Morgunblaðið - 13.03.2006, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 13.03.2006, Blaðsíða 26
26 MÁNUDAGUR 13. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Héðinn Emilssonfæddist á Eski- firði 22. febrúar 1933. Hann lést á heimili sínu, Brön- dukvísl 22 í Reykja- vík, 1. mars síðast- liðinn. Foreldrar hans voru Margrét Árnadóttir, f. í Reykjavík 15. janúar 1908, d. í Reykjavík 17. júní 1997 og Emil Björn Magnússon, f. á Eskifirði 2. ágúst 1906, d. 25. nóvem- ber 1952. Systir Héðins er Edda, f. á Eskifirði 14. júlí 1931, maður hennar er Þorsteinn Þorsteinsson, f. 1. apríl 1925. Hinn 15. september 1956 kvænt- ist Héðinn Ingibjörgu Olgu Hjalta- dóttur, f. í Reykjavík 10. mars 1934, d. í Reykjavík 2. febrúar 1996. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Olgeirsdóttir, f. á Akureyri 11. ágúst 1905, d. í Hafn- arfirði 14. janúar 1991 og Hjalti Árnason, f. á Höfðahólum 21. ágúst 1903, d. í Reykjavík 28. júní 1960. Þau María og Hjalti skildu. Börn Héðins og Ingibjargar eru: 1) Margrét, f. 13.1. 1957, gift Birni Guðmundssyni. Börn þeirra eru: a) Héðinn, f. 1975, sonur Héðins og Guðrúnar Huldar Kristinsdóttur er Kristinn, f. 1996 og sonur Héð- ins og Maríu Vilborgar Ragnars- dóttur er Haraldur Hjalti, f. 2002, b) Guðrún, f. 1980, gift Stefáni Otte og c) Helgi, f. 1990. 2) María Solveig, f. 27.7. 1958, gift Sigfúsi R. Sigfússyni. Dóttir Maríu Sol- veigar og fyrri manns hennar, Þórarins Benedikz, er Ingibjörg María, f. 1984. 3) Emil Björn, f. 20.4. 1965, maki Margrét Björg Guðnadóttir. Börn þeirra eru Arna Rut, f. 1993 og Guðni Snær, f. 1997. 4) Magnús, f. 13. júní 1967, maki Margrét Þórarinsdóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg Lára, f. 1996, Magn- ús Þór, f. 1998, María Eir, f. 2001 og Guðrún Sóley, f. 2001. 4) Davíð, f. 17. mars 1969, kvæntur Kristínu Benný Grétarsdóttur. Börn þeirra eru Grétar Atli, f. 1993, Gunnar Atli, f. 1994 og Anna Sigrún, f. 2000. Sambýliskona Héðins frá árinu 2003 er Sólveig Hrönn Friðjóns- dóttir, f. í Hafnarfirði 3. mars 1951. Foreldrar hennar eru Frið- jón Guðlaugsson, f. í Hafnarfirði 7.8. 1912, d. í Reykjavík 28.12. 1985, og Hulda Sigurbjörg Hans- dóttir, f. í Hafnarfirði 17.7. 1912. Héðinn fæddist og ólst upp á Eskifirði. Hann fluttist til Reykja- víkur tæplega tvítugur og bjó þar alla tíð síðan. Hann lauk landsprófi frá Eiðaskóla og útskrifaðist frá Samvinnuskólanum, sem þá var starfræktur í Reykjavík. Héðinn starfaði lengst af hjá Samvinnu- tryggingum, síðar Vátrygginga- félagi Íslands, sem deildarstjóri. Auk þess starfaði hann fyrir Við- lagasjóð eftir gosið í Heimaey. Hann kenndi einnig í Trygginga- skólanum og sat í nefndum er lutu að eldvarna- og öryggismálum. Útför Héðins verður gerð frá frá Bústaðakirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13. Í dag kveðjum við einstakan mann, samferðamann minn síðast- liðin þrjú ár. Mig langar til að minnast hans í örfáum orðum með virðingu og þakklæti í huga. Með virðingu fyrir tilfinningum okkar og góðum ráðum gefnum mér til handa, með framtíð mína að leið- arljósi. Með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman á sjó, um borð í Skrúðnum, á ferða- lögum hér á landi sem erlendis og heima í Bröndukvísl. Betri félaga hef ég ekki átt í gegnum tíðina og söknuðurinn er mikill og sár. Þér kæra sendi kveðju með kvöldstjörnunni blá það hjarta, sem þú átt, en sem er svo langt þér frá. Þar mætast okkar augu, þótt ei oftar sjáumst hér. Ó, Guð minn ávallt gæti þín, ég gleymi aldrei þér. (Þýð. Bjarni Þorsteinsson.) Héðni