Morgunblaðið - 08.05.2006, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 08.05.2006, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. MAÍ 2006 23 MINNINGAR ✝ Jóhanna HelgaHafsteinsdóttir fæddist í Reykjavík hinn 21. nóvember 1976. Hún lést af völdum krabba- meins á heimili sínu, Birkihlíð 42 í Reykjavík, hinn 1. maí síðastliðinn. Móðir Jóhönnu er Salvör Jóhannes- dóttir, f. 30. októ- ber 1957, maki hennar er Magnús Einarsson, f. 2. nóv- ember 1960. Faðir Jóhönnu er Hafsteinn Númason, f. 22. mars 1951, maki hans er Berglind María Kristjánsdóttir, f. 12. febr- úar 1963. Alsystir Jóhönnu er Valgerður Björg Hafsteinsdóttir, f. 29. september 1980. Maki henn- ar er Ólafur Brynjar Bjarkason, f. 28. des 1977. Valgerður og Ólafur eiga eina dóttur, Matthildi Öglu, f. 20. ágúst 2005. Hálfsystk- ini Jóhönnu eru Nína Salvarar- dóttir, f. 2. ágúst 1986, Hrefna Björg Hafsteinsdóttir, f. 10. ágúst 1987, d. 16. janúar 1995, Kristján Númi Hafsteinsson, f. 7. okt. 1990, d. 16. janúar 1995, Aðal- steinn Rafn Haf- steinsson, f. 29. sept. 1992, d. 16. janúar 1995, Íris Hrefna Hafsteins- dótti, f. 13. des 1996, og Birta Hlín Hafsteinsdóttir, f. 25. júní 1998. Móðurafi Jó- hönnu er Jóhannes Gísli Sölvason, f. 3. september 1931, maki hans var Marilyn Sölvason, f. 17. apríl 1929, d. 3. maí 2006. Móðuramma hennar er Kristjana Richter, f. 6. maí 1936, maki hennar erVilhelm Heiðar Lúðvíksson, f. 16. janúar 1935. Föðurforeldrar Jóhönnu voru Valgerður Haraldsdóttir, f. 23. ágúst 1909, d. 6. nóvember 2003, og Númi Björgvin Einarsson, f. 1. nóv. 1915, d. 3. mars 1990. Hinn 12. október 2005 giftist Jóhanna Gustav Péturssyni, f. 7. júlí 1979. Þau eignuðust eina dóttur, Katrínu Valgerði, hinn 17. apríl 2003. Útför Jóhönnu verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Lítil kveðja frá afa. Það fæddist lítil stúlka árið 1976. Hún var nefnd Jóhanna Helga. Þegar hún í fyrsta sinn kom í heimsókn til afa í Ameríku, þótti henni mest gaman að leika sér að ferðasegulbandstæki á stofugólfinu. Henni fannst gaman að heyra hljóð og orð koma úr þessum kassa og lærði líka að stoppa þau. Í næstu heimsókn var farið með afa út á vatnið í Vatnaskógi (Lake- wood) og það var sko gaman að fá að hjálpa til við að róa litla bátnum með skrautlegt björgunarbelti utan um sig. Bernskuárin liðu fljótt en afi og Jóhanna hittust af og til. Alltaf var samband, hlýtt og gott. Brosið hennar brást aldrei þegar afi kom í heimsókn hvort sem það var á eftirminnilegum jólum á Bjarkar- götunni, í Hveragerði eða á Akur- eyri. Allt í einu var Jóhanna orðin stór ung stúlka, komin í MA. Mér þótti vænt um það, – upp kom afastoltið, – þetta var gamli skólinn minn, besti skóli í heimi! Svo kom hún með hvíta kollinn, orð- in stúdent. Nokkrum árum síðar kynntist hún Gustav Péturssyni, þau eign- uðust litla dóttur og komu sér upp fallegu heimili. Framundan virtist blasa við fögur framtíð. Bæði voru við háskólanám. Því miður komu örlaganornirnar í spilið og breyttu öllu. Jóhanna veiktist af ólæknandi sjúkdómi, sem leiddi hana til dauða 1. maí sl., að- eins 29 ára að aldri. Það er erfitt að trúa miskunnsemi guðs er hann vefur örlög svo ungrar konu á þann hátt sem raun bar vitni. Jóhanna mín, ég þakka þér sam- verustundirnar. Ég sé þig bráðum, ef það er líf eftir okkar jarðnesku ár. Ef ekki, verðum við að taka því sem dauðinn hefur ákveðið og við þekkjum ekki. Þú varst mér alltaf kær og hlý, brosið þitt