Morgunblaðið - 26.06.2005, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 26.06.2005, Blaðsíða 24
24 SUNNUDAGUR 26. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ Leiðir okkar Jóhönnu Jó-hannsdóttur í Haga hafalegið saman í fimmtíu ár ogenda þótt hún sé níræð erhún svo skemmtileg að það er alltaf tilhlökkunarefni að hitta hana. Ég hringdi í hana á sumardag- inn fyrsta; kvaðst vera á leiðinni í Þjórsárdalinn og mundi líklega líta inn hjá henni. Það líkaði henni vel, „kaffið verður á könnunni og búið að flagga“, sagði hún. Það stóð allt heima. Hekla var snækrýnd niður í rætur, en landið fölt yfirlitum og sá fölvi átti eftir að haldast í tvo mánuði á óvenju þurru og óhagstæðu vori hvað gróður áhrærir. Það var samt fallegt þennan vordag í Haga; útsýnið mikilfenglegt til Heklu og suður yfir Þjórsá, Skarðsfjall og efsta hluta Land- sveitar. Hagi er í Eystrihrepp, sem oft er nefndur svo, en hét líka Gnúpverja- hreppur þar til fyrir skömmu að Gnúpverjar og Skeiðamenn gengu í eina sæng í sveitarstjórnarmálum. Bæjarstæðið í Haga er frábærlega fallegt; bærinn stendur undir vel gró- inni hlíð Hagafjalls, enda valdi land- námsmaðurinn, Þorbjörn laxakarl, einmitt að byggja landnámsbæinn í Haga. Býr ein í risíbúð Bærinn er eins og sæmir á land- námsjörð; glæsilegur húsakostur, og búið að flagga eins og til stóð á sum- ardaginn fyrsta. Ég tók líka eftir því, sem er frekar óvenjulegt, að hvergi var rusl að sjá, spýtnahrúgur, gamlar búvélar og slíkt. Við komum síðar að ástæðunni fyrir því. Búendur á jörðinni eru hjónin Kristmundur Sigurðsson og Sigrún Guðlaugsdóttir. Þau eiga fjögur börn og búa í reisulegu steinhúsi, sem Jó- hanna og Haraldur Georgsson, bóndi hennar, byggðu 1958. Svo rammlega var frá öllu gengið að engar skemmd- ir urðu á húsinu í jarðskjálftunum sumarið 2000. Í risinu er séríbúð með tveim stórum kvistum og gluggum til allra átta. Þar býr Jóhanna ein og hef- ur búið þar síðan Haraldur féll frá ár- ið 1992. Hún segir ekkert betra til en að geta verið sjálfstæð og búið ein án aðstoðar. En það er fólk í húsinu ef með þarf og í því er öryggistilfinning. Haraldur Georgsson í Haga var Reykvíkingur að uppruna; glæsi- menni og einn af brautryðjendunum í bílaútgerð. Hafði hann með höndum sérleyfið austur að Ásólfsstöðum í Þjórsárdal, þar sem þá var rekið gisti- hús og síðar bætti hann við vörubíla- útgerð vegna vikurflutninga. Með fyrri konu sinni, Guðrúnu, átti Har- aldur fjórar dætur, en hún dó frá þeirri fjórðu. Haraldur var á bezta aldri orðinn ekkill með dæturnar og tengdamóður sína, sem þar var einnig til heimilis. Með tíð og tíma stofnaði hann til sambands við þrítuga stúlku á næst- næsta bæ, Hamarsheiði. Þar er kom- in til sögunnar sú Jóhanna í Haga, sem við erum að heimsækja. Ótíma- bær dauði kom aftur við í Haga síðar, þegar dætur Haraldar, Jóhanna Mar- grét og Ragnheiður létust á bezta aldri; sú síðarnefnda frá eiginmanni og börnum. Raunar bjó Ragnheiður í Melhaga, nýbýli frá Haga. Dóttir hennar er Sigrún Guðlaugsdóttir, nú húsfreyja í Haga, svo sem áður var nefnt. Þau Haraldur Georgsson og Jó- hanna Jóhannsdóttir frá Hamarsheiði giftu sig og Jóhanna fluttist úr for- eldrahúsum að Haga 9. júní 1945. Þann dag í ár hélt hún hátíðlegt að hafa búið í 60 ár í Haga. Sauðabúskapur og súrmeti Foreldrar Jóhönnu, hjónin á Ham- arsheiði, voru Jóhann Kolbeinsson, bóndi og fjallkóngur, og Þorbjörg Er- lendsdóttir. Jóhanna átti þrjú eldri systkini og tvö yngri. Hún fæddist 1914; árið sem fyrri heimsstyrjöldin hófst og fyrsta endurminning hennar er líklega um Kötlugosið 1918. Jó- hann á Hamarsheiði var eftirminni- legur maður, stórvaxinn og karl- mannlegur með dæmigert 19. aldar yfirskegg