Morgunblaðið - 19.12.2004, Side 42

Morgunblaðið - 19.12.2004, Side 42
42 SUNNUDAGUR 19. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Fjórði aðventu-sunnudagurinn errunninn upp oginnan skamms heilsumvið jólum. Ég vona að þú hafir getað notið augnabliksins, staldrað við og fundið kyrrð og gleði þessara vikna, jafnframt því að ígrunda merkingu þeirra. Það er nefnilega ekki allt fengið með spennunni, hraðanum og æsingn- um. Stundum er nauðsynlegt að draga sig í hlé, út úr ys og þys göt- unnar, og hugleiða tilgang lífsins. Og hafi slíkt einhvern tíma átt við hefur það einmitt verið núna, í skammdegismyrkri desem- bermánaðar. Því jólafastan er und- irbúningstími; kristinn lýður býr sig þá til heimsóknarinnar í fjár- húsið í Betlehem, til að sjá engla og hirða og vitringa og dýr og fjöl- skylduna úr Nasaret, og þó allra helst barnið nýfædda. Ef við lítum til baka og skoðum málið nánar kemur þó annar veru- leiki í ljós en okkur er tamt að ímynda okkur þegar dýrð ljósanna hefur blindað. Eða eins og Sig- urbjörn Einarsson biskup orðaði það í prédikun í Hallgrímskirkju á jólanótt 1982: Það er engin rómantík yfir umkomuleysi ör- eigans, enginn bjarmi yfir kjörum hrakinna útiganga, sem fá ekki rúm undir neinu þaki, og velta út af, soltnir og örmagna, undir ein- hverjum vegg. Og verða kannski að taka á móti barninu sínu þá nótt, gera það sjálf með loppnum höndum, ein í köldu myrkri, sem gleypir jafnt þrautastunur ungrar móður, sem og grát þess vesalings, sem er að fæðast. Það er ekkert rósaflúr úr draumheimi yfir því snauða pari, Maríu og Jósef. Það er eng- inn glans yfir litlu barni, sem er að koma í heiminn við þess háttar kringumstæður, að það hefði átt að vera margfaldur dauðamað- ur samkvæmt nýjustu hugsjónum um mann- réttindi. Barnið, sem sagt er frá, lifir af, það deyr ekki úr hungri og króknar ekki. En þau eru ekki öll svona lán- söm. Því miður. Og neyðin er gíf- urlega mikil víða. Hinn 5. desember síðastliðinn mátti t.d. lesa þetta á mbl.is: Rúmlega 170 milljónir barna í heiminum þjást af næringarskorti og 120 milljónir ganga aldrei í skóla, að því er fram- kvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Carol Bellamy, greindi frá í dag. Lagði hún áherslu á hversu veigamiklu hlutverki sjálfboðaliðar gegni í að bæta hlutskipti barna hvarvetna í heiminum. „Enn deyja árlega hátt í tíu milljónir barna yngri en fimm ára úr sjúkdómum sem hægt væri að koma í veg fyrir, eins og til dæmis niðurgangi, mislingum og bráðasýkingu í öndunarfærum,“ sagði Bellamy m.a. við setningu ráðstefnu í Islamabad í Pakistan um sjálfboðaliðastarfsemi hjá hinu opinbera og sjálfstæðum hjálparstofnunum. Og fjórum dögum síðar var þetta á forsíðu Morgunblaðsins, til að undirstrika alvöruna: Á ári hverju deyja yfir fimm milljónir barna úr hungri, eða að jafnaði eitt barn á hverjum fimm sekúndum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvæla- og landbún- aðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Stofnunin segir að enn hafi lítt miðað í bar- áttunni gegn hungri í heiminum átta árum eftir að ríki heims settu sér það markmið að þeim sem lifa við hungurmörk fækkaði um helming fyrir árið 2015. Í skýrslunni segir að vannærðum í þróun- arlöndum hafi aðeins fækkað um níu millj- ónir frá árunum 1990–1992 og að dánartíðnin meðal barna undir fimm ára aldri hafi haldist óbreytt frá þeim tíma. Á svona hluti minnir kirkjan alltaf um þetta leyti árs, með því að dreifa söfnunarbaukum um landið. Einn er vísast kominn inn á heimili þitt. Líttu til hans og gleymdu ekki þessu, sem hér að