Fréttablaðið - 07.09.2007, Page 24
greinar@frettabladid.is
Sem betur fer fjölgar þeim óðum, sem taka undir það, að
besta kjarabót almennings væri
myndarleg lækkun tekjuskatts á
einstaklinga. Eðlilegt væri að
lækka þann tekjuskatt, sem ríkið
tekur til sín, úr 23% í 17%. Slík
tekjuskattslækkun myndi fela í
sér, að menn greiddu um 30%
skatt í heild af tekjum sínum
ofan skattleysismarka. Síðan ætti
að fella niður lögboðið lágmark
útsvars, svo að sveitarfélög gætu
keppt í alvöru um að bjóða lágt
útsvar. Nú eru kostir þeirra til
þess litlir, þó að þar hafi Seltjarn-
arnes vinninginn undir forystu
Jónmundar Guðmarssonar
bæjarstjóra.
Sumir vilja hækka skattleysis-
mörk. Það er óráð. Æskilegt er, að
sem flestir greiði tekjuskatt, en
ekki, að sumir séu skattfrjálsir
og aðrir ekki, því að það freistar
þeirra, sem sleppa við skattinn
vegna lágra tekna, til að sam-
þykkja hækkun hans. Skattleysis-
mörk eru raunar miklu hærri á
Íslandi en í flestum öðrum
löndum. Þau eru til dæmis um 60
þúsund krónur á mánuði í
tveimur grannríkjum okkar,
Svíþjóð og Írlandi. Hér eru þau
nú um 90 þúsund krónur á
mánuði og hefðu aðeins þurft að
vera 6 þúsund krónum hærri til
þess að vera hin sömu (á sam-
bærilegu verðlagi) og árið 1995.
Aðrir benda á, að um tvö
þúsund skattgreiðendur hafi ekki
aðrar tekjur en fjármagnstekjur,
en skattur af þeim er lægri en af
atvinnutekjum. Þetta er rétt, en
megnið er börn og unglingar, sem
njóta vaxta af bankainnstæðum,
en stunda ekki venjulega vinnu.
Þeir fjármagnseigendur, sem
reka fyrirtæki og taka sér arð út
úr því, þurfa að reikna sér
endurgjald, sem þeir greiða
tekjuskatt af, þótt ef til vill sé
þetta endurgjald stundum of lágt
samkvæmt mati skattstjóra.
Hinir eru sárafáir, líklega innan
við eitt hundrað alls, sem hafa
verulegar tekjur af sölu hluta-
bréfa, húsaleigu eða vöxtum af
innstæðum, en engar atvinnu-
tekjur og þurfa því ekki að greiða
tekjuskatt. Þótt smámál sé, er
eðlilegt, að þeir reikni sér líka
endurgjald (fyrir umsýslu með
fjármagn sitt) og greiði tekju-
skatt af því. Þá sleppa þeir ekki
heldur við að greiða útsvar, enda
njóta þeir fullrar þjónustu
sveitarfélaga.
Þriðja atriðið, sem þarf að skoða,
er tekjutenging bóta. Ísland er
frábrugðið öðrum Norðurlönd-
um í því, að hér eru margvísleg
framlög ríkisins til velferð-
arþjónustu tekjutengd í meiri
mæli. Til dæmis eru barnabætur
til láglaunafólks rausnarlegri
hér en annars staðar, en þær
skerðast, eftir því sem tekjur
hækka. (Þess vegna eru barn-
abætur að meðaltali lægri hér en
annars staðar á Norðurlöndum.)
Þetta er eðlilegt. Hvers vegna á
að greiða tekjuháu fólki barn-
abætur? Hið sama er að segja
um ellilífeyri frá Trygginga-
stofnun ríkisins. Hann skerðist
með auknum tekjum. Það er líka
eðlilegt. Ríkið á ekki að greiða
auðmönnum ellilífeyri. Þeir geta
séð um sig sjálfir.
Hitt er annað mál, að tekju-
tengingin hefst of snemma og
skerðingin er of hæg. Skynsam-
legra væri að hefja skerðingu
bóta við hærri tekjur og skerða
hraðar, svo að tekjuhátt fólk fái
hvorki barnabætur né ellilífeyri.