var alltaf tilbúið til að verma stundina. Farðu í friði, hafðu þökk fyrir allt, þinn Jói afi, Jóhannes Sölvason. Hvar á maður að byrja svona grein? Það er erfitt að lýsa Jóhönnu systur minni í fáum orðum. Ef ég gæti skrifað allt sem mig langar þyrfti ég að hafa heilt Morgunblað í það minnsta. Jóhanna var að verða fjögurra ára þegar ég fæddist og hefur alltaf verið til staðar fyrir mig. Það er því ólýsanlega skrýtið að hún sé ekki hérna hjá mér núna. Hún er besta systir sem nokkur gæti átt. Hún tók stórusysturhlutverkið mjög alvar- lega og passaði alltaf upp á mig, sama hvað var. Hún var stoð mín og stytta, sú sem ég treysti alltaf á. Hún leyfði mér að skríða til fóta þegar mig dreymdi illa, reimaði fyr- ir mig skóna þegar ég gat það ekki, huggaði mig þegar eitthvað bjátaði á, hjálpaði mér þegar ég þurfti á að halda, hló með mér þegar eitthvað fyndið gerðist og grét með mér þeg- ar sorgin bankaði upp á. Að eiga hana fyrir systur voru mikil forrétt- indi. Við erum búnar að reyna svo margt saman. Alltaf töluðum við um það hvað við vorum fegnar að eiga hvor aðra að. Að geta ekki tekið núna upp símtólið og hringt í hana, er erfiðara en orð fá lýst. Mig langar að vitna í brot úr dag- bókinni hennar: „… Og þá fór ég að hugsa. Hún er í ömurlegu starfi sem ræður engu um hvort hún sinnir eða ekki, hún fékk engan ráðningarsamning. Hún er beitt andlegu ofbeldi, einelti og öllu sem nöfnum tjáir að nefna. En í stað þess að blogga um órétt- læti tilverunnar þá gerir hún það allra besta úr sinni fábrotnu stöðu sem hún getur. Hún vingast við smádýrin sem í staðinn létta henni lífið þar sem þau mögulega geta. Systurnar og stjúpuna leiðir hún hjá sér eins og hægt er og er drottning þolinmæðinnar gagnvart þeim. Því að svona er þetta og hún gerir sér grein fyrir að hún græðir ekkert á því að mótmæla eða leggj- ast í þunglyndi. Og þegar systurnar og stjúpan hafa eyðilagt langþráð tækifæri hennar til að njóta lífsins eina kvöldstund þá er ekki nema eðlilegt að hún gráti glatað tækifæri. En það sem ég tók mest eftir var það sem hún sagði eftir að góða álfkon- an hafði bibbidíbabbidíbúað á hana nýjan kjól. Öskubuska ræður sér ekki fyrir gleði og álfkonan minnir hana alvarlega á að þetta sé bara til miðnættis. Í stað þess að láta það hafa áhrif á gleðina segir hún: Já en það er svo miklu meira en ég átti von á. Og hún fer og nýtur kvölds- ins til hins ýtrasta, alveg til mið- nættis. Og þegar álögin eru farin og Öskubuska situr í vegarkantinum með músunum, hestinum og hund- inum og horfir á mölbrotið grasker- ið, þá brosir hún og segir: Þetta var alveg dásamlegt.“ Jóhanna 25. janúar 2006. Hér sættist Jóhanna við ímynd Öskubusku, sem hún hafði lengi verið ósátt við. Þetta er svo dæmi- gerð lýsing á hennar eigin hugar- fari. Hvernig hún tók á mótlæti og sneri öllu upp í bjartsýni og þakk- læti fyrir það góða sem hún átti. Þegar stelpan mín fæddist og við vissum ekki hvort hún fengi að halda lífi, þá var beðið fyrir bæði henni og Jóhönnu. Þegar dóttir mín náði heilsu sagði hún mér að við gætum ekki verið reið. Við hefðum fengið eitt kraftaverk af tveimur og ættum að vera þakklát fyrir það. Það væri býsna góður árangur. Rosalega er ég fegin því að hún náði að upplifa stærsta drauminn, eignast Katrínu litlu frænku, ganga að eiga Gústa sinn, búa sér til fal- legt heimili og mennta sig. Hún sagði mér að hún væri búin að finna hamingjuna. Mikið óska ég þess að búa yfir, þó