Morgunblaðið - 14.03.2006, Side 24
24 ÞRIÐJUDAGUR 14. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
ÞAU Gunnhildur og Matthías kynntust er þau
voru í námi í Hollandi og fluttu þau sig um set,
til Berlínar, haustið 2004.
„Við stofnuðum hópinn um leið og við kom-
um til Berlínar og undirbúningur var reyndar
þegar hafinn í Amsterdam,“ segir Gunnhildur.
„Við vorum komin með ýmis tengsl í borginni
þannig að það var vænlegt að hrinda þessu úr
vör. Hópurinn er þýsk-íslenskur og snemma
kom Kristjana Helgadóttir flautuleikari til liðs
við okkur og við þrjú myndum kjarna hópsins.
Annars er meðlimafjöldinn breytilegur eftir
verkefnum hverju sinni. Stofnun hópsins er
einfaldlega tilkomin vegna þess að við erum
mjög áhugasöm um nútímatónlist og einnig
höfum við mikla skoðun á því í hvernig um-
hverfi sé best að flytja hana. Við leitum að nýj-
um og aðgengilegri leiðum en venjulega tíðk-
ast.“
Mikilvæg grein
Í lok janúar birtist grein um Ensemble
Adapter í Berliner Zeitung, einu víðlesnasta og
virtasta dagblaði Þýskalands. Greinin var
burðargrein í Berliner Zeitung Magazin, sem
er einskonar ígildi Lesbókar þar á bæ. Óþarfi
er að taka fram að grein þessi var gríðarlega
mikil viðurkenning fyrir hópinn og um leið
lyftistöng fyrir áframhaldandi blómlega starf-
semi.
Matthias og Gunnhildur taka undir það hjá
blaðamanni í framhaldinu að hópurinn sé í raun
einslags neðanjarðar- eða grasrótarhópur.
„Starfsemin hefur gengið nokkuð út á það að
koma á tengslum á milli svipaðs þenkjandi
fólks,“ segir Matthias. „Við höfum verið að
skipuleggja þetta án fastra styrkja, við hóum í
vini og kunningja og komum þessu í gang með
samhjálp. Áhuginn á því að spila og sinna þess-
um verkefnum er það sem drífur okkur áfram.
Við höfum líka gert svolítið af því að vinna með
listamönnum úr öðrum geirum en tónlist.“
Þannig hélt Ensemble Adapter óvenjulega
tónleika í Listasafni Íslands í desember 2004,
þá sem tríó. Flutt voru tuttugu einnar mínútu
tónverk við listaverk í sýningunni Ný íslensk
myndlist. Sjö tónskáld víðs vegar að úr heim-
inum sömdu verkin sérstaklega fyrir þetta til-
efni. Þess má geta að upptaka á einu verkinu,
„Sex mínútur“ eftir Önnu Þorvaldsdóttur, var
tilnefnt af Ríkisútvarpinu til Alþjóðlega tón-
skáldaþingsin (Rostrum) sem haldið var í Vín-
arborg í fyrrasumar.
Ábyrgð
„Það er merkilegt, að þegar við höfum spilað
á Íslandi er alltaf fullt og fólk veitir tónlistinni
virkilega athygli,“ segir Matthias. „Hér í Berlín
er erfiðara að fá fólk inn, það er erfiðara að fá
athygli. Samkeppnin, ef svo má kalla, er svo
mikil. Við höfum stöðugt samband við fjölmiðla
og þeir lýsa yfir miklum áhuga á starfi okkar en
fáir fulltrúar þeirra hafa látið sjá sig til þessa.“
Í Berlín er heimur klassískrar og nútíma-
tónlistar í fremur föstu formi og nokkuð
ósveigjanlegur gagnvart starfsemi á borð við
þá sem Gunnhildur og Matthias stunda.
„Allir peningarnir fara í sinfóníuhljómsveit-
irnar og stærri verkefni,“ segir Gunnhildur.
„Og þetta er ekki mikið af peningum. Og það er
mjög lítið af óháðum tónlistarhópum í þessum
geira. Ástandið að þessu leytinu til var betra í
Amsterdam t.d., meira af fé og meira svigrúm
fyrir óháða starfsemi. Það að Berlín sé stór-
borg hefur eitthvað að segja um þetta en borg-
in er um leið hálfpartinn á hausnum og það spil-
ar líka inn í.“
Þá er líka ekki hlaupið að því að finna staði til
að spila á og hópurinn spilar jafnan á fremur
óvenjulegum tónleikastöðum.
