Morgunblaðið - 13.03.2006, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 13.03.2006, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. MARS 2006 27 MINNINGAR REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST Þegar andlát ber að höndum Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is héldu allir sínu striki í lífinu en þó með það að leiðarljósi að veita hon- um umhyggju og hjúkrun. Að leiðarlokum vil ég þakka sam- fylgdina. Minningin um Héðin mun lifa hjá þeim sem þekktu hann. Guð blessi minningu hans. Sigfús R. Sigfússon. Í dag er frændi minn og góður vinur til grafar borinn. Á huga minn leita þau orð viturra manna, að sár sorg sé merki um að syrgjandinn hafi átt mikið. Þau eiga svo sannarlega við nú. Við Héðinn Emilsson vorum systkinabörn, en aldursmunurinn á milli okkar það mikill, að ég er litlu eldri en elsta barn hans. Aðstæður höguðu því svo, að ég kynntist hon- um fyrst að marki, þegar ég var unglingur, en hann orðinn fullorðinn maður. Tók hann mér strax einkar vel og kom ætíð fram við mig sem jafningja. Héðinn var alinn upp hjá foreldr- um sínum á Eskifirði ásamt Eddu systur sinni. Þar bjuggu þau í rúm- góðu einbýlishúsi og faðir hans var í góðu starfi sem bankastarfsmaður. Þarna átti hann ljúfa æsku og hugur hans var alla tíð mjög bundinn Eski- firði. Á Reyðarfirði bjuggu föðurfor- eldrar hans og föðursystkin og marga söguna hefur hann sagt mér af fjölskyldu okkar frá þessu tíma- bili. Hann var unglingur þegar ógæfan dundi yfir með þeim hætti að faðir hans missti heilsuna. Í framhaldi af því flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Héðinn vann lengi við akstur, en síðar nýttist honum samvinnuskóla- próf hans við störf hjá trygginga- félagi. Í áratugi var hann tjónamats- maður og síðar deildarstjóri. Hann vann m.a. við að meta tjón eftir náttúruhamfarirnar á Kópaskeri og í Vestmanneyjum. Maður með hans yfirvegaða og lausnamiðaða hugar- far, ásamt ríkum skilningi á stöðu þess sem er tjónþoli, hefur þar verið réttur maður á réttum stað. Héðinn stofnaði heimili með æskuvinkonu sinni Ingibjörgu Olgu Hjaltadóttur. Hún lést fyrir rétt rúmum 10 árum, eftir erfið veikindi. Þau eignuðust 5 börn, sem öll eru afar vel gerðar manneskjur. Héðinn átti ýmis áhugamál og skipaði úti- vist þar stóran sess. Hann hafði gaman af skíðaiðkun, gönguferðum og ferðalögum bæði innanlands og erlendis, en mest held ég samt að sjórinn hafi heillað hann. Hann eignaðist nokkrum sinnum bát og var síðast með bát á nýliðnu ári. Trúr uppruna sínum, valdi hann bátum sínum alltaf nafnið Skrúður. Héðinn hafði mikið yndi af að taka á móti fólki og gerði það af miklum rausnarskap. Þau eru orðin harla mörg fjölskylduboðin sem ég og foreldrar mínir og síðar við hjón- in höfum setið á heimili hans. Héðinn var fjölhæfur maður. Hann var sérlega handlaginn og sí- starfandi. Hann hafði einnig opinn hug og setti sig inn í hin ýmsu mál, svo sem alls konar velferðarmál og þjóðmál og myndaði sér skoðanir á þeim. Hann var orðheppinn og naut þess líka að kveða nokkuð fast að orði, til að kalla fram viðbrögð, enda var hann gamansamur. Héðinn var sérstaklega greiðvik- inn og sama er að segja um Ingi- björgu heitina. Á ég og mínir þeim hjónum mikið að þakka í þeim efn- um. Hann var úrræðagóður, enda var ætíð gagnlegt að leita ráða hjá honum. Þetta olli því ekki síst, að hann varð mín fyrirmynd. Ég spurði mig oft í huganum, hvernig hann myndi leysa þann vanda, sem steðj- aði að þá stundina