Fréttablaðið - 23.08.2008, Side 28

Fréttablaðið - 23.08.2008, Side 28
28 23. ágúst 2008 LAUGARDAGUR Á fimmtudaginn var minntust Tékkar og Sló- vakar þess með ýmsum hætti að 40 ár eru liðin frá því sovéski herinn réðst inn í Tékkóslóvak- íu til að berja niður lýðræðishreyf- ingu, sem hafði þá getið af sér ýmsar umbætur í stjórnsýslu og lífsháttum landsmanna. Á Vaclavtorginu í Prag, þar sem átökin urðu hvað hörðust, var stillt upp til sýnis ýmsum munum frá þess- um tíma, svo sem sovéskum skrið- dreka og heimatilbúnum mótmæla- spjöldum gegn innrásinni. Ráðamenn Tékklands og Slóvakíu hittust í höfuðborgum beggja ríkj- anna, lögðu blómsveiga á minnismerki og héldu ræður um þau dapurlegu tímamót sem urðu árið 1968 og áhrifin sem umbæturnar þó höfðu. Forsetarnir báðir, þeir Vaclav Klaus frá Tékklandi og Ivan Gasprovic frá Slóvakíu, hittust í Bratislava í Slóvak- íu, en forsætisráðherrarnir tveir, Robert Fico frá Slóvakíu og Mirek Topolanek frá Tékklandi, hittust í Prag. Víðtækar breytingar Breytingarnar í Tékkóslóvakíu árið 1968 í frjálsræðisátt urðu meiri og víðtækari en Sovétmenn gátu sætt sig við. Ritskoðun var afnumin og pólitísk- um föngum sleppt úr haldi. Ferða- frelsi átti að innleiða og í efnahags- málum átti að fara „þriðju leiðina“, sem yrði einhvers staðar mitt á milli hins hömlulausa frelsis kapítalismans og hinnar miðstýrðu skipulagningar Sovétkommúnismans. Jafnvel skipu- lagi leyniþjónustunnar var breytt og hlutverk hennar varð miklu mildara. Þessar umbætur gengu, að mati Sovétstjórnarinnar, allt of langt. For- dæmið frá Tékkóslóvakíu gæti smitað út frá sér til annarra Austantjalds- ríkja, og þar með var í raun tilveru Moskvuvaldsins ógnað. Á endanum var herinn sendur af stað til að stöðva umbæturnar. Umbótamaðurinn Dubcek Forsprakki umbótanna var Alexander Dubcek, sem hafði lengi verið valda- maður í tékkneska Kommúnista- flokknum og varð leiðtogi flokksins í janúar 1968. Hann var þá 46 ára gam- all, og hófst strax handa við að hrinda í framkvæmd þeim umbót- um, sem hann taldi nauðsynlegar á skipulagi kommúnismans. Hann hafði þá lengi barist fyrir því innan Kommúnistaflokksins, ásamt hópi félaga sinna, að gefa sósíalismanum í Tékkóslóvakíu „mann- lega ásýnd” með auknu frelsi og veru- lega breyttum áherslum, sem gengu þvert gegn alræðistilburðum Moskvu- stjórnarinnar, sem þá var undir stjórn Leoníds Brésnév. Sovétstjórnin reyndi fyrst í stað að hafa hömlur á umbótunum í Tékkó- slóvakíu með því að beita ráðamenn ýmist þrýstingi eða fortölum. Langar samningaviðræður voru haldnar þar sem Dubcek stóð fast á sínu, sagði umbæturnar nauðsynlegar en lofaði engu að síður fullri tryggð við Austantjaldslöndin. Innrásin Þessi loforð dugðu þó engan veginn handa Sovétmönnum og aðfaranótt þess 21. ágúst árið 1968 héldu 200 þús- und hermenn og tvö þúsund skriðdrek- ar frá Sovétríkjunum, Búlgaríu, Pól- landi og Ungverjalandi inn fyrir landamæri Tékkóslóvakíu og rakleiðis inn í miðborg Prag. Þá um morguninn vöknuðu íbúar Tékkóslóvakíu upp við það að þeir bjuggu í hernumdu