„Við höfum spilað á tónleikum þar sem ein-
hver félagi okkar hannar svið, annar hannar
bæklinginn og svo frv.,“ segir Matthias. „Eins
og kom fram í upphafi, er okkur ekki sama um
aðstæðurnar sem tónleikarnir eru í. Oft er um-
gjörðin utan um nútímatónlistartónleika einkar
fráhrindandi. Þessu viljum við breyta, a.m.k.
leita nýrra leiða til að virkja hlustendur. Um-
gjörðin þarf að vera áhugaverð og spennandi.
Það er á ábyrgð flytjandans að lokka hlust-
endur að því sem þeir eru að gera. Með því að
samþætta ólíka listmiðla með tónlistinni er
hægt að lyfta þeim öllum upp, ég trúi því t.a.m.
ekki að þessir hlutir séu að skyggja á hver ann-
an. En til þess að þetta virki þurfa þessir ólíku
listamenn að samþætta sig og vinna í samein-
ingu að heildarútkomu sem skilur eitthvað eftir
sig.“
Stórt skref
Síðasta vetur lék Adapter á tónleikaröð
Klangnetz, sem eru samtök ungra tónskálda í
Berlín. Klangnetzliðar réðu Adapter inn í tón-
leikaröðina og sköffuðu fé til að hún gæti orðið
að veruleika. Í þessari viku spilar Ensemble
Adapter svo á tvennum tónleikum, sem er viða-
mesta verkefnið til þessa og verða meðlimir alls
tíu á tónleikunum. Þessir tónleikar eru partur
af verkefninu Global Interplay sem fram fer í
borgunum New York, Kaíró, Peking,
Shanghæ, Berlín og Accra. Verkefnið felst í
hugmyndaskiptum á milli tónskálda/kennara
og nemenda, fyrirlestrum og almennu hug-
myndaflæði. Ensemble Adapter mun opna
Berlínarhluta verkefnisins en síðari tónleikarn-
ir eru svo partur af nútímatónlistarhátíðinni
MaerzMusik, sem er ein stærsta tónlistarhátíð
sinnar tegundar í Þýskalandi.
„Það var að sjálfsögðu frábært að komast inn
á þessa hátíð,“ segir Gunnhildur. „Að hafa spil-
að þar hefur mikið að segja.“
Gunnhildur Einarsdóttir
hörpuleikari og Matthias
Engler ásláttarleikari stýra
tónlistarhópnum Ensemble
Adapter sem einbeitir sér að
frumflutningi á nýjum verk-
um ungra tónskálda. Arnar
Eggert Thoroddsen ræddi
við parið en mikil umsvif eru
nú framundan hjá hópnum og
mun hann m.a. leika á einni
stærstu nútímatónlistarhátíð
Þýskalands í vikunni.
Ljósmynd/Þorvaldur Einarsson
Ensemble Adapter í Listasafni Íslands í desember 2004. Frá vinstri Matthias Engler, Kristjana Helgadóttir og Gunnhildur Einarsdóttir.
Ný tónlist,
nýtt blóð
http://www.ensemble-adapter.de
arnart@mbl.is
ÁSDÍS Spanó er einn okkar efni-
legri málara af yngri kynslóðinni en
hún útskrifaðist frá Listaháskóla
Íslands árið 2003. Síðan hefur hún
sýnt verk sín m.a. í sal Orkuveit-
unnar og í Gallerí Turpentine. Við-
fangsefni hennar er náttúran, en þó
að það liggi beinast við að líta á
verk hennar sem eftirmyndir af
náttúrunni er það þó frekar náttúra
og eiginleikar olíulitanna sjálfra,
þykkt þeirra, áferð og efnablöndun
sem skapar myndverk hennar og
gefur þeim líf. Íslensk augu túlka
málverk hennar samstundis og
segja, þetta eru myndir af hvera-
svæðum, ég þekki þessa liti, gráu
og hvítu og veit hvernig drulluhver-
ir og goshverir haga sér. En allt
eins mætti ímynda sér önnur augu,
sem aldrei hafa hverasvæði augum
litið og túlkun þeirra væri ef til vill
á annan veg. Þá væri nær lagi að
tala um athafnamálverk, abstrakt
verk þar sem tilviljunin fær að
skapa í samspili við málarann. Lit-
irnir sem Ásdís notar eru einnig nú-
tímalegir og alþjóðlegir, þetta eru
ekki hefðbundnir litir íslenskra
landslagsmálverka þó þessi verk
séu óneitanlega einnig innlegg í
þann geira íslenskrar myndlistar,
þessir litir minna allt eins á borg-
arlandslag, en það væri þá landslag
springandi borga. Kannski eru
þetta ekki goshverir heldur
sprengjur í olíugeymum fyrir utan
London? Það er þó ekki síst samspil
allra þessara ólíku þátta sem dreg-
ur áhorfandann að verkum Ásdísar,
þau birta allt í senn landslag, nátt-
úrufyrirbæri og maleríska aðgerð,
en eru um leið tilviljunum háð. Þau
ná að sprengja af sér takmörk hug-
taka á borð við abstrakt eða fígúra-
tíft.