var framtíð fjölskyldunnar og þeirra sem næst honum stóðu efst í huga og ósk hans var að öllum gengi vel í lífi og starfi. Elsku fjölskylda, fallegar minn- ingar um góðan mann, föður, tengdaföður, afa, langafa, bróður og mág gefa okkur mikið, ég þakka ykkur öllum fyrir þennan tíma. Sólveig Hrönn. Pabbi fæddist á Eskifirði 22. febr- úar 1933. Hann var seinna barn for- eldra sinna; þeirra Margrétar Árna- dóttur og Emils Björns Magnússonar, en fyrir áttu þau dótturina Eddu. Afi Emil tók sjálfur á móti syni sínum þegar hann fædd- ist. Lífshlaupi manns verður ekki gerð skil í minningarorðum sem þessum. Aðeins er hægt að varpa ljósi á lítinn hluta tilverunnar. Minningarnar eru margar og öðl- ast þær enn meira gildi þegar kveðjustund er runnin upp. Bernskuár pabba á Eskifirði virð- ast óralangt í burtu. Hann ólst upp við upplestra föður síns og mynd- arskapur ömmu Margrétar var vel þekktur. Pabbi sagðist reyndar allt- af hafa verið mjög hjálpsamur í hús- haldinu; hann sat á bónkústinum til að þyngja hann og um leið til auka glansinn á gólfinu, hann tók þátt í þvottunum og sagðist kunna ákveðnar kökuuppskriftir utanbók- ar. Hann lék sér með krökkunum í plássinu, bryggjan og sjórinn, fjallið og náttúran var leikvöllur krakk- anna. Bátarnir heilluðu og í sumar sjóferðirnar var farið án leyfis og enginn af áhöfninni kominn með skipstjórnarréttindi, enda flestir um 10 ára gamlir. Á vetrardögum var klifrað upp í fjall með tréskíði og svo var skíðað á fleygiferð niður. Á Eskifirði eignaðist pabbi líka sína fyrstu harmonikku. Hljóðfærið var mikill gleðigjafi og tók pabbi alltaf öðru hverju í harmonikkuna. Landið varð hersetið og samfélagið fyrir austan breyttist. Á Eskifirði bar fundum pabba og mömmu fyrst saman. Sem unglingur fór pabbi í Hér- aðsskólann að Eiðum. Þar líkaði honum vistin. Hann kunni að meta það góða fólk sem vann þar og oft var okkur systkinunum sagt ýmis- legt ævintýralegt frá Eiðum. Nokk- ur sumur vann pabbi í brúarsmíði. Vinnuflokkurinn í brúarsmíðinni reyndist góður og leit pabbi á sumr- in sín í brúarsmíðinni sem besta skóla lífsins. Í þeim skóla var Siggi á Sólbakka skólastjórinn, en hann stjórnaði vinnuflokknum þannig að eftir var tekið. Pabbi hélt síðan til Reykjavíkur því að hugur hans stóð til að læra ,,mublusmíði“ eins og það hét í þá daga. Ekkert varð úr þeirri fyrirætlan og þótti pabba hann lítið læra þegar hann var búinn að sópa verkstæðisgólf í þrjá mánuði. Hann sótti því um Samvinnuskólann og settist þar á skólabekk. Að því námi loknu tók við þátttaka í atvinnulífinu og helsta viðfangsefnið var að sjá fyrir sér og sínum, svo sómi væri að. Lengstan hluta starfsævi sinnar starfaði pabbi sem vátryggingamað- ur. Viðfangsefnin voru fjölbreytileg og sum hver risavaxin eins og t.d. í kjölfar eldgossins í Heimaey. Pabbi kunni vel við sig í þeim störfum og var alla tíð umhugað um eldvarnar- og öryggismál. Eitt af hans síðustu verkefnum á þessu sviði var að heimsækja leikskóla landsins, fara yfir öryggisleiðir og setja upp neyð- arljós. Hann mat einnig trygging- arþörf sveitarfélaganna í landinu. Báðum þessum verkefnum fylgdu mikil ferðalög um landið og þótti honum það góður kostur. Áhugamál pabba voru mörg. Hann æfði sund á sínum yngri ár- um. Útivist, fjallgöngur og ferðalög áttu hug hans. Ógleymanlegar gönguferðir um landið og göngur á fegurstu fjöll í góðu veðri gáfu hon- um mikið. Harmonikkan og ferðalög erlendis heilluðu einnig en hafið og bátarnir voru þó alltaf í öndvegi. Um ævina átti hann marga báta; Plútó, Kvist og svo nokkra