ekki væri nema brot af jákvæðni hennar, bjartsýni og styrk. Það myndi gera heiminn betri ef við gætum safnað því saman í flösku og gefið af henni. Nóg væri til fyrir heimsbyggðina. Það vitum við sem hana þekktum. Ég trúði aldrei að þessi sjúkdóm- ur myndi taka þig og ég held að þú hafir aldrei trúað því heldur. Þraut- seigjan og krafturinn var með ein- dæmum. Ég veit ekki frekar en nokkur annar hvert við förum þegar yfir lýkur, en ég ætla að ímynda mér að þú sért í Nangijala í köngulóarfríu grasi með bókastafla við hliðina á þér. Hetjan mín … Elsku systir mín ljónshjarta. Þín systir, Vala Björg. Það var árið 2004 þegar ég gekk í Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, að ég kynntist Jóhönnu í fyrsta sinn. Við vorum ungar, hressar, þó nokkuð margar og áttum það sameiginlegt að hafa greinst með sjúkdóminn eða eiga maka sem hafði greinst. Við hittumst reglulega í mislöngum göngutúrum sem enduðu ætíð á hin- um ýmsu kaffihúsum borgarinnar. Aldrei hefði mér dottið í hug að eignast slíkar vinkonur eins og akk- úrat þarna. Það er ótrúlegt hversu djúp spor sumt fólk skilur eftir sig í hjarta manns. Það gildir einu hversu stutt það stoppar við, feg- urðin er slík að maður getur ekki annað en hrifist með. Jóhanna var þannig. Hlýjan, manngæskan, kol- svartur húmorinn, faðmlögin, hlát- urinn og brosið kalla fram svo skýra mynd af konu sem átti greiða leið að hjarta mínu. Við tengdumst ekki bara í gegnum sjúkdóminn heldur var nærvera hennar slík að mér finnst ég mun ríkari eftir að hafa kynnst henni. Hennar er sárt sakn- að í gönguhópnum okkar. Hlýjar minningarnar reyna af vanmætti við að fylla upp í tómarúmið sem hún skilur eftir sig. Jóhanna naut lífsins til hins ýtr- asta og hún var ótrúlega skapandi ung kona. Eftir hana liggja ótrúlega skemmtileg skrif og falleg ljóð. Ég brosi enn við minninguna um af- mælið mitt árið 2005 þegar hún kom og skoðaði nýju íbúðina. Hún gekk í gegnum fínpússaða stofuna, inn að herbergjunum sem mesta dótið var og sagði ,,María, mér líst best á þennan hluta íbúðarinnar. Það er svo mikil hlýja hér!“ Mikið rétt, í herbergjunum úði og grúði af myndum sem ég hafði tekið, bókum og skrifum frá mér. Þarna hafði ég séð drasl og vildi helst loka fyrir gestum en Jóhanna sá bara hlýjuna og kraftinn sem fylgdi sköpunar- gleðinni. Elsku Gustav og Katrín, mínar innilegustu samúðarkveðjur. Kveðja, María Erla. Það er stundum óneitanlega erfitt að skilja þetta líf og sú tilfinning grípur mann ekki síst á stund eins og þessari þegar ung og nýgift móð- ir eins og Jóhanna Helga er hrifin burt úr þessu lífi. Hrifin úr örmum ástkærs eiginmanns, ungrar dóttur, foreldra, systra og annara vanda- manna langt, langt um aldur fram. Við vinkonurnar kynntumst Jó- hönnu Helgu fyrst sem ungabarni þegar við fórum sem unglingar að venja komur okkar á heimili for- eldra hennar á Holtsgötunni eftir að hafa dottið inn eitt sinn, þegar Niv- es langaði til að skoða betur þessa nýju frænku sína. Eftir það vorum eins og gráir kettir á heimilinu til margra ára og fylgdumst vel með Jóhönnu vaxa úr grasi. Við tókum líka stundum að okkur að passa grislinginn og höfðum gaman af. Enda var lítill vandi að falla fyrir þessum litla sólargeisla með sinn rauða koll, spékoppa og bros sem var engu líkt. Síðan bættist Vala Björg við og enn síðar hálfsystir þeirra Nína. Jóhanna var stolt af þeim og stóð sig vel í hlutverki stóru systur. Hún sýndi manni líka stolt