhúsinu, en sálarháskann skortir,“ segir m.a. í umsögninni. Jón Páll og Kristjana í hlutverkum Valmonts og Tourvel. Þorgeir Tryggvason
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.