Morgunblaðið - 09.12.2004, Blaðsíða 41

Morgunblaðið - 09.12.2004, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. DESEMBER 2004 41 MINNINGAR á námsbrautunum og tókum því snemma að lesa saman fræðin. Kennslan fór að mestu fram með fyrirlestrum og eiginlegar náms- bækur voru af skornum skammti. Námið varð því að miklu leyti sjálfsnám, þar sem nemendur hlustuðu á fyrirlestra og skrifuðu upp það merkasta sem þeir náðu úr þeim og leituðu svo frekari fróðleiks í fræðiritum á Háskóla- bókasafninu. Þannig gekk þetta til hjá okkur Guðsteini tvo vetur í háskólanum. Við lásum og lærðum ýmist hvor í sínu lagi eða saman, hittumst síð- an til að bera saman bækurnar og ræða málin. Vitanlega ræddum við fleira á þessum samfundum en fræðin sem náminu komu við. Allt milli himins og jarðar um lífið og tilveruna og stóru heimsmálin gat komist þar á dagskrá. Okkur var ekkert mannlegt óviðkomandi á þeim árum. Við vorum sammála um flest vandamálin sem við ræddum og líka það sem næst okkur stóð á þessum tíma, nefnilega kennsluna í norrænudeildinni, tilhögun henn- ar og markmið, matreiðslu hinnar andlegu fæðu. En eftir tveggja vetra iðni og ástundun við óska- námsgreinar sínar ákvað Guð- steinn að grípa til þess ráðs að vertéra eins og það var kallað að skipta um háskóladeild. Flutti hann sig þá yfir í læknadeildina, hætti að vera stud.mag. og gerðist stud.med. Það val var vitanlega engin tilviljun. Þegar óskagreinin brást gátu læknisfræðin og lækn- isstarfið hugsanlega verið næst- besti kosturinn og átt bærilega við manngerðina sem hér átti hlut að máli, vin minn Guðstein Þengils- son. Við ræddum þessa ákvörðun hans ekkert saman, hvorki áður né eftir að hún var tekin. En mér var það ljóst að maðurinn var þess eðl- is að líklegt var að slíkt starf hent- aði honum vel að vissu leyti og hann sætti sig því við það. Lækn- isstarfið er nefnilega flestum störf- um fremur fólgið í því að leggja líknarhönd á mannleg mein, hjálpa sjúkum og sárum til bata, græða sárin og lina þjáningarnar. Þar var Guðsteinn réttur maður á réttum stað. Hann lauk líka læknisnámi með glæsibrag og stundaði síðan læknisstarfið til starfsloka með velgengni og vinsældum. Eftir starfslokin við lækningarn- ar kom það í ljós að eðli fræði- mannsins og starfsþrá hafði aðeins blundað í brjósti Guðsteins og hafði því lifað af píslargönguna gegnum óskylt ævistarf. Hugur grúskarans og fræðaþularins var enn í fullu fjöri hjá Guðsteini. Hann tók því brátt til starfa við hugðarefnin sem hann hafði ungur frá horfið. Starfsþrekið var að sjálfsögðu ekki það sama og áður en áhuginn og vinnugleðin bættu það upp. Iðjuleysi efri áranna, sem margan góðan starfsmann hefur hrjáð, hratt Guðsteinn strax frá sér og hann var ekki í neinum vafa um hvers konar vinna og verkefni það voru sem hann tók sér fyrir hendur. Það voru störf til verndar og varðveislu fyrri tíðar fræða, sem enn mátti forða frá glötun með því að skrifa þau upp. Tókst honum með þessum endaspretti á starfsferli sínum að leysa af hendi gott og gagnlegt fræðistarf sem óvíst er að nokkur annar hefði orð- ið til að vinna ef Guðsteinn hefði ekki til komið. Síðustu árin endurnýjuðum við Guðsteinn líka kynni okkar og samfundi og átti hann góðan hlut að því. Kom líka fljótt í ljós að hann hafði engu gleymt frá gömlu góðu árunum. Það var