Morgunblaðið - 19.03.2005, Síða 37
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. MARS 2005 37
UMRÆÐAN
Fararstjóri Evrópurútanna
Friðrik G. Friðriksson
Evrópurútur Friðriks hafa þá sérstöðu að vera stresslitlar. Góð og vel
staðsett hótel. Góður matur, oft á sérvöldum veitingastöðum. Reynt að
skipta sem minnst um hótel og hafa keyrslu í lágmarki. Ekki farið
snemma á morgnana í ferðir og frjáls tími er mikill. Mest allt innifalið í
verði ferðarinnar.
Evrópurútur
Úrvals Útsýnar 2005
Engin ferð fellur niður
Spánn og Portúgal, páskaferð, 17.-29. mars kr. 99.500 uppselt
Spánn og Portúgal 5.-12. apríl kr. 79.500 uppselt
Spánn og Portúgal 12.-20. apríl kr. 84.500 örfá sæti laus
Eystrasaltslöndin 13.-26. maí kr. 154.500 örfá sæti laus
Íslendingar eru vel kynntir í Eystrasaltslöndunum og sérstaklega velkomnir
þangað. Þessi ferð var farin í fyrsta skipti árið 2003 og tókst frábærilega vel,
hreint ævintýri. Til viðbótar við þessi þrjú fyrrum ríki Sovétríkjanna gistum við í
Gdansk eða Danzig í Póllandi og Kaliningrad eða Königsberg, sem tilheyrir Rúss-
landi. Að lokum er dvalið í Finnlandi og siglt með lúxusskipi til Svíþjóðar. Það
verður eingöngu búið á fyrsta flokks hótelum og innifaldir eru 12 kvöldverðir
með fararstjóra.
Ítalía 15.-29. júní kr. 159.900 fá sæti laus
Gist verður á góðum hótelum með morgunverðarhlaðborði (loftkæld þriggja
stjörnu hótel). Það helsta sem skoðað verður er Róm, Forum Romanum, Coloss-
eum, Vatikanið, Péturskirkjan, Pompei, Capri og blái hellirinn, Flórens, Pisa, Fen-
eyjar o.fl.
10 kvöldverðir og tveir hádegisverðir (Pompei og Capri) eru innifaldir.
Mið-Evrópa 5.-19. ágúst kr. 159.900 fá sæti laus
Þessi ferð hefur verið uppseld síðustu 26 árin. Fjölbreytilegar skoðunarferðir
um Alpana, þá þýsku, austurrísku, ítölsku og svissnesku. Hótelin eru minnst 3
stjarna með morgunverðarhlaðborði. Kvöldverðirnir 13, sem eru innifaldir, eru
sérvaldir.
Vínuppskeruferð 9.-16. okt. kr. 96.500 uppselt
Aðventuferð Trier 20.-27. nóv. kr. 86.000 fá sæti laus
Aðventuferð Trier 27. nóv.-4. des. kr. 86.000 örfá sæti laus
Nánari upplýsingar og myndasafn á heimasíðu
Úrvals Útsýnar undir sérferðir/evrópurútur:
www.uu.is og í síma 585 4000
HVAÐ er mál beggja kynja og
hvers vegna notar Kvennakirkjan
það og hvetur til þess að það sé
notað í kirkjunni og öllu þjóðfélag-
inu?
Mál beggja kynja ávarpar bæði
kynin og vísar til þeirra beggja í
máli og texta sem fjallar um þau
bæði. Það tekur ekki annað kynið
fram yfir hitt. Þess vegna er til
dæmis hægt að segja verið öll vel-
komin í stað þess að segja allir eru
velkomnir. Í stað þess að biðja
þess í kirkjubæn að allir þeir sem
sjúkir eru fái bata er hægt að
biðja þess að öll hin sjúku læknist.
Þetta er stundum einfalt en getur
líka orðið ögn snúið og þarfnast
aðgátar og æfingar. Það er eðlilegt
vegna þess að við erum að taka
upp nýtt málfar í stað þess sem er
rótgróið í huga okkar.
Hvers vegna þarf að taka upp
mál beggja kynja? Einfaldlega
vegna þess að það þarf að ávarpa
og tala um bæði kynin ef í raun-
inni er verið að tala um þau bæði.