Skrúði og nutum við börnin hans og fjöl- skyldur okkar sjóferðanna með hon- um. Hugmyndir pabba um heimilis- hald þykja sjálfsagt ekki nútíma- legar. Hann lagði mikið upp úr vinnusemi og því að gera hlutina sjálfur. Viljinn til sjálfsbjargar var sterkur og var hver vökustund vel nýtt til vinnu. Þegar kom að því að pabbi og mamma eignuðust sitt fyrsta barn smíðaði pabbi sjálfur rimlarúmið handa frumburðinum. Hann hafði það stórt til að það nýtt- ist líka sem leikgrind og svo hafði hann rúmbotninn hátt frá gólfi til að mamma þyrfti ekki að bogra niður við gólf þegar hún var að sinna barninu. Burðarrúmið var einnig heimatilbúið og hafa þessir gripir verið í notkun í fjölskyldunni í hart- nær 50 ár. Til að færa björg í bú var farið í berjamó, tekið slátur, rækt- aðar kartöflur, veiddur fiskur og skotinn fugl. Pabbi hugsaði alltaf mikið um að ljúka verkunum sem fyrst og að af- kasta sem mestu. Bátar voru end- urbyggðir, hús og húsgögn voru smíðuð, og árið 1965 fannst honum nauðsynlegt að gera fjölskyldunni auðveldara að ferðast. Hann smíðaði því hjólhýsi sem þeyst var með um landið og þótti mörgum á þeim tíma þetta hálf skrýtið háttalag. Þegar sjónvarpið kom til sögunnar var pabbi fullur tortryggni. Hann var allt að því fordómafullur í garð þessa tækis og kallaði það yfirleitt imbakassann. Stundir hans fyrir framan skjáinn urðu enda fáar og fann hann sér alltaf eitthvað gagn- legra að gera. Honum fannst alveg sjálfsagt að aðrir heimilismeðlimir fylgdu þessari afstöðu hans og fannst meginkosturinn við imba- kassann vera takkinn sem hægt var að slökkva á honum. Í heimilishaldinu stóð pabbi aldrei einn. Hann og mamma; Ingibjörg Olga Hjaltadóttir, þekktust frá barnæsku og ráku saman heimili í 40 ár. Þau voru sammála um það sem skipti þau mestu máli í lífinu; að búa fjölskyldu sinni gott og traust heimili. Vinnusemi, snyrti- mennska og reglusemi voru í önd- vegi. Heimilishaldið byggðist á hug- myndum þess tíma um mismunandi hlutverk kynjanna; pabbi sá um að færa björg í bú, mamma gætti bús og barna. Heimilið var líkt og fé- lagsmiðstöð. Börnin fimm fylltu húsið af vinum sínum, vinir og vandamenn komu í heimsókn og elsta kynslóðin átti alltaf sinn sess á heimilinu. Auk þessa fylgdi tals- verður gestagangur vinnu pabba, en þó aldrei eins mikið og í kjölfar gossins í Heimaey. Pabbi lagði sig allan fram um að veita hjálparhönd og lagði heimili sitt, og reyndar hús nágrannans einnig, undir innbú og muni Vestmannaeyinga. Mamma studdi pabba heils hugar í þessu, tók vel á móti fólki og fáa vetur var heimilisbaksturinn eins mikill og á þessum tíma. Tilvera pabba og Eddu systur hans var alltaf samofin. Þau systkinin stóðu saman og voru miklir samherjar. Samverustundir við leiki og störf, með allan barna- skarann, voru margar og góðar og samgangur á milli heimila þeirra einn fasti þátturinn í tilverunni. Mikil breyting varð á lífi pabba þegar mamma dó 2. febrúar 1996. Hann kunni einsemdinni illa og vildi hafa líf í húsinu. Félagsskapurinn við börn, tengdabörn og barnabörn kom ekki í stað félagsskapar maka. Nákvæmlega 9 árum eftir andlát mömmu, eða 2. febrúar 2005, greindist pabbi með krabbamein. Þá hafði hann nokkru áður hafið sam- búð með Sólveigu Hrönn Friðjóns- dóttur. Sólveig og pabbi voru miklir mátar og tók hún fullan þátt í áhugamálum hans; útgerðinni, ferðalögum og útivist. Síðasta árið sem pabbi lifði skiptust á skin og skúrir. Sjúkdómurinn tók sífellt stærri toll en inn á milli komu góðir tímar sem veittu gleði. Það var ein- læg ósk pabba að geta verið