Fréttablaðið - 19.03.2005, Blaðsíða 16
Reykjavíkurakademían hefur í
vetur gengist fyrir vitrænum um-
ræðum um brennandi þjóðfélags-
mál og fengið til liðs við sig sér-
fróða menn og boðið stjórnmála-
flokkunum jafnframt til þátttöku.
Ein slík fyrirlestraröð hefur farið
fram í haust og vetur undir heildar-
heitinu Virkjun lands og þjóðar. Síð-
astliðinn laugardag voru þar fram-
sögumenn dr. Jón Ágúst Þorsteins-
son, formaður nýstofnaðra samtaka
sprotafyrirtækja, og Ásgeir Jóns-
son, hagfræðingur og lektor við Há-
skóla Íslands.
Báðir reyndu framsögumenn að
forðast pólitík í framsöguerindum
sínum. Engu að síður varð vart hjá
því komist að álykta af ræðum
þeirra beggja að Íslendingar standa
nú sem þjóð frammi fyrir vali, þýð-
ingarmiklu og afdrifaríku vali, um
það hvernig þeir kjósa að verja
mannauði sínum í framtíðinni. Trúa
þeir á vaxtarmöguleika frjáls hag-
kerfis og getu til að skapa ný, fjöl-
breytt og arðvænleg störf án hand-
leiðslu ríkisvaldsins? Eða telja þeir
að eina leiðin til hagsældar sé að
ríkisvaldið dragi hingað alþjóðleg
málmbræðslufyrirtæki með útsölu
á orkulindum og fyrirheitum um
lægri kaupgreiðslur en fyrirtæki
þessi eiga að venjast í þessum
heimshluta?
Sprotafyrirtæki eru hátækni-
fyrirtæki, sem fyrst og fremst
byggjast á þekkingu, sem oftar en
ekki er áunnin í nánu samstarfi há-
skóla eða tækniskóla og atvinnulífs.
En til þess að hugmyndir sem þannig
verða til skili arði inn í íslenskt þjóð-
líf, þurfa þær fyrst að verða að vöru
og um framleiðsluna verður að
stofna fyrirtæki. Langan tíma tekur
að þróa vöruna, ekki er óalgengt að
fyrstu árin fari þriðjungur af veltu
til vöruþróunar. Þau eru því framan
af rekin með bókhaldslegu tapi og
þurfa mikið og þolinmótt fjármagn
til að lifa af bernskuskeiðið. Áhætt-
an er líka mikil, aðeins fá þeirra lifa
af þessi fyrstu ár til að ná þeim millj-
arði í veltu, sem gjarnan er notaður
sem mælikvarði á, hvort fyrirtækið
eigi möguleika á framhaldslífi og
sjálfbærri tilveru. En ekki er nóg að
hafa þróað úrvalsvöru og aflað henni
jafnvel einkaleyfa. Varan verður að
slá í gegn víðar en á okkar litla og
takmarkaða heimamarkaði. Og
markaðssetningin reynist raunar
mörgum þessum fyrirtækjum ofviða
og þau neyðast til annaðhvort að
leggja upp laupana eða selja afurð
sína erlendum risafyrirtækjum. Hér
dugar ekki að hugsa í árum eða kjör-
tímabilum heldur í áratugum fram í
tímann, ekki um skyndigróða og
skammtímatarnir, heldur fara fram
með seiglu og festu og framsýni.
Marel og Össur eru góð dæmi um
velheppnuð fyrirtæki, sem byggja á
íslensku hugviti og vel heppnaðri al-
þjóðlegri markaðssetningu.
Ásgeir Jónsson fór í sínum fyrir-
lestri yfir hagkvæmni stóriðju sem
valkost til að byggja upp atvinnulíf
framtíðarinnar hér á landi. Hann
benti á að fyrir eins og 100 árum var
Ísland eitt mesta fátæktarbæli Evr-
ópu, og að til þess að þjóðir gætu
rifið sig upp úr slíkri örbirgð þyrfti
eitthvert „stórt spark“, sem dygði
til að snúa þeim á braut hagvaxtar.
Slíku hlutverki hefði sjávarútveg-
urinn gegnt hér á landi með vélvæð-
ingu bátaflotans og togaravæðing-
unni. Hefði sjávarútvegurinn ekki
náð því forskoti hefðu draumar Ein-
ars Benediktssonar í upphafi aldar-
innar um nýtingu orkunnar í fall-
vötnum landsins og orkufrekan iðn-
að sennilega fengið það hlutverk að
rífa Ísland upp úr miðaldaháttum
sínum.