og við þessa íhug- un fann ég marga lausnina. Áfram verður hann fyrirmynd vegna æðruleysis síns gagnvart veikindum sínum og yfirvofandi dauða. Þegar hann greindist með banamein sitt sagði hann mér, að hann hefði alltaf litið svo á, að dauð- inn væri eðlilegur hluti af lífinu. Þessari hugsun fylgdi hann eftir og tók veikindum sínum með ótrúlega mikilli rósemi. Sambýliskona hans, systir og börn sinntu honum vel í veikindum hans og er þeim, ásamt heimahjúkruninni að þakka, að hon- um auðnaðist að dvelja að mestu á heimili sínu í veikindunum og þar lést hann. Við hjónin vottum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Einnig Eddu systur hans og fjölskyldu hennar. Síðast en ekki síst vottum við hans tryggu og góðu sambýliskonu Sólveigu Hrönn Frið- jónsdóttur samúð okkar. Georgía M. Kristmundsdóttir. Ekkert er eins mikilvægt og góð fjölskylda. Ömmur og afar eru oft það fólk sem veitir mest skjól, traust, öryggi, gleði og kenna manni þá hluti sem mestu mál skipta í líf- inu. Afi minn, Héðinn Emilsson, var þannig afi. Í dag gleðst ég yfir öllum góðu minningunum en í hjartanu er ég sorgmædd vegna þess að hann hefur yfirgefið mig. Afi var fæddur og alinn upp í sjávarþorpi á Austfjörðum. Pabbi, mamma og ég fórum oft austur og skoðuðum rauða fallega húsið sem hann ólst upp í og mamma sagði mér sögurnar um ævintýri bernsk- unnar hjá afa og ömmu. Sjórinn, Skrúður, Hólmatindurinn, Eiðar, kötturinn Depill, útivist, harmonikk- an og skúringarnar hans afa, með ömmu Margréti; hljómuðu eins og ævintýri. En ég var svo heppin að kynnast afa mínum vel, við eyddum mörgum góðum stundum saman, þess vegna urðu sögurnar um afa í gamladaga örlítið krydd í tilveruna. Sjálf á ég sannar minningar um afa, okkar ævintýri og prakkarastrik, sem í dag eru mér mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Afi var fjörugur, kraftmikill og stjórnsamur. Hann var ekkert fyrir hangs og rólegheit. Hann þurfti alltaf að vera að gera eitthvað. Þegar ég var lítil fórum við í sumarfrí saman til Evrópu. Við þræddum alla skemmtigarða; við afi fórum á gormahestana, í kastala, rennibrautir og hoppurólur og klöppuðum hverjum einasta hundi sem á vegi okkar varð. Pabbi og amma sátu á bekk í skugga og ræddu um ættfræði og mamma hljóp á milli og tók myndir. Margar minningar um afa tengj- ast sjónum. Hann átti yfirleitt alltaf bát og hétu þeir flestir Skrúður. Sigling um Breiðafjörðinn og sjó- ferðirnar út í Viðey eru mér ógleymanlegar. Afi var alltaf tilbú- inn að bjóða upp á siglingu; stelpu- ferðirnar út í Viðey voru margar. Ég bauð ýmist vinkonum mínum eða frænkum á sjóinn. Síðan tóku við vinir frá útlöndum og vinir mínir og fjölskyldur þeirra voru alltaf vel- komnir í Skrúð. Síðustu sjóferðinni okkar gleymi ég aldrei. Við sigldum um Faxaflóann í fallegu veðri með góðu fólki. Afi lék á als oddi; hann stökk um allt eins og unglingur og mamma bauð upp á dýrindis máltíð. Minningar mínar af afa og sjónum eru mér hvað dýrmætastar og fá hjartað mitt til að brosa allan hring- inn. Afi kenndi mér að elska og virða hafið. Þegar ég skrifa þessar línur er ég stödd í Chile. Afi er mér ofarlega í huga. Stjörnubjartur him- inninn yfir Andesfjöllunum er heillandi og ég veit að afi er með mér. Stjórnsemi var afa í blóð borin. Afi efaðist ekki um að hann hafði rétt fyrir sér og vildi manni alltaf það besta. Honum fannst sjálfsagt að maður stæði sig vel og hann var ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar. Hann var ekki