Morgunblaðið - 27.12.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 27.12.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 LAUGARDAGUR 27. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ REBEKKA, þá 13 ára að aldri, var á leiðinni að heiman frá sér í Áslandi á íþróttaæfingu hjá Aftur- eldingu í íþróttahúsinu á Varmá þegar hún varð fyrir fólksbíl á Vesturlandsveginum um kvöld- matarleytið daginn örlagaríka. Er það talið hafa orðið henni til lífs að læknir var fyrir tilviljun með þeim fyrstu á slysstað og tókst honum að blása lífi í Rebekku. Hún var flutt meðvitundarlaus og með mikla áverka á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Re- bekku var haldið sofandi í önd- unarvél á gjörgæsludeildinni í Fossvogi í tvær vikur. Hún tví- hálsbrotnaði, tvíbrotnaði á öðrum fæti og hlaut töluvert höfuðhögg. Er hún komst til meðvitundar var ljóst að hún hafði orðið fyrir heila- skaða sem meðal annars hafði mikil áhrif á hreyfi- og snerti- skynið. Ekki er um neina lömun að ræða en Rebekka á erfitt með að stjórna hreyfingum og hana skort- ir tilfinningu fyrir jafnvægi, auk þess sem skammtímaminnið er takmarkað enn sem komið er. Þannig man hún ekkert eftir slys- inu og hvernig það bar til. Ströng endurhæfing Frá gjörgæsludeild fór Rebekka á barnadeild spítalans í Fossvog- inum og þrír mánuðir liðu þar til hún fékk að fara heim til sín í fyrsta skipti, aðeins í nokkra tíma í senn. Við tók ströng og erfið endurhæfing; jafnt sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, og það var ekki fyrr en í lok júní síðast- liðins að hún kom heim til að sofa yfir nótt. Hafði hún þá verið á Grensásdeild eftir að barnadeild- inni var lokað í Fossvogi. Síðan í lok júní hefur Rebekka sofið heima en farið daglega í end- urhæfingu á Grensásdeild Land- spítalans. Hún er farin að fá meiri mátt í fætur og hendur, getur til dæmis staðið óstudd í skamma stund og kastað bolta, og tjáningin tekur jöfnum framförum. Ólöf segir að í sumar hafi Re- bekka tekið stórt stökk fram á við í endurhæfingunni. Þá hafi hún m.a. komist á hestbak og öðlast meiri matarlyst og kraft. Telur Ólöf að þar hafi náttúrulyf haft sitt að segja sem hún fór að gefa dóttur sinni. „Áður kvartaði hún mikið yfir því hvað hún var þreytt en núna er hún það ekki svo mikið lengur,“ segir Ólöf og er greini- lega ánægð með framfarirnar þrátt fyrir mjög erfiða fyrstu mánuði í endurhæfingu. „Nú gengur þetta betur, er það ekki?“ spyr hún dóttur sína og Rebekka jánkar með sínu hlýja brosi. Eftir áramótin byrjar Rebekka á ný í Varmárskóla með kennslu hálfan daginn í völdum greinum. Þegar hún er spurð hvort hún hlakki ekki til að fara í skólann og hitta krakkana ljómar hún öll og segir „jú“. Frá því í haust hefur hún fengið kennslu tvisvar í viku á Barnaspítala Hringsins og hina dagana hefur kennari komið til hennar á Grensásdeild. Ólöf segir að vegna skólagöngunnar eftir áramót þurfi að draga eitthvað úr sjúkraþjálfuninni en tekið verði til við hana af krafti næsta sumar. Að sögn Ólafar hefur mikið keppnisskap fleytt Rebekku áfram í endurhæfingunni. Hún var líka vel á sig komin líkamlega er slysið varð en áður var hún mikið í íþróttum, bæði fót- og handbolta með Aftureldingu og þar áður lengi í fimleikum há Ármanni þar sem hún vann margsinnis