En störfin við stóriðju eru frem-
ur fá, þótt þau séu allvel borguð á
íslenskan mælikvarða. Við eigum í
keppni við þriðja heims lönd um að
fá stóriðjuna til okkar og til þess
verðum við að selja orkuna með
tapi, eins og sést á því að arðsemi
eiginfjár Landsvirkjunar á árunum
1998- 2003 var 2,9%, sem er minni
en verðbólga. Auk þess þurfum við
að veita stóriðjunni margvísleg
skattfríðindi. Því hefur verið hald-
ið fram að stóriðjan skjóti fleiri
stoðum undir atvinnuvegi þjóðar-
innar og minnki vægi sjávarútvegs
og auki fjölbreytni í útflutningi. En
ef svo fer fram sem horfir munu
40% af útflutningi landsmanna inn-
an skamms verða ál og þessi afurð
vera komin með sömu stöðu í út-
flutningi landsmanna og sjávar-
útvegurinn 1980. Áliðnaður er
heldur ekki sveiflujafnandi. Ef
eitthvað er, er álverð á heimsmark-
aði nú mun sveiflukenndara en
fiskverð. Íslendingar hafa ætíð
þurft að bera stóriðjuna á höndum
sér. Árið 1999 seldi Landsvirkjun
66% af framleiddri orku til stór-
iðju, en aðeins 38% af tekjunum
komu þaðan. Stóriðjan er ekki
lausn á landsbyggðarvandanum.
Hún er fyrst og fremst byggðaþétt-
ingartæki, sem gæti sogað vinnu-
afl til nokkurra byggðakjarna utan
suðvesturhornsins. Sá þjóðhags-
legi ábati, sem á undanförnum ára-
tugum kann að hafa verið til staðar
vegna stóriðjuframkvæmda á ekki
lengur við. Þvert á móti, þær valda
skekkju og truflun í hagkerfinu.
Stóriðjan er því ekki nauðsyn held-
ur val, vegna þess að hagvöxtur
héldi áfram fyrir eigin vélarafli,
þótt hennar nyti ekki við.
Óhjákvæmileg pólitísk niður-
staða mín, eftir að hafa hlýtt á mál-
flutning þessara tveggja ungu
manna, er sú að ráðamenn okkar
hafi enga trú á vaxtarmöguleikum
frjáls hagkerfis og getu til að skapa
ný og fjölbreytt störf án handleiðslu
ríkisvaldsins. Ellegar þá að Lands-
virkjun sé vaxin þeim yfir höfuð og
æði bremsulaus og stjórnlaus
áfram í átt að hengiflugi. Þjóðin
stendur frammi fyrir því vali að
eflast af eigin rammleik við gefandi
störf í krafti menntunar, hátækni og
þekkingar eða selja alþjóðafyrir-
tækjum líkamskrafta sína við ein-
hæf störf í risavöxnum málm-
bræðslufabrikkum. Hvora framtíð-
ina kjósum við heldur börnum
okkar og barnabörnum? ■
Þ að eru fleiri fornir fjendur við sjóndeildarhringinn þessadagana en hafísinn sem er kominn að landi fyrir norðan.Verðbólgan hefur sótt í sig veðrið undanfarna mánuði og
greiningardeildir bankanna spá því nú að hún fari yfir 6 prósent
á þessu ári. Fyrir vikið verða endurskoðunarákvæði kjara-
samninga á almennum vinnumarkaði virk og frá ASÍ hafa kom-
ið skýr skilaboð um að þar á bæ séu menn að skoða af fullri
alvöru að segja upp samningum í haust.
Þetta er geggjuð staða.
Á Íslandi ríkja nú einhverjir mestu velmegunartímar sem
þjóðin hefur upplifað. Hagvöxtur á árinu stefnir í að verða um
sex prósent og er spáð góðum áfram. Kaupmáttur hefur aukist
og fólk því með meira fé milli handanna, sem það nýtir óspart
til að endurnýja bílaflota sinn, leggja parkett, ferðast til útlanda
og kaupa flata risasjónvarpsskerma og annan misnauðsynlegan
hégóma.
Við höfum það sem sagt gott. Mjög gott. En verðbólgan
kraumar við sjónarrönd og ef hún nær sér á strik fyrir alvöru
minnkar velmegunin í réttu hlutfalli við hækkandi afborganir
af verðtryggðum lánum landsmanna.
Í því samhengi væri eitt það versta sem gæti gerst að verka-
lýðshreyfingin ákvæði að standa við hótanir sínar um uppsögn
kjarasamninga. Þá gætum við allt eins staðið frammi fyrir
gamalkunnum hækkunum launa og verðlags til skiptis og þá
fyrst væri verðbólgufjandinn laus fyrir alvöru.