og oft með barðastóran hatt. Eins og eðlilegt má telja var Jó- hann eftirsóttur af ljósmyndurum í Skaftholtsréttum, þar var hann kóng- ur í ríki sínu. Foreldrar Jóhönnu hófu búskap á Hamarsheiði 1908 og hún minnist þess að á fyrri búskaparárum þeirra hafi þau búið með allmarga sauði. Það var borðað sauðakjöt og ekki magurt. Hún kveðst hafa alizt upp við mikið súrmetisát. Allar sauðaafurðir sem hægt var að geyma þannig voru sett- ar í sýru og telur Jóhanna, og ber fyr- ir sig kenningar úr læknavísindum, að súrinn hafi brotið niður kólesteról, sem veldur mörgum fjörtjóni í nútím- anum. Á síðustu áratugum hefur verið haldið á loft kenningum um skaðsemi feitmetis og jafnframt hefur verið boðað fagnaðarerindi grænmetis- neyzlu. Það skýtur dálítið skökku við þegar andlegt og líkamlegt atgervi Jóhönnu í Haga er haft í huga, að hún hefur aldrei hvikað frá því að borða feitt kjöt, en grænmeti er ekki á hennar matborði. „Mér finnst magurt kjöt leiðinlegt,“ segir hún, „og mýki það þá gjarnan með smjöri“. Heyrðist þá í Knúti, fyrrum vinnumanni í Haga: „Ég sá nú ekki betur en hún smyrði kjötið þó að það væri feitt.“ Því má bæta við að Jóhanna fær sér ævinlega rjóma út á skyr og grauta, drekkur mjólk með matnum og þegar hún býr til kæfu bragðbætir hún hana með smjöri. En hún kveðst vera lítil kaffikerling og brennivín hefur hún leitt hjá sér til þessa. Á síðastliðnum vetri birtist grein í Morgunblaðinu eftir konu sem hafði haft umsjón með mat á elliheimili. Sagði hún gamla fólkið verða orku- laust af nýmóðins mat, enda alið upp við allt annað. Vakti þessi grein mikla athygli og hefur án efa orðið til þess að ýmsir eldri borgarar hafa endur- skoðað fæðisval sitt. Hreyfing er grundvallaratriði Annað grundvallaratriði fyrir lík- amlega hreysti er hreyfing, segir Jó- hanna. Hún er svo mikill lestrarhest- ur að hún gæti setið dagana langa og lesið. En það gerir hún ekki, heldur rís hún öðru hvoru upp til að hreyfa sig og bregður sér þá gjarnan út og fær sér göngusprett. En gangan má líka gjarnan hafa tilgang, annan en þann að bæta úthaldið. Hún hefur þess vegna sérstaka, langa töng með sér og með henni tínir hún upp sér- hvert rusl sem sést í nánd við bæinn í Haga. Annað fólk á bænum er einnig samtaka í þessu stanzlausa hreinsun- arátaki. Jóhanna hefur líka staðið í langri baráttu við að uppræta njól- ann, sem ekki þykir fallegur, en er eftir því lífseigur í nánd við gripahús. Hún kveðst nú langt komin með að út- rýma honum. Í marga áratugi var Jóhanna hús- móðir á mannmörgu og erilsömu heimili. Þar voru engin rólegheit og ekki er hægt að grípa til þess að skýra góða endingu Jóhönnu með því. Vinnudagurinn var myrkranna á milli; þau Haraldur voru með fjárbú og kúabú ásamt bílaútgerðinni og það voru tíu til tuttugu manns í heimili og allan daginn verið að útbúa mat handa einhverjum. Var hún oft þreytt? Nei, ekki minn- ist hún þess sérstaklega. Endingin hefur að flestu leyti verið frábær; að- eins hefur þurft að skipta út mjaðma- liðum og láta stál fyrir bein. Haraldur og Jóhanna eignuðust eina dóttur, sem heitir líka Jóhanna og býr á Sel- fossi. Þar á Jóhanna eldri fjögur barnabörn og raunar þrjú barna- barnabörn. Líklega var annríkið of mikið inn- anbæjar til þess að Jóhanna lærði að aka bíl. En hún var þeim mun meira á hestum og hélt því þar til hún fékk stálkúlurnar. Hún fór að hreyfa sig markvisst til heilsubótar fljótlega eft- ir að Haraldur féll frá og alltaf tekur hún Müllersæfingar eftir bað. Hins vegar var hún aldrei beint í íþróttum; það var ekki aðstaða til þess í sveitum á fyrriparti síðustu aldar. Körfuboltinn reyndist góð tilbreyting En hvernig kom körfuboltinn til? Ójú, það var vegna þess að