Morgunblaðið - 14.02.2004, Side 43

Morgunblaðið - 14.02.2004, Side 43
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 2004 43 arið 1986 og hófuð búskap. Þið áttuð saman þrjár stúlkur, Þóru Birgit 1988, Steinunni Lilju 1991 og Helgu Rut 1993. Saman áttuð þið fimm dætur sem þykir ansi mikið í dag en þú varst nú svo mikil barnagæla að þér fannst þetta ekkert mál. Þið voruð yfirleitt hjá mér í Reykjavík þegar þið þurftuð að koma í bæinn og alltaf var mikið fjör, mikið af börnum, þá varstu dregin í búðir og fleira. Þá var spjallað fram á nótt, reynt að nýta tímann sem þið voruð í bænum í ým- islegt. Við fórum í margar útilegur á sumrin og ég er svo fegin að ég skuli hafa dregið ykkur með mér í eina slíka síðasta sumar, sem lukkaðist mjög vel. Við byrjuðum á því að hitt- ast hjá móður minni á Laugarvatni en það var nú komin lítil hefð fyrir því að vera þar um verslunarmanna- helgi í faðmi fjölskyldunnar. Svo fór- um við í fjallaferðir yfir Sprengisand og Kjöl og Norðurlandið var heim- sótt líka. Trúa, trygga vina kæra, til þín eru þessi ljóð. Þér ég vil nú þakkir færa, þú ert mér svo fjarska góð. Það er yndi að una hjá þér, eiga með þér glaða stund, endirminning ég í lifi, sem ennþá kætir mína lund. Yndisstund við áttum saman, ó, hve tíminn leið þá fljótt. Alltaf var svo undurgaman; oft var spjallað fram á nótt. Spaugsyrðin mér spruttu af vörum, spaug er mesta lífsins hnoss. Þér ég sendi ástarþakkir, og í anda vinarkoss. (Nanna Jónsdóttir.) En nú ertu farin og kveð ég þig með sorg í hjarta. Ég vil senda bróð- ur mínum Jóa, Öllu Hönnu, Hjördísi Ingu, Þóru Birgit, Steinunni Lilju, Helgu Rut, foreldrum Báru og systkinum mínar innilegustu sam- úðarkveðjur. Ásta mágkona. Kær og elskuleg systurdóttir mín er dáin og horfin frá okkur. Hrifin burt eins og í slysi, fyrirvaralaust. Hvílík sorgarfregn. Hraustri og lífs- glaðri konu, móður fjögurra barna, er kippt burt í miðjum erli dagsins. Maður situr eftir magnlaus og spyr sig: hver er tilgangurinn með lífi okkar hér, hvernig má þetta þetta vera? Eina vonin er að við því fáist svör á hinsta degi lífsins. Þegar systir mín hringdi á miðjum degi og sagðist þurfa að segja mér mikil sorgatíðindi var eins tíminn hægði á sér. Hvað hefur komið fyrir? Hún Bára, hennar Þóru systur okkar, er dáin, hún varð bráðkvödd sagði röddin í símanum. Nei, það getur ekki verið, þetta hlýt- ur að vera misheyrn. Bára var næstelsta barn Þóru systur minnar og Svenna, manns hennar. Því hagði svo til á æsku- heimili okkar í Borgarhól að þar var Þóra næstum daglega, trú og trygg okkur, og alltaf með börn sín með sér. Þau voru á líkum aldri og yngsta systir okkar og þess vegna fannst manni að Bára og Ágústa, systir hennar, væru eins og hálf- systkini okkar. Ég man hvað mér þótti mikið til þess koma eitt vorið þegar Þóra spurði mig hvort ég vildi ekki vera í vist hjá henni um sumarið og passa Báru sem var nýorðin eins árs. Svo sannarlega, svaraði ég og mér fannst pössunin ganga vel. Bára var rólegt barn, sæt og lítið fyrir henni haft. Bára var alla tíð ljúf, sem barn, unglingur og fullorðin kona, og eftir því bóngóð. Þá hlið hennar þekkti ég vel. Við unnum mörg ár saman í Ís- félagi Vestmannaeyja og stjórnaði Bára á gólfinu (eins og það var kall- að) af mikilli röggsemi. Allir hlutir voru á hreinu hjá henni, það þýddi lítið fyrir okkur að efast um bók- haldið, allar pönnur skrifaðar. Skemmtilegar minningar rifjast frá þessum árum, eins og þegar við vor- um