Morgunblaðið - 27.12.2003, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 27.12.2003, Blaðsíða 16
LISTIR 16 LAUGARDAGUR 27. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Sporvagninn Girnd eftirTennessee Williams verðurfrumsýndur á Nýja sviðiBorgarleikhússins í kvöld. Fegurðardísin Blanche kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir alls staðar við og hið eina sem hægt er að binda vonir við er þráin – girndin – og ástin – sem því miður þrífst best í meinum. Thomas Lanier Williams fæddist hinn 26. mars árið 1911, í bænum Colombus, Mississippi. Williams var aðeins 17 ára gamall þegar hann hlaut sína fyrstu viðurkenningu fyrir ritstörf: þá vann hann ritgerða- samkeppni í tímariti og vann 5 doll- ara verðlaun fyrir grein sína – Getur góð eiginkona verið góður félagi? – Tuttugu og átta ára gamall tók hann sér formlega nafnið sem hafði verið gælunafn hans í skóla: Tennessee – en faðir hans fæddist í Tennessee- fylki. Williams var sískrifandi, en það var árið 1944 sem Glerdýrin voru frumsýnd í Chicago og ári síðar á Broadway og breyttu lífi Tennessee Williams – og leiklistarsögunni. Sporvagninn Girnd var frum- sýndur á Broadway árið 1947 og fyrir hann fékk Tennessee Williams Pul- itzer-verðlaunin. Marlon Brando, þá 23 ára gamall og óþekktur, fór með hlutverk Stanleys, Jessica Tandy lék Blanche og Kim Hunter lék Stellu. Sýningin var leikin 855 sinnum á Broadway. Elia Kazan gerði eftir leikritinu fræga kvikmynd fjórum ár- um síðar, þar sem Marlon Brando og Kim Hunter fóru áfram með hlut- verk Stanleys og Stellu, en Vivien Leigh, sem lék í London-uppfærsl- unni á leikritinu árið 1949, með hlut- verk Blanche. Myndin var umdeild; hlaut þó 12 tilnefningar til Óskars- verðlauna og vann fern. Fíngerð og falleg sál í vanda Tennessee Williams var öðrum þræði utangarðs við samfélag sitt; hann fór ekki leynt með samkyn- hneigð sína, sem var ekki við- urkenndur lífsmáti um miðja síðustu öld, systir hans var geðsjúklingur og sjálfur hafði hann ungur fengið taugaáfall og óttaðist um geðheilsu sína alla tíð. Hann átti við þunglyndi og áfengis- og lyfjavanda að stríða á köflum, og sá virðist hafa orðið hon- um að aldurtila tæplega 72 ára að aldri. Saga hans sjálfs og fjölskyldu hans er oft efniviður verka hans, bæði leynt og ljóst. Í uppfærslunni í Borgarleikhúsinu leikur Sigrún Edda Björnsdóttir burðarhlutverk leikritsins, Blanche Dubois. Blanche er margbrotin persóna; kona sem hefur lifað mögnuðu lífi. Hún er ar- istókrat, en hefur aldrei verið nógu sterk til að standa með sjálfri sér. Sigrún Edda segir að Blanche sjái tilvist sína út frá þeim karlmönnum sem hún hefur kynnst, og hafi enga sjálfsvirðingu nema í gegnum þá. „Hún er þó afskaplega fíngerð og fal- leg sál,“ segir Sigrún Edda. Þegar aldurinn færist yfir Blanche missir hún tökin á lífinu, vegna þess að hún er hrædd við að standa ein og sjálf gagnvart því, og smám saman brýtur óttinn hana niður. „Við færum sýninguna nær okkar samtíma, þannig að sá heimur sem Blance hefur hrærst í er mjög harð- ur. En Blanche snýr aftur úr fortíð- ina og bankar á dyr, einu sinni enn, til að kanna hvort hún eigi sér ennþá von. Hún er talsmaður fegurð- arinnar, tónlistarinnar og bókmennt- anna, þótt hún sé fallin manneskja, og það er svo áhugavert í hennar fari. Heimsókn hennar til Stellu systur sinnar er hennar síðasta von.