Fréttablaðið - 30.06.2005, Blaðsíða 69
FIMMTUDAGUR 30. júní 2005
Kvikmyndaáhugafólk hefur ekki
þurft að kvarta undan stórmynda-
skorti þetta sumarið en það hefur
verið skammt stórra högga á milli
í kvikmyndahúsum undanfarið.
Lætin byrjuðu fyrir alvöru með
Revenge of the Sith og síðan komu
skötuhjúin Angelina Jolie og Brad
Pitt í hinni vinsælu Mr. and Mrs.
Smith. Þá reis Batman upp frá
dauðum í hinni frábæru Batman
Begins og nú eru þeir mættir aft-
ur kóngarnir Tom Cruise og
Steven Spielberg í vísindaskáld-
skapnum War of the Worlds. Þrátt
fyrir allar þessar kræsingar er
rúsinan í pylsuendanum enn eftir
en svalasta mynd sumarsins, Sin
City, verður frumsýnd eftir viku.
Gagnrýnendur um allan heim
eru á einu máli um að með Sin
City hafi Robert Rodriguez gert
kraftaverk með nákvæmri yfir-
færslu harðsoðinna myndasagna
Franks Millers yfir á hvíta tjaldið.
Myndin hefur fengið frábærar
viðtökur og Miller og Rodriguez
eru þegar farnir að huga að fram-
haldsmyndunum sem verða að öll-
um líkindum í það minnsta tvær.
Þá skortir heldur ekki efnivið-
inn þar sem enn eru þrjár Sin City
bækur ófilmaðar og Miller hefur
þar að auki fullan hug á að teikna
fleiri Sin City-sögur til að fylgja
eftir vinsældum myndarinnar.
„Ein vond mynd hefði eyðilagt
sögurnar“, segir Rodriguez. „Ég
hefði aldrei getað snert þær fram-
ar en nú get ég haldið áfram og
unnið meira með þessar persónur.“
Rodriguez hefur þegar lýst því
yfir að hann hyggist taka upp
næstu tvær Sin City myndir í ein-
um rikk í febrúar á næsta ári og
hefur látið fylgja sögunni að næst
snúi hann sér að bókinni A Dame
to Kill For. Það þýðir að við fáum
að sjá meira af Mickey Rourke í
hlutverki hrottans Marv þar sem
hann kemur við sögu í þessari bók
sem er forleikurinn að þeim ævin-
týrum töffarans Dwight sem
greint er frá í fyrstu myndinni.
Clive Owen leikur Dwight í Sin
City en verður líklega fjarri góðu
gamni í næstu mynd þar sem við-
skiptum Dwights og kærustunnar
hans, tálkvendisins Övu, lýkur
með ósköpum og Dwight er svo
lemstraður eftir hörmungarnar að
lýtalæknir þarf að púsla andlitinu
á honum saman og það er upp úr
þeirri öskustó sem Clive Owen rís.
Því má segja að Miller og Rodrigu-
ez fari svipaða leið og George
Lucas í Star Wars, byrja í miðju
kafi og snúa sér síðar að upphaf-
inu. Þeir hafa það þó fram yfir
Lucas að A Dame to Kill for er al-
veg jafn safarík og efnið sem boðið
er upp á í sumar, svo nær útilokað
er að sú mynd valdi aðdáendum
sagnanna vonbrigðum.
thorarinn@frettabladid.is
Framhaldssögur úr Syndabælinu
DWIGHT Fær andlit Clive Owens eftir að lýtalæknir púslar honum saman nær dauða en lífi í kjölfar þess að svikul ástkona hans kemur
honum næstum fyrir kattarnef. Við fáum því að kynnast allt öðruvísi Dwight í næstu Sin City mynd.