að undirbúa slúttin í vertíðarlok. Þar vantaði Báru ekki, hún sá um að allir væru myndaðir og það skapaði góðar stundir hjá okkur næstu vikur þegar hún mætti með albúmin til að sýna okkur. Bára var ótrúlega blátt áfram, sannarlega ekki pjöttuð og lét ekki smámuni setja sig út af lag- inu. Hún gekk í öll verk, jafnt þau sem sem konur vinna oftast og þau sem karlar taka sér helst fyrir hendur. Henni óx ekki í augum að gera við bílana, brá sér í gryfjuna ef eitthvað bilaði. Hún lagaði hjólin fyrir krakk- ana í nágrenninu og mömmurnar í hverfinu sögðu stundum við strák- ana sína: Pabbi ykkar er kominn heim af sjónum og getur gert við hjólin, leyfið þið Báru nú að hafa frið. Fyrsta búskap sinn byrjaði Bára á loftinu hjá ömmu sinni á Þorvalds- eyri við Vestmannabraut. Þar bjuggu þær mæðgur, Bára og Alla Hanna, elsta dóttir Báru. Frum- burðurinn fékk nafn langömmu sinnar og það sambýli gekk vel. Mamma naut greiðvikni Báru á öll- um sviðum og endalausrar þolin- mæði, en passaði svo fyrir hana í staðinn. Árið 1985 kynntist Bára eftirlif- andi manni sínum, Jóhannesi Stein- ólfssyni, og þau eignuðust þrjár myndarlegar dætur. Bára og Jói voru afar samrýnd hjón og miklir vinir, með sömu áhugamál og gerðu hlutina saman, þótt fjarvistir hans væru miklar eins og verða vill hjá sjómönnum. Í þessum fáu línum mínum um Báru frænku get ég ekki látið hjá líða að minnast á það einstæða og sterka samband sem var á milli Báru og mömmu hennar, svo ótrú- lega nánar sem þær mæðgur voru. Enginn dagur leið svo að þær sæj- ust ekki eða töluðu saman, vissu um allar ferðir hvor annarrar, allt stórt og smátt sem á var prjónunum. Síðustu árin vann Bára á leikskól- anum Kirkjugerði og líkaði það vel, var farin að læra á gítar svo að hún gæti nú sungið fyrir börnin, alltaf ráðin í því að bjarga sér. En svo bregður birtu, eins og um miðjan dag, og ósköp dynja yfir. Megi góður guð hjálpa Jóa og dætr- um þeirra, Þóru og Svenna, systk- inum og öðrum ástvinum að yfir- stíga þessa miklu sorg. Minning um góða eiginkonu og mömmu, sem allt- af var til staðar fyrir fjölskyldu sína, hlý og góð og trygg hlýtur að verða þeim mikils virði þegar líður frá þessum erfiða tíma. Þuríður Bernódusdóttir. Það er með sorg í hjarta sem ég sest niður til að skrifa nokkur orð um systurdóttur mína, Báru Sveins- dóttur, sem lést svo skyndilega hinn 4. febrúar síðastliðinn, frá eigin- manni og fjórum dætrum. Ég hef þekkt Báru alla ævi og má eiginlega segja að við höfum alist upp saman því að mikill samgangur var í fjölskyldunni og aðeins árs ald- ursmunur á okkur. Það eru því margar minningar sem koma upp í hugann þegar litið er til baka yfir æsku- og unglingsár. Minnisstæðast er þó þegar gosið kom í Vestmanna- eyjum. Þá vorum við níu og tíu ára. Um tíma bjuggu fjölskyldur okkar saman í sumarbústað í Ölfusborgum og ég gleymi aldrei þegar við sátum í rólunum þar og veltum vöngum yf- ir ranglæti heimsins sem okkur fannst alveg sérstaklega beint að okkur, bærinn okkar undir ösku, við áttum að búa í einhverjum sumarbú- stað og fara í nýjan skóla í Hvera- gerði. En allt blessaðist þetta og fjölskyldan fluttist fljólega aftur til Eyja og þar bjó Bára síðan alla tíð. Þegar Bára var um tvítugt eign- aðist hún dótturina Aðalbjörgu. Þær bjuggu um tíma á loftinu hjá okkur mömmu á Þorvaldseyri. Sú sambúð gekk alltaf vel enda gaman að hafa barn í húsinu. Síðan kynntist Bára eiginmanni sínum, Jóhannesi Stein- ólfssyni, og brátt voru þær mæðgur