Morgunblaðið - 21.05.2005, Page 28
28 LAUGARDAGUR 21. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
Selfoss | Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld á
Selfossi, hlaut menningarviðurkenningu Ár-
borgar árið 2005. Verðlaunin voru veitt á há-
tíðartónleikum á Stokkseyri við upphaf
menningarhátíðar Árborgar, Vor í Árborg, í
fyrrakvöld.
Í ávarpi Ingu Láru Baldvinsdóttur, for-
manns lista- og menningarnefndar Árborgar,
sem afhenti viðurkenninguna kom fram að
tónlist hafi staðið traustum fótum á Eyr-
arbakka og Stokkseyri á seinni hluta 19. ald-
ar. Með þeirri bylgju sem þetta tónlistarstarf
bar með sér hafi verið sáð fræjum sem gátu
af sér tónskáld eins og Sigfús Einarsson og
Pál Ísólfsson. En þótt fortíðin væri glæst og
góð væri ekki minna um vert að hafa á meðal
okkar í sveitarfélaginu Árborg tónskáld í
samtímanum sem auðguðu menningarlíf
sveitarfélagsins með verkum sínum og sáðu
fræjum sem vonandi blómstruðu og döfnuðu
um ókomna framtíð.
Elín Gunnlaugsdóttir hefur starfað við tón-
smíðar ásamt kennslu frá því hún lauk námi
frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar
framhaldsnámi frá Konunglega tónlistarhá-
skólanum í Haag. Tónsmíðar hennar eru
margar hverjar skrifaðar fyrir kóra og minni
hljóðfærahópa. Hún hefur tvisvar verið stað-
artónskáld í Skálholti. Elín kennir við Tón-
listaskóla Árnesinga og Vallaskóla á Selfossi.
Einn af viðburðum á menningarhátíðinni
Vor í Árborg sem stendur fram á sunnudag
eru tónleikar kórs Vallaskóla sem Elín stjórn-
ar.
Menning Elín Gunnlaugsdóttir, til vinstri,
tók við menningarviðurkenningu Árborgar
úr hendi Ingu Láru Baldvinsdóttur.
Tónskáld fær
menningar-
viðurkenningu
Innri-Njarðvík | Hröð uppbygging
Tjarnahverfis og starfsemi hins nýja
Akurskóla voru meðal umræðuefna á
fundi Árna Sigfússonar, bæjarstjóra
Reykjanesbæjar, með íbúum í Innri-
Njarðvík fyrr í vikunni. Reiknað er
með að 80 til 90 nemendur verði í Ak-
urskóla næsta vetur.
Árni Sigfússon bæjarstjóri efnir
árlega til fimm funda með íbúum í
hverfum Reykjanesbæjar. Fundur-
inn í Innri-Njarðvík var sá fyrsti að
þessu sinni og var afar vel sóttur. Þar
voru 150 til 160 íbúar og fylltu safn-
aðarheimilið.
Í framsöguræðu fór bæjarstjóri yf-
ir stefnuna sem mörkuð var í upphafi
kjörtímabilsins, meðal annars um
þjónustu og framkvæmdir, og stöðu
einstakra mála nú. Þá var farið sér-
staklega yfir mál sem snerta íbúa í
Innri-Njarðvík. Þar eru að verða
miklar breytingar vegna uppbygg-
ingar nýs hverfis, Tjarnahverfis, en
flutt verður inn í fyrstu íbúðirnar þar í
haust. Svo mikil ásókn hefur verið í
lóðir að farið er að huga að öðru íbúð-
arhverfi, í framhaldi af Tjarnahverfi,
og gætu framkvæmdir hafist þar á
næsta ári ef svo fer fram sem horfir.
Árni gat þess á fundinum að nú lægju
fyrir á annað hundrað umsóknir um
lóðir og því ekki annað að gera en að
halda áfram að skipuleggja.
Bæjarstjóri sagði frá hugmyndum
um uppbyggingu strandhverfis þar
sem fiskvinnsluhúsin eru nú í Innri-
Njarðvík og sýndi fyrstu drög að
skipulagi. Hann sagði jafnframt frá
íbúðarhúsabyggingum annars staðar
í bæjarfélaginu. Húsagerðin er að
skipuleggja íbúðahverfi í Hlíðahverfi
sem liggur milli Keflavíkur og Njarð-
víkur, tvö fyrirtæki eru að byggja og
með áform um að byggja fjögur há-
hýsi með allt að 100 íbúðum við Kefla-
víkurhöfn. Þá er verktaki á vegum
Búmanna að byggja hús í hverfi með
40 íbúðum í Njarðvík.
Þá eru fyrirtæki að huga að upp-
byggingu þjónustumiðstöðva í hverf-
inu. Keflavíkurverktakar eru með
hugmyndir um miðstöð sem gengur
undir vinnuheitinu Kaupbætir. Þá
upplýsti bæjarstjóri að Smáratorg
ehf. sem er í eigu eiganda Rúmfata-
lagersins væri að spyrjast fyrir um
lóð. En sá munur að fá Rúmfatalager-
inn, heyrðist þá í konu í salnum og var
tekið undir þau orð með lófataki.