alltaf sammála því sem ég vildi gera, hann var al- gjörlega á móti því að ég héldi áfram skiptinemadvöl minni í Bandaríkjunum eftir árásirnar 11. september og sagði mömmu að hún ætti að fara og sækja mig. En við afi áttum það sameiginlegt að vera bæði ákveðin og þver. Ég hélt dvöl- inni áfram. Þegar ég fékk skólavist í Boston sl. haust sagði hann mér að hann væri búinn að sækja um fyrir mig í Háskólanum á Akureyri. Hann sagði mér að Eyjafjörðurinn væri svo fallegur og alls ekki síðri en Boston. Og síðan í ágúst hef ég reglulega verið minnt á lausa pláss- ið á Akureyri, því fylgdi samt alltaf grín og glens. Afa leist nú ekki verr en það á Boston að hann ætlaði allt- af að koma og heimsækja mig þegar tækifæri gæfist. Afa minn hitti ég í síðasta sinn 20. febrúar sl. Ég heyri orðin hans enn hljóma. Hann sagði mér að ég væri eins og blómi í eggi. Hann sagði mér að hann væri tilbúinn að deyja og að þegar kæmi að kveðjustund væri ekkert sem skipti eins miklu máli og að hafa safnað góðum minningum og svo ættu allir að halda lífi sínu áfram. Hann sagði mér líka að plássið í Háskólanum á Akureyri væri enn laust. Ég veit að núna þarf ég ekki lengur á þessu plássi að halda. Afi minn; sem unni sjónum, heiðum himni og fallegum fjöllum, vakir yfir mér. Ég er honum þakk- lát fyrir allt sem hann veitti mér og veit að við eigum eftir að hittast aft- ur. Guð blessi minningu afa Héðins. Ingibjörg María Þórarinsdóttir. Einhverra hluta vegna verður til tenging við Íslendingasögurnar í hugskoti mínu þegar ég hugleiði kveðjuorðin mín um hann Héðin Emilsson. Sennilega vegna þess að persónulýsing hans hefði sómt sér vel í einhverri Íslendingasögunni forðum daga, t.d. Njálu. Mannkostir eins og fágæt atorkusemi, afar per- sónuleg sýn á lífið og tilveruna, sér- stakt tungutak, hagleiki og húmor, rökfesta og skynsemi skjóta strax upp kollinum þegar hann var annars vegar, en vinátta og gagnkvæm virðing okkar á milli til rúmlega tuttugu ára eru mér þó efst í huga. Kynni mín af Héðni og Ingibjörgu konu hans, hófust um það leyti sem við María Solveig, dóttir þeirra, ákváðum að stofna Tjarnarskóla fyrir rúmum tveimur áratugum. Það kom mér ekki á óvart að afar vand- aðar manneskjur stóðu að baki henni vinkonu minni. Við þau fyrstu kynni hljómaði strax stefið sem hef- ur hljómað síendurtekið í samskipt- um okkar og fyllt mig þakklæti fyrir dýrmæt kynni. Góðar minningar trítla fram, ein af annarri: Héðinn með okkur Maríu að hjálpa okkur að sjóða saman fyrstu skólasetning- arræðuna (tók heillangan tíma). Gert var uppkast, hver setning rædd, hugleidd og mátuð inn í text- ann á allra handanna máta. Það var ekki verið að kasta til höndunum í því fremur en öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Ingibjörg studdi okkur einnig með ráðum og dáð. Hvatning og stuðningur voru fyrir hendi hvenær sem á þurfti að halda og hún færði bæði mér og skólanum gjarnan góðar gjafir. Hún féll frá langt um aldur fram. Héðinn tók okkur Maríu í ýmsar kennslustund- ir um öryggismál skólans og er eini einstaklingurinn sem hefur farið niður lausan brunastiga út um gluggann á gaflinum á 3. hæðinni í gamla Búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina! (Auðvitað færði hann okk- ur stigann líka). Vildi bara sýna okkur að þetta virkaði ef á þyrfti að halda! Við héldum niðri í okkur and- anum á meðan. Hann mætti einnig með allan fjölskylduflokkinn þegar til stóð að mála stofurnar í Miðbæj- arskólanum forðum. Þar fóru bæði