fluttar burt. Jói og Bára keyptu sér hús á Búhamri 28 og þar bjuggu þau sér myndarheimili. Síðan fæddust dæturnar hver af annarri. Bára var húsmóðir á þessum tíma en hafði áð- ur unnið ýmis fiskvinnslustörf. Þeg- ar dæturnar stækkuðu fór hún að vinna á leikskólanum Kirkjugerði og líkaði það vel. Bára var mikil dugnaðarkona og fannst ekki mikið mál að stjórna stóru heimili þegar eiginmaðurinn var mikið að heiman á sjó. Það var alveg sama hvort það var að laga bíl- inn, mála, sauma eða baka, mér fannst hún alltaf geta allt. Og það var hrópað húrra á mínu heimili þegar fréttist af afmælisveislu hjá Báru, þá var alltaf stórt veisluborð og allt gert svo vel. Bára var sérstök persóna. Ég man aldrei eftir að okkur hafi orðið sundurorða, hún var mjög hrein og bein og einstaklega jafnlynd. Það var alveg sama hvenær maður hitti hana, alltaf var hún eins, bæði greið- vikin og þægileg í umgengni. Og það var stutt í húmorinn og léttleikann ef því var að skipta. Bára átti fáa en trausta vini. Fjölskyldan var henni allt og velferð barnana sinna hafði hún alltaf í fyrsta sæti. Þá var sam- band hennar við móður sína alltaf mjög náið og þær hittust og töluðu saman á hverjum degi. Það er erfitt að finna einhver huggunarorð á þessari erfiðu stundu, manni fannst Bára hafa átt svo margt ógert og ekki búin að lifa lífinu, og maður skilur ekki af hverju hún var hrifin burt svo snögglega. Ég bið góðan guð að gefa Jóa og dætrunum, Þóru og Svenna, systk- inum og fjölskyldu, styrk og huggun í þessari miklu sorg. Ég er þakklát fyrir að hafa átt Báru sem frænku og vinkonu og geymi minninguna um hana í hjarta mér um ókomna tíð. Elín Helga Magnúsdóttir. Hún Bára frænka okkar er farin frá okkur og við skiljum ekki af hverju, af hverju Drottinn tekur svona unga konu frá ástvinum sín- um alltof snemma. Við reynum að finna svör við þeim spurningum sem leita á huga okkar en við verðum að trúa því að það sé einhver tilgangur með þessu öllu saman. Bára var kona í blóma lífsins sem átti dásamlegt líf framundan með Jóa sínum og stelpunum þeirra, já stelpunum sem eru lifandi minning móður sinnar.Þegar við hugsum um Báru þá munum við eftir rólynd- iskonu með mikið jafnaðargeð. Hún lét ekkert hindra sig í lífinu, gekk í öll störf hvort þau sneru að bílnum, mála húsið eða að halda utan um stórt heimili í fjarveru Jóa. Bára var góð frænka og traust og minnumst við systurnar góðra stunda sem við áttum með henni. Við vitum að hún er ekki einmana í himnanna ríki því að amma og afi eru hjá henni og um- vefja hana örmum sínum. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þó ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. (Úr 23. Davíðssálmi) Kæra fjölskylda, missir ykkar er svo mikill. Við biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í þessari miklu sorg. Minning um yndislega frænku lif- ir. Berglind, Paloma og Sonja. Það var mikið áfall að frétta af fráfalli Báru vinkonu. Hún sem var svo ung og með stóra fjölskyldu sem þarf að sinna. Af hverju? Af hverju hún? Því oftar sem ég spyr mig þessara spurninga, því sannfærðari verð ég um að tilgangur lífsins er eitthvað annað og meira en sú jarðvist sem við þekkjum. Okkar bíða stærri verkefni á öðrum stað sem er okkur ókunnur. Og þeir sem eru kvaddir ungir til þessa nýja staðar eru þeir sem hafa meira til að bera en við hin og þeirra er þörf á þessum ókunna stað. En það er gott af því að vita að þegar okkar tími kemur mun Bára vera til staðar og leiða