Nýjung í Akurskóla
Verið er að byggja grunnskóla í
Tjarnahverfi, Akurskóla, og verður
fyrsti áfangi hans tekinn í notkun í
haust. Þar verða 80–90 börn í fyrstu
sex bekkjum grunnskóla, í nokkrum
aldursblönduðum bekkjum. Húsnæð-
ið er hannað og skólastarf skipulagt
miðað við hugmyndir um einstak-
lingsmiðað nám. Eldri nemendum
verður fyrstu árin ekið í Njarðvíkur-
skóla en einn árgangur bætist við í
Akurskóla á ári þar til skólinn verður
fyrir alla aldurshópa. Þá verður nem-
endum ekið í íþróttir en Árni bæjar-
stjóri sagði á fundinum að miðað við
þá hröðu uppbyggingu sem væri í
hverfinu mætti búast við að farið yrði
í byggingu íþróttahúss og sundlaugar
við skólann í framhaldi af byggingu
hans.
Á fundinum kom fram fyrirspurn
um það hvort ekki væri hægt að gefa
eldri nemendum úr hverfinu kost á að
stunda nám við Akurskóla og því
haldið fram að ekki vantaði mikið upp
á að hægt væri að flytja þangað heilan
bekk úr Njarðvíkurskóla. Eiríkur
Hermannsson fræðslustjóri sagði að
vegna þess að verið væri að taka upp
breytt fyrirkomulag á námi í þessum
nýja skóla, hið svokallaða einstak-
lingsmiðaða nám, væri talið æskilegt
að byrja á yngri nemendum. Erfitt
gæti verið fyrir eldri nemendur, sem
væru vanir hefðbundnu skipulagi, að
koma inn í nýtt umhverfi. Því hefði
verið ákveðið að byrja á yngri börn-
unum og láta þau síðan vaxa upp í
þessu nýja umhverfi.
Ábendingar um lagfæringar
Árni óskaði eftir því að íbúarnir
segðu hug sinn um það sem þeir teldu
að betur mætti fara í hverfinu. Fjöl-
margar ábendingar bárust, ekki síst
um smærri atriði í umhverfinu og um-
ferðina sem ritari bæjarstjórans
skrifaði niður og Árni lofaði að láta
lagfæra fyrir næsta íbúafund.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Fjölmenni Safnaðarheimili Innri-Njarðvíkurkirkju var þétt setið á fundi bæjarstjóra með íbúum hverfisins.
Skólamál og hröð uppbygging til umræðu á fundum bæjarstjóra Reykjanesbæjar með íbúunum
Ekki annað
að gera en að
halda áfram
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
SUÐURNES
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
Stokkseyri | „Það eru tíu ár
síðan ég fór af stað með þessa
hugmynd. Það var þegar við
hjónin keyptum gamalt kot,
Helgastaði, en þá fylgdi þetta
land. Við sáum fyrir okkur að
vinna upp hugmyndina um af-
þreyingargarð. Ætli það sé ekki
sveitabarnið í mér sem er að
brjótast fram,“ segir Torfi Ás-
kelsson á Stokkseyri, einn eig-
enda Töfragarðsins á Stokks-
eyri.
Hugmyndina að nafninu fékk
Torfi úr bókinni Undragarð-
urinn. Hann segir að það hafi
lengi brotist í sér að byrja bú-
skap. Þau hjónin, Torfi og Ingi-
björg Ársælsdóttir, hafa ásamt
félögum sínum, hjónunum Reyni
Sigurvinssyni og Svanfríði Jon-
es, unnið að uppsetningu garðs-
ins. Þau hófust handa fyrir ári
og opnuðu fyrsta hluta garðsins
síðastliðinn fimmtudag.
Hænurnar í
sérstöku uppáhaldi
„Þetta er húsdýra- og fjöl-
skyldugarður með leiktækjum
fyrir krakka. Við viljum búa til
erindi fyrir fólk að koma hingað
sér til skemmtunar og njóta
samvista með börnunum í kring-
um dýrin. Svo geta börnin
skemmt sér á stóru hoppdýn-
unni, bæði með því að hoppa og
horfa á foreldra sína reyna sig.
Okkur finnst gaman að vinna að
þessu og viljum auðvitað auka
fjölbreytileikann hér við strönd-
ina með því að fá sem flesta
gesti svo þetta skili okkur ein-
hverri innkomu,“ segir Torfi og
er ánægður með viðtökur gest-
anna á opnunardaginn og hann
er ekki síður ánægður með dýr-
in í garðinum og segir hæn-
urnar í sérstöku uppáhaldi hjá
sér en um er að ræða íslenskar,
skrautlegar haughænur. „Svo
munum við fá hingað hreindýr
þegar við fáum leyfi fyrir þeim,“
segir Torfi en hreindýr er í
merki garðsins.
„Ævintýrið í þessu öllu saman
er að láta hugmyndirnar rætast
þannig að hér gerist eitthvað
sem enginn á von á og fólk fái
útrás við það að koma til okkar,
líta í kringum sig, reyna eitt-
hvað nýtt og fá sér kaffisopa og
aðrar veitingar í tjaldinu þar
sem við munum reisa veitinga-
hús í framtíðinni,“ sagði Torfi.
Morgunblaðið/Jóhann Óli Hilmarsson
Ærslabelgurinn Stóra hoppu-
dýnan nýtur ómældra vinsælda
ungu kynslóðarinnar við opnun
Töfragarðsins.
Sveitabarnið brýst fram
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Töfrar Torfi Áskelsson tyllir sér á gamla sláttuvél í garðinum.
Töfragarðurinn á Stokkseyri er gamall draumur Torfa Áskelssonar
Eftir Sigurð Jónsson