Morgunblaðið - 19.12.2004, Síða 20
20 SUNNUDAGUR 19. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Með allt á hreinu erógleymanleg kvik-mynd þeim sem sáu– síðan hafa þeirhinir sömu verið
með á hreinu að það er hæfileikafólk
sem þar kom við sögu. Nú er komin
til sögunnar ný mynd frá þessu sama
fólki – Í takt við tímann sem frum-
sýnd verður á annan í jólum í Smára-
bíói. Leikstjóri hennar er Ágúst Guð-
mundsson sem Íslendingum er að
góðu kunnur fyrir margar aðrar
kvikmyndaperlur, svo sem Land og
syni og Mávahlátur, svo eitthvað sé
nefnt. En um hvað fjallar Í takt við
tímann?
„Hún hefst 22 árum eftir að hinni
lauk, fyrir framan Tívolí í Kaup-
mannahöfn. Þarna eru sömu persón-
ur á ferð, en eldri og vonandi reynd-
ari,“ segir Ágúst.
Eru allir kallaðir til sögunnar sem
voru í fyrri myndinni?
„Í stórum dráttum eru þetta alveg
sömu persónurnar. Við byrjum bara
22 árum síðar en gerum því engin skil
hvað fólkið hefur verið að gera þessa
rúmu tvo áratugi. Annars var Þórður
Árnason með þá ágætu hugmynd að
byrja þessa nýju mynd fyrir utan Tív-
olí og láta sem enginn tími hefði liðið
– en eftir nokkrar bollaleggingar var
hætt við það.“
Er öll myndin tekin í Danmörku?
„Nei, langt í frá, einungis eitt atriði
er tekið í Danmörku á útisviðinu í
Tívolíi en síðan víkur sögunni til Ís-
lands, Spánar, Rússlands og Banda-
ríkjanna.“
Var þetta ekki dýr mynd?
„Á íslenskan mælikvarða var hún
ekkert mjög dýr þrátt fyrir ferðalög-
in. Við fórum t.d hvorki til Spánar né
Bandaríkjanna þótt atriði gerist þar
heldur fundum við heppilega staði á
Íslandi sem gátu verið Spánn annars
vegar en Bandaríkin hins vegar. En
það var vissulega farið til Rússlands,
nánar til tekið til St. Pétursborgar.“
Hvernig var með búninga og annað
sem lýtur að sviðsmynd?
„Rebekka Ingimundardóttir sá um
búninga og leikmynd er eftir Frosta
Friðriksson. Í raun er enginn úr lið-
inu sem gerði myndina Með allt á
hreinu í starfsliði þessarar myndar
nema ég og leikararnir. Hitt fólkið er
farið tvist og bast, tökumaðurinn
David Bridges er t.d. farinn til Holly-
wood.“
Hvað með fjármögnun á þessari
mynd?
„Það tókst að forselja þessa mynd
tiltölulega auðveldlega, bæði kvik-
myndahús og sjónvarpsstöðvar höfðu
trú á henni, en mestu skiptir framlag
Kvikmyndamiðstöðvar, sem leggur
til 40% af heildarkostnaðinum.“
Voru farnir að kalla sig Tuðmenn!
Hvernig gekk samvinnan, eftir all-
an þennan tíma?
„Það má svo sem til sanns vegar
færa að ýmislegt hafi breyst með
aldrinum, þeir voru sjálfir farnir að
kalla sig Tuðmenn á tímabili, en ég
kallaði þá á fund í janúar 2003 og lagði
til að við hittumst nokkrum sinnum,
legðum hugmyndir í púkk og ég
reyndi síðan að koma saman sögu-
þræði í framhaldi af þessu. Fyrstu
drögin að þessum söguþræði voru
tilbúin mánuði síðar og síðan héldu
menn áfram að bæta söguna og fegra,
þetta voru ákaflega skemmtilegir
fundir þar sem mikið var hlegið. Ég
held að ég hafi aldrei unnið að mynd
þar sem var virkari samvinna um
þetta handritsferli en einmitt þessari.
Þessi hæfileikaríki hópur kom sam-
an og vissulega eru ekki allir þar með
nákvæmlega sömu kímnigáfuna, ætli
mitt verk hafi ekki einkum falist í því
að leggja lokadóm á það hvað væri
fyndnast.“
Er þetta sem sagt gamanmynd?