okkur um ókunn lönd. Bára var algjör gersemi sem hægt var að treysta á hvenær sem á þurfti að halda. Okkar leiðir lágu fyrst saman þegar við vorum 13–14 ára gamlar. Við urðum miklar vinkonur strax í upphafi og bröll- uðum margt saman. Þó að leiðir lægju ekki alltaf saman þegar á full- orðinsár kom héldum við þó alltaf sambandi og það var einhver órjúf- anleg tenging á milli okkar. Bára var sannkölluð ofurkona og sem dæmi um það þá lenti ég í vandræð- um með að festa upp myndir og hill- ur þegar ég flutti inn í nýja íbúð og nefndi það við Báru. Hún taldi það nú ekki mikið vandamál og mætti með borvél og skrúfur og bjargaði því sem bjarga þurfti. Þarna var Bára ljóslifandi komin og á ég marg- ar minningar svipaðar þessari sem ég geymi innst í hjarta mér. Það er vissulega sárt fyrir okkur sem eftir sitjum að sjá á eftir góðri vinkonu en sorgin er þó mest hjá Jóa, Öllu Hönnu, Þóru Birgittu, Steinunni og Helgu Rut sem nú kveðja góða eiginkonu og móður, auk Svenna og Þóru sem kveðja dóttur sem var allt of fljótt kvödd til annarra verkefna. Megi góðir straumar styrkja ykkur ásamt Hjör- dísi, Ágústu, Bedda og öðrum sem um sárt eiga að binda. Þórunn Þorsteinsdóttir og fjölskylda, Bretlandi. Hún elsku Bára okkar er dáin. Bára fæddist hinn 1. maí árið 1962 og hefði því orðið 42 ára í ár. Þegar maður er einungis 41 árs finnst manni maður enn vera kornungur og er á þessum árum að fylgjast með börnunum sínum vaxa úr grasi, en Bára átti fjórar stelpur og eina fósturdóttur svo í nógu var að snú- ast á þeim bænum. Við sem unnum með Báru heyrðum hana aldrei kvarta yfir einu né neinu, hún sem vann allan daginn hjá okkur, var með þetta stóra heimili og í vinnulok hvers dags kíkti hún í kaffi til for- eldra sinna því hún sagði alltaf við okkur: Hún mamma myndi halda að eitthvað væri að hjá mér ef ég kæmi ekki við hjá henni eftir vinnu. Á deildinni okkar eru tveggja til fjög- urra ára börn og þessum yngstu fannst voða gott að skríða upp í fangið á henni og kúra þar pín- ustund, okkur hinum oft til undr- unar því að Bára var ekki eins „mjúk“ og við hinar sem bárum meira utan á okkur. Það er svo stórt skarð sem þú skilur eftir þig, Bára mín, á bláu deildinni, að það verður mikill vandi að fylla það því við höfðum unnið svo lengi saman að við vissum alveg upp á hár hvað hver og ein hugsaði, svo samtaka vorum við í öllu um starfs- hætti og reglur. Við gætum enda- laust talað um þig, Bára mín, og við eigum örugglega eftir að gera það en hér er ekki staðurinn til þess, bara fáein minningarorð um þig, hversu hrein og bein þú varst. Elsku Jói og stelpurnar, foreldrar og systkini, megi allir englar al- heimsins umvefja ykkur í sorginni og veita ykkur styrk. Starfsfólk og börn bláu deildarinnar á Kirkjugerði. Fallin er frá langt um aldur fram, elskulegur starfsfélagi okkar og vin- ur, Bára Sveinsdóttir. Það er ekki auðvelt að kveðja unga konu í blóma lífsins, sem starfað hefur með okkur á leikskólanum Kirkjugerði undan- farin ár og reynst frábær starfsmað- ur frá upphafi, með eindæmum stundvís og áhugasöm í öllu sem við gerðum. Það hefur verið stutt á milli hláturs og gráts hjá okkur undan- farna daga, því minningarnar eru góðar og skemmtilegar þó sorgin sé sár. Upp í hugann koma myndir úr starfi og leik, af Báru með vinnings- hattinn úr hattakeppninni, með börnunum í ró og næði, því hún átti óþrjótandi þolinmæði og umhyggju sem skjólstæðingar hennar kunnu vel að meta. Minningar af kaffistof- unni, af