framan er ritað. Í Matteusarguðspjalli, 25. kafla, segir konungurinn: … hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín … Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. Um þetta snúast atburðir jólanna fyrst og síðast, þeir eru frásögn og vitnisburður um þann, sem kom til að hlúa að brákaða reyrnum, opna fjötrana, lýsa upp skugga mannlífsins, vekja brosin. Jafnframt bið ég þig um að muna eftir smáfuglunum, ef jarð- bönn verða á næstunni. Kurlaður maís eða brotið heilhveiti gæti bjargað lífi þeirra margra, og þrestir og aðrir slíkir fagna ávöxt- um, brauðmolum eða kjötsagi. Já, það er treyst á útréttar hendur okkar þar líka, og raunar hvarvetna þar sem myrkrið og kuldinn og dauðinn vilja ríkja. Þar ber okkur að grípa inn í, til varnar hinu smáa. Ég enda þetta í dag með ljóðinu „Jól“, eftir Guðrúnu Guðjóns- dóttur, úr bók hennar Opnir gluggar (1976): Óskastund á minn fund ertu komin senn. Ljósið kært logar skært lýsir heimi enn. Lítill sveinn ljúfur hreinn læknar mannsins sár. Heilög jól hækkar sól þerrum tregatár. Vor og sól vítt um ból vekur alla dáð. Friðarboð frelsisstoð finni í veröld náð. Þá mun nú traust og trú taka í heimi völd. Barnsins hönd blessi lönd. Kom þú, jólakvöld. Brauðið sigurdur.aegisson@kirkjan.is Þegar gleðiríkasti tími kirkjuársins er um það bil að hefjast er rétt og skylt að minna á að gæðum þessa heims er ákaflega misskipt. Sigurður Ægisson lítur af því tilefni á nokkur dæmi úr umræðunni, göm- ul og ný. HUGVEKJA ✝ Hulda Guð-mundsdóttir fæddist í Móhúsum á Stokkseyri 14. febr- úar 1924. Hún lést á Landspítala – há- skólasjúkrahúsi Landakoti 4. desem- ber síðastliðinn. For- eldrar hennar voru hjónin Guðmundur Hannesson smiður, f. 5. maí 1892, d. 17. mars 1974, og Stef- anía Sigurðardóttir húsmóðir, f. 12. febr- úar 1889, d. 5. apríl 1974. Systkini Huldu eru Sigur- björg, f. 1921, d. 10. desember 2001, Guðmunda Margrét, f. 1923, lést í æsku, Kristinn, f. 1927, lést í æsku, Kristín, f. 1929, Gunnar, f. 1930, og Eva, f. 1931. Árið 1943 giftist Hulda Guð- bergi Finnbogasyni, f. 9. febrúar 1919, d. 3. júlí 1986. Börn þeirra eru: 1) Hafdís, f. 1944, maki Þórhallur Magnússon. Börn þeirra eru Guðberg, maki Sigrún Stefáns- dóttir, þau eiga þrjár dætur, og Hulda sem er í sambúð með Jó- hanni Kristinssyni. 2) Stefanía, f. 1951, maki Óli Björn Torfason. Börn þeirra eru Stefán sem er í sambúð með Elínu Urði Hrafn- berg, þau eiga tvær dætur, og Hulda Björg sem er í sambúð með Ævari Pálma Pálmasyni. 3) Sigríður, f. 1953, maki Símon Kristjánsson. Börn þeirra eru Kristján og Guð- björg Huld sem er í sambúð með Halldóri Bjarkari Jóhannessyni. Útför Huldu fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu hinn 15. des- ember. Elskuleg tengdamóðir mín er látin og hugurinn leitar til þeirrar stundar er ég hitti hana fyrst fyrir rúmlega 30 árum. Það voru glæsileg hjón, Hulda og Beggi, sem tóku á móti mér í Álf- heimum 32. Ég fann strax þá hlýju og umhyggju sem einkenndi Huldu alla tíð. Hlýja gagnvart öllum í fjölskyld- unni og þeim sem heimsóttu hana. Hún var glæsileg húsmóðir og alltaf tilbúin að slá á létta strengi, glettnin var ekki langt undan. Við Hulda náðum strax vel saman og þegar ég bjó í Álfheimum nokkra mánuði árið 1974 áður en við Sigga fluttum í eigið húsnæði þurfti ég í fyrsta skipti að hafa áhyggjur af vigt- inni. Eldhúsið var miðpunktur heim- ilisins en í Álfheimum var siður að framreiða hádegismat, síðdegiskaffi, kvöldmat og kvöldkaffi og eru mér sérstaklega minnisstæð kvöldin þeg- ar allt heimilisfólk sat saman í Álf- heimum og