seinast hálf- um mánuði fyrir andlátið að hann leit inn til mín. Áttum við þá stutta, en góða stund saman, gerð- um að sjálfsögðu ráð fyrir að sjást bráðum aftur og svo áfram enn um sinn. Ég vissi að hann var þá orð- inn þungt haldinn af vágestum þeim, fleirum en einum, sem tíðast ofsækja eldri borgara eftir langt og strangt ævistarf. En engan bil- bug var á Guðsteini að sjá né finna. Hann var enn sami góði og glaði félaginn á vinafundi. Ég votta eiginkonu hans, Jónínu Í. Stefánsdóttur, börnum þeirra, öðrum frændum og vinum mörgu innilega samúð. Um góðan dreng geymum við öll góðar minningar sem við þökkum af alhug. Ívar Björnsson. Minnast verð ég eins ágæts manns, sem varð á vegi mínum. Við vorum þá báðir komnir á efri ár og hættir opinberum störfum fyrir nokkru, en vorum það heppn- ir að hafa eitthvað fyrir stafni til að fylla upp tómið, sem annars hefði getað orðið. Þeir, sem engu sinna, nema að vera til, eru fátækir, hversu mjög sem ævistarfið hefur skilað í formi fjármuna og ytri velgengni. Guðsteinn Þengilsson læknir var fæddur á Akureyri, en ólst að miklu leyti upp í Fnjóskadal. Móð- ir hans var þar með son sinn. Hún giftist síðar og fluttist til Akureyr- ar. Þar naut Guðsteinn menntunar allt til stúdentsprófs. Nýlega sagði hann frá ævi sinni í hinu þjóðlega heimilisriti Heima er bezt. Átti ég nokkurn hlut að því, en Guðsteinn skrifaði þetta viðtal raunar mest megnis, en ég formaði efnisvalið. Guðsteinn var ritfær í besta lagi, og liggur talsvert eftir hann í rit- uðu máli, eins og uppsláttarritið Læknisfræði, sem Menningarsjóð- ur gaf út. Hann þýddi rit um efni, sem skiptu máli. Fyrstu kynni okkar Guðsteins urðu á vettvangi alþjóðamálsins esperanto. Hann og kona hans, Jónína Stefánsdóttir, mættu á fundi hjá okkur og nutu þess, sem fram var borið á þeim stað. Guð- steinn skildi nauðsyn alþjóðamáls, hjálparmáls, til að auðvelda mann- leg samskipti. Esperanto var ekki skapað til að útrýma þjóðtungun- um, heldur til að vera þeim til hlið- ar, svo að sem flestir gætu gert sig skiljanlega án tillits til þjóðernis og litarháttar. Þetta er draumsýn, sem mannkynið hefur lengi alið með sér. Mannkyn, sem enga drauma eða hugsjónir á, er snautt, hvað sem öllu hinu ytra líður. Nokkur síðustu æviárin eftir að Guðsteinn hætti læknisstörfum, vann hann sem sjálfboðaliði í þjóð- deild og handritadeild Landsbóka- safns/Háskólabókasafns við skrán- ingu handrita og innfærslu þjóðlegs fróðleiks úr fornum ritum á tölvuskjá. Hann varð áttræður í vor sem leið og mun hafa unnið á afmæl- isdaginn eins og ekkert væri og lét sem árin væru ekki til. Hann var ungur í anda til hinstu stundar. Sem ungur stúdent lagði Guð- steinn stund á íslensk fræði við Háskólann, en sneri sér að lækn- isfræði eftir tveggja ára nám á þeim vettvangi. Læknisfræðin varð viðfangsefni þessa nýlátna kunningja míns, og þar skilaði hann miklu starfi, en ég er nokk- urn veginn viss um, að á vettvangi íslenskra fræða hefði hann ekki síður reynst liðtækur. Nú sé ég ekki framar manninn með mikla hvíta hárið við tölvuskjáinn í Landsbókasafninu, er ég á þangað erindi. Marga ferð átti ég til hans þangað. Við gengum síðan fram í afgreiðslusalinn og ræddumst þar við um stund. Slíkar stundir geymi ég í þakklátum huga. Andlát Guðsteins læknis bar að með snöggum og óvenjulegum hætti. Hann hélt suður í Kópavog, en þaðan var hann nýlega fluttur til Reykjavíkur, í nálægð við vinnustaðinn í Landsbókasafni. Á heimleið í strætisvagni and- aðist hann. Góður maður var geng- inn, og að mér fannst um aldur fram, þó að hann væri orðinn 80 ára. Þeir, sem með honum unnu og honum kynntust í Þjóðarbókhlöð- unni, sakna ljúfs manns og þakka kynnin. Sama munu þeir gera, sem honum kynntust á öðrum vett- vangi. Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Aðstandendum votta ég innilega samúð við brottför hans. Auðunn Bragi Sveinsson. ✝ Jón Sigbjörnssonfæddist á Egils- stöðum 7. apríl 1960. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 29. nóvember síðastlið- inn. Hann var sonur kaupmannshjónanna Sigbjörns Brynjólfs- sonar, f. 10. nóvem- ber 1928, og Kristínar Jónsdóttur, f. 1. apríl 1932. Systkini Jóns eru Sjöfn, f. 29. mars 1955, Brynjólfur, f. 19. apríl 1957, Þór- unn Ósk, f. 25. júní 1965, Bjarnveig Ingibjörg, f. 8. des- ember 1968, og Arnar, f. 16. mars 1972. Jón kvæntist Hlédísi Hálfdánar- dóttur, f. 6. maí 1960, og eignuðust þau tvo syni. Þeir eru: 1) Hilmir Freyr, f. 26. apríl 1980, og á hann dótturina Söru Dögg, f. 5. maí 2001, með Heiðu Jónsdóttur, f. 19. febrúar 1984. 2) Guðjón Ívar, f. 3. júní 1986. Jón og Hlédís skildu. Jón var í sambúð með El- ínu Helgu Hauks- dóttur, f. 7. nóvem- ber 1968, og eignuðust þau tvær dætur, þær Kristínu, f. 27. febrúar 1991, og Guðlaugu, f. 1. júní 1992. Jón og Elín slitu samvistum. Jón kvæntist síðar Sigur- rósu Einarsdóttur, f. 20. mars 1950, en þau skildu. Jón ólst upp í Fellabæ á Fljótsdalshéraði. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði og hlaut síðar staðbundin meistara- réttindi. Hann starfaði um nokkurt skeið í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, en eftir að hann flutti af Héraði starfaði hann víða, oft við smíðar. Útför Jóns verður gerð frá Graf- arvogskirkju í dag og hefst athöfn- in klukkan 13. Ó, dauði, taktu vel þeim vini mínum, sem vitjað hefur þreyttur á þinn fund. Oft bar hann þrá til þín í huga sínum og þú gafst honum traust á banastund. Nú leggur hann það allt, sem var hans auður, sitt æviböl, sitt hjarta að fótum þér. Er slíkt ei nóg? Sá einn er ekki snauður, sem einskis hér á jörðu væntir sér. (Tómas Guðm.) Guð blessi minningu þína. Mamma og pabbi. Þá hefur þú kvatt, kæri bróðir. Svona hlaut að fara, en söknuðurinn er sár þegar stundin rennur upp. Sjaldnast var nú lognmollan í kring- um þig og gáskinn réð jafnan ríkjum. Margar einmanalegar stundir hef- urðu samt átt. Þú sagðir mér eitt sinn sögu af könguló sem skreið eftir veggnum á Kársnesbrautinni. Þú ákvaðst að þyrma henni því hún var eini félagsskapurinn sem þú hafðir þá stundina. En góðmennskan kom þér í koll því innan tíðar var allt orðið fullt af litlum köngulóabörnum. Þá varð nú að grípa í taumana. Skömmu síðar flutti ég til þín til að vinna á Skerseyrinni. Það var nú dá- lítið skrautlegt líferni og lítið hugsað um að spara. Alltaf gastu samt fundið að því við mig að bruðla með upp- þvottalöginn. Svo loks þegar hann kláraðist fórum við að versla og fund- um eins brúsa. Heilar 36 krónur kostaði hann og ég brosti í kampinn. Svona var þetta hjá þér; góðu gildin voru þarna en stundum á dálítið sér- stökum stöðum. Og seint gleymi ég svartfuglinum sem þú eldaðir eftir