til verð- launa og þótti mikið efni. Eftir slysið hefur Ólöf verið meira og minna frá vinnu sinni hjá Reiknistofu bankanna. Hún segir vinnuveitendurna hafa sýnt að- stæðum sínum mikinn skilning og fyrir það sé hún ákaflega þakklát. Einnig hafi stuðningur og hlý- hugur komið frá fjölskyldu og vin- um, svo ekki sé minnst á Aftureld- ingu sem efndi til knattspyrnumóts síðasta vetur til stuðnings Rebekku. Fyrir allt þetta sé hún ákaflega þakklát. „Hins vegar finnst mér að ríkið mætti koma meira til móts við fólk í þessari stöðu. Ekki væri óeðli- legt að foreldrar í svona stöðu fengju fæðingarorlof. Þá langar mig að taka fram að við höfum kynnst mörgu góðu fólki á árinu, bæði starfsfólki í heilbrigðiskerf- inu og öðrum,“ segir Ólöf. Mikilvægt að öðlast trú Álagið hefur verið mikið á heim- ilinu og umönnunin lent að miklu leyti á fjölskyldunni, sem var yfir Rebekku á spítalanum fyrstu mán- uðina eftir slysið, jafnt mamman, pabbinn og amman. Eftir að Re- bekka kom heim og fór í end- urhæfingu á Grensásdeild hefur Ólöf sótt hana þangað daglega og stutt með ráðum og dáð. „Auðvitað var þetta slys mikið áfall fyrir okkur öll. Í fyrstu var maður í afneitun en það gengur yfir. Vinnan er töluverð í kringum Rebekku og mikill tími fer til dæmis í að hafa ofan af fyrir henni eftir að heim kemur, mata hana og klæða, því hún getur fátt gert hjálparlaust enn sem komið er. Einnig er mikilvægt að hún öðlist trú því trúin flytur fjöll og við biðjum saman á hverju kvöldi. Seinni partinn af árinu hefur heil- mikill tími farið í samskipti við hinar ýmsu stofnanir sem koma að svona málum og láta gera nauð- synlegar breytingar á húsnæði vegna fötlunar Rebekku,“ segir Ólöf. Hún sér fram á mikla vinnu hjá Rebekku næstu árin í námi og endurhæfingu. „Ég heyrði haft eftir Örnólfi Thorlacius að maður þyrfti að vera mjög hraustur til að vera sjúklingur,“ segir Ólöf og kímir. Læknar hafa ekki viljað gefa upp neinar batahorfur hjá Re- bekku. Þeir telja að fimm ár eða meira geti liðið þar til endanlegum bata verði náð. „En við ætlum ekkert að gefast upp, er það?“ spyr Ólöf dóttur sína og Rebekka segir „nei“. Samstilltar horfast þær mæðgur í augu með bros á vör. Líf ungrar stúlku í Mosfellsbæ breyttist á svipstundu 6. nóvember árið 2002 er hún varð fyrir bíl á Vesturlandsvegi og slasaðist mjög alvarlega. Eftir langa og stranga endurhæf- ingu er hún á hægum en stöðugum batavegi og byrjar á ný eftir áramót í Varmárskóla. Björn Jóhann Björnsson og Kristinn Ingvarsson heimsóttu Rebekku Önnu Allwood og móður hennar, Ólöfu Þráinsdóttur, skömmu áður en jólahátíðin gekk í garð. Morgunblaðið/Kristinn Rebekka Anna Allwood og Ólöf Þráinsdóttir eru samstilltar mæðgur og hafa með þrautseigju og þolinmæði tekist á við þau alvarlegu meiðsl sem Rebekka hlaut í slysinu 6. nóvember fyrir rúmu ári. Á borðstofuborðinu á heimili Rebekku er mynd af henni á verðlaunapalli er hún stundaði fimleika hjá Ármanni. Þótti hún efnileg íþróttakona og vann til margra gullverðlauna í fimleikum. Við ætlum ekkert að gefast upp bjb@mbl.is LÖGREGLUMAÐUR á frívakt sýndi snarræði þegar hann og aðrir íbúar í fjölbýlishúsi við Leirubakka slökktu eld í kertaskreytingu í íbúð nágranna síns á jóladag. „Ég var inni hjá mér að lesa í bók þegar ég heyrði í reykskynjaranum í