Málfar mótar. Það mótar viðhorf
til kynjanna að nota sem oftast orð
um annað kynið þegar talað er um
þau bæði. Málfar sem telur sjálf-
sagt að nefna ekki konur heldur
fela þær í orðunum um karlana
gerir upp á milli kynjanna. Þetta
málfar er svo algengt og þykir svo
sjálfsagt að fólk verður tíðum
hvumsa þegar óskað er eftir breyt-
ingu til máls beggja kynja. Það
verður afar augljóst í orðum um
atvinnugreinar. Ráðherrar halda
áfram að kallast ráðherrar þótt
konur bætist í hópinn. Samt verða
karlar hvorki hjúkrunarkonur,
fóstrur né ljósmæður, heldur vefst
það ekki fyrir þeim sem ráða mál-
um að skipta um heiti á starfs-
heitum og skólum til þess að menn
þurfi ekki að bera kvenheiti.
Sjálfri þykir mér auðvelt að sjá
mismununina.
Mismunun málsins sem við töl-
um hvern dag hefur haft gífurleg
áhrif. Hún hefur viðhaldið forrétt-
indum karla fram yfir konur. Við
sjáum víðar í máli okkar að það
þykir ekki hæfa að nefna menn
með kvenkynsorðum á sama hátt
og það þykir að nefna konur með
karlkynsorðum. Það
þykir gott mál að
segja að Margrét sé
drengur góður og
sannur vinur, en
óeðlilegt að segja að
Magnús sé góð stúlka
og sönn vinkona. Það
þykir sjálfsagt að
konur séu bræður en
óhæfa að menn séu
systur. Á fundum
presta, þar sem bæði
eru kvenprestar og
karlprestar, er tíðum
byrjað með því að
segja, verið velkomnir kæru bræð-
ur. En það þykir ekki eðlilegt að
segja á þessum fundum, verið vel-
komnar elsku systur.
Við í Kvennakirkjunni höldum
því alls ekki fram að aldrei skuli
notuð karlkynsnafnorð um konur.
Við segjum heldur
ekki að aldrei skuli
nota kvenkynsorð um
menn. Við andmælum
því ekki að konur séu
gestir, Íslendingar eða
bifvélavirkjar eða að
menn séu hetjur eða
bjargvættir eða mann-
eskjur. Við andmælum
því hins vegar að nota
karlkynsfornöfn um
hópa þar sem bæði eru
konur og menn. Við
teljum að nota eigi mál
beggja kynja með for-
nöfnum sem ávarpa eða vísa til
beggja kynja. Þess vegna teljum
við að ekki eigi að segja þeir held-
ur þau um hóp kvenna og manna.
Við höfum lagt að þjóðkirkjunni
að taka upp mál beggja kynja í
guðþjónustum og öllu starfi sínu
og því hefur oft verið vel tekið. Við
höfum gefið út bókina Vinkonur og
vinir Jesú með völdum köflum úr
Nýja testamentinu til að útskýra
mál okkar. Sumu hefur verið
breytt í handbók kirkjunnar og
sumir prestar hafa á eigin spýtur
breytt til máls beggja kynja í ritn-
ingarlestri, bænum og tali. Það er
eitt af meginatriðum jafnrétt-
isstefnu þjóðkirkjunnar að vinna
að endurskoðun málfars í kirkju-
legri boðun og starfi. Mál er ekki
bara málfræði. Mál er guðfræði.
Jesús sagði að konur og menn
skyldu hafa hinn sama rétt og
sýndi það með framkomu sinni og
verkum. Kirkjunni ber að fylgja
honum. Hún getur tekið að sér að
vera til fyrirmyndar með því að
nota mál beggja kynja.
Mál beggja kynja
Auður Eir Vilhjálmsdóttir
fjallar um málfar ’Mismunun málsinssem við tölum hvern dag
hefur haft gífurleg áhrif.
Hún hefur viðhaldið for-
réttindum karla fram
yfir konur.‘
Auður Eir
Vilhjálmsdóttir
Höfundur er prestur.
AÐ UNDANFÖRNU hefir sá
kvis borizt í eyru undirritaðs, að
Valhallarmenn væru að bera ví-
urnar í áhrifamenn í röðum
Frjálslynda flokksins.