uppskrift frá Sillu frænku. Einhver besta máltíð sem ég hef smakkað, enda voru slík- ar kræsingar ekki daglegt brauð hjá okkur. Verst að máltíðin skyldi ekki verða þér jafnminnisstæð og mér. Ég varðveiti þá minningu fyrir okkur báða. Spilaástríðan fylgdi þér alla tíð og var nánast sama hvert spilið var; kani, lomber, risk eða spilakassi. Einnig hafði veiðiástríðan sterk tök á þér og með þér veiddi ég maríulaxinn minn. Gjarnan fannstu þér hugarró í að semja ljóð. Þér gekk alltaf vel að fá fólk til að brosa. En að baki glensinu mátti greina viðkvæman og feiminn mann sem átti í sífelldri baráttu við eigin bresti; bresti sem við áhorfendur átt- um oft erfitt með að skilja. Og þrátt fyrir allt sem þú gekkst í gegnum, Jonni, hélstu ávallt réttsýni þinni og drengskap. Þú kenndir mér margt um hið mannlega og ég verð ávallt þakklátur og stoltur yfir að hafa átt þig sem stóra bróður. Blessuð sé minning þín. Elsku mamma, pabbi, Hilmir, Ívar, Kristín og Guðlaug, ykkur votta ég mína dýpstu samúð og bið Guð að varðveita ykkur. Arnar. Kæri bróðir. Mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum. Upp í hug- ann koma minningar úr æsku. Þótt þú værir fimm árum eldri en ég leyfðir þú mér að skottast með þér og vinum þínum svo margt og varst svo ótrúlega þolinmóður. Á sumrin var farið í fótbolta eða annað skemmti- legt gert, helst langt fram á kvöld. 1. apríl var farið í leiðangur og prakk- arastrikin ekki spöruð. Á vetrum var snjórinn nýttur vel til skíða- og sleða- ferða og snjóhúsagerðar. Eitt sinn sem oftar fór allt á kaf í snjó þannig að ekki var hægt að komast um úti- dyrnar heima. Þá skriðum við tvö út um þvottahúsgluggann til þess að moka leið að dyrunum. Ég var stolt af að fá að aðstoða þig við þetta verk. Á aðfangadag fórum við ávallt ásamt Baldri frænda, sem var í gervi Kerta- sníkis, með jólapakka til ömmu og afa á Ekkjufelli og frændfólks í nágrenn- inu. Þetta var þó nokkur leið fyrir stutta fætur og örugglega hafið þið stundum þurft að bíða eftir mér en ég fékk að koma með og hugsa með hlýju til þessara ferða. Þú varst iðulega til í að spila við mig og þú kenndir mér að tefla, þú hjálpaðir mér við frímerkjasöfnun og leiðbeindir mér með svo margt. Þú varst góður stóri bróðir, næm- ur og hlýr, þú veittir stuðning þegar á þurfti að halda. Nú hefur þú fengið hvíldina. Megi góður Guð varðveita þig. Þórunn Ósk. Jón mágur eða Jonni, eins og hann var oft kallaður þegar ég kynntist honum fyrir 32 árum, hefur kvatt og á þessum áratugum hefur margt gerst. Jón var glaðlegur og kátur piltur, dálítill prakkari og hrekkja- lómur, en ávallt hjálplegur og tilbú- inn til að aðstoða vini sína ef þeir leit- uðu til hans og var sú greiðasemi ávallt til staðar hjá honum meðan heilsa hans entist. Jón var einn af þeim sem Bakkus náði tökum á og var barátta hans við þann varasama gleðigjafa löng og ströng. En þrátt fyrir það var hann alltaf til í að gera eitthvað skemmti- legt. Það kom fyrir að við Jón og fjöl- skyldur okkar fórum saman í veiði og voru það afskaplega eftirminnilegar ferðir þar sem hann var glúrinn veiðimaður. Var það bæði austur á landi og hér fyrir sunnan. Sagði Jón oft skemmtilegar sögur bæði af sér og öðrum sem höfðu farið með hon- um til veiða hvort sem það var með neti eða stöng. Prakkarastrikin tengdust oft veiðiskapnum, eitt