Morgunblaðið - 14.03.2006, Qupperneq 45
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. MARS 2006 45
MENNING
Caput hefur í ýmsu að snúastþessa dagana. Fyrirskömmu hélt hópurinnásamt Hauki Tómassyni til
Kanada til þátttöku í Musimars-
tónlistarhátíðinni í Montreal, en
Haukur var eitt þeirra tónskálda sem
lögð var áhersla á á hátíðinni að þessu
sinni. Flutti Caput þar fjögur verk
hans, en alls voru fimm verka hans
flutt á hátíðinni. Einnig flutti hóp-
urinn verk eftir íslensku tónskáldin
Atla Ingólfsson og Þuríði Jónsdóttur,
og átti ennfremur farsælt samstarf
við nokkur erlend tónskáld; þau Önu
Sokolovic, Sean Ferguson, Denys
Bouliane og Laurie Radford. Verk
Radfords, sem samið var á þessu ári,
var frumflutt af Caput á hátíðinni.
Þátttakendur í ferðinni voru Bryn-
dís Halla Gylfadóttir, Guðni Franz-
son, Kolbeinn Bjarnason, Sigrún Eð-
valdsdóttir, Steef van Oosterhout og
Valgerður Andrésdóttir, og héldu
þau Guðni, Bryndís og Kolbeinn einn-
ig masterklassa við McGill-tónlistar-
háskólann í Montreal.
Að sögn Kolbeins heppnaðist ferð-
in afar vel í alla staði. „Þetta var eig-
inlega draumaverkefni fyrir okkur,
vegna þess að þarna fengum við tæki-
færi til að vinna með kanadískum
tónskáldum, auk þess að koma með
eigin dagskrá. Við höfum margoft
farið út og leikið bara okkar verk, en
þetta var svolítið öðruvísi núna,“ seg-
ir hann í samtali við Morgunblaðið.
Auk þess vann hópurinn á hátíðinni
með þýsku sópransöngkonunni Ing-
rid Schmithüsen í verki hinnar serb-
nesku Önu Sokolovic. „Mér finnst
austur-evrópsku tónskáldin mjög
fersk um þessar mundir. Það er mik-
ill kraftur í þeim, og það fann maður
ekki síst í þessu verki Sokolovic,“
segir Kolbeinn.
Sjóðheitt og hrollkallt
Hátíðin fór fram á fimm dögum,
með þéttri og vel skipulagðri dag-
skrá. Kolbeinn segir íslenska tónlist-
arfólkið nokkuð lúið en þó jafnframt
endurnært eftir ferðina, en þau voru
eini hópurinn á hátíðinni sem hélt
tvenna tónleika. „Verk Laurie Rad-
fords, sem við frumfluttum, fengum
við til dæmis í hendur daginn áður en
við lögðum af stað út,“ útskýrir hann.
Þannig að það hefur verið alveg sjóð-
heitt þegar þið tókuð við því? „Já, eig-
inlega of heitt, því það var hellingur
af nótum sem við fengum til að spila
með engum fyrirvara. Þetta gerði
ferðina nokkuð strembna.“
Hópurinn fékk þó sinn skerf af
kulda til að vega upp á móti, því ytra
var 18 stiga gaddur. „En engu að síð-
ur var þetta mjög skemmtilegt verk-
efni í alla staði. Verkum Hauks var
mjög vel tekið og það gladdi okkur,
enda eru kanadískir áheyrendur allt
öðruvísi en íslenskir í viðbrögðum
sínum á nútímatónleikum. Þeir öskra
og stappa og gera allskonar kúnstir,“
segir Kolbeinn og hlær.
Tónleikar annað kvöld
Annað kvöld verður á það reynt
hvernig íslenskir áheyrendur hegða
sér til samanburðar á nútíma-
tónleikum, því þá heldur Caput síðan
sína sjöundu tónleika á árinu, að
þessu sinni í Salnum í Kópavogi. Um
er að ræða hörputónleika, þar sem
leikin verða fimm verk, þar af fjögur
sem samin hafa verið á síðastliðnum
tveimur áratugum. Flytjendur á tón-
leikunum eru Elísabet Waage á
hörpu, Emil Friðfinnsson á horn, Ey-
dís Franzdóttir á óbó, Kolbeinn
Bjarnason á flautu og Guðmundur
Kristmundsson á víólu.
„Það hefur staðið lengi til að halda
hörputónleika með Elísabetu,“ segir
Kolbeinn aðspurður hvers vegna
sjónum sé beint að hörpunni nú.