eilífum vangaveltum um mat og uppskriftir, þar sem oft var minnst á ostaberjagumsið hennar sem frægt var orðið á heimilum starfsfólksins. Bára hafði einstaklega þægilega nærveru, var alveg laus við alla sýndarmennsku og tók öllum eins og þeir voru. Hún tók öllu með jafn- aðargeði og vann sín verk, án þess að vera að gera mál úr hlutunum. Bára gegndi bæði starfi trúnaðar- manns og öryggistrúnaðarvarðar í leikskólanum af miklum áhuga og samviskusemi. Hún hafði ævinlega augun opin fyrir því sem betur mátti fara og var ólöt við að kippa hlut- unum í lag sjálf, ef eitthvað dróst að aðrir brygðust við, hún var sannkall- aður þúsundþjalasmiður ef því var að skipta. Stutt er síðan hún greip með sér að heiman nýtt batterí í kaffistofuklukkuna því eitthvað hafði tafið kaup á því og hún sagðist bara ekki nenna að hafa klukkuna svona lengur. Við fengum oft að heyra af hinni ótrúlegu heppni Báru í bingó og sjaldan fór hún tómhent þaðan. En hún var lánsöm á fleiri sviðum því hún átti góða fjölskyldu, foreldra og systkini, sem hún ræddi oft um og þótti greinilega mjög vænt um. Hún tók virkan þátt í félagslífi dætra sinna, í skólanum og í skátunum eða öðru því sem þær tóku sér fyrir hendur. Það var stolt móðir sem fór til Reykjavíkur fyrir jólin til að vera við útskrift elstu dóttur sinnar, Öllu Hönnu. Stúdentsveislan var haldin heima hjá tengdaforeldrum Öllu Hönnu, sem Bára lofaði mikið fyrir hversu yndisleg þau væru fyrir greiðviknina. Skyndilegt fráfall náins sam- starfsmanns og vinar er alltaf gríða- legt áfall, ekki síst á litlum vinnu- stað þar sem nálægð er mikil. Við reynum í sameiningu að vinna úr því og hjálpa minningarnar góðu um Báru, sem við geymum í hjörtum okkar. Elsku Jói, dætur og fjölskylda. Megi minningin um góða eiginkonu og móður vera ljós í lífi ykkar. Fyrir hönd starfsfólks á Kirkju- gerði, Alda Gunnarsdóttir leikskólastjóri. Enn á ný berst harmafregn um bæinn. Nú er það ung kona í blóma lífsins hún Bára okkar sem skyndi- lega er hrifin á brott frá eiginmanni, dætrum og fjölskyldu. Það er stutt stórra högga á milli í árganginum okkar 1962. Það var gott að um- gangast Báru, hún var hörkudugleg og tók sér ýmislegt fyrir hendur sem flokkaðist ekki alltaf undir hefðbundin kvenmannsverk. Dæt- urnar og Jói voru henni allt. Síðasta árgangsmót var haldið árið 2001 og áttum við þá ógleymanlega helgi saman. Árlega hafa þær stelpur í ár- ganginum sem búa í Eyjum hist eina kvöldstund, nú síðast í október sl. Þar var Bára okkar hressust og hrókur alls fagnaðar að vanda. Þannig munum við minnast hennar. Báru þökkum við skemmtileg og gefandi samskipti í gegnum tíðina. Hennar verður sárt saknað. Hugur okkar er hjá fjölskyldu Báru, við biðjum góðan Guð að styrkja hana á þessum erfiða tíma. Ó, veit mér styrk í hvers kyns harmi’ og þraut, og hjálpa mér að ganga rétta braut; ó, faðir, tak þú hlýtt í mína hönd, er harmþrunginn ég reika’ um skuggans lönd. (J.J. Smári) Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku Bára. Árgangur 1962. Eigi stjörnum ofar á ég þig að finna, meðal bræðra minna mín þú leitar, Guð. Nær en blærinn, blómið, barn á mínum armi, ást í eigin barmi, ertu hjá mér, Guð. Hvar sem þrautir þjaka, þig ég heyri biðja: Viltu veikan styðja, vera hjá mér þar? Já, þinn vil ég vera, vígja þér mitt hjarta, láta ljós þitt bjarta leiða, blessa mig. (Þýð. Sigurbjörn Einarsson.) Börn og starfsfólk Gulu deildar. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.