rabbaði saman. Gestkvæmt var í Álfheimum og voru margar sögur sagðar sem áhugavert var að hlusta á. Venjulegt kvöldkaffi hjá Huldu væri líklega í dag kallað kvöldverðarhlaðborð. Ekki var ein sort á borðum heldur margar. Hulda var mikill spaugari og hafði gaman af að herma eftir fólki og náði sumum ótrúlega vel. Hulda var fyrst og fremst húsmóðir af gamla skólan- um og hugsaði mjög vel um heimili sitt og fjölskyldu sína. Heimilisstörf léku í höndunum á Huldu og hún lagði metnað sinn í að gera alla hluti mjög vel, það var saumað út, prjónað og bakað, allar kökur nákvæmlega jafn stórar. Glæsileg matarboð og glæsileg kaffiboð er það sem kemur upp í hugann en Álfheimar voru mið- stöð fjölskyldunnar. Það er ekki hægt annað en að minnast jólanna í Álfheimum en afi Beggi og amma Hulda lögðu mikið upp úr því að öll fjölskyldan kæmi til þeirra á aðfangadag og var alltaf borðaður hamborgarhryggur. Þegar fjölskyldan stækkaði var orðið erfitt að koma öllum fyrir og jólagjafirnar tóku sitt pláss og man ég að fyrstu jólin sem voru ekki í Álfheimum voru mjög sérstök og veit ég að þetta var erfitt fyrir Huldu en hún gerði sér grein fyrir að þetta væri bara eðlileg þróun. Hulda var mikil amma og voru barnabörnin oft hjá ömmu og afa í Álfheimum, fengu alltaf gistingu ef mamma og pabbi voru upptekin á laugardagskvöldum. Á sunnudögum var opið hús sem endaði með glæsi- legri sunnudagssteik. Ef eitthvað bjátaði á í fjölskyldunni var amma Hulda mætt á staðinn. Hún lagði áherslu á að allir stæðu saman og hjálpuðu hver öðrum. Eftir að afi Beggi lést árið 1986 tók Hulda sig til og tók bílpróf og gat eftir það farið allra sinna ferða. Hún var sjálfstæð kona og hörkudugleg og var það henni mjög mikilvægt að geta komist leiðar sinnar án aðstoðar ann- arra. Árið 1996 flutti Hulda í Gullsmára 10 og bjó sér glæsilegt heimili og átti hún þar góð ár og talaði hún um hversu ánægð og heppin hún var með nágranna sína. Síðustu tvö árin fór að gæta Alz- heimers-sjúkdóms hjá Huldu og kom það fram í því að þessi glæsilega hús- móðir átti erfitt með að gera einfalda hluti innan heimilisins. Þessi sjúk- dómur er erfiður og flókinn og erfitt fyrir ættingja að gera sér grein fyrir einkennum hans. Nú er Hulda mín búin að fá kær- komna hvíld og hitta afa Begga en síð- ustu mánuðir voru henni erfiðir. Megi góður Guð geyma og vaka yfir Huldu. Þinn tengdasonur, Símon Kristjánsson. Þegar við frænkurnar förum að hugsa til baka um ömmu Huldu koma upp ótrúlega margar skemmtilegar minningar. Hugurinn leitar strax í Álfheimana þar sem við eyddum ófáum stundum. Alltaf vildum við vera hjá ömmu Huldu enda ekki furða eða eins og elsta barnabarnið sagði svo réttilega: „Það er „plenty“ af öllu hjá ömmu. Það var allt til af öllu, full- ur ísskápur af alls konar góðgæti enda gistinætur hjá ömmu mjög eft- irsóknarverðar. Hér áður fyrr hittist öll fjölskyldan iðulega hjá ömmu Huldu á hátíðum. Okkur frænkunum þótti það nú ekki leiðinlegt enda nóg að gera. Gula tunnan beið eftir okkur inni í fata- skáp. Í henni var ýmislegt skemmti- legt, þar á meðal kúluspilið, lestin og ekki má gleyma Bínu brúðulækni sem var mikið lesin. Dýrunum í Hálsa- skógi var einnig oft skellt á fóninn. Þetta allt hélt okkur uppteknum frá hvítu veggjunum sem alls ekki mátti snerta að ógleymdu öllu puntinu sem ekki mátti taka. Sérstaklega minnumst við ferð- anna í Grasagarðinn í Laugardal. Stundum var komið við í ísbúðinni í Álfheimunum. En það þurfti ekki ferð í Grasagarðinn til að fara í þá búð. Í þessum ferðum og reyndar eins og alltaf var rosalega gaman hjá