sem mest heima. Til að uppfylla ósk hans þurfti samstillt átak margra. Sól- veig og Edda frænka, systir pabba, áttu mestan þátt í að gera það mögulegt. Í veikindunum voru þær honum, og okkur öllum, ómetanleg- ur stuðningur. Hjúkrunarfræðingar Karitas reyndust einnig mikill og góður stuðningur. Færi ég Sólveigu, Eddu frænku og hjúkrunarfræðing- um Karitas innilegar þakkir fyrir allt. Komið er að kveðjustund. Pabbi kvaddi Sólveigu, Eddu systur sína, börn sín og tengdabörn heima í Bröndukvíslinni. Hann brast aldrei kjark; hvorki heill heilsu né helsjúk- ur. Hann trúði því sem hann sá og lét hitt liggja milli hluta. Minningin um pabba lifir í hjörtum okkar. Ég kveð hann með virðingu, þakklæti, væntumþykju og söknuði. Megi Guð blessa minningu hans. María Solveig Héðinsdóttir. Héðinn tengdafaðir minn hefur kvatt. Hugurinn leitar til baka og margs er að minnast eftir 30 ára samfylgd. Héðinn var atorkusamur og af- kastamikill. Ungur stíflaði hann læk í fjallinu heima á Eskifirði og virkj- aði hann til að láta ljósaperu loga í fjallinu. Hann þurfti ekki skíðalyftu til að komast upp á 1.000 m háan Hólmatindinn og skíða niður. Það er líka ævintýrablær yfir ferðum Héð- ins með skólafélögum þegar þau fóru á skíðum í jólafrí frá Eiðum heim til Eskifjarðar, 40 km leið. Þetta var í svartasta skammdeginu, allra veðra von og yfir háan fjallveg að fara, Eskifjarðarheiðina. Í slíka skíðagöngu hefur þurft þrek og þor. Héðinn var aðeins unglingur þegar hann vann við brúarvinnu á Héraði. Hann talaði stundum um það að brúarvinnan hefði verið háskóli lífs- ins. Héðinn var mjög vinnusamur og ósérhlífinn og vann lengi vel tvöfald- an vinnudag. Hann var áræðinn verkmaður og útsjónarsamur. Allt lék í höndunum á honum hvort sem það var trésmíði, járnsmíði, raflagn- ir, pípulagnir, múrverk eða bílavið- gerðir. Í frístundum sínum byggði Héðinn nokkur hús fyrir sig og ætt- ingja sína, sumarbústað, hjólhýsi, jeppakerru og hesthús að ógleymd- um öllum bátunum. Sjómennska var hluti af þeim sjálfsþurftarbúskap sem rekinn var á heimili hans og Ingibjargar. Héðinn reri sjálfur til fiskjar og skaut svartfugl á vorin. Þau gerðu sjálf að aflanum með að- stoð barna sinna, hamflettu fuglinn, slægðu og flökuðu fiskinn, verkuðu gómsætan saltfisk. Á haustin var farið til berja og komið til baka með mikið magn af berjum. Svo var sult- að og saftað. Berjamagnið var svo mikið að það hefði tekið marga daga að hreinsa berin í höndum svo Héð- inn hannaði ýmsar tæknilegar að- ferðir við berjahreinsunina. Og berjapressan var knúin af gömlum þvottavélarmótor. Hann dó aldrei ráðalaus í verklegum framkvæmd- um. Héðinn og Ingibjörg voru mjög hjálpsöm og þess nutum við Mar- grét í ríkum mæli. Börnin okkar áttu oft skjól hjá þeim og þegar við keyptum fokhelt raðhús nutum við aðstoðar Héðins mánuðum saman við að ljúka húsinu. Mottó Héðins við húsbygginguna var: „Það fer eitthvað um leið og þetta.“ Þetta hús varð því ekkert hrófatildur. Emil, Maggi og Davíð voru ungling- ar þegar þarna var komið sögu og þeir tóku líka þátt í húsbygging- unni. Sjómennska var eitt helsta áhugamál Héðins. Hann átti marga báta um ævina og flesta þeirra end- urbyggði hann og innréttaði sjálfur. Hann notaði bátana bæði til að afla sér og sínum viðurværis og einnig til skemmtisiglinga. Oft bauð hann börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum í slíkar siglingar. Síðustu mánuðir voru Héðni erf- iðir. Fyrir rúmu ári greindist það mein sem nú hefur lagt hann að velli. Hann átti þó góðan tíma síð- astliðið sumar og