þeirra er mér minnisstæðara en önn- ur. Þannig var að góður vinur Jóns, sem þótti sopinn góður, lagði stund- um net í Lagarfljótið við Fellabæ til að veiða silung. Þeir félagar, ásamt þriðja manni, höfðu gert sér glaðan dag en sá sem netið átti sofnaði fljótt. Þá datt þeim tveim sem eftir sátu, í hug að hrekkja vin sinn, útveguðu þeir sér vænan steinbít og festu hann í netið. Morguninn eftir fer eigandinn að netinu og dregur að landi. Þar sem hann kemur að steinbítnum verður honum svo mikið um að sagan segir að hann hafi ekki smakkað vín upp frá því. Jóni var margt til lista lagt þó svo að lífið hafi á stundum farið ómjúkum höndum um hann, stutt er síðan mér var sagt að hann hafi ort mikið af ljóðum og skemmtilegum vísum. Jonni minn, ég fletti upp í því sem mér er kært í kveðskap eftir Einar Ben. og læt ég það fylgja hér með að lokum: Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka. Hvíl þú í friði, kæri vinur. Ég votta aðstandendum Jóns mína dýpstu samúð. Ólafur Steinþórsson. Við Jón vorum systkinabörn, heil tíu ár skildu okkur að, en engu að síð- ur náði ég að kynnast Jóni allvel. Fyrst man ég eftir honum enn bú- settum á æskuheimili sínu á Hlöðum, í litla herberginu á ganginum. Við Arnar bróðir hans gerðum karli þá grikk með því að banka á dyrnar, en hann var þá vant við látinn með kær- ustunni inni hjá sér. Jón kom auðvit- að bálreiður út og elti okkur uppi og las vel yfir hausamótunum á okkur. Ég varð svo hræddur að ég sagði að Arnar hefði staðið fyrir þessu öllu saman. Veiðiskapur var Jóni í blóð borinn og hæst standa veiðiferðir upp í Ekkjuvatn. Undantekningarlaust kom Jón heim með fisk, enda var hann þrjóskur með endemum þegar kom að stangveiði. Ef ekkert gaf var haldið áfram þar til eitthvað fór að gerast, kom það sér þá stundum vel að sumarnætur eru bjartar á Íslandi. Jóni var veiðin í Ekkjuvatninu afar hugleikin. Ein hugmynda hans til að glæða veiðina gekk t.d. út á að sleppa sel í vatnið til grisjunar. Eftir menntaskólaárin fluttist ég suður og byrjaði haustið 1991 í vinnu við saltfisksverkun í Hafnarfirði, en hana útvegaði frændi mér af góðsemi sinni, þrátt fyrir prakkarastrikin forðum. Unnum við saman í rúmlega heilt ár og kynntumst mjög vel á þessu tímabili. Spilamaður var Jón góður og keppnismaður fram í fingurgóma enda hafði hann nóg af gáfum til að bakka upp kappið. Mér er sérstak- lega minnisstætt margra vikna myllueinvígi sem við tókum eitt sinn í skammdeginu, í því brutum við það spil algjörlega til mergjar, alltaf unn- ið á svart. Auk þess var Jón mikill hrekkjalómur inn við beinið og marg- ir muna eflaust eftir grímunni skelfi- legu. Eftir háskólanám mitt rofnaði samband okkar Jóns og það var ekki fyrr en nýverið að ég hringdi í hann fyrir forvitni sakir. Var hann hinn hressasti og engar vísbendingar um að hann ætti einungis nokkrar vikur eftir ólifaðar. Ég vil að lokum, fyrir hönd fjölskyldunnar í Hólmgarði 43, votta börnum Jóns og nánustu ætt- ingjum dýpstu samúð okkar. Brynjólfur Sigurjónsson. JÓN SIGBJÖRNSSON Minningarkort 570 4000 Pantanir á netinu: www.redcross.is Rauði kross Íslands bregst við neyð jafnt innanlands sem utan og veitir aðstoð er gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum. Þegar á reynir Rauði kross Íslands
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.