„Gegnum árin höfum við í Caput oft
haldið tónleika þar sem sjónum hefur
verið beint að einu einleikshjóðfæri
og jafnvel stundum þar sem einleik-
arinn hefur haldið tónleikana alveg
einsamall.“
Á efnisskránni nú eru verk eftir
tvö japönsk tónskáld, Toru Take-
mitsu og Toshio Hosokawa, og þrír
kaflar úr verki eftir Atla Ingólfsson
fyrir horn og hörpu, sem ber heitið
The Jugglers Tent. „Vegna titilsins
sér maður fyrir sér einhvers konar
fjöllistamann og þetta verk er virki-
lega þannig, mjög rytmískt og flott.
Auk þess leikum við verk eftir Sofiu
Gubaidulinu, sem er líka ein af þess-
um villtu konum úr austrinu,“ segir
Kolbeinn, en verk hinnar Moskvu-
ættuðu Gubaidulinu eru mjög vinsæl
um þessar mundir og eru leikin öðru
hverju hér heima. Von er á Gubaidul-
inu hingað til lands að ári og segir
Kolbeinn Caput ráðgera að halda
tónleika með verkum hennar við það
tilefni.
Harpan í nýju ljósi
Eitt verkanna á efnisskrá tón-
leikanna á morgun er þó langelst, en
það er sónata fyrir flautu, víólu og
hörpu frá árinu 1915 eftir Claude De-
bussy. Það stingur dálítið í stúf við
annað á efnisskránni og efnisval Ca-
put yfirleitt, því hópurinn einbeitir
sér að flutningi samtímatónlistar.
„Þetta er eitt af síðustu verkum De-
bussys, sem var mjög nútímalegt tón-
skáld. Oftast er hann kallaður faðir
Nútímatónlistarinnar, þessarar með
stórum staf,“ segir Kolbeinn. Hann
segir sérstöðu verksins fyrst og
fremst felast í hljóðfæraskipaninni;
flautu, hörpu og lágfiðlu. „Þetta er
fyrsta verkið í tónlistarsögunni sem
var samið fyrir þá hljóðfærasamsetn-
ingu, en það var einmitt samið á þeim
tíma sem tónskáld voru að prófa sig
áfram með að semja fyrir nýjar sam-
setningar. Það má segja að þetta
verk sé upphafið að nýrri hefð, því
síðan hafa gríðarlega mörg tónskáld
samið fyrir einmitt þessa hljóð-
færaskipan.“
Þess sér stað á tónleikunum nú, því
verk Gubaidulinu og Takemitsu eru
einmitt samin fyrir þessi þrjú hljóð-
færi. „Takemitsu segir meira að
segja að það eigi helst að flytja verk
hans á sömu tónleikum og verk De-
bussys. Enda er það orðinn algjör
standard, og er auk þess mjög fallegt
og sérstaklega franskt verk,“ út-
skýrir Kolbeinn.
Hann segir að á tónleikunum geti
áheyrendur virkilega kynnst því hve
fjölbreytt hljóðfæri harpan sé. „Úr
henni koma ekki bara einhverjir
himnatónar,“ segir hann. „Harpan
getur líka verið ágeng og brugðið sér
í allra kvikinda líki – hún er flott og
fjölbreytt hljóðfæri. Á þessum tón-
leikum tel ég að fólk geti kynnst
hörpunni í nýju ljósi.“
Tónlist | Caput-hópurinn nýsnúinn frá Kanada og með tónleika í Salnum annað kvöld
Nútímatónlist með stórum staf
Morgunblaðið/Sverrir
Þau leika verk eftir Gubaidulinu, Takemitsu og Debussy í Salnum á morgun: Guðmundur Kristmundsson víólu-
leikari, Kolbeinn Bjarnason flautuleikari og Elísabet Waage hörpuleikari. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is
Tónleikar Caput-hópsins hefjast
í Salnum annað kvöld,
miðvikudagskvöld, kl. 20.
Fyrir jólin síðustu kom út bókí íslenskri þýðingu hjá JPVútgáfu sem nefnist Við enda
hringsins. Höfundurinn er norskur,
Tom Egeland að nafni, og bókin
kom upphaflega út í Noregi árið
2001 og náði að sögn höfundar
„þokkalegri sölu á norskan mæli-
kvarða. En eins og flestar bækur
hvarf hún fljótt í gleymsku bóka-
hillunnar“.
En tveimur árum síðar gerðust
undur og stórmerki í heimi bókaút-
gáfunnar. Da Vinci lykillinn eftir
Dan Brown kom út og fór eins og
eldur í sinu um heimsbyggðina; sú
bók hefur að sögn selst í ríflega 12
milljónum eintaka og verið þýdd á
42 tungumál. Kannski fleiri núna.