íbúðinni á móti. Þeg- ar ég kem fram á ganginn eru aðrir íbúar komnir líka. Við börðum á dyrnar en það var enginn heima. Þá var ekki annað að gera en að fara út á svalir, og þaðan sáum við eld í kertaskreytingu,“ segir Sigurbjörn Jónsson lögreglumaður. Þegar Sigurbjörn leit inn um gluggann stóð kertaskreyting á borðstofuborði í ljósum logum, kertið var brunnið upp og farið að loga í skreyt- ingunni. „Það var ekki annað að gera en brjóta gluggann til að komast að þessu, við vorum svo hræddir um að þetta færi í gardínurnar, þetta var svo nálægt glugganum.“ Einn af nágrönnum Sigurbjarnar braut því gluggann, óð inn og henti logandi skreytingunni út. „Við ætluðum að nota slökkvitæki, en af því ég þekki þetta úr minni vinnu þá veit ég að það er vont að þrífa eftir slökkvitæki.“ Eigendur íbúðarinnar voru að vonum ánægðir með nágranna sína þegar þeir komu heim. Hús- móðirin mundi eftir því að hafa skilið kertið eftir logandi. Hentu logandi kertaskreytingunni út TVEIR menn voru handteknir í Grindavík að kvöldi jóladags fyrir að standa að ólöglegri brennu. Að sögn lögreglu höfðu 25 til 30 ung- menni safnast saman þar sem búið var að stafla brettum og fleiru í eld- stæði sem er í miðjum bænum. Lögregla fylgdist með, fjarlægði bretti og sagði fólkinu að ekki væri heimilt að kveikja í brennu þarna. Að lokum var þó kveikt í nokkrum brettum, og voru tveir menn hand- teknir. Annar var handtekinn fyrir að kveikja í brennunni og hinn fyrir að koma með efni í brennuna og kaupa hráolíu til að kveikja upp með. Mennirnir höfðu ekki sótt um leyfi fyrir brennunni, og hefðu sennilega ekki fengið það þó þeir hefðu sótt um, enda brennustæðið í miðjum bænum, að sögn lögreglu. Þeim var sleppt að loknum yfir- heyrslum í gærmorgun. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson Kveikt var í brennu í eldstæði við Sólarvé í Grindavík á jóladags- kvöld. Kveiktu í ólöglegri brennu í Grindavík MAÐUR, sem gerði tilraun til mann- ráns á Seyðisfirði aðfaranótt Þor- láksmessu er hann hafði á brott með sér fjögurra ára stúlku af heimili hennar, hefur þegar hafið afplánun í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík vegna fyrri dóma. Hann var fluttur suður á Þorláks- messukvöld í fylgd lögreglumanna og á hann yfir höfði sér ákæru vegna málsins á Seyðisfirði. Vegna fyrri dóma þótti ekki ástæða til að úr- skurða hann í gæsluvarðhald. Eins og fram kom í Morgun- blaðinu á aðfangadag heyrði faðir stúlkunnar til ræningjans og tókst að stöðva hann rétt fyrir utan húsið og endurheimta barn sitt. Að sögn Lárusar Bjarnasonar, sýslumanns á Seyðisfirði, er ekki vitað til þess að maðurinn hafi átt í útistöðum við fjölskyldu stelpunnar eða að einhver tengsl hafi verið þar á mill aðila. Lár- us segir málið vera til rannsóknar og að því loknu verði það sent til rík- issaksóknara til frekari meðferðar. Barnsræn- ingi afplánar fyrri dóma STEFNT er að opnun í Bláfjöllum í dag, laugardag. Opið verður frá klukkan 12–18. Skíðalyftur í Suðurgili verða í gangi. Unnið var að undirbúningi í gær og voru aðstæður ágætar. Spáð er NA 5–10 m/s og bjartviðri. Nánari upplýsingar um aðstæður eru á sím- svara Bláfjalla 570 7711 og á vefslóð- inni www.skidasvaedi.is Opið í Blá- fjöllum í dag ♦ ♦ ♦ ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.