Ásdís sýnir hér verk af minni
gerðinni, sem hæfa sýningar-
staðnum. Hún hefur opnað Boxið og
gefið verkum sínum litaðan bak-
grunn til að tengja litla kassann
betur stærra rýminu, líma verk sín
saman ef svo má segja og skapa
þannig litla en sannfærandi heild.
Hér var á ferð sýning af smærri
gerðinni en kraftur í verkunum
engu að síður.
Sprengikraftur málverksins
MYNDLIST
Gallerí Box, Akureyri
Orkulindir, málverk,
Sýningunni er lokið.
Ásdís Spanó
Ragna Sigurðardóttir
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Gagnrýnandinn segir verkin „ná að sprengja af sér takmörk hugtaka á
borð við abstrakt eða fígúratíft“.
SKÓLALEIKFÉLÖGIN sækja í
kvikmyndirnar sem aldrei fyrr.
Leikfélag Menntaskólans við Sund
vann út frá ástsælustu gamanmynd
Íslandssögunnar í fyrra og snúa sér
eðlilega núna að þeirri næst-
skemmtilegustu. Eða skemmtileg-
ustu, myndu sumir segja. Ef ís-
lenski meikdraumurinn í Með allt á
hreinu er hallærislegur þá eru und-
irheimar Reykjavíkur í Sódómu
hálfu vesælli. Fyrir nú utan að for-
sendum beggja mynda hefur eig-
inlega verið kippt í burtu. Sífellt
fleiri íslenskar hljómsveitir standa
sífellt fagmannlegar að útrás sinni,
og Arnaldur og félagar hafa gert ís-
lenskar glæpabókmenntir sannfær-
andi. Samt eru báðar myndir ennþá
fyndnar.
En flutningurinn af tjaldi á svið
er ekki þrautalaus og tekst því mið-
ur ekki nógu vel hér, þrátt fyrir að
leikstjórar og hópur taki sér nauð-
synlegt frelsi frá myndinni hvað
varðar atburðarás og einstök atriði.
Sviðsetninguna skortir tilfinn-
anlega snerpu og þótt það hafi verið
reynandi að hafa leikmyndina jafn
naumhyggjulega og raun bar vitni
þá gerir hún þá miskunnarlausu
kröfu til leikendanna að þeir haldi
athygli áhorfandans þrátt fyrir allt
sjónræna áreitið og óreiðuna. Svið
Loftkastalans útheimtir hreinni
bakgrunn og skipulegri notkun á
rýminu en leið Aino og Hrefnu býð-
ur upp á.
Mér þykja leikstýrurnar heldur
ekki hafa stýrt sínu óvana liði nægi-
lega vel. Hópurinn er greinilega lítt
reyndur, en klárlega hæfileikar inn-
an um. Mögulega er það því að
kenna að efnið er sótt í kvikmynd að
leikstíllinn er almennt of tilþrifalít-
ill, of lágt talað og of lítil meðvitund
um að „senda“ út í sal það sem verið
er að gera. Það næst ekki nógu hátt
spennustig milli sviðs og salar.
Eins og gjarnan í menntaskóla-
sýningum er það dans og söngur
sem er fagmannlegast leystur. Hér
er hljómsveit af holdi og blóði á
sviðinu með þeim kostum og göllum
sem því fylgir miðað við undirleik af
bandi. Söngur kraftmikill og dans
fallegur.
Af leikurum vekja mesta athygli
Hólmgeir Reynisson sem gerir
smákrimmann góðhjartaða, Ella, að
stærri persónu en hlutverkið gefur
tilefni til. Ingi Steinn Bachmann er
einna kröftugastur sem sprúttsal-
inn Aggi. Einnig er miðpunktinum
Axel ágætlega borgið hjá Karli Sig-
urðssyni. Þá er Edda Rut Þorvalds-
dóttir allgóð sem hin óþolandi
mamma.
Sódóma Thalíu býr að sumum
kostum menntaskólasýninga. Hrá, á
köflum fyndin og í tónlistaratriðum
kraftmikil. Meiri skerpa og snerpa
hefði gert hana ansi góða. Og hún
fékk mig til að langa til að sjá
myndina aftur til að athuga hvernig
hún hefur staðist tímans tönn.
Smákrimmagrín
LEIKLIST
Thalía, Leikfélag Menntaskólans
við Sund
Leiksýning byggð á kvikmynd Óskars
Jónassonar. Leikstjórar: Aino Freyja
Järvelä og Hrefna Hallgrímsdóttir.
SÓDÓMA
Þorgeir Tryggvason