myndir af þremur yngri hálf- systkinum þeirra Völu Bjargar á Súðavík, systkinum sem þær síðar misstu á svo voveiflegan hátt í snjó- flóðinu. Árin liðu og Jóhanna blómstraði í fallega unga konu. Þó samskiptin yrðu smátt og smátt minni og við höfum lítið séð af henni undanfarin ár, þá þóttumst við nú alltaf eiga svolítið í henni og þeim systrum. Við fengum alltaf fréttir og fylgdust með henni úr fjarska í gleði og sorg, hvar sem hún bjó á landinu. Þrátt fyrir lífsins ólgusjó á tímum stóð hún sig vel, kláraði sitt stúdentspróf og framtíðin blasti við. Það var gaman að fá fréttir af því þegar Jóhanna fann hamingjuna með honum Gustav sínum og ekki síður þegar þau eignuðust dótturina Katrínu Valgerði fyrir þremur ár- um. Hamingja og björt framtíðin blasti við hinni ungu fjölskyldu. En þá kom reiðarslagið. Jóhanna greindist með illkynja sjúkdóm og brött barátta var framundan. Í fyrstu var ekki hægt annað en trúa því að hún myndi sigrast á þessu, hún sem hafði alltaf verið hraust og full af lífsorku. Annað kom bara ekki til greina. En því miður fór það ekki svo og hún kvaddi þennan heim þann 1. maí sl. Eftir stendur fjölskyldan og vinir með útbreiddan faðminn. Hvernig er hægt skilja svona? Eina huggunin er að nú er hún frjáls frá sjúkdómum og sárs- auka. Við sendum okkar dýpstu sam- úðarkveðjur til eiginmanns og ungr- ar dóttur. Elsku Sallý, systur, fóst- urforeldrar, aðrir ástvinir og síðast en ekki síst Haddi sem nú þarf að fylgja sínu fjórða barni til grafar: Orð mega sín lítils á svona tímum, en við sendum ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir ykkar allra er ólýsanlegur og megi þið finna þann styrk sem þarf til að takast á við hann. Minning hennar lifir með öllum sem áttu því láni að fagna að þekkja hana og við munum svo sannarlega geyma hana með okkur. Kristrún Þ. Egilsdóttir Stardal, Nives E. Waltersdóttir. Elsku Jóhanna. Ég sit hérna á hóteli í Kaup- mannahöfn, klukkan er 4 um nótt og ég get ekki sofið. Er stanslaust að hugsa um þig og fjölskyldu þína. Ég er með mynd af þér í brúð- arkjólnum hjá mér. Mikið ertu fal- leg. Nú er komið að því að kveðja þig í bili elskan en við munum hittast á ný, það er ég alveg viss um. Þegar ég horfi á mynd þína, þá heyri ég hláturinn þinn, þú varst alltaf brosandi og með húmorinn í lagi, jákvæð og bjart yfir þér, mér leið alltaf svo vel í návist þinni og sagði þér það oft, þú ert svo ynd- isleg manneskja. Við vorum svo oft búin að ræða saman um tilgang lífs- ins og þú gafst mér oft góð ráð. Gaman var að hlusta á hvað þú hafðir að segja. Þú sagðir við mig viku áður en þú fórst að þú værir svo stolt af Gústav þínum og Katr- ínu litlu dóttur þinni og það sem skipti máli í þessu lífi væri fjöl- skyldan og góðir vinir. Það er svo sannarlega rétt hjá þér. Hún Habbý mín liggur hérna við hliðina á mér, ég mun aldrei aftur taka það sem sjálfsagðan hlut að fá að halda heilsu og fá að sjá börnin mín vaxa úr grasi, því maður veit aldrei hvaða næsti dagur ber í skauti sér. Þegar við kvöddumst í símann rétt áður en þú fórst á sjúkrahúsið þá vorum við búin að tala saman í dágóða stund, en ekki datt mér í hug að ég væri að tala við þig í síðasta skipti. Við ætl- uðum að hittast í þessum mánuði þegar skólinn væri búinn hjá krökk- unum mínum, þá ætlaði ég að koma suður en það verður ekkert úr því. Ég trúi ekki ennþá að þú sért farin, það er svo erfitt að sætta sig við það. Þegar ég sótti Habbý úr skól- anum