En af hverju er ASÍ að skoða uppsögn samninga ef þjóðin
hefur það svona gott? Hér eru rök sem má lesa í nýlegum pistli
á vef sambandsins: „Það er ljóst að ef almennt verðlag heldur
áfram að hækka líkt og undanfarna mánuði þá eru litlar líkur á
því að verðbólgan verði komin niður í 2,5% á haustmánuðum og
það mun því reyna verulega á endurskoðunarákvæði kjara-
samninga í haust.“
Gott og vel. Ef þetta væri rétt. Í hálf fimm fréttum greining-
ardeildar KB banka á fimmtudag kemur fram að staðreyndin er
sú að almennt verðlag hefur alls ekki hækkað umfram þau 2,5
prósent sem eru verðbólgumarkmið Seðlabankans og verka-
lýðshreyfingin miðar uppsagnarákvæði kjarasamninga við. Ef
hækkun fasteignaverðs undanfarna tólf mánuði er fjarlægð úr
neysluvísitölu Hagstofunnar hefur vísitala neysluverðs aðeins
hækkað um 2 prósent en ekki 4,7 prósent eins og vísitalan segir
til um. Eins og segir í hálf fimm fréttum greiningardeildar KB
banka „er því ljóst að verðbólguskotið sem nú gengur yfir á
fremur rætur sínar að rekja til hækkandi eignaverðs en að
verðlag almennrar framfærslu hafi hækkað“. Hækkun á
almennum vörum og þjónustu, öllu öðru en fasteignaverði, er
sem sagt vel undir uppsagnarákvæði kjarasamninganna.
Það væri vægast sagt öfugsnúið ef lækkun vaxta húsnæðis-
lána sem hafði í för með sér hækkun eignaverðs, sem er ein-
hver mesta kjarabót íslenskra heimila í seinni tíð, yrði til þess
að kjarasamningum væri sagt upp og enn meiri þrýstingur sett-
ur á efnahagskerfi landsins. ■
19. mars 2005 LAUGARDAGUR
SJÓNARMIÐ
JÓN KALDAL
Af hverju er verkalýðshreyfingin að skoða
uppsögn kjarasamninga í haust þegar þjóðin
hefur sjaldan eða aldrei haft það jafn gott?
Verðbólgan og
uppsögn samninga
FRÁ DEGI TIL DAGS
Ævintýraheimur H.C. Andersen
Ævintýraleg leikhúsveisla!
Afdrifaríkt val
Tímanlegt framboð
Alþekkt er að stjórnmálamenn á þingi
lenda í mikilli lokatörn við afgreiðslu
mála. Í sveitarstjórnarpólitíkinni virðast
menn ætla að verða tímanlega á ferð-
inni. Þannig hafa Frjálslyndir riðið á
vaðið og opnað baráttuna í
borgarstjórn og tilkynnt fram-
boð í fyrsta og annað sætið
fyrir sveitarstjórnarkosningar
eftir ár.
Mörgum finnst Frjálslyndir
full snemma á ferðinni
og að svo löng
kosningabarátta
sé ekki sérstak-
lega æskileg.
Flokksþing Frjáls-
lyndra gaf til
kynna ákveðinn óróa í flokknum og
hugsanlegt að Ólafur F. Magnússon og
Margrét Sverrisdóttir hafi séð sitt
óvænna og ákveðið að loka svæði fyrir
þá sem vildu koma sér fyrir í forystunni
í Reykjavík. Margir eru þeirrar skoðunar
að það sé fremur ástæða þess
að Frjálslyndir séu svo
snemma á ferðinni, fremur
en að þeir séu svona ofur-
skipulagðir.
Góð mál undirbúin
Fleiri virðast vera í
startholunum fyrir
komandi borgar-
stjórnarkosningar.
Þannig mun Gísli
Marteinn vera
opinn fyrir að taka að sér forystu í
Sjálfstæðisflokknum. Þá túlka margir
áætlun Reykjavíkurborgar um gjald-
frjálsan leikskóla sem undirbúning
komandi baráttu. Steinunn Valdís Ósk-
arsdóttir borgarstjóri fær ekki langan
tíma til að marka sér sess fyrir kosning-
ar og telja menn að útspilið um leik-
skólana sé eitt af þeim vinsælu málum
sem hún muni spila út á næstunni til
að festa sig í sessi sem forystumaður
Reykvíkinga.
Víst er að ef of mikil orka fer í
forystuslag sjálfstæðismanna
fyrir kosningarnar, þá gætu
nokkur mál eins og
ókeypis dagvist skilað R-
listanum sterkri stöðu í
komandi kosningum.
haflidi@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRI: Kári Jónasson FRÉTTARITSTJÓRAR: Sigurjón M. Egilsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Guðmundur Magnússon RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐAL-
SÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA:
Ísafoldarprentsmiðja ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að
fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
LESTU GREININA Á VISIR.IS
OG SEGÐU SKOÐUN ÞÍNA
Í DAG
STÓRIÐJA EÐA
ÞEKKINGARIÐNAÐUR
ÓLAFUR
HANNIBALSSON