síðast- liðinn vetur gerði mikla hálku, svo hún lagði ekki í að ganga úti. Þá sá hún þessa aðstöðu í tómri hlöðu, körfu á vegg og bolta, sem var dálítið nýtt fyrir hana að handleika. En boltinn þjálfar samhæfingu og framfarir hafa orðið verulegar. Í fyrstu kvaðst hún sjaldan hafa hitt körfuna, en einsetti sér að hætta ekki fyrr en hún hefði hitt þrisvar. Nú kemur fyrir að hún hittir tuttugu sinnum. Jóhanna fer á fætur fyrir klukkan 8 á morgnana og er komin í rúmið 11– 12, eða fyrir miðnætti. Sefur alltaf vel, segir hún; engar svefnpillur, en komi það fyrir að hún verði andvaka þá bregst ekki að fara með löng kvæði, sem hún kann utanbókar í nægum mæli til að fylla bækur. Raunar hefur hún skrifað upp stórt safn af kvæðum, stundum jafnvel úr ljóðabókum sem hún á. En uppáhaldsskáldin hennar eru þjóðskáldin gömlu, allt frá Jónasi Hallgrímssyni til Steingríms Thor- steinssonar, Þorsteins Erlingssonar, Davíðs frá Fagraskógi og Tómasar Guðmundssonar. Ljóðmæli Herdísar og Ólínu Andrésdætra eru líka í uppá- haldi, svo og ævisögur. En allra mest metur hún sálma séra Valdimars Briem á Stóranúpi, svo og sálma séra Matthíasar Jochumssonar. Jóhanna hefur ekki notið neinnar formlegrar skólamenntunar, annarr- ar en barnaskólans, sem að sjálfsögðu var Ásaskóli, í göngufæri frá Ham- arsheiði. Þar lærði hún mörg kvæði utanbókar og man þau enn. Með sjálfsnámi hefur hún orðið læs á Norðurlandamál og finnst skemmti- legt að lesa norrænar bókmenntir á frummálinu. Orgelleikur og ljósmyndatökur Nokkrum sinnum í viku hverri sezt hún við meira en aldargamalt orgel, sem hún hefur hjá sér, og spilar bæði sálma og Fjárlögin, sem svo voru nefnd. Kjartan Jóhannsson, orgel- leikari frá Ásum, kenndi henni á unga aldri eins og fjölmörgum unglingum úr Eystrihrepp. Kjartan fór milli bæja og kenndi, því víða voru til orgel, en stundum hafði hann orgel með sér. Fyrir nokkrum árum varð ég var við að Jóhanna í Haga ljósmyndaði mikið, einkanlega á ferðalögum inn- anlands. En hvernig kom það til að hún byrjaði á þeirri iðju? Það stóð í sambandi við sjötugsafmæli hennar; hún fékk þá myndavél í afmælisgjöf og notar hana enn. Svo skrifar hún myndatexta með hverri mynd og á 11 albúm full af myndum. Þegar ég vann að bók minni um sögustaði á Suður- landi, hafði ég lengi beðið þess að ná Heklu á mynd án skýja og meðan enn væri snjór norðan á fjallinu. Jóhanna tók að sér að vera á vaktinni. Hún hringdi einu sinni og sagði tindinn hreinan, en of mikið af ljósum skýjum á bak við hann. „Ég mundi ekki mynda Heklu þannig,“ sagði hún, og enn beið ég og loks kom kallið: Öll skilyrði sem bezt. Það reyndist rétt. Það er skemmtilegt að koma að Haga og ræða við Jóhönnu um lands- ins gagn og nauðsynjar, svo og hvers konar menningarmál. Andlegt fjör hennar er með ólíkindum og tilfinn- ingin verður sú að viðmælandinn sé ekki bóndakona á tíræðisaldri með sáralitla skólamenntun, heldur full- orðin menntakona. Níræð í körfubolta Hagi í Þjórsárdal, Hagafjall rís að baki. Íbúðarhúsið var byggt 1958 og Jóhanna býr í risíbúðinni. Nú er bara að sjá hvort boltinn hittir körfuna, sem ber við efri brún á steinveggn- um í hlöðunni. Þarna var æfingastaður Jóhönnu sl. vetur ef hált var utan dyra. Jóhanna Jóhannsdóttir í Haga í Þjórsárdal er níræð og heldur sér í góðu líkamlegu formi með hreyfingu og körfubolta, borðar feitmeti og mýkir kjöt með smjöri. Skerpa hennar og minni er eins og framast er hægt að láta sig dreyma um. Gísli Sig- urðsson ræddi við Jóhönnu. Höfundur er rithöfundur og myndlistarmaður. Ljósmynd/Gísli Sigurðsson Jóhanna í Haga undirbýr atlögu að körfunni með nokkrum æfingum utan við hlöðuvegginn.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.