okkur. Amma var mjög skemmtileg og góð kona með mikinn húmor. Hún var alltaf í sínu fínasta pússi og vel til höfð. Dömugenið og húmorinn í okk- ur frænkum er beint frá ömmu komið. Fyrir um tíu árum flutti amma í Gullsmárann. Þangað heimsóttum við hana oft því gott var að koma í kaffi til ömmu eftir langan skóladag og spjalla aðeins og hlæja. Þegar við gistum hjá ömmu á okkar yngri árum lagði hún mikla áherslu á að farið yrði með bænirnar á kvöldin fyrir svefninn. Um leið og við þökkum ömmu fyrir allar góðu stundirnar og allt sem hún gerði fyrir okkur viljum við kveðja hana með bæninni sem hún kenndi okkur Huldunum: Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni. Sitji Guðs englar saman í hring, sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Prestshólum.) Elsku amma, hvíl í friði. Hulda Þ., Hulda Björg og Guðbjörg Huld. HULDA GUÐMUNDSDÓTTIR ✝ Fjóla Kristín Sig-urðardóttir fæddist á Jökli í Eyja- fjarðarsveit 11. ágúst 1939 og ólst upp á Vatnsenda, Syðra- Dalsgerði og Gröf í sömu sveit. Hún and- aðist 12. desember síðastliðinn. Fjóla var dóttir hjónanna Sigurðar Sigurðsson- ar, f. á Ánastöðum 12. nóv. 1910, d. 22. apríl 1976, og Unnar Pálmadóttur, f. á Sílastöðum í Glæsibæjarhreppi 26. ágúst 1912, d. 19. okt. 1975. Fjóla var fjórða af níu systkinum, hin eru öll á lífi. Fjóla giftist 17. júní 1962 Davíð Jónssyni f. á Naust- um 1 á Akureyri 13. apríl 1940. Stofnaðu þau síðan heimili sitt þar. Börn þeirra eru þrjú: Pétur, kvæntur Önnu Lilju Fillips- dóttir, Valdimar Björn, sambýliskona Þorgerður Berg- vinsdóttir, og Sæunn Sigrún, sambýlis- maður Axel Örn Rafnsson. Þau búa öll á Akureyri. Fjóla var jarðsungin frá Akur- eyrarkirkju 17. desember. Það er svo skrítið að hún amma mín sé farin. Síðastliðinn laugardag hringdi pabbi í mig og spurði hvort ég vildi ekki koma norður og kyssa ömmu. Ég er svo fegin að hafa komið þennan dag og getað kvatt þig amma. Ég er viss um að þú fannst að ég var komin þar sem þú kreistir hönd mína og opnaðir augun. Þetta er mér mik- ils virði. Það sem við getum huggað okkur við er að nú líður þér betur og ert laus við þennan vonda sjúkdóm. Við frændsystkinin höfum nú brallað ýmislegt hjá ömmu á Naust- um, þar var oft mikið fjör. Þar ber helst að nefna alla kofana sem voru smíðaðir, öll kassabílarallýin og allan mysinginn sem var borðaður úr skeið með bestu lyst. Á laugardögum var það svo fastur liður hjá okkur að fara og borða besta grautinn í bænum hjá ömmu. Amma mín var dugleg kona og þrátt fyrir veikindi sín var hún alltaf að. Það er mér mjög minnisstætt þegar ég kom einn daginn í heimsókn að það var einhver að rölta hægt og rólega frá húsinu og að verkstæðinu. Þetta var hún amma, það var skíta- kuldi og smáhálka, en amma brá á það ráð finna sér prik til að hafa í annarri hendi og stafinn sinn í hinni. Hún var á leið með ruslið og fannst þetta minnsta mál þó svo að þetta tæki hana töluvert langan tíma. Þegar amma dó sagði Rúnar að þetta hefði ekki verið það besta sem gat komið fyrir ömmu, það besta væri að hún væri með honum að renna sér uppi á hól eins og einu sinni. Þetta er dagsatt, ég vildi óska þess að amma væri að renna sér með okkur, en það verður ekki í þessu lífi. Amma er nú komin á stað þar sem henni líður vel, hún mun fylgjast með okkur þangað til okkar tími kemur og þá mun hún taka á móti okkur. Þangað til bið ég Guð að geyma þig amma mín, mér þykir alveg rosalega vænt um þig og mun alltaf geyma minninguna um þig í hjarta mínu. Þín ömmustelpa Þóra. FJÓLA KRISTÍN SIGURÐARDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.