Takmarkað fé er til ráðstöfunar í
velferðarþjónustu.
Mestu máli skiptir, að það sé
notað til að aðstoða þá, sem
þurfa aðstoð, en ekki til hinna,
sem eru aflögufærir. Við
Íslendingar ættum að gera nýjan
þjóðarsáttmála, þar sem hinir
tekjuhærri sætta sig við aukna
tekjutengingu gegn því, að
skattar á þá og aðra lækki. Þetta
ætti að vera sameiginlegt
baráttumál frjálslyndra jafnaðar-
manna og frjálshyggjumanna.
Vonandi fá þau Geir Haarde og
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir líka
öflugan stuðning launþegasamtak-
anna við þær skattalækkanir, sem
þau boðuðu við myndun hinnar
nýju stjórnar í vor.
Tekjutenging skynsamleg
Hinir eru sárafáir, líklega
innan við eitt hundrað alls,
sem hafa verulegar tekjur af
sölu hlutabréfa, húsaleigu eða
vöxtum af innstæðum, en eng-
ar atvinnutekjur og þurfa því
ekki að greiða tekjuskatt.
Fyrir skömmu var ég á ferð í leigu-bíl gegnum dalinn fyrir norðan
Lubéron-fjall í Suður-Frakklandi; ég
var þá að koma úr nokkurra vikna dvöl
í örlitlu þorpi uppi í fjallinu, á stað sem
engir gemsar náðu til, eini símaklefinn
var bilaður, og sjaldnast sáust nokkur
blöð. Stefnan var tekin á Avignon, en
þaðan gekk hraðlestin til Parísar. Þetta
var snemma morguns, engin umferð á vegum,
sólin skein og bílstjórinn kveikti á útvarpinu til
að hlýða á fréttirnar klukkan hálf átta.
Í bílnum glumdi nú rödd fréttakonu og sagði,
að borgarstjórinn í Argenteuil, einu af
úthverfum Parísar, hefði fundið snjallræði mikið
til að losa sig við húsnæðisleysingja, sem
hreiðruðu um sig á gangstéttum í hjarta
borgarinnar, öðrum mönnum til lítils augna-
yndis: að úða samastaði þeirra með illa þefjandi
vökva, sem loddi margar vikur við hellur og
malbik, svo þessi rumpulýður sæi sér þann kost
vænstan að grípa fyrir nefið, taka til fótanna og
láta ekki sjá sig meir. Ég hlýddi hljóður á
tíðindin. Ekki var um að villast að nú var ég
aftur kominn í samband við siðmenninguna.
Það fylgdi sögunni að vökvinn héti „Malodor“,
og í þessum miklu efnahagsframförum sem
meðal annars má mæla í fjölgun
útigangsmanna á strætum, torgum og
víðar er í rauninni undarlegt að
engum skuli hafa dottið þetta í hug
fyrr: þar sem ráð af þessu tagi
reynast vel gegn kakkalökkum liggur
beint við að spreyja á húsnæðis-
leysingja líka.
En nokkur böggull fylgdi þó
skammrifi: einhverjir borgar-
starfsmenn neituðu að handfjatla
þennan vökva, þótt framleiðendurnir
særu og sárt við legðu að hann væri
algerlega skaðlaus. Svo var helst að sjá að þeir
væru á valdi einhverra úreltra siðferðis-
sjónarmiða sem hagfræðingar segja jafnan að
standi efnahagslífinu mjög fyrir þrifum. Borgar-
stjórinn gerði sér þá lítið fyrir og fékk vökvann í
hendur starfsmönnum í voldugri stórverslun,
sem vildu ekki hafa þar uppi á dekki menn sem
væru húsnæðislausir og þar af leiðandi
auralausir líka. Og starfsmennirnir úðuðu.
En nú vaknar spurningin: hvernig var hægt að
svæla burtu húsnæðisleysingja án þess að
viðskiptavinirnir yrðu líka fyrir nokkrum
óþægindum?