ferðaðist um land- ið með Sólveigu sambýliskonu sinni. Þegar þau sneru heim veiktist hann hastarlega og svo undarlega vildi til að á sama tíma kom leki að bátnum hans í höfninni. Eftir þetta gekk mjög á krafta þessa eljumanns sem var ekki vanur að sitja auðum hönd- um um ævina. Því miður gat hann vegna veikinda sinna ekki verið við- staddur brúkaup Guðrúnar dóttur minnar og Stefans Otte. En þá skrifaði hann ræðu sem María og Sigfús fluttu fyrir hann í brúðkaups- veislunni. Okkur þótt öllum afar vænt um þau hlýlegu orð. Síðustu vikurnar var efst í huga hans vel- ferð afkomenda hans og ættingja. Ég kveð tengdaföður minn með þakklæti í huga. Ég sé hann fyrir mér sigla burt á báti sínum út á sól- gyllt haf eilífðarinnar. Björn Guðmundsson. Tengdafaðir minn Héðinn Emils- son kvaddi þennan heim á heimili sínu hinn 1. mars síðastliðinn. Héð- inn var mikill sómamaður. Frá fyrstu kynnum var okkur vel til vina og fann ég að Héðinn bauð bæði mig og börnin mín velkomin í fjölskyld- una. Héðinn var kraftmikill og ung- legur. Hann var sérlega athafna- samur, hjálpsamur og mikill verk- maður. Hann lagði metnað í að hafa alltaf hreint og snyrtilegt í kringum sig; heimilið hans, bílarnir og bát- urinn báru honum góða sögu. Reyndar fór smekkur okkar í bíla- málum ekki saman; hann var alltaf á amerískum bílum sem voru komnir vel til ára sinna, en aldrei fóru þeir samt á verkstæði. Bílskúrinn í Bröndukvíslinni var vel nýttur til að þrífa bílana enda sáust þeir ekki öðruvísi en hreinir. Héðni tengdapabba verður ekki lýst í fáum orðum. Hann var um margt sérstakur. Hann hafði sterk- ar skoðanir á málefnum líðandi stundar og oft kryddaði hann svona heldur skoðanir sínar og frásagnir til að fá meira fjör í umræðuna. Þegar leiðir skilja er gott að eiga góðar minningar. Minningarnar um Héðin tengjast heimili okkar Maríu Solveigar á Sunnuveginum. Héðinn mætti og tók til hendinni þegar þurfti að laga og endurbæta; gluggar voru pússaðir, handrið mælt og pússað, sagaðar niður flísar og sópurinn mikið notaður. Við fór- um einnig saman á ættarmót á slóð- ir sameiginlegs forföður okkar; Hans Jónatans á Djúpavogi. Héðinn var samferða okkur í bílnum og var leiðsögumaður. Hann sagði frá af- rekum Gunnars á Hlíðarenda, en tók reyndar alla Íslandssöguna til talsverðrar endurskoðunar og sagði sína útgáfu af henni. Sú útgáfa finnst mér reyndar mun skemmti- legri en sú klassíska, en ég læt liggja á milli hluta hvor sé nær raunveruleikanum. Minningarnar tengjast líka hafinu en Héðinn var heillaður af hafinu og hans helsta áhugamál var báturinn hans. Síðasti báturinn sem hann átti var gamall fallegur eikarbátur. Hann breytti bátnum og bætti hann. Allt var sem nýtt og snyrtimennsk- an alltaf til fyrirmyndar. Siglingin um sundin blá, þegar við sigldum með öll börnin okkar, tengdabörn og barnabörn, og snæddum þrírétt- aða máltíð um borð er okkur ógleymanleg. Héðinn var geislandi af gleði og naut þess að hafa fjölda gesta um borð. Því miður hitti ég aldrei Ingi- björgu eiginkonu Héðins, en hún lést árið 1996. Mér finnst samt af kynnum mínum af honum og börn- unum þeirra fimm viti ég hvaða mann hún hafði að geyma. Greini- legt er að heimilið hefur verið gott; talsverður agi, mikil umhyggja og reglu- og vinnusemi. Öll bera þau systkinin foreldrum sínum gott vitni. Fjölskyldan er samheldin, dugleg og einlæg. Traustið og sam- heldnin kom ekki síst í ljós þegar Héðinn veiktist fyrir rúmu ári síðan. Þrátt fyrir mikil veikindi Héðins HÉÐINN EMILSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.