Gera þeir ýmist að
manga til við þá
sjálfa eða setja á töl-
ur um að auðvelt ætti
að vera að sameina
flokkana. Skoðana-
ágreiningur sé ekki
stærri í sniðum en
svo að brúa mætti,
t.d. með því að „Sjálf-
stæðisflokkurinn
myndi skapa meiri
sátt um sjávarútvegs-
málin í byggðum
landsins“, svo vitnað
sé í leiðara Morg-
unblaðsins 5. marz sl.
Þar er þess og getið,
að undirritaður, Guð-
jón Arnar og Ólafur
F. Magnússon komi
úr röðum sjálfstæð-
ismanna. Má skilja að
þessvegna ætti að
vera hægurinn hjá að
sameina flokkana.
Þess er fyrst að
geta að áminnztir
menn koma ekki úr
röðum þess Sjálf-
stæðisflokks, sem nú
starfar. Raunar hafa þeir í grund-
vallaratriðum fylgt sömu stefnu í
stjórnmálum og áður. Það er núlif-
andi Sjálfstæðisflokkur sem yf-
irgaf þá og hvarf þeim með öllu út
á eyðimörk frjálshyggju og auð-
hyggju.
Það er þýðingarlaust fyrir Sjálf-
stæðisflokkinn að gera sig til fyrir
Frjálslynda flokknum í sjávar-
útvegsmálum. Reynslan hefir sýnt
og sannað, að tal forystu Sjálf-
stæðisflokksins um úrbætur á
hinni glæpsamlegu sjávarútvegs-
stefnu hefir ávallt reynzt fullkomin
blekking. Í þeim skjá hefir þann
veg þotið fyrir hverjar kosningar.
Frjálslyndi flokkurinn hefir
skýra og eindregna stefnu í mál-
efnum aldraðra og öryrkja. For-
ystumenn þeirra þjóðfélagshópa
segja Sjálfstæðisflokkinn leggja þá
í einelti.
Frjálslyndi flokkurinn telur at-
hafnafrelsi undirstöðu lýðræðis.
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins
hefir það frelsi verið afnumið með
öllu í sjávarútvegi og landbúnaði.
Frjálslyndi flokkurinn leggur
áherzlu á jafnan rétt þjóðfélags-
þegna til náms. Í þeim efnum, eins
og öðrum, dregur Sjálfstæðisflokk-
urinn taum hinna ríku
með hækkandi skóla-
gjöldum til náms í
sjálfum Háskóla Ís-
lands.
Frjálslyndi flokk-
urinn krefst réttlætis í
skattamálum, þar sem
gjöldum er létt af hin-
um tekjulægri en hinir
greiði meira sem bet-
ur eru efnum búnir.
Sjálfstæðisflokkurinn
léttir stórlega skatt-
byrðum hinna ríkustu
á kostnað annarra.
Frjálslyndi flokk-
urinn á ekki samleið
með flokki sem
sólundar milljörðum af
almannafé við sölu rík-
isfyrirtækja til einka-
vina.
Frjálslyndi flokk-
urinn mun aldrei eiga
samleið með flokki,
sem er tilbúinn til að
fara með ófriði á
hendur öðrum þjóðum
eins og Sjálfstæð-
isflokkurinn hefir gert
í Írak.
Hér er aðeins drepið á örfá at-
riði, sem sýna svo ekki verður um
villzt að Frjálslynda flokkinn og
Sjálfstæðisflokkinn greinir á í
grundvallaratriðum.
Þessu til viðbótar þyrftu þeir í
Valhöll að gera sér grein fyrir að
Frjálslyndi flokkurinn gengur
aldrei undir það mykjumen að
vinna með flokki sem stundar
faðmlög við Framsóknarflokkinn,
eins og sá flokkur er úr garði
gerður nú um stundir.
Það kynni hinsvegar að vera
fróðlegt að sjá hvað sjálfstæð-
ismenn vilja fram færa til að ná
samvinnu við Frjálslynda flokkinn.
Á það kann að reyna eftir næstu
kosningar til borgarstjórnar
Reykjavíkur að ári – og þingkosn-
ingar árið 2007. Óséð verður vara
mangaranna ekki keypt.
Mangarar
Sverrir Hermannsson fjallar
um stefnu Frjálslynda flokksins
Sverrir
Hermannsson
’Það er þýðing-arlaust fyrir
Sjálfstæðis-
flokkinn að gera
sig til fyrir
Frjálslynda
flokknum í
sjávarútvegs-
málum.‘
Höfundur er fv. form.
Frjálslynda flokksins.