Kannske voru þessir menn ekki á nákvæmlega
sömu stöðum í versluninni – nema maður vildi
álykta sem svo að þeir sem væru orðnir sam-
dauna peningalykt ættu ekki erfitt með að harka
af sér fnykinn af „Malodor“.
Snjallræðið Malodor
T
öfrar mannsraddarinnar eru undursamlegir. Aldrei
er það skýrara en í söngnum hve dásamlegt hljóðfæri
mannsröddin er. Þegar söngvari góðum gáfum búinn
af náttúrunnar hendi lyftir sér upp á tónaregistrinu
og samhæfir sinn þjálfaða styrk meitlaðri hugsun og
tilfinningu hverfa allar takmarkanir og við fljúgum á vængjum
söngsins, bundin í tónmálið – og textann.
Pavarotti naut þeirrar gæfu að miðlar nútímans og forræði
hinnar vestrænu tónlistar í heimsmenningunni ruddu honum
braut að hjörtum í öllum hornum veraldar. Víst var hann nánast
skopgervingur hins íturvaxna tenórs en um leið talandi dæmi
um að útlit skiptir ekki máli ef leik- og sönggáfa er mönnum
gefin í nægilega ríkum mæli og hún hlýtur þá þjálfun sem þarf.
Nú segja menn hann besta söngvara sinnar aldar. Við búum við
þá gæfu að afrit af söng allra helstu stórsöngvara heimsins
eru okkur tiltækileg. Við getum borið þá saman, alla tenórana
sem sungu inn á hljóðrit frá aldamótunum 1900, þá sem gerðu
garðinn frægan á millistríðsárunum. Við getum jafnvel séð
hundruð brota af öllum bestu söngvurum óperusviðsins frá
mörgum tímabilum, borið menn saman í sama hlutverkinu,
skyggnst víðar í samanburðinum en nokkur önnur kynslóð
hefur getað gert. Og það er víst satt: þessi listamaður bjó yfir
einstakri tækni, einstakri rödd.
En þó að sú gáfa sé meðfædd, ásköpuð í upphafi, byggir
þroski hennar ekki aðeins á því: þroskinn byggir á lærdómi,
virðingu fyrir aldagamalli reynslu, skóla, sem flyst frá kynslóð
til kynslóðar og er í grunninn alls óskyldur tísku og tiktúrum
dægurmenningar.
Tónlistarmenning er í grunninn frekar gamalt kerfi, rétt eins
ritmenning, myndhugsun og litaþekking, skilningur á texta og
meðferð máls af sviði. Þetta eru allt gömul fög og breytast í
grunn ekki neitt, nema nemendur og kennarar séu svo státnir í
sjálfsfullnægju sinni að þeir geti varpað því öllu fyrir róða. Til
dæmis textanum sem um þessar mundir skiptir hvað minnstu
máli í leikhúsinu hér á landi. Þú þarft ekki að heyrast, ekki að
skilja hvað þú ert að segja, bara líta nógu vel út – meðan þú
ert grannur og grænn. Pavarotti hefði ekki fengið vinnu þar
eftir fimmtugt, nei, honum hefði verið hafnað samkvæmt þeim
viðmiðum miklu fyrr.
Þegar kanóna eins og hann hverfur af sviðinu, og honum
tókst lengur en mörgum öðrum að standa í sviðsljósinu, vaknar
spurning sem sækir æ oftar á mann: hvað stýrir þeirri stefnu
í listsköpun sem forsmáir reynslu en upphefur reynsluleysi,
fátkennt fálm byrjandans, framar öllu öðru? Er það látlaust eðli
vörusamfélags sem heimtar allt nýtt svo að þess megi neyta?
Ný andlit, nýrri skrokka. Upplogna reynslu hins reynslulitla?
Má ég þá biðja um Hve hönd þín er köld. Gamaldags sönglag
sem enn er ljóslifandi sönn lífsreynsla í meðförum raddar sem
er þögnuð en mun hljóma lengi enn.
Við andlát
ítalsks tenórs