„Ég yrði dálítið sár ef fólk færi og
sæi þessa mynd og kæmist að þeirri
niðurstöðu að hún væri ekki gaman-
mynd.“
Ég ætla nú ekki að spyrja þig of
grannt um söguþráðinn, en þó langar
mig til að vita hvort eitthvað er sungið
í þessari mynd?
„Það var augljóst að nokkur atriði
yrðu sungin. Við höfðum áhuga á að-
hafa nokkur hrein „musical“-atriði –
ekki síst í ljósi þess að mér fannst þau
atriði njóta sín hvað best í fyrri mynd-
inni. Síðan fór hópurinn að semja lög
og við erum komin með þrjátíu frum-
samin lög í þessari mynd. Mér finnst
líklegt að nokkur þeirra eigi eftir að
vera á vörum Íslendinga um aldur og
ævi.
Alveg frá upphafi var Eggert Þor-
leifsson með okkur í þessu sköpunar-
ferli – það voru sem sagt ég, hann og
hljómsveitin sem gerðu handritið.
Þess má þó geta að samtöl eru ekki
skrifuð nema einstakar setningar.
Lokahandritið var óvenjulega stutt
eða einungis þrjátíu blaðsíður. Öll
samtalsatriði eru spunnin. Þannig
fórum við að í fyrri myndinni líka. Það
handrit sem fyrir lá var atriðahandrit
sem lýsti hvað átti að gerast í hverju
atriði fyrir sig en það sem tekur yf-
irleitt mest pláss í kvikmyndahand-
ritum, samtölin sjálf, voru hvergi
skráð.“
Er búið að selja þessa mynd til út-
landa?
„Það er ekkert erlent fjármagn í
þessari mynd en það er þegar búið að
bjóða okkur á Edinborgarhátíðina
um mánaðamótin janúar-febrúar og
við ætlum að þiggja það boð.“
Sterk grunnhugmynað baki
Hvað er þér nú efst í huga að lok-
inni gerð þessarar myndar, – svo há-
tíðlega sé til orða tekið?
„Það er fyrst og fremst öll þessi
tónlist sem samin var í tilefni mynd-
arinnar, hún er eins og Íslendingar
segja „á heimsmælikvarða“. Ég trúi
að tilþrif leikaranna eigi eftir að vekja
nokkra athygli og ég held að á engan
sé hallað þótt ég nefni þar sérstaklega
Eggert Þorleifsson í hlutverki rótar-
ans Dúdda. Íslenska þjóðin kynntist
Eggerti fyrst í þessu hlutverki og það
var unun að sjá hann hverfa fullkom-
lega áreynslulaust aftur í það eftir
þessa löngu fjarveru, – 22 ár.“
Hafðir þú gengið með það lengi „í
maganum“ að gera mynd númer tvö –
framhald af Með allt á hreinu?
„Þessi hugmynd kom upp svona á
fimm ára fresti en að lokum fann ég
það út að framkvæmdin strandaði
alltaf á mér, eða með öðrum orðum, –
það þurfti einarðlega ákvörðun af
minni hálfu til að setja verkefnið í
gang. Enginn okkar vildi endurtaka
gömlu myndina og okkur fannst
ótækt að leggja út í nýja mynd fyrr en
fyrir lægi sterk grunnhugmynd að
nýrri mynd. Hún fannst í janúar í
hitteðfyrra og þar með hófst þetta
ævintýri.“
Egill Ólafsson og Ragnhildur Gísladóttir ásamt Ágústi. Orkuhringur Stuðmanna. Ásgeir Óskarsson, Jakob F. Magnússon og Tómas M. Tómasson.
Stuðmenn: Í takt við tímann
Á annan í jólum verður
frumsýnd í Smárabíói kvik-
mynd Ágústs Guðmunds-
sonar; Í takt við tímann.
Guðrún Guðlaugsdóttir
ræddi við Ágúst um þessa
forvitnilegu mynd sem er
eins konar framhald af
hinni geysivinsælu mynd;
Með allt á hreinu, – þar sem
Stuðmenn og fleiri fóru á
kostum.
Morgunblaðið/Eggert
Úr pulsuatriðinu, Egill Ólafsson með ungmeyjar í baksýn.
Ágúst Guðmundsson leikstjóri.
Ágúst rýnir í kvikmynd sína á skjá.
Eggert Þorleifsson — Dúddi rótari.
Ragnhildur Gísladóttir syngur af innlifun.
gudrung@mbl.is