Og glöggir norskir gagnrýnendur
áttuðu sig á því þegar þeir lásu Da
Vinci lykilinn að tveimur árum fyrr
höfðu þeir lesið norska bók um
nánast sama efni. Tom Egeland tók
þessu með jafnaðargeði og sagði
einfaldlega: „Ég er því feginn að ég
skrifaði mína bók á undan. Annars
hefði ég vafalaust verið sakaður
um ritstuld.“
Og hann rekur síðan hvað er líktmeð bókunum tveimur og það
er ýmislegt.
„Báðar bækurnar fjalla um
leyndardóma tengda Jesú. Báðar
bækurnar bera fram spurningar
um framsetningu nýja testament-
isins á lífi og kenningum Jesú – og
dauða hans.
Báðar bækurnar eru gagnrýnar
á kennisetningarnar og goðsagn-
irnar um Jesúm. Báðar bækurnar
gefa í skyn að kirkjan hafi síðar
lagað hluta af kenningum Jesú að
sjónarmiðum kirkjufeðranna. Báð-
ar bækurnar halda því fram að Jes-
ús hafi gengið að eiga Maríu
Magdalenu og að afkomendur
þeirra hafi tengst evrópskum kon-
ungaættum. Báðar bækur færa sér
í nyt kenningar úr The Holy Blood
and the Holy Grail. Báðar bæk-
urnar eru uppfullar af guð-
fræðilegum samsæriskenningum.
Báðar bækurnar fjalla um leyni-
reglur, bræðralag og frímúrara.
Báðar bækurnar hafa, svo furðu-
legt sem það er, albínóa í mik-
ilvægu hlutverki. Báðar bækurnar
hafa vísindamann að aðalpersónu.
Báðar bækurnar láta aðalpersón-
una ferðast um Evrópu í leit að
lausn gátunnar. Báðar bækurnar
notfæra sér áhuga lesanda á því
óþekkta, hinu dulda, hinu furðu-
lega – og afhjúpa leyndardóma sem
fáir útvaldir hafa varðveitt um ald-
ir.“
Og nú er ekki ólíklegt að einhver
velti því fyrir sér hvort Dan Brown
lesi norsku. En Tom Egeland ber
eiginlega blak af Dan Brown og
hrósar honum fyrir að hafa skrifað
vel heppnaða spennusögu en segir
sína sögu vera gerólíka, „lágmælt
frásögn og fremur hægfara, en
Dan Brown hefur aftur á móti
skrifað æsispennandi frásögn, and-
lega myndagátu innvafða í spennu-
trylli“.
Í eftirmála að bók sinni Við enda
hringsins skrifar Egeland fróðlegt
yfirlit um velgengni Da Vinci lyk-
ilsins og þær hugmyndir sem hann
sjálfur og Dan Brown hafa orðið
innblásnir af. Hann rekur deil-
urnar sem sprottið hafa í kjölfar
Da Vinci lykilsins og spyr lesand-
ann: Hvenær hefur guðfræði og
niðurlægjandi sýn frumkirkjunnar
á konur verið umræðuefni í sam-
kvæmum fyrr en nú? Dan Brown
hefur skrifað skáldsögu sem vekur
til umhugsunar, vekur til andsvara,
tendrar áhuga milljóna lesenda,
bæði lærðra og leikra. Það er ekki
svo lítið afrek hjá vesölum spennu-
sagnahöfundi.
Loks bendir Tom á skemmtilegastaðreynd úr norskri útgáfu-
sögu síðustu ára. Það er forlagið
Bazar sem gefur út bókina. „Bazar
er norrænt forlag í norskri eigu,
stofnað af útgefandanum Öyvind
Hagen árið 2002. Hagen, sem kom
auga á þessa metsölubók löngu á
undan keppinautum sínum, er sá
sem kynnti Alkemistann og höfund
hans, Paulo Coelho, í Noregi og sá
sami og árið 1998 uppgötvaði aðra
bók sem enginn annar norskur út-
gefandi hafði trú á – Harry Pott-
er.“
Þessi saga gæti allt eins verið ís-
lensk því útgefandi Da Vinci lykils-
ins á Íslandi, Bjartur, er einmitt
líka útgefandi Harrys Potters. Ein-
hverjir naga sig víst enn í hand-
arbökin yfir að hafa ekki gripið þá
gæs þegar hún gafst.
Við enda hringsins
’Og nú er ekki ólíklegtað lesandinn velti því
fyrir sér hvort Dan
Brown lesi norsku.‘
Ljósmynd/Scanpix
Tom Egeland: Feginn að ég skrifaði mína bók á undan Da Vinci lyklinum.
havar@mbl.is
Af listum
Hávar Sigurjónsson