landi. Innrásin kostaði hátt í hundrað manns lífið og nokkur hundruð særð- ust. Þrjú hundruð þúsund íbúar Tékkó- slóvakíu flúðu land. Dubcek var rekinn úr Kommúnista- flokknum og fékk vinnu við skógrækt. Við völdum tók Gustav Husak, dyggur fylgisveinn Moskvuvaldsins, sem nam úr gildi allar umbætur Dubceks og rak alla andstæðinga sína úr embætti. Afturhvarf Opinberlega fékk enginn að segja skoðanir sínar lengur, nema þær þókn- uðust flokksvaldinu. Margir voru afar ósáttir, en fengu ekkert að gert. Í janúar árið eftir kveikti ungur námsmaður, Jan Palach, í sjálfum sér á Vaclavtorginu í Prag. Þegar þetta fréttist fylltist torgið smám saman af blómum, sem landsmenn komu með til að votta hinum unga píslarvotti virð- ingu sína. Þúsundir manna fylgdu honum til grafar þann 25. janúar. Bæði Dubcek og Husak lifðu það að sjá Sovétríkin liðast í sundur og lýð- ræði ná aftur fótfestu í Tékkóslóvakíu. Þeir misstu þó báðir naumlega af því að upplifa frið- samlega skiptingu landsins í tvö ríki: Tékkland og Slóvakíu, sem varð í ársbyrjun 1993. Husak lést 1991 en Dubcek í nóvember 1992. Hliðstæðan við Georgíu Einmitt þessa dagana, þegar fjörutíu ár eru frá innrásinni í Prag, eru Rúss- ar nýbúnir að senda fjölmennt herlið inn í Georgíu. Þótt tímasetningin sé hrein tilviljun hefur hliðstæðan við atburði síðustu vikna í Georgíu hefur ekki farið framhjá fólki. Í Prag mátti sjá mótmælaspjöld þar sem jafnaðar- merki var sett á milli atburðanna í Prag 1968 og innrásarinnar í Georgíu 2008. Þótt margt sé reyndar ólíkt með þessum tveimur atburðum eru það þó Rússar sem nú, rétt eins og þá, eru að senda vígvélar sínar og hersveitir á vett- vang til að verja það sem þeir líta á sem áhrifasvæði sitt. Árið 1968 náði áhrifasvæð- ið inn í miðja Evrópu, en hefur að vísu skroppið töluvert saman nú. Fjörutíu ár frá innrásinni í Prag ÁTÖK Í PRAG Íbúar höfuðborgarinnar tóku innrásarliði Varsjárbandalagsins engan veginn fagnandi, en urðu þó fljótlega að láta undan ofureflinu. NORDICPHOTOS/AFP MEÐAN ALLT LÉK Í LYNDI Umbótamaðurinn Alexander Dubcek sést þarna, sá þriðji frá hægri á myndinni, í fararbroddi göngufólks í Prag á degi verkalýðsins, 1. maí, tæpum þremur mánuð- um áður en Sovétmenn gerðu innrásina. NORDICPHOTOS/AFP FJÖRUTÍU ÁRUM SÍÐAR Heinz Fischer, forseti Austurríkis, skrapp til Bratislava þar sem hann lagði ásamt Ivan Gasparovic, forseta Slóvakíu, blómsveig á leiði Alexanders Dubcek, leiðtoga umbótanna skammlífu árið 1968. NORDICPHOTOS/AFP HLIÐSTÆÐAN VIÐ GEORGÍU Fyrir utan sendiráð Rússlands í Prag mátti í gær sjá þennan mann halda uppi mótmælaspjaldi þar sem jafnaðarmerki var sett á milli innrásar Sovétríkjanna í Prag árið 1968 og hernaðar Rússa í Georgíu síðustu vikur. Aðfaranótt 21. ágúst árið 1968 réðst sovéski herinn inn í Tékkóslóvakíu. Umbótastefna Alexanders Dubcek og ríkisstjórnar hans, sem veitti íbúum landsins sífellt meira frelsi, hafði að mati Sovétvaldsins gengið of langt. Berja þurfti niður Vorið í Prag. FR ÉT TA B LA Ð IÐ /A P

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.