vanir, vaskir menn og vönduð vinna. Svo var nú bíla-, rútu- og báta- kaflinn hans alveg sérstakur kapít- uli út af fyrir sig. Enginn sem ég þekki hefur látið sama bílinn þjóna sér jafn lengi og Héðinn. Sá hæfi- leiki var einnig hluti af hans per- sónueinkennum. Bílarnir hans, rút- an og bátarnir, sem sumir fengu nafnið Skrúður, báru vitni um ein- staka snyrtimennsku, alúð og þraut- seigju og báru honum skemmtilegt vitni. Minningarnar mínar um allar siglingarnar um sundin blá, öku- ferðirnar, veislurnar, veitingahúsa- ferðirnar, alls konar viðvik sem hann vann fyrir okkur í skólanum, spjall og ljúfar samverustundir af ýmsu tagi eiga eftir að ylja mér áfram. Lokakaflinn, veikindakaflinn, var í stíl við lífshlaup hans; hann vann úr því viðfangsefni með yfirvegun og hógværð en það var líka stutt í spaugið. Við tvö tókum góða spjallr- ispu saman þegar ég heimsótti hann fyrir jólin og þegar ég fór rétti hann mér poka sem m.a. innihélt rúg- brauð sem hann hafði bakað sjálfur. Það var bæði hlýleg og persónuleg gjöf og samverustundin var ljúf. Ég var líka svo heppin að hann bauð mér í afmælið sitt aðeins nokkrum dögum áður en hann kvaddi, þannig að ég fékk að kveðja hann áður en hann hélt uppí lokaferðina sína. Hann var glaður þennan dag með allt fólkið sitt í kringum sig og ég veit að hann var tilbúinn til brott- ferðar. Við sögðum nú ekki shippo- hoj – en næstum því… Þannig vildum við bæði hafa það. Ég er þakklát fyrir góð og skemmtileg kynni af Héðni Emils- syni. Margrét Theodórsdóttir. Góður frændi minn, Héðinn Em- ilsson, er fallinn frá eftir erfið veik- indi. Fyrir tíu árum missti hann eig- inkonu sína, Ingibjörgu Olgu Hjaltadóttur, góða vinkonu mína. Þau eignuðust fimm börn, sem öll hafa komið sér vel áfram í lífinu og eiga afkomendur. Héðinn var laginn við hvað sem hann tók sér fyrir hendur hvort það voru byggingarframkvæmdir, bif- reiðaviðgerðir og einnig sá hann til þess að allt væri í röð og reglu inn- andyra sem utan. Hann var ávallt greiðvikinn og leysti úr hvers manns vanda. Hann var mjög fé- lagslyndur og kunni að gera gott úr öllu og búa til skemmtilega stemn- ingu. Hann naut ferðalaga bæði á sjó og landi innanlands sem utan. Héð- inn átti nokkra báta í gegn um tíð- ina, sem allir báru nafnið „Skrúður“ og voru ófáar ferðirnar sem hann bauð til. Ferðir um sundin blá á fal- legum sumarkvöldum eru minnis- stæðar. Fór hann í lengri ferðir á bátum sínum og var farsæll að stýra knerri sínu. Héðinn fór í Stýri- mannaskólann og tók próf með góð- um árangri til þess að vera enn hæf- ari sem skipstjóri. Fjölskylda Héðins lagðist á eitt til þess að gera lífið eins bærilegt og hægt var í veikindum hans, sem hann tók með miklu æðruleysi, en það fór ekki fram hjá neinum að þetta voru þung spor fyrir Héðin. Einnig var Sólveig sambýliskona hans mikill styrkur fyrir hann. Ég vil þakka Héðni frænda fyrir dýrmæta vináttu, sem var mér mik- ils virði, hlýhug hans og hjálpsemi. Börnum hans og fjölskyldum þeirra votta ég samúð mína og bið Guð að blessa þau. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Kristín Hjartar. Við kynntumst Héðni Emilssyni fyrir um þrjátíu árum, en hann var pabbi vinkonu okkar, hennar Maríu Solveigar. Þegar horft er til baka er margs að minnast. Allt frá því að við kynntumst Héðni og fjölskyldunni í Kúrlandinu var okkur vel til vina og við komum aldrei að tómum kof- unum þar sem Héðinn var. Hann hafði áhuga og skoðanir á mönnum og málefnum og rökræður var eitt- hvað það skemmtilegasta sem hægt var að hugsa sér þegar við hittumst. Alltaf voru spennandi umræðuefni við hvert fótmál, landsmálin rædd í þaula og á góðum stundum kom hans sérstaki húmor vel í ljós. Til að kynda undir umræðunni, fá fram fjölbreytt og ólík sjónarmið hélt Héðinn oft á lofti skoðunum sem ekki voru allra. Þetta var væntan- lega markviss leið hans til að halda okkur við efnið og einnig sá hann málefni líðandi stundar oft frá öðr- um og ólíkum sjónarhornum en al- mennt gerist. Héðinn var útivistarmaður sem lifði heilbrigðu lífi í alla staði. Hann fann sér alltaf viðfangsefni sem full- nægðu þörfum hans fyrir hreyfingu og útiveru. Héðinn naut þess að fara út á Flóann, veiða í soðið eða með farþega um borð og njóta sjávar- loftsins. Bátarnir hans Héðins hétu Skrúður sem væntanlega tengist uppruna og rótum hans á Austur- landi. Frá því við kynntumst Héðni fyrst og fram til þess síðasta hafði hann mikla þörf fyrir að taka til hendinni, hann var ósérhlífinn elju- maður. Starfsvettvangur Héðins var lengstum Samvinnutryggingar og VÍS en sérsvið hans voru bruna- tryggingar. Í gegnum tíðina nutu vinnuveitendur Héðins dugnaðar hans og samviskusemi. Þrátt fyrir langan vinnudag og stóra fjölskyldu fann hann sér tíma til að sinna hugðarefnum sínum. En í því sam- bandi má ekki gleyma Ingibjörgu Hjaltadóttur eiginkonu Héðins sem féll frá langt um aldur fram. Hún átti ekki hvað minnstan þátt í að skapa Héðni það svigrúm sem hann þurfti til að koma öllu því mörgu í verk sem dæmin sanna. Að lokum viljum við þakka Héðni fyrir góðar og gefandi samveru- stundir. Elsku Mæja og fjölskylda, bless- uð sé minning Héðins Emilssonar. Fanný og Hörður. Hann vissi að hverju dró og þá er gott að geta rifjað upp skyggni- stundir ævinnar, rifjað upp þegar himinninn vitjar sjávar, sjófuglarnir kenndu lífið, unnið var úr óveðurs- spurningum, næturröðullinn sló gullbirtu á veröldina og hugurinn grét af gleði yfir lífinu, voninni og láninu. Héðinn Emilsson er á leið- inni heim, heim inn í himininn. Kynni okkar urðu ekki löng því að- eins fyrir nokkrum árum hringdi Héðinn til mín, hann hafði heyrt um áhuga minn í varðveislu gamalla eikarbáta. Hann átti einn slíkan sem hann hafði bjargað frá bálinu og breytt í lystisnekkju. Áhugi minn var strax vakinn á manni sem hafði áhuga, þrek og þor til að takast á við slíkt verk. Við mæltum okkur mót og hittumst. Það tekur aðeins skamma stund að eignast vin og við urðum vinir. Það var eins og við hefðum alltaf þekkst og áhugamálin mjög svipuð. Hann var frá Eskifirði en ég ættaður þaðan. Við eyddum saman stund í bátnum hans Skrúði, strukum viðina og klöppuðum. Lof- uðum handverkið og ræddum um framtíðaráætlanir. Hann var svo ferskur og fullur væntingar um áframhaldandi hlutverk og starf. Það var líf hans og yndi. Á slíkum stundum skynjar maður þann ríki- dóm að eiga vin. Samferð okkar var ekki löng en farsæl. Fyrir það er ég þakklátur og minningin er hlý. Héðinn er á leið heim, Viðeyj- arsund að baki. Sundið slétt og mið- nætursól speglar bæði ský og fjöll. Smáhvalir leika sér og gleðja sjófar- endur, stillan er algjör en Héðinn hefur tekið nýja stefnu. Vart mun það á himni henda að honum takist ekki að lenda. Ég votta Sólveigu og öllum ættingjum Héðins mína dýpstu samúð. Í dal saknaðar sést í bjartan himin þar sem glitský skarta fögrum minningum sem við munum varðveita. Guð blessi ykkur öll. Þorsteinn Pétursson, Akureyri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.