daginn eftir að þú kvaddir þennan heim þá spurði hún mig Mamma er einhver dáinn? af því að hún sá að ég var búin að gráta. Þá sagði ég, já, Habbý mín, hún Jó- hanna okkar er farin. Hún sat þögul og horfði bara á mig með tárin í augunum og sagði: Mamma, hún er engill núna og henni líður örugglega betur, því nú er hún ekki veik. Því trúi ég líka. Ég á eftir að sakna þess að heyra ekki hlátur þinn og tala ekki við þig. Það síðasta sem við sögðum við hvor aðra var að við værum og yrðum alltaf góður vin- konur og þykir mér óendanlega vænt um það, elsku Jóhanna mín. Ég veit að þú fyrirgefur mér að ég komi ekki í jarðarförina, ég treysti mér hreinlega ekki til þess, ég mun kveðja þig á minn hátt og koma að leiðinu þínu. Nú kveð ég þig í bili en ég mun hugsa til þín alltaf, elsku engillinn minn. Guð geymi þig. Gústav, Katrín Valgerður, Haf- steinn, Linda, Salvör, Magnús, Vala, Nína, Íris og Birta, ættingjar og vinir, Guð gefi ykkur styrk í sorginni. María Sveinsdóttir. Ég kynntist Jóhönnu þegar við unnum saman á hóteli í Reykjavík. Ég var að þjóna til borðs á veit- ingastað hótelsins en Jóhanna vann í móttökunni. Ég gleymi seint þeim degi þegar Jóhanna hóf störf. Hún var svo glaðleg og létt í lund. Ég vissi strax að hún væri manneskja að mínu skapi.Við gátum spjallað um allt og ekkert, daginn út og dag- inn inn. Einn daginn spurði hún mig hvort að ég þekkti Magnús. Ég hváði, mundi ekki eftir neinum Magnúsi. Það var ekki fyrr en hún tengdi saman Magnús og móður sína sem að ég áttaði mig á því að hún átti við Magga frænda, Magga móðurbróður minn. Það sem við gátum hlegið að þessu. Ég vissi að Salvör kona Magga, átti dætur á mínum aldri, en ekki hvarflaði það að mér að ég myndi hitta eina þeirra í vinnunni minni. Eftir þetta náðum við enn betur saman. Mér þótti alltaf gaman að ræða við hana og eyddi ófáum stundunum frammi í móttökunni hjá henni. Þegar send- ast þurfti með hluti frá veitinga- staðnum í móttöku tók ég það alltaf að mér ef ég vissi að Jóhanna var að vinna. Hún kom mér fyrir sjónir sem kjarnakona, sem hafði ákveðn- ar skoðanir á hlutunum. Hún tók þó öllu með jafnaðargeði og það geisl- aði af henni hlýja og jákvæðni. Svo hættum við báðar að vinna á hótelinu og ég heyrði lítillega af henni frá móður hennar. Það var svo einn haustdag að ég hitti hana í Háskólanum. Aftur gátum við hleg- ið að þeim stöðum sem við hittumst á. Við áttum nokkrar góðar sam- verustundir í skólanum, þegar við áttum að vera læra. Þegar Katrín Valgerður fæddist notuðum við net- ið til að skoða myndir og spjalla um börnin okkar. Þrátt fyrir að hafa aldrei hitt þær mæðgur saman, bara hvora í sínu lagi varð mér ljóst að Katrín Valgerður var ljós móður sinnar. Svo veiktist Jóhanna. Mikið var það sárt. Jóhanna var þó í þau skipti sem ég hitti hana, alveg jafn glaðleg og þegar ég hafði fyrst kynnst henni. Mér fannst hún taka á málunum á jákvæðan hátt. Hún ætlaði að komast yfir veikindin. En hlutirnir fara ekki alltaf eins og við ætlum og hún varð að lúta æðri völdum. Ég er þess fullviss að Jó- hanna vakir yfir fjölskyldu sinni og verndar þau. Minningin um glað- lega og skemmtilega stúlku lifir í hjarta mínu. Ég votta öllum að- standendum mína dýpstu samúð. Elsku Katrín Valgerður, mamma þín var einstök kona og ég veit að þú munt í framtíðinni fá að heyra ófáar sögurnar af henni. Hildur Halla. JÓHANNA HELGA HAFSTEINSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.