“ Spennan í samskiptum persón- anna er mikil, Sigrún Edda lýsir því þannig að það sé eins og verið sé sí- fellt verið að taka utan af nýjum og nýjum pakka. „Við erum alltaf að uppgötva eitthvað nýtt um þessar persónur. Blance kemur þangað eins og óskrifað blað, en jafnt og þétt er verið að fletta ofan af leyndarmál- unum. Samband systranna er í grunninn mjög fallegt og kærleiks- ríkt, en þó mjög átakamikið og erfitt. Blanche er þannig gerð, að hún þarf að sjálfsögðu að máta sig við Stanley, mann Stellu, eins og hún mátar sig við alla aðra menn. Hún segist ekki geta verið bara venjuleg mágkona í heimsókn; – hún þarf alltaf að fá við- urkenningu, og það veldur spenn- unni. Blanche er eins og brotinn spegill, og sókn hennar eftir við- urkenningu er hennar veikleiki. Hún þarf alltaf að fá staðfestingu á því að hún sé gjaldgeng í tilverunni. En Blance lifir í blekkingu. Hún vill láta Stanley halda að hún sé heiðvirð pip- armey og lýgur meðan hún getur. Hún er alveg mögnuð. Mér þykir óskaplega vænt um hana, en maður botnar ekki alltaf í henni. En þegar breyskleikinn opinberast kemur sannleikurinn líka í ljós. Það eru ein- mitt brestirnir í manneskjunni sem eru svo áhugaverðir.“ Fleyg er setning Blanche undir lok leikritsins: „Ég hef alltaf átt athvarf í faðmi ókunnugra“, og oft til hennar vitnað. Sigrún Edda segir að óttinn hafi rekið Blanche áfram úr einum faðmi í annan og að það hafi alltaf verið henni fróun á meðan á stóð. „Blanche er þannig gerð, að hún reiknar með því að hvert einasta samband hennar með karlmanni, endi með hjónabandi. Þannig fær hún stundarhvíld, eina nótt, – og það eru einu stundirnar sem hún hvílist. Það er þetta sem mér finnst þessi setning segja. Hún treystir á ókunnuga.“ Dramatísk ástarsorg Undirrótina að hegðun Blance má eflaust skýra með dramatískri ást- arsorg hennar þegar hún var sextán ára gömul. Hún verður ástfangin af ungum pilti, sem reynist svo vera hommi. Henni er hafnað. „Þar brotn- ar hún fyrst og þar byrjar leikurinn. Við hittum Blanche þegar hún hefur náð botninum – að því er við höldum. Það er þó ansi langt niður á þann botn.“ Sigrún Edda segir mikla ögrun að takast á við Blanche Dubois og að Blanche hafi yfirtekið líf hennar, meðan á undirbúningi sýningarinnar stóð. „Þetta er búið að vera bæði of- boðslega erfitt, en líka alveg stór- kostlegt. Það er hægt að fara svo margar leiðir. Það hefur verið skrifað gífurlega mikið um Blanche og ég hef lesið mikið um hana. Hún hefur verið túlkuð á svo margan mismunandi hátt. Það endar með því að maður ákveður að skapa sína eigin Blanche – maður verður að byrja út frá sínu eigin hjarta.“ Leikhópurinn í Sporvagninum Girnd hefur náð vel saman að sögn Sigrúnar Eddu, og samvinnan við leikstjórann, Stefán Jónsson, sér- staklega ánægjuleg. „Hann veit hvað hann vill og er með mjög skýrt konsept og öflugt. Ég held að okkur hafi tekist að finna flöt á verkinu sem á erindi við fólk í dag. Þannig er klassíkin, – hún á allt- af við. Í túlkun okkar leggjum við áherslu á fegurðina í ljótleikanum, þann harða heim sem við búum í, og að við þurfum að hlúa að hinu brotna, bogna og veika, vegna þess að það eru dýrmæti í því.“ „Við leggjum áherslu á fegurðina í ljótleikanum“ Kærleiksríkt en erfitt samband. Systurnar Blanche og Stella. Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir leikrit Tennessees Williams Sporvagninn Girnd í Borgarleikhúsinu í kvöld. Sigrún Edda Björnsdóttir fer með hlutverk föllnu þokkadísarinnar Blanche Dubois. Bergþóra Jónsdóttir ræddi við Sigrúnu Eddu um konuna sem hefur alltaf átt athvarf í faðmi ókunnugra. begga@mbl.is Morgunblaðið/Árni Sæberg „Engin venjuleg mágkona í heimsókn.“ Björn Ingi Hilmarsson og Sigrún Edda Björnsdóttir (Blanche). Harpa Arnardóttir (Stella). Björn Ingi Hilmarsson (Stanley). eftir Tennessee Williams Þýðing: Örnólfur Árnason og Jón Atli Jónasson Leikstjórn: Stefán Jónsson Lýsing: Kári Gíslason Búningar: Stefanía Adolfsdóttir Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson og Haukur Karlsson Hljóðmynd: Jón Hallur Stefánsson Tónlist: Lestir frá Reykjavík Leikarar: Blanche Dubois: Sigrún Edda Björnsdóttir Stella Kowalski: Harpa Arnardóttir Stanley Kowalski: Björn Ingi Hilmarsson Harold Mitchell (Mitch): Pétur Einarsson Eunice Hubbel: Katla Margrét Þorgeirsdóttir Steve Hubbel: Þór Tulinius Sporvagninn Girnd

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.